10.04.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (4021)

156. mál, Þormóðsslysið

Einar Olgeirsson:

Ég veit ekki, hvort það er tilgangur hv. 10. landsk. að ætla að telja okkur trú um, að það hafi svo að segja aldrei verið neitt athugavert við skipin, þegar sjóslys hafa orðið á Íslandi. En hvar eru dómarnir frá sjódómnum um það, sem athugavert hefur verið við skipin? Hvar eru rannsóknir sjódómsins á slysum? Hvar eru niðurstöðurnar? Hvar eru viðvaranirnar frá þessum dómurum um það, hvernig skipin eigi að vera úr garði gerð? Ég hef ekki séð þær. Ég held, að reynslan af sjódómnum sé engan veginn góð, og það er það, sem um er að ræða í sambandi við sjódóminn. Menn vilja ekki láta setja þetta mál í dóm, sem ekki liggur meira eftir en sjódóminn. Menn vilja ekki láta hann fjalla um þetta mál, því að það er talið nákvæmlega það sama og ef engin rannsókn hefði verið gerð.

Hv. 10. landsk. „citeraði“ sérstaklega í það, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefði skrifað ríkisstj., og farið hefði verið eftir þess till. Ég vil með leyfi forseta leyfa mér að lesa part úr þessu bréfi til stj., sem er dags. 4. marz:

„Að framkomnum tilmælum ýmissa sambandsfélaga leyfir stjórn F.F.S.Í. sér að fara fram á það við háttvirt stjórnarráð, að það láti fram fara rannsókn sérfróðra manna á rekaldi því, er borizt hefur að landi úr m.s. Þormóði, BA 29i hér í Rvík og á Akranesi og viðar, ef um rekald er að ræða úr nefndu skini.

Til rannsóknarinnar verði valdir siglingafróðir og sérfróðir menn um skipabyggingar. Rannsókn verði einnig gerð á því, hverjar breytingar hafa verið gerðar á skipinu síðan það kom hér til lands, og hver styrkleikaauki var í það settur, þegar skipt var um vél í því.“

Síðan er haldið áfram og því bætt við, að nauðsynlegt sé að láta fara fram rannsókn, þegar slík slys beri a ð höndum. Nú er það vitanlegt, að samkv. l. á að gera þetta, en það er ekki gert.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, sem finnur ástæðu til að senda bréf þetta, er samband allra yfirmanna á íslenzku skipunum, loftskeytamanna o.fl. Hv. 10. landsk. talaði um það sem samtök allra sjómanna, en ég vil benda honum á, að aðalfélag sjómanna er Sjómannafélag Reykjavíkur. Og hvað er það, sem farið er fram á? Það er það, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Fiskifél. Íslands og Sjómannafélag Reykjavíkur, þetta stærsta sjómannafélag landsins, tilnefni menn til þess að rannsaka þetta slys, og það virðist ekki nema sanngjarnt, að Sjómannafél. Rvíkur tilnefni mann, því að frá því félagi koma þeir flestir, sem láta lífið á sjónum fyrir Ísland. Hvaða ástæða er að meina þeim að standa að nefnd, sem rannsaki þetta hörmulega slys? Hvaða ástæða er til þess að koma með þau mótmæli, að hér sé um óviðkomandi menn að ræða, þar sem er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannafélag Reykjavíkur? Það eru þeir menn, sem það kemur mest við, og það eru þeir menn, sem mest hætta lífi sínu og ættu því að hafa rétt til þess að fylgjast með, hvernig skipaskoðun fer fram, hvernig eftirlit er með skipum og hvernig sjódómurinn er skipaður. Er til of mikils ætlazt, að sjómannastéttin fái í eitt skipti að fylgjast með því, hvernig rannsókn fer fram, ekki sízt, þegar svo er til ætlazt, að þessi n. á um leið að gera till. til úrbóta á þessu sviði. Er skipaskoðunin og framkvæmd hennar það góð, að fulltrúar sjómanna megi ekki koma með till. um, hvernig hún geti orðið betri?

Ég hafði stutta framsögu um þetta mál og hafði ekki ætlað mér að tala meira um það. Ég hafði satt að segja ekki búizt við, að haft yrði á móti þessu af allshn., og þykir leitt, að það skuli hafa komið fyrir. hetta mál ætti helzt ekki að þurfa að ræða á Alþ., og það undrar mig, að svona margir þm. eins og eiga sæti í allshn. skuli hafa lagt til að vísa þessari till. frá. Það er gott, ef sjódómurinn rækir starf sitt, en að mínu áliti hefur hann ekki gert það of vel fram að þessu, og það er engin ástæða til annars en að sjómannasamtök Íslands fái rétt til að rannsaka þetta mál líka, og ég treysti því, að við atkvgr., sein fer fram um þetta mál, að hér eftir verði sjómönnum Íslands ekki neitað um þann rétt.