10.02.1943
Efri deild: 53. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

132. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1943

Frsm. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Það var aðeins út af véfengingu hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. á því, að rétt væri haft eftir stj. það, sem sagt er í áliti minni hl. um yfirlýsingu af hennar hálfu. Ég vænti þess, að hæstv. stj., úr því að hún er við, staðfesti, að rétt er með farið í nál. Og skoða ég þá þögn af hennar hálfu sem ótvíræða staðfestingu hennar á því, að rétt sé eftir stj. haft í nál. minni hl., þar sem raunar var farið eftir skriflegri yfirlýsingu, sem mér barst frá hæstv. forsrh. Auk þess vildi ég geta þess, út af ummælum hæstv. forsrh., „að það hefði vafizt fyrir n.afgr. málið“. Það má að vísu segja, að þau ummæli séu rétt, að svo miklu leyti sem n. sýnist vera klofin um málið, og að ýmsar till. hafa komið fram. En að svo miklu leyti sem í þessum orðum kynni að felast það, að málið hafi verið dregið í n., vildi ég láta það uppi, að n. á þar enga sök. Það var einmitt til þess að hafa fullt samráð við hæstv. stj., að ég vildi ekki afgr. málið frá n. fyrr en vitað væri með vissu um afstöðu hæstv. stj. til þeirra atriða, sem ég taldi máli skipta.