04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég gæti í rauninni látið mér nægja til skýringar því, að frv. er fram komið, að vísa til aths. grg. Ég vil þó taka þetta fram í Ráðuneytinu var þegar í upphafi ljóst, að miklir örðugleikar yrðu á því að fylgja fyrirmælum 37. gr. stjskr. um að leggja fyrir þ. það, er hefjast skyldi 15. febr., frv. til fjárl. fyrir árið 1944. En þegar sýnt var, að fjárl. þessa árs yrðu ekki afgreidd í jan., tók stj. þá ákvörðun að beita sér fyrir því, að samkomudegi reglulegs Alþ. yrði frestað. Var stjórnmálaflokkunum tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi 23. jan., og síðan átti ráðuneytið tal við formenn flokkanna eða umboðsmenn þeirra. Það er augljóst mál, að ógerningur er að semja greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld árið 1944 þegar í byrjun þessa árs, svo Sem stjskr. fyrirskipar, að gert sé í hverju fjárlfrv. Stjórninni yrði verulega ógeðfellt að setja saman og bera fram málamyndafrv. í því skyni að uppfylla bókstaf stjskr. Slíkt væri í rauninni að misbjóða þ. og óvirða bein ákvæði stjskr. Ríkisstj. hefur því lagt til, að samkomulag yrði gert um að fresta þ. til 1. okt. Sá dagur er valinn með það fyrir augum, að eftir því sem lengra líður á árið, en fara nær um sennilegar tekjur og sennileg útgjöld ársins 1944, en varlegt er að setja þ. ekki síðar en 1. okt., til þess að fjárl. geti orðið afgr. fyrir byrjun fjárhagsársins.

Ég þykist ekki þurfa að fjölyrða um þetta mál, því að það er mjög óbrotið, og með tilliti til þess, að þm. hafa þegar fengið vitneskju um það með nokkrum fyrirvara, en orðið er áliðið þingtímans, vona ég, að hv. þd. sjái sér fært að taka afstöðu til málsins, með eða móti, sem allra greiðast og hvort sem frekar sýnist að vísa því til n. eða ekki til n.