26.03.1943
Neðri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (4193)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mjög. Og ekki skal ég heldur fara langt út í þau efni, sem borið hefur á góma hér í ræðum manna nú. Mér virðist svo sem sumt af því, sem rætt hefur verið hér nú, komi eiginlega ekki mikið við þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, enda þótt það kunni að vera fróðlegt á ýmsan hátt að heyra þau vísdómsorð, sem hér eru töluð ( ! )

En mér þótti sem hv. þm. Siglf. (ÁkJ), sem settist síðast niður, hefði getað sparað sér þau ummæli, sem hann algerlega að ófyrirsynju og tilefnislausu lét hér falla um núverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, Pálma Hannesson. Sá mæti maður er nú ekki hér til fyrirsvars, þó að hann hafi áður átt sæti hér á þingi. Og mun ekki vera venja að taka fyrir störf einstakra manna hér í þingi á þennan hátt, að þeim fjarverandi. Mér kemur það mjög á óvart, þegar þessi hv. þm. lætur orð falla um það, að störf þessa skólastjóra séu fjarri því, sem þau eiga að vera. Ég hef aldrei heyrt annað en að hann væri mjög vel látinn sem skólastjóri í menntaskólanum, bæði af nemendum og öðrum, og hafi rækt starf sitt hið bezta. Ég veit ekki heldur annað en hann hafi nú alveg nýlega losað sig við ýmislegt af þeim störfum öðrum, sem hann hafði verið fenginn til að gegna, vegna þess að honum mun hafa virzt, að það mundi vera of mikið fyrir sig að sinna þeim jafnframt skólastjórninni. Er það því næsta ómaklegt að drepa hér sérstaklega á slíkt. Hins vegar er það svo, að mætir skólamenn hafa oft gegnt ýmsum opinberum störfum ásamt skólastjórastarfinu og ekki þótt minni fyrir sér í sínu starfi þrátt fyrir það. Og vil ég þar t.d. minna á þann mann, sem mörgum er kunnur að því að hafa verið einn hinn bezti skólastjóri landsins, Stefán Stefánsson, skólameistara Gagnfræðaskólans á Akureyri. Hann sat á þingi alllengi í sinni skólameistaratíð, og hygg ég, að honum hafi ekki verið ámælt fyrir þá hluti. Þvert á móti mun honum vegna þess hafa tekizt að koma fram ýmsum hlutum viðvíkjandi starfi sínu, sem hann hafði áhuga á.

Ég tók eftir því, að eitt af því, sem hv. þm. Siglf. fann þessum skólastjóra (PHann) til foráttu, var, að hann hefði ekki sérstaka forustu í félagsskap nemenda skólans, eins og venja fyrirrennara hans hefði verið, að því er þessi hv. þm. taldi. Ég vil ekki draga úr þessu starfi fyrirrennara hans, en vil samt segja, að mér var ekki kunnugt um það, þegar ég hafði kynni af þessari stofnun, að rektor menntaskólans hér hefði neina sérstaka forustu í félagslífi nemendanna. Og það tíðkaðist ekki í fyrri daga, að rektorinn hefði neina sérstaka forustu í félagsskap nemenda. Það er því algert öfugmæli, sem hv. þm. Siglf. hefur farið þarna með. Ég hygg, að það sé miklu meira um það nú yfirleitt en áður var, að skólastjórar hafi slíka forustu, sem liggur í nokkuð breyttum hugsunarhætti.

Það var ýmislegt fleira í ræðu þessa hv. þm., sem ég skildi ekki vel, hvers vegna hann kom hér fram með og hvaða erindi átti hér inn í þessar umr. Ég get ekki skilið það, að t.d. það sé mikil háðung fyrir Framsfl. eða yfir höfuð neinn annan flokk hér á landi, þó að útlendar þjóðir skirrist við að kaupa vissa þætti íslenzkrar framleiðslu með því verði, sem við þurfum að fá fyrir framleiðsluna, til þess að hún geti borið sig. Ég get ekki heldur skilið það, sem þessi hv. þm. hélt hér fram, að framsóknarmenn, þegar þeir eru að ræða landsmál úti um sveitir, hafi enga til að andmæla því, sem þeir þar segja fólkinu. Mér er ekki annað kunnugt heldur en að við allar kosningar hér í landi hafi einnig í sveitunum yfirleitt flestir eða allir stjórnmálaflokkar haft menn í kjöri til þess að halda fram sínum skoðunum og leiðrétta það, sem þeim kann að þykja fólkinu rangt frá skýrt, og þar á meðal sá flokkur, sem þessi hv. þm. tilheyrir. Ég veit þess vegna ekki, við hvað þessi ummæli hans eiga að styðjast.

Annars vildi ég segja það viðvíkjandi þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, um áskorun á ríkisstj. um að láta fara fram athugun á möguleikum til að hefja menntaskólakennslu á Laugarvatni, þá tel ég, að hún stefni í rétta átt, og ég mun greiða henni atkv. Ég held, að það sé til bóta, að menntaskólarnir séu fleiri en þeir eru nú í landinu. Það eru svo margir, sem þetta nám stunda og vilja stunda, að það er fyllilega nægur nemendafjöldi í fleiri skóla heldur en þá, sem nú starfa. Og ég er ekki í neinum vafa um það, hvað sem um það er sagt, að það er að öðru jöfnu betur stjórnað skólum, sem ekki eru mjög fjölmennir.

Það er líka annað, sem gerir það að verkum, að það er heppilegra, að skólarnir séu ekki mjög fáir. Og það er það, að ég held, að fræðslu- og skólastarfsemi okkar verði betri með því móti, að skólarnir séu ekki allir eins. Þó að í höfuðatriðum fari fram sams konar kennsla, bæði í menntaskólanum hér í Reykjavík og á Akureyri og eins í menntaskóla, sem kynni að verða stofnaður úti í sveit, þá mundi það samt verða svo, að þessir skólar yrðu nokkuð sinn með hverju móti, notuðu nokkuð hver sína aðferð við fræðslu og uppeldi, og það hygg ég mundi verða til bóta.

Það er svo vitanlega til stuðnings þessu máli, eins og hér hefur verið drepið á, að kostnaður við dvöl í menntaskóla í sveit fyrir nemendur yrði auðvitað minni heldur en bæði í Rvík og á Akureyri. Til þess að sannfærast um það þarf ekki annað en bera saman dvalarkostnað, sem hefur verið á undanförnum árum við skóla í Rvík annars vegar og í sveit hins vegar. T.d. er mér kunnugt um fæðiskostnað, sem nemendur hafa orðið að greiða annars vegar hér í Rvík og í heimavistinni við Menntaskólann á Akureyri, og eins er mér kunnugt um fæðiskostnað í heimavist við héraðsskóla og bændaskóla hins vegar, og þar hefur verið allverulegur munur á. Auðvitað munar mestu, ef annars vegar er borinn saman kostnaður í heimavist sveitaskólanna og hins vegar kostnaður hjá þeim, sem hafa orðið að kaupa fæði og húsnæði hjá einstökum mönnum, en ég gæti vel trúað því, að það færi líka svo um þann kostnað, sem skólanum sjálfum við kemur, að hann yrði a.m.k. engu meiri í sveit en hér í Rvík. Því að þótt það sé svo, að það þurfi kannske að byggja einhver hús fyrir starfsmenn skólans, er það þó svo, að húsnæði þeirra kostar auðvitað nokkurt fé hér, sem þarf með einhverjum hætti að greiða af því opinbera, áður en lýkur. Það hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., að það kynni að verða vöntun á starfskröftum við nýjan skóla, ef hann yrði stofnaður. Ég man eftir því, þegar til stóð að stofna lærdómsdeild á Akureyri, var þessu líka haldið fram. Því var haldið fram, að þess yrði enginn kostur að fá norður á Akureyri nægilega marga kennara, sem hefðu nægilega sérþekkingu á því, sem þyrfti að kenna. Úr þessu hefur þó rætzt þannig, að ég hygg, að það sé viðurkennt, að kennaralið Menntaskólans á Akureyri fullnægi fyllilega þeim kröfum, sem gerðar eru til kennara við menntaskóla. Hins vegar er kunnugt, að nú á síðustu árum hafa mjög margir stúdentar farið utan til náms í þeim greinum, sem kenndar eru við skóla landsins, og fer það í vöxt, þannig að við komum til með að eiga fleiri fræðimenn en skólarnir hafa rúm fyrir, og verður fremur það, sem um verður að ræða, en skortur á kennslukröftum. Hitt er svo annað, að í skóla, sem ekki væri mjög stór og ekki væri í kaupstað, væri e.t.v. dálítið erfitt að koma því fyrir að fá einmitt fróða menn í öllum þeim greinum, sem þarf að kenna, með viðráðanlegum kostnaði. Um það vildi ég segja það, að ég geri ekki ráð fyrir því, ef stofnaður væri slíkur skóli, t.d. á Laugarvatni, að sá skóli yrði, eins og menntaskólinn hér, í tveim deildum. Ég held, að ekki beri að stefna að því, heldur eingöngu að hafa eina deild, og þá sennilega máladeild, og ef um slíkan skóla er að ræða, verður vitanlega engan veginn eins mikil þörf fyrir sérfróða menn eins og við menntaskóla, sem er í tveim deildum. Það er svo aðeins eitt, sem ég vildi kasta fram viðvíkjandi þessu máli, áður en ég sezt niður, sem ég vildi skjóta að til athugunar fyrir ríkisstj., ef þessi till. verður afgreidd til hennar. Ég hafði hugsað mér hálfvegis að bera fram um þetta sérstaka brtt., en mun þó ekki gera það.

Menntaskólarnir í Rvík og á Akureyri eru 6 vetra skólar, þannig að þeir, sem sitja í öllum bekkjum, þurfa til þess 6 ár. Nú er það alkunnugt mál, að þeir nemendur eru býsna margir, sem ekki sitja í öllum bekkjum menntaskólanna. Sumir taka kannske próf upp í 2. bekk, eru svo í skólanum og taka gagnfræðapróf, og sumir eftir það aðeins í 4. bekk skólans og lesa eftir það heima 5. og 6. bekk, stundum á einum vetri, en þó kannske oftar á tveim, en það kemur fram í þessu, að það eru talsvert margir, og það eykst sennilega, sem gjarna vildu komast af með styttri skólatíma, og gera það á þennan hátt, með því að leggja töluvert meira á sig. Nú held ég, ef upp kæmi einn menntaskóli í viðbót, og ekki sízt, ef hann yrði með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir í þessari till., að það ætti að athuga, hvort ekki væri hægt að fækka námsvetrum. Það kæmi ekki til mála, að námið yrði minnkað, heldur yrði að gera sömu kröfur til stúdentsprófs og ekki minni en nú eru gerðar eða yrðu gerðar, en þetta mætti gera þannig, að námið yrði nokkuð þyngt og aukið, svo að færri vetur þyrfti til að ljúka stúdentsprófi. Þetta þýddi vitanlega aukna vinnu fyrir þá, sem í skólanum yrðu, en hins vegar yrði það fyrir þá, sem lesa utan skóla meira og minna, sízt erfiðara en nú er. Reynslan mundi þá verða sú, að slíkur skóli yrði sérstaklega sóttur af þeim, sem vilja eitthvað á sig leggja og inna þetta nám af hendi á skemmri tíma en nú er gert ráð fyrir í skólunum. En ég held, að notin af slíkum skóla mundu verða drýgri og árangurinn verða þeim heppilegri en utanskólalestur. Ég mundi telja, að 'þótt ekki hefðist annað upp úr því að setja menntaskóla á Laugarvatni eða öðrum slíkum stað heldur en það, að þar yrðu sköpuð sérstök skilyrði fyrir utanskólamenn, fyrir þá, .sem vilja taka námið á styttri tíma, — þó ekki væri annað en þetta, teldi ég það nokkuð mikið. Ég skal ekki segja um, hve mikið væri hægt að stytta námstímann, hvort hægt væri að ljúka á fjórum vetrum því námi, sem ætlazt er til, að lokið sé á sex vetrum, en það væri a.m.k. hægt á 5 vetrum, og mundi þó ekki verða erfiðara fyrir þá, sem lesa utanskóla, en það er.

Þessu atriði vildi ég sérstaklega skjóta til ríkisstj., ef hún fær þessa þál. til meðferðar.