08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (4079)

53. mál, brúargerð á Hvítá hjá Iðu

Jörundur Brynjólfsson:

Það mun að vísu vera fátítt í sögu þingsins, að á fjárlagaþingi séu fluttar áskoranir um vissar framkvæmdir, sem ekki þarf annað en fjárveitingu til. Þessi brú, sem rætt er um í till. þessari, er á brúal., eins og hv. þm. vita. Það skortir því ekki annað á framkvæmd verksins en fjármuni til framkvæmdarinnar og að stj. annist þá framkvæmd. Ég hef skrifað fjvn. um þetta atriði ásamt öðrum og óskað eftir, að hún tal:i upp í sínar till. fjárveitingu til þessarar brúargerðar, og vil ég vona hið bezta, að fjvn. sjái sér fært að verða við þeim tilmælum, og jafnframt vil ég vona, að svo framarlega sem nokkur tök verða á slíkum framkvæmdum, að hæstv. ríkisstj. sjái um, að það verði gert á næsta sumri. Ég held, að það sé í alla staði rétt að halda sér við þá gömlu reglu um framkvæmd mannvirkja, þegar fjárlagaþing er, að taka inn á fjárl. fjárveitingar til þeirra framkvæmda, sem ætlazt er til, að lagt sé í, en ekki að koma með alls konar ályktanir og áskoranir um framlög utan fjárlaga til slíkra framkvæmda, enda hefur þingið jafnan tíðkað að fara þessa leið, og hygg ég, að það sé hollt. Nú vil ég þrátt fyrir þetta á engan hátt mæla á móti þessari till., sem hv. samþm. minn flytur, fyrst hún er hér komin fram, heldur vil ég mælast til, að hún verði samþ., a.m.k. við þessa umr. Ég legg til, að till. verði vísað til fjvn., og í framhaldi af erindi mínu til þeirrar n. vit ég vona, að hún leggi til, að fjárveiting til þessarar brúargerðar verði tekin upp í fjárlög þessa árs, en læt þá ekki í ljós neinar óskir um, að till. verði samþ. við síðari umr. Ég vil vænta þess, að stj., hver sem hún verður á þeim tíma, þegar þetta kemur til framkvæmda, kynni sér nauðsyn þessa máls og fari þá eftir fyrirmælum þingsins, ef samþ. verður fjárveiting í þessu skyni. Á þann hátt tel ég, að málinu sé fullkomlega borgið og tel þá afgreiðsla þá heppilegustu og þá bezt við hlítandi, sem Alþingi getur gert um slík mál. Kjósi hæstv. Alþingi hins vegar að taka upp þann nýja sið að fara hina leiðina, liggur í hlutarins eðli, að ef till. kemur til síðari umr., þá greiði ég atkv. með henni, því að ég vil á engan hátt hindra framkvæmd málsins. En þá vil ég benda þinginu á, að þá má gera ráð fyrir, að þannig kunni að verða farið um fleiri framkvæmdir, og veit ég þá ekki, hversu mikill vinningur hefði verið í því fólginn að taka upp slíka afgreiðslu mála.

Ég vil því að lokum endurtaka þá ósk mína, að hv. fjvn. — því að ég geri ráð fyrir, að Alþ. geti á það fallizt að vísa till. þangað — taki þessu máli vel og geri till. um, að fé verði veitt til þessarar framkvæmdar, og þá treysti ég því, að Alþingi í heild fallist á slíkar óskir, því að ég vil fullkomlega taka undir það, að nauðsynin fyrir brúargerð á Iðu er mjög mikil, enda hafa menn nú um skeið haft það mjög ríkt í huga ekki eingöngu að framkvæma þetta heldur einnig á hvern máta það yrði framkvæmt, en út í það fer ég ekki frekar að þessu sinni.