26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (4188)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að rekja þetta mál ýtarlega, því að aðalatriði þess eru rakin í grg. þeirri, sem ég læt fylgja því. En eins og sjá má af grg., er þessi þál. flutt til þess að ráða bót á því misrétti um aðgang að og möguleika til menntaskólanáms, sem menn eiga nú við að búa hérlendis. Eins og nú standa sakir er það ógerningur fyrir mikinn hluta fólks að stunda þetta nám vegna þess, hvar það er búsett. Það er ekki hægt að segja annað, eins og nú er ástatt, en að þeir kaupstaðir, sem hafa menntaskóla, hafi nú því nær einokun á þeim fyrir börn þau, sem þar eru búsett. Þetta kemur í ljós á margan hátt, ekki sízt eins og nú er ástatt, þegar margir hafa mikið fé undir höndum og vilja gjarna nota það til þess að kosta börn sín til náms og húsnæðisskortur er nú svo mikill í þessum bæjum sem raun ber vitni. Það segir sig sjálft, að mikill hluti þess fólks, sem annars vildi láta börn sín stunda þetta nám, er gersamlega útilokaður frá því. Þeir, sem búa í bæjunum, þar sem menntaskólarnir eru, geta látið börn sín stunda þetta nám frá heimilum sínum án mikið aukins tilkostnaðar, enda er það svo, að fjöldi þeirra., sem nú stunda nám í menntaskólunum, kærir sig alls ekki um það, en hann er látinn gera það. Að þessu voru nokkur brögð meðan ég var hér í menntaskólanum í Rvík, og það hefur farið mjög í vöxt síðan. Ég skal geta þess, að af þeim fjölda, sem nú stundar nám við menntaskólann hér, er aðeins 6% úr sveitum landsins, en það eru ekki mörg ár síðan menn úr sveitum landsins voru þar í meiri hluta. Þetta hefur ekki holl áhrif á skólana sjálfa m. a. vegna þess, að nemendurnir verða yngri og óþroskaðri en þeir, sem koma úr sveitunum. Eina athvarfið, sem sveitafólk hefur í þessum efnum, er heimavist menntaskólans á Akureyri, en þar er rúm mjög takmarkað og verður því að sækja um það með löngum fyrirvara auk þess, sem það er mjög óþægilegt að senda börn sín mjög langan veg að heiman, eins og margir verða þó að gera. Þetta leiðir til þess, sem mjög er farið að bera á í þjóðfélaginu, að þeir, sem stunda nám við hina æðri skóla landsins, eru með öllu ókunnugir högum og háttum sveitafólksins, og eru því ófúsir á að gerast embættismenn úti um land. Það er líka mjög farið að bera á því, að skortur sé á embættismönnum úti um land. Nú eru 17 prestaköll laus, og auk þess er skortur á læknum. Ef héraðslæknir þarf að bregða sér frá, er nær ómögulegt að fá ungan lækni til þess að gegna störfum hans á meðan í stuttan tíma, vegna þess að ungu menntamennirnir eru óvanir að fara úr bæjunum og vilja sitja þar meðan sætt er. Ef þessu heldur þannig áfram, þá sé ég ekki, hvernig ríkið getur komizt hjá því að reyna nýjar leiðir í uppeldismálunum eða bæta við, ef þetta á ekki að ganga svona í framtíðinni.

Í öðru lagi er því ekki að neita, að fjöldi foreldra þeirra, sem eiga námfús börn, vill helzt láta þau fá þá menntun, er þau sjálf kjósa. Þetta verður til þess, að margt af þessu fólki leggur það á sig fyrir börn sín að hverfa burt úr sveitunum til þess að geta menntað börn sín, enda þótt þeir hefðu annars helzt kosið að vera kyrrir. Í þessu efni eru sveitirnar verst staddar. Kaupstaðirnir hafa þó nú orðið allir gagnfræðaskóla, en með þá undirbúningsmenntun, sem þeir veita, er mun hægra að sækja menntaskólana. Kaupstaðabúar standa því mun betur að vígi með að tryggja það, að börn þeirra standist þau ströngu inntökuskilyrði, sem menntaskólarnir nú setja.

Erlendis er það mjög algengt að hafa menntaskólana ekki í stærstu bæjunum, heldur utan þeirra, og þar eru jafnvel til sérstakir skólabæir, þar sem eru nær eingöngu kennslustofnanir, þar sem svo háttar til, að hver skóli hefur sérstaka heimavist fyrir alla nemendur sína, og er því eins og eitt stórt heimili, sem hefur eftirlit með nemendum, ekki aðeins í kennslustundum heldur allan tímann, sem þeir eru í skólanum. Ég hygg, að reynslan af þessum skólum sé sú, að þeir séu hinar beztu uppeldisstofnanir, sem völ er á í þessum efnum. Það er vitað, að hér í Reykjavík, þar sem engin heimavist er, er mjög erfitt að halda góðum skólabrag, vegna þess að nemendurnir dreifast út um allan bæ að loknum kennslustundum, og er þá mjög erfitt að hafa nokkurt eftirlit með þeim. Það er og vitað, að af mörgum foreldrum er það talið nauðsynlegt að koma börnum þeim, sem hér stunda nám, eitthvað burtu úr bænum þann tíma, sem skólinn stendur ekki yfir, vegna þess að umhverfið hér er ekki talið svo hollt fyrir þau sem skyldi. Þegar á allt þetta er litið, er það sýnt, a,ð þess er full þörf að koma nú upp góðum menntaskóla uppi í sveit, og er eflaust hægt að gera það, áður en langt líður. Ég tel, að það orki ekki tvímælis, að Laugarvatn sé heppilegasti staðurinn vegna þeirrar góðu aðstöðu, sem þar er fyrir hendi. Þar eru t.d. fyrir góð skilyrði til íþróttaiðkana, auk þess mætti nota að einhverju leyti sömu kennslukraftana, og bókasafn gæti verið sameiginlegt. Ég hygg líka, að Laugarvatn sé heppilegur staður til þess að setja þar upp ýmsa skóla saman. Það er að öllu leyti hentugur skólastaður auk þess, að með því að hafa marga skóla saman hagnýtast betur kennslukraftar og önnur skilyrði heldur en ef þeim er dreift víðs vegar um.

Ég skal játa það, að frá sögulegu sjónarmiði hefði ég helzt kosið að komið væri upp menntaskóla í Skálholti, þar sem upphaflega var settur elzti menntaskóli landsins. En hitt getur mönnum ekki sézt yfir, að staðhættir eru þar ekkert betri en víðast annars staðar og ekki neitt sambærilegir við Laugarvatn.

Það er ekki einungis, að með stofnun menntaskóla uppi í sveit séu opnaðir miklir möguleikar fyrir sveitafólkið til skólasóknar, heldur verður og miklu ódýrara að stunda nám þar en í kaupstöðum og auk þess hollara að vera laus við ýmsar freistingar, sem eru bæjarlífinu samfara. Ég vil því mælast til þess við hv. þdm., að þeir samþykki þessa þáltill., sem fjallar einungis um það að láta fara fram rannsókn á möguleikum fyrir stofnun menntaskóla á Laugarvatni. Hér er ekki farið fram á annað, og er áhættan við slíka samþykkt því ekki mikil, þar sem málið verður að koma aftur fyrir Alþ., ef eitthvað á að verða úr framkvæmdum. É,g veit ekki, hvort hv. þdm. hafa nokkrar sérstakar óskir um, að þáltill. þessi fari til n., en ég fyrir mitt leyti óska þess ekki sérstaklega, vegna þess að ég álít, að þetta sé svo augljóst mál, að hv. þm. ættu að geta tekið ákvörðun um það eftir stutta íhugun, hvort þeir vilja rétta hlut þeirra, sem verr standa að vígi í þessum efnum, eða hvort þeir vilja standa í vegi fyrir því, að þetta mikla menningarmál nái fram að ganga svo fljótt sem unnt er.