10.02.1943
Efri deild: 53. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er sammála hv. þm. Str. og hv. 9. landsk. í því, að ástæðulaust sé að verða við þeim tilmælum hæstv. ríkisstj. að fresta samkomudegi reglulegs Alþ. til 1. okt., og vil í því sambandi vísa til ummæla minna við l. umr, málsins. Ég tel ekki ástæðu til að fresta samkomudegi reglulegs Alþ. svona lengi, því að engin rök mæla með því. Viðvíkjandi fjárlagafrv., þá er það alltaf venja eins og nú er ástatt að leggja það fram fyrri hluta ársins og samþ. það síðari hluta þess, og af þeim ástæðum er ekki þörf að fresta þ. þennan tíma.

Ég hef hugsað mér tvenns konar leiðir. — Í fyrsta lagi að slíta þessu aukaþ. og reglulegt Alþ. komi saman 15. febrúar, og á því þ. verði upp tekin þau mál, sem niður féllu á þessu þ., og þeim á stuttum tíma komið á sama stig og nú. Þetta er mjög auðvelt. Ef aftur á móti þetta þætti óviðkunnanlegt, þá að fresta samkomudegi þ. til 15. marz, og mun ég flytja skrifl. brtt. í þá átt. Ég tel það mjög hæfilegan frest til þess að ljúka þeim málum, sem nú liggja fyrir. Hins vegar mun ríkisstj. bráðlega koma með mikil mál hér til þ., ef henni fyndist of seint að leggja þau fram á aðalþ. 15. marz, þá mundi vera hægt að afgr. þau fyrir þann tíma. Hv. 9. landsk. hefur borið fram brtt. í þá átt, að Alþ. verði frestað þar til fjórum dögum eftir að þessu þ. er slitið. Mér finnst viðkunnanlegra að ákveða daginn.

Ég mun svo afhenda hæstv. forseta þessa brtt.