26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (4190)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Það virðist eins og hv. þm. Siglf. hafi að nokkru leyti samið ræðu sína, áður en flutt var framsöguræða í þessu máli, og hafi fyrirfram verið búinn að drekka í sig einhverja úlfúð, þó að hann finni, að það er gersamlega óhugsandi, að hægt sé að standa á móti jafnréttmætri kröfu um jafnrétti meðal þegnanna í félagsmálum og menningarmálum. Því að þótt hann í öðru orðinu tali um réttmæti þessarar till., þá reynir hann jafnóðum að finna allt hugsanlegt að henni og leggur síðan til, að málið megi alls ekki ganga þannig frá þinginu, að ekki sé bent á að rannsaka alla hugsanlega möguleika á undan, áður en þetta er rannsakað. (ÁkJ: Jafnhliða). Það má að minnsta kosti ekkert gera þarna fyrr en möguleikarnir til alls annars eru rannsakaðir. Ég ætlaði að komast hjá því að deila á menn, en ég verð að segja, að ég er í hálfgerðri klípu, er ég heyri menn, sem eru að rægja sveitafólkið dag eftir dag og ár eftir ár og blað eftir blað fyrir það, að það „þiggi styrki fyrir alla hluti“, sé ómagi á landi og lýð, sé styrkt til svo að segja hvers, sem það gerir. Þegar þetta fólk á svo að fá jafnrétti til að mennta börn sín, þá segja þessir menn strax: Við skulum bara styrkja fólkið til að koma börnunum til okkar, þar sem dýrast er! — Ég segi strax og afdráttarlaust: Við kærum okkur ekki um neina styrki, heldur jafnrétti í þjóðfélaginu. Og ef á að loka skólunum fyrir æsku okkar og einoka þá fyrir vissa menn í landinu, þá erum við að drýgja hinn herfilegasta órétt. En þetta er kannske það, sem þessi hv. þm. kallar jafnaðarmennsku eða sósíalisma. Ég játa, að mér virðist jafnaðarmennskan koma á þann veg fram hjá þessum hv. þm. í mörgum málum, t.d. rafmagnsmálinu.

Ég vil nú spyrja: Hvaða vit er í því, ef viðurkennt er, að langdýrast sé á þessum stað og ótækt fyrir fjölda æskumanna að stunda nám hér nema eiga ríka foreldra, — hvaða vit er í að hlaða undir skólamöguleika hér, en loka þeim þar, sem ódýrara er og betra fyrir fólkið yfirleitt í landinu?

Hv. þm. vildi fleygja til mín, að við hefðum talað um á s.l. sumri að flytja menntaskólann úr Rvík og austur í Skálholt, og mundi hér fiskur liggja undir steini, að máske værum við með hugmyndinni um stofnun skóla á Laugarvatni að reyna að taka menntaskólann úr Rvík. Ég verð að segja, að ég hef aldrei heyrt mann hafa fyrirfram jafnlitla trú á málstað sínum eins og lýsir sér í þessum orðum. Þó að þessi hv. þm. telji, að menntaskóla beri að hafa hér í Rvík, hvað sem það kostar, þó að það sé þrisvar til fjórum sinnum dýrara en annars staðar og hann sé lokaður fyrir miklum hluta af landsmönnum, þá er hann samt hræddur um, ef skóli er stofnaður annars staðar í landinu, hljóti svo að fara, að skólinn í Rvík hafi lítinn tilverurétt. Því að það, sem hann sagði, er bein viðurkenning þess.

Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, ef kæmi upp góður heimavistarmenntaskóli á Íslandi með góðum starfskröftum, — það er til nóg af menntamönnum —, þá mun aðsókn að Menntaskólanum í Reykjavík og jafnvel á Akureyri verða ekki meiri en sem svarar þeim fjölda, sem ekki kemst í góðan heimavistarskóla í sveit. Það er vegna þess, að uppeldisskilyrðin eru miklu betri í sveit, svo að jafnvel í kaupstöðum er fjöldi af foreldrum, sem óska að geta komið börnum sínum til náms burt úr stærstu bæjunum. Meðal annars þekkjum við prestarnir, sem fengizt höfum við kennslu jafnhliða prestsstörfum, að tugir manna í kaupstöðum reyna að koma sonum sínum burt frá kaupstöðunum, þar sem meira er til að trufla. Og ég er sannfærður um, ef ríkið kemur ekki mjög fljótlega upp menntaskóla í sveit, þá gera það prívatmenn, því að það er óhugsandi, að þetta verkefni liggi óleyst. Ég óska miklu frekar, að það verði ríkið, sem tekur málið að sér, því að þá er gefið, að vistin verður ódýrari fyrir nemendur heldur en ef einstaklingar þyrftu að ráðast í þetta.

Hv. þm. Siglf. lagði mikið út af því, að lítið vit væri í því að flytja menntaskólann burt úr Rvík. En ég var ekki að tala um það. Ef ekki er um að ræða nema einn skóla fyrir Rvík og Suður- og Vesturland, þá spyr ég: Hvaða vit er að hafa þá skólann þar, sem dýrast er, og hvaða rétt hafa Reykvíkingar frekar en aðrir til að hafa hann hjá sér. Nú sagði hv. þm. réttilega, ef skólinn væri fluttur úr Rvík, þá væru ekki nema tiltölulega fáir, sem gætu sent börn sín frá sér héðan. En það er betri hálfur skaði en allur. Það er betra, að landsmenn komi börnum sínum almennt í heimavistarskóla, þar sem kostnaður allur er kannske ekki meiri en 200–300 kr. á mánuði, heldur en fyrir fjölda landsmanna að þurfa að koma börnum sínum í skóla í Rvík, sem er ógerlegur kostnaður fyrir aðra en efnaða menn, eins og hv. þm. líka sagði. Það virtist þá nær að fara jöfnunarleiðina, að láta alla hafa sömu aðstöðu, sama aðgang að heimavist og borga jafnt. Það, sem öll jafnaðarmennska á að keppa að, er meðal annars jafnræði í því að afla sér menntunar til undirbúnings undir lífsstarfið, svo að allir geti fengið möguleika til að þroska hæfileika sína og njóta þeirra. Ekkert ranglæti svíður meira —– og það þekkja Íslendingar allvel ævina á enda en að hafa ekki getað fengið þá menntun, og undirbúning, sem hugurinn stóð til í æsku. Og að ríkið beiti vitandi vits órétti í þeim efnum, útiloki mikinn hluta af æskumönnum þjóðarinnar frá sama rétti og nokkrir hafa, er áreiðanlega til að ýta undir meiri og meiri gremju og sundrung meðal þjóðarinnar. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að sú þjóð, sem ekki getur skapað nokkurn veginn jafna möguleika fyrir æsku þjóðarinnar um það að geta notið sömu aðstöðu til menntunar, getur ekki heldur á neinu öðru sviði skapað jafnrétti eða undirstöðu undir jafnrétti þegnanna. Uppeldismálin eru áreiðanlega það, sem mestu valda í þessu efni, og það er langsamlega mest um vert, að þar sé veitt jöfn aðstaða frá upphafi og svo áfram á menntabrautinni.

Og hvernig er það með húsnæði hér í Rvík núna? Nemendum utan af landi er bannað að taka húsnæði á leigu. Það fæst a.m.k. ekki nema með sérstöku leyfi, og af þeim ástæðum getur sveitafólkið í mörgum tilfellum ekki komið börnum sínum í skóla hér í Reykjavík. Þá var hv. þm. Siglf. að tala um það, af því að hann langaði til að vekja illdeilur í sambandi við þetta mál, að takmörkunin um 25 nemendur í 1. bekk menntaskólans hefði verið gerð af Framsfl. og Jónasi Jónssyni, þegar hann var kennslumálaráðh. Hann sagði einnig, að þetta hefði verið gert í því skyni að gera aðstöðu verkafólksins verri til þess að koma börnum sínum í menntaskólann. Ég skal ekkert um það segja, hvað eru hin réttu takmörk um tölu nemenda í menntaskólanum, en ég held, að það sé óhugsandi að taka fleiri en það, sem húsrúm leyfir. Ég held, að það væri að fara inn á hinar mestu villigötur að taka svo marga nemendur inn í 1. bekk, að það þyrfti að leigja kennslustofur út um allan bæ. Hvaða skólalíf væri slíkt? Við vitum það, að það er ekki hægt að taka fleiri nemendur en húsrúm og kennslukraftar leyfa, ef nokkurt samræmi á að vera í kennslunni. Þá væri betra að hafa skólana fleiri og á fleiri stöðum, enda verðum við að játa, ef Menntaskólinn í Reykjavík tekur 300 nemendur, þá er hann nógu stór og jafnvel of stór, því að reynslan hefur sýnt, að betra er að hafa skólana ekki mjög stóra, því að það er erfiðara, bæði fyrir nemendur og kennara. Við vitum það líka, að þar sem slíkir skólar starfa erlendis, þá er ekki nema takmarkaður fjöldi nemenda, sem kemst að þeim skólum. En hv. þm. Siglf. gleymdi að geta þess, að um leið og nemendafjöldinn í 1. bekk menntaskólans var takmarkaður, þá var stofnaður Gagnfræðaskólinn í Reykjavík fyrir forgöngu þess sama manns, sem takmarkaði tölu nemenda í 1. bekk menntaskólans, og þar af leiðandi er ekki hægt að áfellast í þeim efnum. En vitanlega fengu Reykvíkingar bætta aðstöðu frá því, sem áður var. Þessu virðist hv. þm. hafa gleymt. Þá má minna á gagnfræðaskólana, sem nú starfa í öllum kaupstöðum landsins. Þeim hefur verið komið á stofn fyrir atbeina Framsfl. og fyrir aðgerðir hans hefur aðstaðan í þessum málum batnað mjög, þrátt fyrir það að tala nemenda í 1. bekk er takmörkuð við 25 nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík. Þá er að minnast á það, að nú er búið að gefa verzlunarskólanum hér í Rvík heimild til að útskrifa stúdenta, þó að hann á engan hátt uppfylli sömu skilyrði og menntaskólinn. Það er ekki ætlazt til, að þeim stúdentum, sem þar stunda nám, séu kenndar þær námsgreinar, sem hingað til hefur verið talið nauðsynlegt, að þeir lærðu. Þeim er kennd verzlunarþekking í staðinn fyrir náttúrufræði. Það er ekki ónýtt fyrir mann, sem ætlar að ganga í háskólann að hafa lært vöruþekkingu í staðinn fyrir náttúrufræði. Hvaða meining er nú í því, að áður en hafizt er handa um að hjálpa fólki, sem útilokað er frá því að komast í menntaskóla, þá sé reynt að veita öllum skólum í kaupstöðunum réttindi til þess að útskrifa stúdenta og opna þeim þar með háskólann. Það liggur í augum uppi, að það er ekkert vit í því að setja þannig löggjöf, að hvaða skólastofnun, sem er, geti útskrifað stúdenta. Að ráðh. geti löggilt einn eða annan skóla til þess að mega útskrifa stúdenta, án þess að þeir þurfi að uppfylla nauðsynlegustu skilyrði. Hvaða vit er slíkt? Þeir stúdentar, sem hingað til hafa útskrifazt frá menntaskólunum hér, hafa fengið hið bezta orð fyrir það, hvað þeir hafi verið vel undirbúnir, hvort sem þeir hafa farið til Vesturheims, Norðurlanda eða til annarra landa til framhaldsnáms. Ef farið væri inn á þá braut að leyfa hinum og öðrum skólum að útskrifa stúdenta, er hætt við, að það yrði til þess að draga niður þær kröfur, sem fram til þessa hafa verið gerðar til stúdentsprófsins. Það er mesti misskilningur, að ég hygg, að það muni verða skortur á kennslukröftum við þennan skóla. Á Laugarvatni eru miklir kennslukraftar fyrir hendi. Ef það yrði talið heppilegt, að kennararnir kenndu við fleiri en einn skóla og hugsuðu um meira en sitt aðalembætti, þá er þar hin bezta aðstaða í þeim efnum. Þar mætti t.d. kenna sameiginlega sund, leikfimi og aðrar íþróttir og svo gæti það verið í fleiri greinum. Annars álít ég, að í flestum tilfellum sé það best, að kennararnir helgi sig algerlega því aðalstarfi, sem þeir hafa ráðið sig til. Hér í Rvík var búið að eyðileggja góða kennslukrafta með því að ofhlaða kennarana aukatímum, því er það ekki æskilegt, að flestir kennarar hagi störfum sínum þann veg.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rekja þetta meir. Ég hef sýnt fram á það, hversu sanngjarnt það er að vilja amast við því, að það sé rannsakað eða athugað, hvernig hægt sé að bæta úr þessu misrétti gagnvart stórum hluta af þjóðinni. Ég hygg, að engum heilvita manni komi það til hugar, að heimavist í Rvík sé æskileg fyrir sveitafólkið. Hér er farið fram á það að fá heimavist utan bæjarins. Þar er önnur aðstaða til íþrótta, sem er nú orðinn einn meginþátturinn í skólamálum nútímans í öllum löndum. Ég vil líka segja hv. þm. Siglf. það, ef ég ætti um tvennt að velja, að láta t.d. börn mín fara í skóla í Rvík með heimavist, þó að til þess væri veittur mikill styrkur, eða í góðan heimavistarskóla í sveit, þá vildi ég miklu heldur láta þau ganga í skóla í sveit, jafnvel þó að það væri engu ódýrara. Annars vil ég segja það í sambandi við styrkinn, sem hv. þm. Siglf. var að bjóða, að ég býst við, að blöð þessa hv. þm. eða flokks hans, gætu gert sér mat úr slíku. Fyrst á að bjóða upp á styrk, til þess að geta síðan brigzlað um það, að sveitafólkið þyrfti nú styrki í þessum efnum sem öðrum. En ætli það gæti ekki farið með þennan styrk eins og svo marga aðra styrki, sem ætlaðir eru til hagsbóta fyrir sveitafólkið, að hann lenti að mestu leyti hjá kaupstöðunum eða Rvík. Er það ekki einmitt þannig, að það er verið að veita styrki, til þess að bæirnir geti haft betri aðstöðu. Hvernig er það t.d. þar, sem verið er að lækka afurðaverðið með því að greiða styrk úr ríkissjóði? Fyrir hvern er verið að gera það? Við, sem í sveitum búum, óskum ekki eftir neinum styrkjum, við óskum aðeins eftir jafnrétti við kaupstaðina, það er okkar krafa í uppeldismálum og atvinnumálum í öllum efnum. Þessi þáltill. hefði ekki þurft að gefa tilefni til mikilla átaka. En sú mótspyrna, sem hún hefur fengið, er einmitt dæmi, sem sýnir, hvernig aðstaðan er í þessum efnum, og hversu sanngjarnt mál er hér á ferðinni, þegar þeir, sem mest eru á móti málinu, vilja fara að bjóða fram styrki, til þess að þetta verði ekki gert og skólarnir verði áfram í bæjunum.