01.02.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður. Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um, að rétt væri að taka brtt., sem fram eru komnar frá fjvn., til athugunar og afgreiðslu við 3. umr. þessa máls. Ég hef áður lýst því, að nóg væri af brtt., sem lagðar yrðu fram við 3. umr. Tel ég það vera langeðlilegast, að þessar brtt. verði afgr. til n. við þessa umr.

Ég tel ekki ástæðu til þess nú að fara út í einstakar till., vegna þess að ég gerði það í framsöguræðu minni í upphafi þessarar umr.

Þá var það ræða hv. 3. þm. Reykv., sem ástæða væri til að gera að umtalsefni. Hann kemur hér og segir okkur, að í sjóði séu 32 millj. kr., en svo kemur hæstv. núverandi fjmrh. og segir, að þar séu ekki 32 millj., heldur 26. M.ö.o. eiga einhvers staðar að hafa legið 6 millj. kr. hjá einstökum ríkisstofnunum. En af þessum 26 millj. kr., er hv. þm. taldi í sjóði, lýsti hann yfir, að 24–25 millj. kr. væri þegar ráðstafað. Nú verð ég að segja það, að mér finnst það ákaflega einkennilegt að vera að telja í sjóði það fé, sem ráðstafað er til greiðslu næstu daga. Ég hélt, að það ætti að gilda sú sama regla hjá ríkinu sem öðrum stofnunum að telja fram bæði eignir og skuldir, eins og það hvort tveggja liggur fyrir í það og það skiptið. Mig langar til í þessu sambandi að minna hv. 3. þm. Reykv. á, að stærsti útgjaldaliðurinn af tekjuafganginum var samþ. með þál., sem var samþ. eftir meðmælum ríkisstj. þeirrar, er hann átti sæti í. Og svo var ákafinn mikill í að fá þessa þál. samþykkta, að þáverandi forsrh. bað um, að till. yrði ekki vísað til n., til þess að hún gæti fengið sem skjótasta afgreiðslu. En þessi till. hefur nú bakað ríkissjóði um 20 millj. kr. útgjöld. Og á þessu lá svo mikið, að málið mátti ekki fá formlega afgreiðslu í nefnd.

Um leið og þál. þessi var afgr., lýsti þáverandi forsrh. yfir því, að hann mundi láta tili. koma til framkvæmda og greiða féð úr ríkissjóði eftir fyrirmælum till. Verður að álita það eftir þessa yfirlýsingu, að hún feli í sér skuldbindingu fyrir ríkissjóð á þessari greiðslu. En nú kemur hv. 3. þm. Reykv. og segir, að það sé ekki rétt að borga verðuppbæturnar í reiðu fé, en hvernig hljóðar það við yfirlýsingu fyrrv. forsrh.? Hefur hún þá verið markleysa ein, eða sér hv. 3. þm. Reykv. eitthvert ráð til þess, að Alþ. og ríkisstj. geti komið sér hjá þessari greiðslu án þess að sóma ríkisins sé misboðið? Þetta er víssulega veigamikið atriði og mikils um vert, að hv. 3. þm. Reykv. geri Alþ. nánari grein fyrir þessu og upplýsi, hvort hægt sé að halda í þetta fé í ríkissjóði án þess þó að bregðast þeim loforðum, sem Alþ. hefur gefið.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. að láta alldrýgindalega yfir ullinni. Hann var að tala um, að réttast væri fyrir ríkið að geyma ullina þar til eftir stríð og selja hana þá á háu verði. Hann vildi láta líta svo út, að hér væri um einhvern búhnykk að ræða fyrir ríkissjóð. Ég veit nú ekki, hvað á að segja um þessa bjartsýni hv. 3. þm. Reykv. Mér er kunnugt um það, að hægt er að selja ullina til Ameríku, en ef hv. 3. þm. Reykv. sér einhvern nýjan markað fyrir ullina, þá bið ég hann að gera svo vel að upplýsa Alþ. um það. Mér er nú næst að halda, að þetta tal hv. 3. þm. Reykv. sé sprottið af einhverjum draumsýnum hans hér í kvöld og það sé ekki hægt að draga á land neitt af þeim verðuppbætum, sem að ófyrirsynju hefur verið lofað, eða þá að hann sé hér að reyna að leiða athyglina frá því, hvernig hann hefur skilað af sér ríkissjóðnum, þannig að ekkert verður eftir af brúttótekjum ársins 1942, sem er mesta tekjuár, er yfir okkur hefur komið. Á þessu ári voru tollar og skattar o.fl. áætlað 22 millj. kr., en verða 86 millj. M.ö.o., fjórfaldað á við áætlunina. Af öllu þessu peningaflóði er svo ekki annað eftir en litill sjóður fram yfir skuldbindingar ríkissjóðs. Þetta er nú það, sem eftir þennan fyrrverandi fjmrh. liggur og fylgir honum út úr ráðhembættinu, og honum finnst þetta auðvitað gott og blessað. Það má segja, að hér á það vel við, að litlu verður Vöggur feginn.

Mér skildist helzt á hv. 3. þm. Reykv., að eina ráðið við verðbólgunni væri atvinnuleysi. Það ætti því ekki að leggja í framkvæmdir, heldur reyna að koma á atvinnuleysi hjá verkamönnum og torvelda aðstæður bænda. Þetta er auðvitað svo mikil fjarstæða, að ekki er hægt að eyða orðum að því.

Eins og nú er málum komið, er um tvennt að velja við afgreiðslu fjárl. Annaðhvort er að afgr. fjárl. eins og gert var með fjárl. '42, að áætla ekki nema hluta af tekjum ársins og láta ríkisstj, hafa frjálsar hendur með að valsa með það, sem fram yfir er, eins og henni þóknast. Hin leiðin er sú, að áætla tekjurnar eins nærri sanni og komizt verður á þessum brjáluðu tímum, eins og einn merkur Íslendingur hefur svo sniðuglega komizt að orði, og láta ríkisstj. ekki hafa meira fé til frjálsra umráða en góðu hófi gegnir. Ég aðhyllist þessa síðari stefnu, og ég er sannfærður um, að hún er sú leið, sem við eigum að fara. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að sú stefna verði ekki ofan á.