16.03.1943
Sameinað þing: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (4045)

105. mál, virkjun Lagarfoss

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Allshn. hefur haft til meðferðar þáltill. á þskj. 175. Sex nm. hafa orðið ásáttir um að mæla með því, að hún verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. þm. V.-Ísf., hefur undirritað nál. með fyrirvara. Sjöundi nm. hv. 2. þm. N.-M. (PZ) var ekki staddur á fundi, þegar málið var tekið fyrir.

Ég álít, að ekki þurfi að fjölyrða um þessa till. N. er ljóst, að ekki hefur verið hafður sami háttur á um afgreiðslu allra mála varðandi rafvirkjun hér á Alþ., þó að flest hafi verið lögð til hliðar, þar til raforkumálan. hefur tekið þau til athugunar. Aftur viðurkennir allshn., eins og segir í grg., að það er eðlilegt, að raforkumálan. ráði, í hvaða röð rannsóknir verða gerðar, en það er eðlilegt, að hæstv. Alþ. láti í ljós ósk um, að eitt hið fyrsta, sem tekið er til rannsóknar, verði virkjun Lagarfoss. Þar hlýtur að koma stór virkjun. Það er eina leiðin til að raflýsa Austurland. Þeir, sem hugsa nokkuð um þessi mál, hljóta að viðurkenna, að virkjun Lagarfoss mun falla mjög vel inn í heildarrafleiðslukerfi landsins síðarmeir. Að öðru leyti vil ég vísa til grg. á þskj. 469.