02.02.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Ég á hér aðeins eina litla brtt. á þskj. 312, um, að læknisvitjunarstyrkir í Vestur-Skaftafellssýslu verði hækkaðir litið eitt. Eins og nú er, er styrkurinn 300 kr. og 250 kr. Eins og allt hefur hækkað, ekki sízt ferðalög, verður ekki annað séð en að í hlutfalli við annað sé sjálfsagður hlutur að leiðrétta þetta. Þessar upphæðir eru smávægilegar fyrir ríkissjóðinn, en skipta mjög miklu fyrir einstaklinga, sem verða fyrir áföllum. Það er alveg vitað, að 300 kr. er ekki mikið, eins og nú er komið, — í hæsta lagi fyrir 1–2 ferðum, og eftir því sem allt hefur hækkað, er ekki ósanngjarnt, að þessi liður hækki líka. Ég ætla svo ekki að fara fleir í orðum um þetta, og býst við, að þess þurfi ekki, en þm. skilji nauðsyn þess.

Inn í þær umr., sem almennt hafa farið hér fram um afgreiðslu fjárl., ætla ég ekki að blanda mér. Menn telja furðulegt, að afgreiðsla fjárl. sé öðruvísi en venjulega, eftir það að útgjöld ríkisins hafa tvöfaldazt á örfáum mánuðum. Ég tel það ekki furðulegt. Mér finnst eðlilegt, að við verðum að einhverju leyti varir við þá fjárhagslegu röskun, sem orðið hefur í þjóðfélaginu, og fáir eru búnir að átta sig á til fulls, en ég verð að telja það furðulegt, að þeir menn, sem settu á stað þessa fjárhagslegu röskun í þjóðfélaginu, sem hefur tvöfaldað útgjöld ríkisins á fáum mánuðum, skuli vera að fjargviðrast yfir því, að allt hefur ekki sinn venjulega gang um afgreiðslu fjárl. Það er furðulegt, að mennirnir, sem stofnuðu til þess í vor að láta allar hömlur niður falla með þeim afleiðingum, að allt verðlag tvöfaldaðist, skuli hafa brjóstheilindi til að minnast á þetta. Það er eins og þessir menn séu þess eigi vitandi, hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Ég hygg, að það sé kominn tími til þess, að fjárl. verði afgr. og að þau verkefni sem blasa við, ættu að opna augu manna fyrir því, sem gerzt hefur undanfarna mánuði í íslenzkum stjórnmálum. Ég hygg, að þessir menn ættu ekki að áfellast þá, sem standa að afgreiðslu fjárl. Þeir ættu heldur að reyna að rannsaka árangur verka sinna og reyna að koma fremur fram með auðmýkt en með þeim ofstopa, sem hefur einkennt þá við þessa nokkuð óvenjulegu afgreiðslu fjárl., sem hér hefur farið fram.

Um þá brtt., sem hér hefur mest verið rædd, styrkinn til skálda og listamanna, ætla ég að segja það, að ég álít það bjarnargreiða, sem verið er að gera listamönnunum með því að koma með þessa till. inn í þ., og finnst mér, að umr. þær, sem hér hafa farið fram, þar sem teknir eru einstakir menn og rætt um kosti þeirra og galla, séu engum til skemmtunar eða gagns, og sízt listamönnunum sjálfum, og er afgreiðslu málsins þannig farið, að hún hlýtur að vera öllum, a.m.k. þeim, sem hlut eiga að máli, afar hvimleið. Þetta var svo áður fyrr, og nú er stofnað til þess enn á ný að draga þessa menn inn í umr. og láta meta skáldin með þeirri persónulegu afgreiðslu, sem verður, þegar meta á menn og verk þeirra, og hygg ég, að með þessu sé þeim lítill greiði gerður. Hitt álít ég miklu skynsamlegra að láta afgreiða þetta til einnar n. utan þ. og veita til þess ákveðna upphæð. Það er vitað, að ýmsir telja sig óánægða með þessa n., en ég vil benda á það, að það var óánægja með þessi mál, meðan þ. afgreiddi þau, og það verður alltaf einhver óánægja. En á meðan þetta er afgreitt af n., sparast a.m.k. slíkar umr. sem hér hafa farið fram, og hygg ég réttara, að þær fari fram í n. en í þinginu, þar sem eiga sæti 52 menn og allir eða flestir mundu þurfa að láta ljós sitt skína um það, hvernig álit þeir hefðu á þessum mönnum og hvernig þeir væru að innræti og gáfum. Þess vegna vildi ég mælast til þess fyrir listamennina sjálfa, að þessi till. yrði tekin aftar og farin verði önnur leið til þess að úthluta þessu fé en sú, sem þjóðin öll er búin að fá skömm á.