19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (4228)

63. mál, hlutleysi Íslands og aukin ófriðarhætta

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — 16. þ. m. var lesin upp í útvarpinu greinargerð fyrir fyrirspurn Jónasar Jónssonar til ríkisstj., á þskj. 86, í sambandi við hlutleysi Íslands og aukna ófriðarhættu. Þar sem farið er með svo mörg ósannindi í greinargerð þessari, að einstakt mun vera í þingskjali, vil ég f.h. Sósfl. biðja yður, herra forseti, að hlutast til um það, að eftirfarandi leiðrétting verði lesin upp í útvarpinu:

1. Það er rangt, að Sósfl. hafi gert það að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj., „að Íslendingar taki virkan þátt í styrjöldinni með andstæðingum Þjóðverja“.

2. Það eru ósannindi, að Sósfl. hafi gert það að skilyrði að „biðja Rússa um vernd“.

3. Það er með öllu rangt, að Sósfl. hafi krafizt þess, að ríkisstj. gæfi út nokkurs konar „stríðsyfirlýsingu gegn einhverju mesta herveldi heimsins“, eins og J. J. kemst að orði.

4. Það eru ósannindi, að „kommúnistar“ hafi nokkurn tíma reynt að hindra atvinnustarfsemi Íslendinga fyrir setuliðið. Vinnustöðvanir þær, sem orðið hafa hjá setuliðinu, voru á hreinum hagsmunagrundvelli og fjarri því, að þeim væri stefnt gegn hernaðaraðgerðum bandamanna.

10. skilyrði Sósfl. fyrir þátttöku í ríkisstj., sem mun vera tilefni fyrirspurnarinnar, var svo hljóðandi:

„Í utanríkismálum sé tekin upp ákveðin stefna með Bandamönnum og móti fasismanum. Ríkisstj. gefi út samúðaryfirlýsingu með Bandamönnum og stuðli að virkri aðstoð Íslendinga við landvarnir Íslands í samvinnu við hernaðaryfirvöldin, jafnframt því sem staðið sé á verði gegn hvers konar yfirgangi erlends valds hér á landi á sviði viðskiptamála og stjórnmála. Tekið sé upp þegar í stað gagnkvæmt stjórnmálasamband við Sovétríkin. Leitað sé samninga við Bretland, Sovétríkin og Bandaríkin og stjórnir annarra frjálsra þjóða um tryggingu fyrir friðhelgi þess og algeru sjálfstæði, er friður verður saminn í styrjaldarlok.“

Eins og sjá má af þessu, er stefna Sósfl. í utanríkismálum rangfærð svo mjög í þessu þingskjali Jónasar Jónssonar, að öllu er beinlínis snúið öfugt og farið með tilhæfulaus ósannindi um allt, sem máli skiptir.

Auk þess eru í þingplaggi herra J. J. hin furðulegustu ósannindi um Sovétlýðveldin og utanríkisstefnu þeirra. Vér teljum, að svona hatursfullur og óvandaður áróður um vinsamlega stórþjóð í opinberu þingskjali sé Alþ. til hinnar mestu vansæmdar, þegar þess er gætt, að í hlut á formaður næststærsta þingflokksins.

Vér viljum benda á, að fyrirspurn þessari, þar sem spurt er um það, hvort það sé í samræmi við „yfirlýsta hlutleysisstefnu Íslands“, „að valdhafar landsins lýsi yfir vanþóknun sinni á stjórnarstefnu annars stríðsaðilans“, mun að öðrum þræði beint gegn ríkisstjóra Íslands, sem flutti ræðu við setningu Alþingis, þar sem látin var í ljós samúð með málstað Bandamanna og þar með andúð gagn ofbeldisstefnu fasismans.