06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (4082)

53. mál, brúargerð á Hvítá hjá Iðu

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Það mun nú skipta orðið mánuðum, síðan ég bar fram till. til þál. hér í Sþ., sem laut að brúargerð á Hvítá hjá Iðu í Árnessýslu. Umr. um þessa þáltill. var frestað og málinu vísað til hv. fjvn. Síðan hefur ekkert heyrzt né sézt um málið. Og með því að nú er svo langt liðið á þingið sem raun er á, vildi ég skjóta því máli mínu til hæstv. forseta, hvort hann sér sér ekki fært að hlutast til um það, að hv. fjvn. skili áliti um þessa þáltill., eins og henni var falið að gera. Því að til þess vænti ég, að málum sé vísað til nefnda, að þær komi með þau fram aftur til þinglegrar meðferðar í staðinn fyrir að láta þau hverfa úr sögunni. Ég álít þessa þáltill. eiga þann rétt á sér, að þess sé krefjandi, sem ég fer fram á, og ekki síður fyrir það, að staðfest liggur fyrir þinginu till. frá eitthvað á annað hundrað búendum þarna í nánd við Hvítá og álit um það, að nauðsyn sé á að sinna þessu brúarmáli vegna almennra brýnna þarfa í sambandi við læknisvitjanir ásamt öðru.

Ég fjölyrði svo ekki um þetta meira. Það er ekki á mínu valdi að hafa neitt um það að segja, hvaða till. hv. fjvn. gerir um þetta þingmál, en það er á mínu valdi að segja, að þess er fyllilega krefjandi, að hv. fjvn. hafi sómasamlega afgreiðslu á þessu máli og lofi því að koma, áður en þingi lýkur, fram í dagsljósið.

Vænti ég þess því, að hæstv. forseti hlutist til um það við hv. fjvn., að svo megi verða.