03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (4064)

19. mál, þjóðleikhússjóður

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Þetta mál snertir fjmrh. að verulegu leyti, og það fór því miður fram hjá mér, að það væri á dagskrá nú. Þótt ég sé búinn að spyrjast fyrir um það, hvað mikil sú fjárhæð er, sem hér um ræðir, þá eru þau gögn ekki komin í mínar hendur. En það er sjálfsagt talsvert á aðra milljón. Ég vil aðeins, af því að Þjóðleikhúsið heyrir undir mitt ráðuneyti, láta í ljós ánægju mína yfir því, ef hv. Alþ. sæi sér fært að skila aftur þessu fé, sem að vísu var ekki lán, en hluti af því fé, sem tekið var í þarfir ríkissjóðs, þegar illa áraði. En það má segja, að það hvíli á Alþ. og ríkissjóði siðferðisleg skylda til þess að líta á þetta sem lán, er beri að endurgreiða á sama hátt og önnur lán, og vil ég leggja þessu máli meðmæli mín.

En það er eitt atriði, sem ég vildi draga athygli þingsins að, fyrst við erum að tala um þjóðleikhússjóðinn og þá um leið skemmtanaskatt. Ég vildi gjarnan, að hægt væri að hnýta við till. einhverju algildu ákvæði um það, hvaða undanþágur megi veita frá skemmtanaskatti. Eins og nú er, eru „lekar“ á lögunum og hægt að veita undanþágu frá næstum því hverju sem er. Með því lakasta, sem hægt er að leggja á ráðuneyti, eru óákveðnar undanþáguheimildir. Ég álít, að það verði að setja þeim ákveðnar skorður. Ég hef ekki séð mér annað fært en að veita nokkrar undanþágur í samræmi við það, sem tíðkazt hefur. Það veit enginn, nema sá sem reynir, hve ákaflega, erfitt það er að stöðva sig á þeirri braut eða marka línurnar. Það er Alþ., sem hefur valdið, og það á ekki að láta ráðuneytið um það, heldur marka línurnar skarpt. Þegar verið var að semja tollalöggjöfina, tollskrána, var talið nauðsynlegt að banna allar undanþágur. Ég hefði ekkert á móti því, að Alþ. léti í ljós ákveðna skoðun um takmarkanir á undanþágu frá skemmtanaskatti. Það væri einkennilegt að leggja þetta fé til hliðar í hinum lofsverðasta tilgangi, en svo vera sí og æ að skerða það með undanþágum. Ég vil því skjóta því til fjvn., hvort henni finnst ekki ráðlegt að setja einhver ákvæði um takmörkun á undanþágum frá skemmtanaskatti. Ég verð að segja, að það hefur ekki veriðsótt um undanþágu fyrir önnur málefni en þau, sem eru mjög lofsverð. Sum hafa fengið undanþágu ár frá ári. Sum geta talizt, ef til vill, enn þá lofsverðari en Þjóðleikhúsið. En Alþ. hefur nú einu sinni ákveðið, að skemmtanaskattur skuli renna til þjóðleikhússins, og þess vegna held ég, að Alþ. ætti að halda fast við þann tilgang að efla sjóðinn sem bezt, og helzt veita engar undaþágur.