03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (4059)

14. mál, Laxárvirkjun og rafveita Akureyrar

Frsm. (Sigurður E. Hlíðar):

Ég tek það eins og það var talað, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að hann vill ekki mæla gegn till., heldur vill hann, að framkvæmdir Alþ. verði á þann veg, að þær nái til víðara verksviðs og haldi leiðinni opinni til stórfelldari framkvæmda en till. gerir ráð fyrir. En þótt ríkisstj. ábyrgist lán til aukningar raforkuveitu Akureyrar, þá ættu að vera opnar leiðir eftir sem áður til þess, að ríkið geti fengið hlutdeild í rekstrinum eða tekið hann að sér. Aðalatriðið er, að það er bráðnauðsynlegt, að Akureyrarbær fái meiri raforku og það sem fyrst. Nú getum við fengið vélarnar, og við verðum að fá vélarnar. Við verðum að hugsa fyrst um þá þörf, sem brýnust er, og þetta mál þarf að geta gengið hraðbyr gegnum þingið. Það mun ekki standa á Akureyrarbæ að semja við ríkið, þegar þar að kemur, ef ríkið skyldi taka raforkuframleiðsluna í sínar hendur. En nú eru samningar á döfinni eða þegar gerðir milli Akureyrarbæjar og annarra héraða um raforku, t.d. Húsavíkur og Svalbarðseyrar. Það er einmitt vegna þessara samninga, vegna þessarar væntanlegu starfsaukningar, sem ábyrgðarheimildin er aðkallandi, og málið þarf að fá skjóta afgreiðslu. Ég legg til, að málinu sé vísað til síðari umr. og til fjvn.