19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4034)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Eysteinn Jónsson:

Ég vil benda á það, sem hv. 2. flm. tók fram, að síðastl. sumar var samþ. þál. á Alþ., sem fól í sér, að ríkisstj. léti fram fara rannsókn á öllum meiri háttar fallvötnum, til þess að gengið yrði úr skugga um, á hvern hátt bezt yrði fullnægt rafmagnsþörf landsmanna. Þáltill. var flutt að frumkvæði Framsfl. og í sambandi við skipun mþn. Það má vera, að hv. flm. till., sem fyrir liggur, hafi verið lítt kunnugt um, hvað fram hefur farið í málinu, áður en þeir fluttu hana. Annars hefðu þeir vitað, að við höfðum staðið í sambandi við fulltrúa mþn. um þetta mál og beðið þá að fylgja því fram í n. Var það sérstaklega tekið til meðferðar þar og rætt sérstaklega við atvmrh.

Í sjálfu sér má segja, að enginn skaði sé skeður, þó að æ ofan í æ komi samþykktir um að fela ríkisstj. að láta vinna sama verkið, en það er einkennileg starfsaðferð, þegar enn er ekki hægt að benda á neitt tómlæti í málinu. Ég sé líka, að fjhn. Nd. er óskipt á sama máli og ég. Þangað var vísað till. frá hv. 10. landsk. þm. um athugun á rafvirkjun til almenningsþarfa í Vestur-Skaftafellssýslu, og n. leggur til, að hún verði afgr. með rökst. dagskrá, með tilliti til þess, sem áður hefur verið samþ. í þinginu. Annars er áhugi hv. flm. ekki nema gleðilegur.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða nauðsyn þessarar framkvæmdar. Um hana eru allir sammála. Ég geri það ekki að neinu atriði, hvort till. verður vísað til n., en slík hefur venjan verið, og þá væntanlega til allshn. Sþ.