29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvort honum fyndist ekki ástæða til að vita það, þegar í miðri atkvgr. rís upp hver þm. á fætur öðrum, um leið og hann greiðir atkv., og beinlínis falsar — ég get ekki skilið annað en vísvitandi — þá tillögu, sem greidd eru atkv. um. Hér hafa fjórir hv. þm. talið till. óformlega, þetta væri till. um að vísa málinu til n., þó að áður væri búið að vísa því til n., og gæti því ekki komið til greina að vísa því til n. á ný. Hér er verið að falsa það, sem fram hefur komið. Hér var ekki önnur till. borin fram en sú að fresta umr. um málið. Og undir miðri atkvgr. reyndi forseti að leiðrétta þessa gersamlegu röngu túlkun á till., en hafði engin áhrif, Hv. þm. stóðu upp samt sem áður hver á fætur öðrum, eins og þeir hefðu ekki heyrt það, sem hæstv. forseti sagði, en greiddu atkv. á röngum forsendum. Þessi till., sem þeir þóttust greiða atkv. um, lá ekki fyrir. Ég hygg, að hv. þm. hafi gert þetta móti betri vitund og hér hafi verið slæm samvizka að verki, vegna þess að ég hef ekki talað við neinn hv. þm., sem ekki viðurkennir, að þessi afgreiðsla á fjárl. sé gersamlega óformleg.

Í þessu máli hafa þessir þm., sem stóðu þannig upp, gert sig að — já, ég veit ekki, hvað forseti gerir, þegar ég nefni þetta orð, en ég geri það samt — þeir hafa gert sig að fíflum. Þeim var ekki nóg að heyra hv. þm. S.-Þ. gera sig hér að fífli. Þeir urðu að taka þátt í skrípaleiknum. Satt að segja minnir þetta mig á aðfarirnar á þingi, þegar þær hafa verið allra afkáralegastar, eins og þegar verið var að samþykkja að reka Ísleif Högnason úr félagsskap, sem hann hafði aldrei verið í. Forseti gerði skyldu sína í því að gefa bendingar um atkvgr., en ég vildi gera fyrirspurn til hans, hvort honum finnist ekki ástæða til þess að vita þessa menn fyrir framkomu þeirra.