08.01.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (4125)

67. mál, bætur vegna fjárskaða

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Áður en þessi þáltill. um bætur vegna fjárskaða í Norður-Ísafjarðarsýslu var fram borin, átti ég tal um þetta mál, sem fyrir hv. flm. þáltill. vakir, við einstaka menn í sauðfjársjúkdómanefnd. En sú n. mun hafa með að gera að einhverju eða verulegu leyti úthlutun þeirra styrkja, sem gert er ráð fyrir vegna skaða af völdum sauðfjársjúkdóma og farið er hér fram á, að verði einnig látnir ná til þeirra manna, sem urðu fyrir því tjóni, sem greint er í grg. þessarar þáltill. og þáltill. sjálfri. Ég hef engu við það að bæta, sem hv. flm. þeirrar till. sagði um þetta. Tjónið, sem þessir bændur urðu fyrir, var mjög tilfinnanlegt. Og það er ekki einungis þarna norðan við Ísafjarðardjúpið sjálft, sem menn hafa orðið fyrir þess konar tjóni í þessu ofsaveðri í haust, heldur einnig við Jökulfirðina. Ég mun, þegar málið kemur til n., veita n. upplýsingar um þetta eins og ég get, svo að hún geti sem bezt gert sér grein fyrir málinu. Enn fremur hef ég aflað mér álits þess búnaðarþingsmanns, sem er úr Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem hann lýsir öllum atvikum að þessu hörmulega tjóni, sem þessir bændur biðu í fárviðrinu 7. okt. s.l. Ég vil taka undir það, sem hv. flm. sagði, að það væri mjög gott, ef hægt væri að koma þessum mönnum undir ákvæði um þær bætur, sem farið er fram á með þáltill. Á hvern hátt því skuli hagað, verður að athugast í þeirri n., sem málið fær til athugunar. En án sérstakrar heimildar töldu þeir menn, sem ég ræddi við í sauðfjársjúkdómanefnd, ekki vera heimilt að láta þessar bætur ganga til þessara bænda samkvæmt þeim reglum, sem giltu um þær bætur.

Ég vænti þess, að hv. n., sem málið fær til meðferðar, og hæstv. Alþ. taki þessu máli eins vinsamlega og hægt er og stuðli að því að bæta þeim, sem þetta tjón hafa beðið.