10.02.1943
Efri deild: 53. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Afstaða mín til þessa máls byggist ekki á rökum þeim, sem hv. 6. þm. Reykv. færði fyrir málinu, og einnig er mín skoðun á málinu utan við afstöðu hæstv. ríkisstj. til þess og án tillits til þess, að hún er nú skipuð með öðrum hætti en tíðkazt hefur. Ég hef alltaf verið því mótfallinn, að samkomudegi reglulegs Alþ. sé breytt með l. Ástæðan fyrir því hefur verið rakin svo oft bæði á Alþ. og utan þess, að ég tel eigi þörf á að fjölyrða frekar um það atriði. – Afstaða mín er sem sagt afstaða flokks míns og mun vera hv. þdm. vel kunn. Mér virðist auðvelt mál, þótt þ. sé slitið 15. febrúar, að ljúka við fjárl., og síðan mætti slíta því þ., en af því mundi auðvitað leiða það, að ýmis mál, sem eru á þessu aukaþ., verði niður að falla. Ég tel engan vanda að ráða bót á því. Þau mál mætti taka upp aftur á aðalþ. og koma þeim á örstuttum tíma á sama stig og þau voru á á aukaþ. Það er ekki víst, að samkomulag fengist um þetta milli þingflokkanna, en ég veit, að þm. Framsfl. mundu sætta sig við þetta án tillits til þess, að þeir eru mótfallnir ýmsum málum, sem fram hafa komið á þessu aukaþ. Með því yrði engin töf á störfum Alþ.

Á þessu aðalþ. má og fullnægja því formi að leggja fram fjárlfrv., enda þótt eigi sé frá því gengið með neinni nákvæmni. Af þessum ástæðum tel ég eðlilegast að slíta þessu þ. 15. febrúar. Á aðalþ. mætti þá, eins og ég drap á, í fyrsta lagi taka upp þau mál, sem niður þurftu að falla á þessu aukaþ., síðan leggja fram fjárlfrv. og enn fremur taka upp þessi stórmál, sem hæstv. ríkisstj. er nú að undirbúa. Ég tel þetta æskilegustu vinnubrögðin, og ég held, að þau fullnægi bæði óskum hæstv. ríkisstj. og einnig þ., þannig að eigi verði ónýtt starf þess. Hins vegar er nú fram komin brtt. hér, og ef svo skyldi fara, að útlit sé fyrir, að frv. verði samþ., þá geri ég ráð fyrir, að ég greiði þessari brtt. atkv., því að ég vil heldur, að frv. verði samþ. með þessum breyt. heldur en óbreytt.

Þetta er afstaða mín til málsins, og ég tel mig hafa tekið það fram, sem ástæða er til, að minnsta kosti á þessu stigi málsins.