19.02.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (4041)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Páll Hermannsson:

Það er alveg rétt, sem hv. 6. landsk. sagði, að eftir þeirri almennu þál, sem samþ. var á fyrra ári um rannsókn á fallvötnum landsins með tilliti til rafmagnsvirkjunar, þá er ekki von til þess, að þessari rannsókn verði lokið á þessu ári.

En að mínu viti er það jafnrétt, að þegar borin er fram till. um, að rannsókn á einu sérstöku vatnsfalli sé gerð á undan öðrum vatnsföllum, sem farið er fram á með þáltill. þeirri, sem hv. 6. landsk. er flm. að, þá er farið fram á forréttindi fyrir einn landshluta. Og af því að ég tel réttmætt, miðað við allar aðstæður, að það, sem í þáltill. þessari felst, nái fram að ganga, þá er ég því fylgjandi, að þessi þáltill. gangi til n., í þeim tilgangi að fá þar stuðning, áður en um hana verða greidd atkv. hér í hv. Alþ. Ég hygg það vera réttmætt og sanngjarnt, að þetta umrædda vatnsfall verði rannsakað fyrst, því að kaupstaðir og þorp á Austurlandi eru afleitlega sett hvað rafmagnið snertir, þar sem alltaf eykst þörfin fyrir rafmagnið, en litlu er af að taka. Það er því augljóst mál og mjög aðkallandi, að úr þessu verði bætt við fyrsta tækifæri.

Ég stóð annars upp til að gera grein fyrir því, að ég er fylgjandi þeirri till., að málið gangi til n., í trausti þess, að hún leggi til, að það verði samþ.