01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Á þskj. 312 eru nokkrar brtt., sem ég er meðflm. að, og því ber mér að fara um þær örfáum orðum.

Ég er að vísu ekki flm. að IV. lið brtt. á þskj. 312, en ég hef þó ekki síður áhuga fyrir, að hún nái fram að ganga. Hún er flutt af hv. 2. landsk. þm. (ÞG) og er um aukið framlag til vegar á Öxnadalsheiði, — um að það verði aukið úr 80 þús. kr. í 180 þús. kr. — Það er að vísu á öðrum lið fjárl. ákveðið einnig annað framlag til þessa vegar, þannig að ef samþ. yrði þessi brtt., sem hér liggur fyrir, þá mundi verða seitt til þessarar vegagerðar 360 þús. kr. En samt mundi vera langt frá því, að það nægði til þess að ljúka að fullu vegargerð á þessum kafla úr Öxnadal h.u.b. miðjum, þar sem vegurinn er kominn, og til Silfrastaða, yfir Öxnadalinn, það sem eftir er af honum, og Öxnadalsheiði og Norðurárdal. En þó að þetta framlag mundi ekki nægja til þess að fullgera þennan veg, býst ég við, að þetta nægði til þess að ljúka þeim kafla vegarins, að svo miklu leyti sem óhjákvæmilegt er að gera við veginn, til þess að vegurinn verði fær að vetrinum, a.m.k. flesta tíma, þegar ekki eru mikil snjóþyngsli. En ég held, að það geti varla verið ágreiningur um það, að þessi leið, sem er ein af aðalsamgönguleiðum landsins, milli höfuðstaðarins og Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands, og þá um leið samgönguleið til að tengja þar við þær fjölbyggðu sveitir, sem eru umhverfis Akureyri, og svo leiðina áfram austur um land — það getur varla verið ágreiningur um, að nauðsyn sé á, að á þessum vegum sé ekki aðeins hægt að klöngrast að sumrinu, heldur beri að stefna að því, að sem allra fyrst verði hægt að komast þessa leið á bílum einnig að vetrinum, þó að snjóþungt væri. En allir, sem til þekkja, vita, að á mestöllum þessum kafla, sem ég greindi, er svo að segja enginn vegur. Þannig er um framhluta Öxnadalsins; á þeim kafla eru niðurgrafnir skorningar, sem bílar komast, þegar snjólaust er, en þegar snjóar, er þar ófært, eins og það er, en ef búið væri að leggja veg þar, mundu bílar komast þar um, þótt snjóar væru. Það er t.d. augljóst, ef þetta er borið saman við Holtavörðuheiði, sem var gersamlega ófær bílum flesta vetur eða mikinn hluta þeirra, áður en nýi vegurinn var lagður yfir hana, en nú, eftir að vegurinn hefur verið lagður þar, er hún fær bílum oftast nær. Og þegar ég kom suður í vetur, var Holtavörðuheiði vel fær, þó að á henni væri meiri snjór heldur en á Öxnadalsheiði, þó að sá hluti vegarins væri ekki fær bílum. Það liggur sem sagt nokkurn veginn í augum uppi, að þessi leiðréttindi vera fær í flestum vetrum. a.m.k. meginhluta vetrarins, ef veginum yfir hana væri komið í það horf, sem nauðsynlegt er, ef upphleyptur vegur kæmi yfir hana í stað niðurgrafinna skorninga, sem strax fyllast af fönn, þegar nokkuð snjóar. Og ég held, að sú fjárveiting, sem hér er um að ræða, ef þessi brtt. yrði samþ., mundi hrökkva til þess að gera upphleyptan veg á þessum fremri hluta Öxnadals og að lagfæra það, sem nauðsynlegast væri á Öxnadalsheiði. Ég mæli þess vegna með þessari fjárveitingu, þó að ég sé ekki flm. þessarar brtt.

Þá er hér VIII. brtt. á þskj. 312, um, að aukið verði framlag til malbikunar á vegum í kaupstöðum úr 44 þús. kr. upp í 100 þús. kr. Oft hefur þessarar malbikunar verið þörf fyrr, en nú er nauðsyn á að veita ríflega til hennar, því að nú á síðustu árum hefur umferð um vegi vaxið mjög mikið, og þó alveg sérstaklega um þessa vegi í kaupstöðunum. Og mér er sérstaklega kunnugt um það á Akureyri, að vegna setuliðsins og flutninga þeirra, sem það hefur haft, hefur veitzt torvelt að halda við þeim götum bæjanna, sem mest umferð hefur verið um, og það svo, að það er orðinn almanna rómur, meða? bílstjóra t.d. á Akureyri, að götur Akureyrar séu verstu vegirnir, sem þeir þurfi að aka um. Og það er augljóst, að götum þessum verður ekki haldið við með sömu aðferðum, sem að mestu leyti hafa verið hafðar um slíkt viðhald undaufarið. Og þær verða ekki gerðar sæmilega umferðarhæfar fyrir gangandi fólk og ökutæki, nema gert sé meira að því en gert hefur verið undanfarið að malbika eða steypa götur. Því er það svo, að kaupstaðir og aðrir verzlunarstaðir, sem þetta varðar sérstaklega, hafa nokkuð takmarkaða möguleika til fjáröflunar, og þess vegna verða minni heldur en æskilegt væri þær verklegu framkvæmdir, sem þarf til þess að bæta úr þessu, af hendi viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga sjálfra, og hefur sýnt sig, og er enda þegar viðurkennt, að nauðsyn er að bæta úr þessu með því að veita nokkurt fé í þessu skyni úr ríkissjóði. En 40 þús. kr. er lítið fé til slíkra hluta, þegar litið er á það, hversu dýrt er nú að steypa eða malbika götur, og þó að samsvarandi fé mjög komi á móti frá viðkomandi stöðum. Þess vegna er nauðsynlegt að hækka þetta framlag ríkissjóðs, og við höfum lagt til, að það verði hækkað í 100 þús. kr. Með samsvarandi framlagi frá viðkomandi bæjar- og hreppsfélögum mundi vera meira hægt að gera með þessu heldur en ella, og væri nokkur bót að fá framlagið hækkað um það, sem hér er farið fram á.

Þá er hér á sama þskj. till. nr. XVII, um það, að hækkað verði nokkuð það, sem kallað er aukastyrkur til nokkurra bókasafna á landinu. Till. er um það, að styrkir til þessara bókasafna tvöfaldist, miðað við það, sem lagt er til í fjárlagafrv. Þessi bókasöfn eru í kaupstöðum, ég held öll utan Rvíkur nema Iðnbókasafnið í Rvík. Þessar upphæðir í fjárlagafrv. eru allar lágar; hæst er 2500 kr., sem mundi eftir brtt. okkar verða 5 þús. kr., en lægst er í frv. 800 kr. tillag til eins af þessum bókasöfnum, sem mundi þá verða 1600 kr. Hér er því ekki um neinar geysifjárupphæðir að ræða, ekki nein mjög aukin útgjöld fyrir ríkissjóðinn. En að hinu leytinu mundi þó, ef hækkanir þessar væru samþ., þessum bókasöfnum verða gert auðveldara að afla sér nokkurra af þeim bókum, sem á bókamarkaðinum eru, og til þess þannig að ná því takmarki, sem starfsemi bókasafna miðar að, að geta miðlað alþýðu manna, sem sjálf hefur ekki ráð á að kaupa þessar bækur, bókunum samt sem áður til lestrar. Það liggur í augum uppi, að bókasöfnum er miklu torveldara að eignast þær bækur, sem nú eru á boðstólum, heldur en áður hefur verið, ef þau hafa ekki yfir meira fé að ráða en áður, þar sem bækur hafa margfaldazt í verði á síðustu árum. Hins vegar held ég, að styrkur til þessara safna sé óbreyttur frá því, sem áður hefur verið. En ef hann er látinn standa óbreyttur í fjárlagafrv., þá þýðir það það, að söfnin mundu ekki geta keypt nema miklu minna af bókum heldur en áður var. Ég vænti því, að hv. þm. fallist á nauðsyn þessara breyt. á framlögunum til bókasafnanna.

Þá er loks hér á sama þskj. undir XXIV. lið brtt., sem ég er líka meðflm. að ásamt hv. p. þm. Reykv. (BrB) og hv. 8. þm. Reykv. (SigfS ), um stóraukið framlag til alþýðutrygginganna. Hefur þegar verið gerð grein fyrir því, að þessi till. um aukið framlag til trygginganna er hugsuð þannig, að ef síðar á árinu, eins og rætt hefur verið um og hæstv. ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún mundi vilja, verður látin fara fram endurskoðun á alþýðutryggingal. og ef síðar á árinu yrðu gerðar samþykktir, sem hefðu í för með sér aukin útgjöld vegna alþýðutrygginganna, að þá séu möguleikar til þess að hafa fé fyrir hendi, ef á þann hátt yrði bætt úr ákaflega brýnni þörf, sérstaklega gamalmenna, sem eftir alþýðutryggingal. hafa farið algerlega á mis við allan þann stríðsgróða, sem oltið hefur yfir þjóðina á síðustu árum. Gamalmennin hafa ekki átt þess kost eins og aðrir á þessum tímum að bæta lífskjör sín.

Mér finnst ekki ástæða til að fjölyrða frekar um þessar till. og ætla ekki heldur, þótt ástæða væri raunar til, að ræða nánar en gert hefur verið um aðrar till. á þessu þskj., en er þeim fylgjandi, enda eru þær flestar fluttar af samflokksmönnum mínum, og þeir hafa gert grein fyrir þeim.