01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jakob Möller:

Herra forseti. — Hv. frsm. fór um það nokkrum orðum, hvernig fjárlagafrv. var búið í hendur hv. fjvn., og má segja, að hann talaði tiltölulega mildilega, eftir því sem við var að búast, og þegar litið var á þær brtt., sem hv. fjvn. gerir á frv. stjórnarinnar. Fráfarandi stj. sá um undirbúning þessa máls með svipuðum hætti og að undanförnu. Þ.e.a.s., hún fékk forstöðumenn stofnana og stjórnardeilda til að gera áætlanir, og eftir þeim áætlunum er fjárlagafrv. gert. En það er vitað mál, að verðlag er mjög á reiki, og eigi er vitað, hvar lendir um dýrtíðina. Má því búast við breyt. á frv., og er það mjög eðlilegt. Mér skilst, að stærstu skekkjurnar á frv., sem hv. fjvn. hefur gert till. um breyt. á, séu um dýrtíðaruppbætur, og efa ég ekki, að hún hefur rétt fyrir sér.

Sú leið var farin, að landsreikningurinn fyrir árið 1941 var lagður til grundvallar og tekið síðan tillit til árshækkunar vísitölunnar við útreikning dýrtíðaruppbótarinnar. Skilst mér, að teknir hafi verið allir launaliðir á þann hátt, og hef ég ekki aðstöðu til að spá nokkru, hvernig það reynist. Auk þess eru nokkrir liðir, sem fjvn. lét standa óbreytta, t.d. um fjárveitingar til strandferða og landhelgisgæzlu. Um þetta er það að segja, að þessir liðir hafa farið fram úr áætlun á s.l. ári. En auðvitað er það á valdi Alþ. að ákveða, hve miklu fé skuli varið af ráðherra til þessarar starfsemi.

Hins vegar er allt í óvissu um það, hvaða ráðstafanir þarf að gera til að lækka dýrtíðina og þá þessa liði. — 16. gr. er þriðji liðurinn. sem þarf að athuga nánar, og er það á valdi Alþ. að taka ákvarðanir um, hvort halda skuli áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið. Þá vil ég taka það fram, að ekki er meiri losarabragur á frv. hjá ríkisstj. en ástæða er til.

Ég hef áður gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að ekki eigi að gera ráð fyrir stórfelldum verklegum framkvæmdum. En samkv. till. fjvn. atlast hún til hins gagnstæða. Ég tel rétt að geyma slíkar framkvæmdir til seinni tíma, og ef tekjur ríkissjóðs verða það miklar, væri hyggilegt að geyma nokkuð af þeim þar til síðar. Þá njá lita á það, að efni til framkvæmda hlýtur að skorta. Þess vegna þýðir ekki að gera ráð fyrir miklum verklegum framkvæmdum, svo sem skólabyggingum, læknisbústoðum o.fl. framkvæmdum. Það var gert með ráðnum hug, að ekki var gert ráð fyrir meiri framkvæmdum á árinu en að er vikið í frv. Ekki virðist ástæða til að ætla, að atvinna verði minni, svo að þess vegna þurfi að auka þær, á sama tíma og verið er að vinna á móti aukningu verðbólgunnar.

Hv. frsm. veik að því, að ríkisstj. hefði greitt launauppbætur til ýmissa starfsmanna og stétta, án þess að hún hefði haft til þess samþykki Alþ. Þetta er rétt. Ég hef litið svo á, að til væri heimild til þess að greiða þessa launauppbót. Læknum og prestum hefur verið greidd launauppbót, og loks hafa kjör kennara verið brtt. Þetta hefur helzt ekki komið fram í þessum umr. Það er tvímælalaust rétt að hækka laun presta og kennara, því að þær stéttir voru einna verst launuðu stéttir meðal opinberra starfsmanna. Sú ákvörðun að hækka á þennan hátt laun þessara starfsmanna var tekin í tíð þjóðstjórnarinnar, þótt hún væri ekki komin til framkvæmda, þegar ráðherra jafnaðarmanna gekk úr stjórn. Laun presta hafa verið bætt mikið, en eins og áður er vikið að, eru þeir illa launaðir. Kennarar, einkum farkennarar, hafa fengið mjög bætt kjör, enda lá við borð, að margir farkennarar segðu lausum stöðum sínum og færu í vinnu, sem betur var launuð. Auk þess var launahækkunartímabilið stytt, svo að þeir komast nú fyrr á hærri laun. Enn fremur var gerð breyting á kjörum fastakennara, og munu kennarar yfirleitt sætta sig vel við þau kjör, sem þeir hafa við að búa. En þetta liggur allt undir endanlegum úrskurði alþ., og mun hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu ganga eftir því, að tekin verði afstaða til þessa máls. Það mun ekki hafa verið gert ráð fyrir hækkun á fjárl. vegna þessarar launahækkunar, en sú hækkun hlýtur auðvitað að koma fram. Ég get fallizt á, að greiðslum þessum sé haldið áfram, en þá þarf einnig að hækka verðlagsuppbót, hvað lækna og presta snertir.

Ég get nú að nokkru leyti fallizt á það með þeim, sem telja þessa aðferð hv. fjvn. miður heppilega, og mér finnst, að hv. n. ætti að fella sig við leiðréttingar, sem nauðsynlegt er að gera og ganga lengra en hennar eigin till. Till. einstakra manna eru margar sambærilegar við till., sem von er á frá hv. n., og get ég í því sambandi nefnt hækkun á greiðslu til íþróttasjóðs og greiðslur til skólabygginga. Mér finnst, að hv. n. ætti að taka einhverjar þessara einstöku till. um greiðsluhækkanir aftur til 3. umr. Það er viðkunnanlegra, að hv. þm. hafi slíkar till. fyrir sér í einu lagi, heldur en að fá sumar nú við 2. umr., en aðrar eigi fyrr en við 3., því að svo þegar hinar till. koma, þá eru þeir e.t.v. hinir að binda sig við einhverjar till., sem þeir hefðu viljað láta sitja á hakanum. Ég segi fyrir mig, að ég á erfitt með að taka afstöðu til sumra þessara till. einmitt af þessum ástæðum.