04.02.1943
Efri deild: 47. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér finnst, að hér sé svo stórt mál á ferð, að eðlilegt væri, að um það yrðu nokkrar umr. strax. Margt er það, sem bæði mælir með því og móti. Það mælir með því, að margt, sem nú er hálfgert í þ., mundi mega fullgera með minni fyrirhöfn, ef þessu þ. þyrfti ekki bráðlega að slíta. En þau mál, sem komin eru úr n., fengju fljóta afgreiðslu á næsta þ., ef tekinn væri upp sá háttur, að n. flyttu þau, og yrði þá lítill tvíverknaður eða kostnaðarauki fyrir ríkissjóð. En sé farin sú leið, sem ríkisstj. óskar, virðist mér það bein afleiðing, að hún yrði þá að leita sér trausts þ. til að sitja án þ. svo langan tíma. Ég held þess sé varla að vænta, að þ. fái stj., sem ekki er þingræðisstj., völdin öll um svo langan tíma, en málið mundi gerbreytast, ef ríkisstj. hefði yfirlýst traust þ.

Á því er reginmunur, hvort ákveðið er að hafa ekki þ. fyrr en 1. okt. eða þ. kæmi nú saman á lögmætum degi og yrði svo frestað, því að þá yrði það á valdi forseta Sþ. að kveða saman þ., hvenær sem þætti við þurfa. Ella ræður ríkisstj. því með ríkisstjóra. Ekki verður komizt hjá, að ríkisstj. gefi út brbl. og taki örlagaríkar ákvarðanir í fjarveru þ. Með tilvísun til þess, að Alþ. hefur fyrir nokkru berlega brotið stjskr., og það varð að almannarómi hið mesta óhappaverk, þá ætla ég það vera nægilega lærdómsríkt til þess, að Alþ. vegi ekki aftur í þann knérunn. Mér finnst ekki of mikil festa í starfi Alþ. nú, þótt það beri sig að halda sér sem næst stjskr. Ég treysti mér ekki til að fylgja þessu frv. lengra en til n. og 2. umr., nema það fylgi, að ríkisstj. leiti trausts hjá þ.

Í upphafi þ. bar ákaflega mikið á því eftir hita kosninganna, að ekki væri samstarfsvilji meðal flokka, og kom það m.a. fram í því, að 2. stærsti flokkur þ. fékk engan forseta kjörinn. Mér dettur í hug, þegar þessir menn eru búnir að bræða sig saman um mörg mál í n., að kominn sé tími til að láta fram fara nýja þingsetningu og kosningar, og að því búnu gengi flokkunum betur að standa saman um ríkisstj. en nú. Þetta er enn ein ástæðan til þess, að ég sé mér ekki fært að fylgja frv. eins og það liggur fyrir.