29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (4197)

165. mál, menntaskóli að Laugarvatni

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Það er varla neitt, sem ég sé ástæðu til að svara hv. flm., því að það, sem hann sagði í minn garð, er varla svaravert, svo ljóslega var hægt að sjá í gegnum þann málflutning hans. Hann eyddi alllöngum tíma í að þvo af flokki sínum glappaskotin í kennslumálum þjóðarinnar, sem hann hafði gert á meðan hann mátti ráða. Í því sambandi vildi hann vera að vitna í ummæli mín, er hann sagðist hafa skrifað niður á blað. En honum fórst það miður vel, eins og vænta mátti, þar sem hann vildi vera að rangfæra orð mín. Það, sem ég sagði, var, að Framsfl. hefði beitt sér fyrir því að loka leiðinni að háskólanámi, og átti ég þar auðvitað við þá ráðstöfun, sem Framsfl. stóð að á sínum tíma, að loka aðgangi að menntaskólanum fyrir fleiri en 25 nemendum.

Það hefur þegar verið tekið fram, að aðalröksemdirnar, sem færðar hafa verið fyrir þessu máli, hafa í þeim umr., sem um málið hafa farið nú við 1. umr., fallið um sjálfar sig.

Í fyrsta lagi hefur það verið fært fram sem ein aðalröksemdafærslan fyrir þessu máli, að með því að setja á stofn menntaskóla að Laugarvatni væri verið að koma upp skóla til sérstaks hagræðis fyrir sveitafólkið í landinu. Á það hefur verið bent, að ekki er um að ræða neitt slíkt, og er því ekkert annað en eitthvað, sem mætti nota til atkvæðaveiða meðal sveitafólksins. Eins og hv. þm. vita, er byggðin í sveitum landsins svo dreifð, að e.t.v. nokkrir bæir gætu orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem flaggað er með í sambandi við þennan fyrirhugaða skóla, en sveitirnar yfirleitt hefðu þess á móti ekkert annað en orðin tóm. Í öðru lagi er því haldið fram sem rökum, að Menntaskólinn í Rvík og Menntaskólinn á Akureyri séu ekki lengur færir að taka á móti öllum þeim fjölda nemenda, er vilji ganga þá menntabraut. Þetta út af fyrir sig er alveg rétt, en það er engin rök fyrir þessu máli, því að auðveldast er að bæta úr þessu með því að afnema ákvæðin um takmörkunina hér í Rvík og stækka heimavistina á Akureyri. Þó að röksemdir hv. flm. séu þannig fyrir neðan allar hellur í þessu máli, þá er ég samt sem áður því fylgjandi, að reistur sé þriðji menntaskólinn einhvers staðar á hentugum stað til viðbótar við þá tvo, sem verið hafa.

En í umr. hefur eitt atriði komið í ljós hjá hv. flm., sem hann líklega hefur viljað leyna þingheim í lengstu lög, en honum hefur ekki tekizt að leyna því. Það hefur sem sagt komið berlega í ljós hjá honum, að með stofnun menntaskóla á I,augarvatni á að tryggja það, að útskrifaðir séu stúdentar með vissa stjórnmálaskoðun, að þarna verði hreiður framsóknarstúdenta, sem útungað sé til þess að tryggja hagsmuni þess flokks í þjóðfélagsmálum. Þetta er það, sem fyrst og fremst vakir fyrir þessum hv. þm. og öðrum, er standa að þessari þáltill., og er því kannske ekki nema eðlilegt, að þeir lendi í hálfgerðum vandræðum og rökleysu, er þeir vilja koma málinu í gegnum þingið með þessa hugsun að baki því. Ég vil benda hv. n., sem mál þetta kann að fá til athugunar, á, hver fiskur hér liggur undir steini, til þess að hún geti gert þær gagnráðstafanir, er henni þykir við þurfa.