03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Lúðvík Jósefsson:

Það hefur verið föst venja að útvarpa framhaldi 1. umr. fjárl., hinum svonefndu eldhúsumræðum, enda gera þingsköp ráð fyrir því. Við afgreiðslu fjárl. 3 undanfarin ar hefur þetta þó orðið á annan veg. Þjóðstjórnin sáluga braut þessa venju og neitaði að útvarpa eldhúsumræðum. Nú er þjóðstjórnin endanlega dauð, og því hefur nú orðið ofan á að útvarpa eldhúsumræðum, en með sérstöku samkomulagi á milli flokkanna hefur sú ein breyting verið gerð á, .að þessar útvarpsumræður eru í lok 2. umr. fjárl.

Af þeirri ástæðu einni, að þjóðstjórnarflokkarnir hafa allt fram að þessu neitað að útvarpa eldhúsumræðum um stjórnarstefnu sína undanfarin ár, væri full ástæða til að rifja nú rækilega upp fjármála- og atvinnupólitík þessara flokka s.l. 4 ár. En bæði vegna þess, að sú upprifjun er óhugnanleg, og eins vegna hins, að allmargt af því, sem þar yrði upp talið, er flestum orðið allkunnugt af undanförnum kosningaátökum, þá mun ég ekki rekja ýtarlega stjórnmálastefnu þjóðstjórnarinnar að þessu sinni. En allir þeir, sem í alvöru vilja gera sér grein fyrir þeim margvíslegu vandamálum, sem þjóð okkar nú glímir við, geta alls ekki komizt hjá því að íhuga nokkuð þá stjórnarstefnu, sem leitt hefur þjóðina í allan þennan vanda.

Nú er varla til það mannsbarn á landi hér, sem ekki talar um dýrtíðardrauginn, sem allt er hér vitlaust að gera. Varla til sá maður, sem ekki hræðist yfirvofandi atvinnuleysi. Ekki til sá sjómaður, sem ekki gerir sér grein fyrir þeirri hættu, sem minnkandi og úr sér genginn skipastóll þýðir fyrir land okkar. Og fáir munu þeir bændur vera, sem ekki skilja, að landbúnaður okkar er, hvað framleiðslutæki snertir, langt á eftir tímanum.

Skyggnumst nú um, hvað gerzt hefur undanfarin ár, og dveljum þá eins stutt og mögulegt er við stjórnarafglöp þjóðstjórnarinnar.

Þrátt fyrir margendurteknar aðvaranir okkar sósíalista var landið vörubirgðalaust, þegar stríðið skall á. Sú óforsjálni þýddi, að þjóðin var óviðbúin hækkandi vöruverði og háum stríðsfarmgjöldum. Hefðum við átt vörubirgðir á borð við flestar aðrar þjóðir, sem sáu hvað að fór, þá hefðum við getað til mikilla muna dregið úr fyrstu dýrtíðarbylgjunni. Þetta var fyrsta höfuðsynd þeirra, sem með völdin fóru í okkar landi í stríðsbyrjun. Önnur stórsynd þeirra var verðfelling íslenzku krónunnar. Sú ráðstöfun orsakaði stórum aukna dýrtíð og jafngilti í raun réttri því að opna allt upp á gátt fyrir dýrtíðarflóðinu. En þeir, sem með völdin fóru, létu ekki við þetta sitja. Í árslok 1939 breyta þeir tollalöggjöfinni á þann veg, að tollarnir hækkuðu gífurlega, og sem eðlileg afleiðing af því hækkaði vöruverð allt stórkostlega. Nú eru kunnar tölur, sem gefa nokkra hugmynd um, hve stórtæk þessi ráðstöfun hefur orðið á að magna dýrtíðina. Árið 1939, sem er síðasta árið, sem gamla tollalöggjöfin var í gildi, námu tollarnir alls um 9.4 millj. Fyrsta ár hinnar nýju toIlalöggjafar (árið 1940) urðu þeir um 13.5 millj., og 1941 námu þeir um 24.7 millj., og s.l. ár 1942 námu þeir um 45.2 millj. Hér er ekki um neina smáræðis hækkun að ræða. Ef borin eru saman árin 1939 og 1942, sést, að tollarnir eru 35.8 millj. hærri 1942 en þeir voru 1939. Og vert er að minnast þess um leið og þessar ferlegu tollafúlgur eru nefndar, að það er ekki nóg með, að þær bætast ofan á hið háa vöruverð í landinu, heldur er öll álagning, bæði heildsala og smásala, einnig lögð á þessa tolla-upphæð. Það er talið, að samanlögð meðaltalsálagning smásala og heildsala sé ekki undir 50%. Þegar því tollarnir nema 45 millj., eins og s.l. ár, hækkar vöru-verðið af vörum þeirra um 65–70 millj. kr.

Auk þessara tilgreindu ráðstafana þjóðstjórnarinnar gömlu, sem allar miða að aukningu dýrtíðarinnar, þróaðist svo undir stjórn hennar skefjalaust gróðabrall kaupsýslustéttarinnar. Eftirlit með vöruverði var nafnið eitt. Þær framtalsskýrslur, sem þegar eru komnar fram, munu sýna, að í ár fer kaupsýslustéttin fram úr stórútgerðarmönnum með gróða þrátt fyrir allt það af tekjum þeirra, sem eflaust ratar að venju fram hjá öllum skattaskýrslum.

Í atvinnumálum hefur stjórnarstefna síðustu ára sízt verið betri en stefnan í viðskipta- og verzlunarmálum. Ekkert hefur verið gert til þess að skapa nýja þætti í atvinnulífi okkar. Aðalatvinnuvegur okkar, sjávarútvegurinn, er hættulega kominn. Fiskiflotinn hefur minnkað og mjög gengið úr sér. Nokkrir stórútgerðarmenn hafa verið látnir græða of fjár, en engin teljandi trygging verið sett fyrir því, að sá gróði komi útgerðinni nokkurn tíma til góða. Hin fjölmenna smáútgerð hefur líka ausið upp verðmætum og auðgað ýmsa, en í skjóli þeirra, sem með völdin hafa farið, hafa hvers kyns braskarar lagzt svo þungt á þennan þátt útgerðarinnar, að nú er hann algjörlega ófær um að endurnýja og bæta veiðitækin, eins og það er nú orðið erfitt. Og hinn aðalatvinnuvegur okkar, landbúnaðurinn, stendur sízt betur að vígi. Framleiðslutækni hans stendur að mestu í stað, og eina leiðin, sem valdhafarnir hafa eygt fram að þessu, er að ausa tugum millj. kr. í styrki til þessa atvinnuvegar, en næstum ekkert gert í þá átt að breyta framleiðsluháttunum, svo að þeir samsvari kröfum nútímans. Atvinnuhættir til sveita eru enn þá svipaðir því, sem þeir hafa verið hjá okkur öldum saman, en kröfur sveitafólksins til þæginda og menningar hafa hins vegar, eins og allra Íslendinga, gjörbreytzt. Mikið af landbúskap okkar er rekið á álíka frumstæðan hátt og ef útgerð okkar vær í enn stunduð á opnum bátum með handfæri. Það þyrfti að vera dýrt hvert fiskikílóið, ef í stað togaranna, dragnóta- og línubátanna okkar væru komnir litlir handfærabátar, sem framfleyta ættu þeim tugum þúsunda, sem kaupstaðina byggja, með þeim kjörum, sem nú eru gerðar þar til lífsins. Útgerð okkar hefur þróazt frá frumstæðu færafiskiríi smábáta til stórra vél- og gufuskipa með nútíma veiðitækjum. En verulegur hluti sveitabúskapar okkar hefur ekki getað af eigin rammleik rutt sér braut til nútímatækni. Það ár, sem nú var að líða, hafa styrkir ríkisins til landbúnaðarins numið um 25–30 millj. kr., eða fyllilega öllum tekjuafgangi ríkissjóðs. Þrátt fyrir þessa geysilegu styrki stendur landbúnaðurinn í sama öngþveitinu. Styrkjunum er frámunalega heimskulega úthlutað, því að þeir fá mest, sem minnst þurfa, en hinir minnst, sem mest þurftu.

Ég hef nú stiklað á því stærsta af stjórnarframkvæmdum síðustu ára. Ég hef bent á, með hvaða ráðum þjóðstjórninni tókst að hafa verðlagsvísitöluna í 272 stigum, þegar síðustu hreytur hennar hrökkluðust frá völdum í árslok 1942. Og ég hef bent á, hvernig atvinnuvegir okkar eru í rauninni í sárum þrátt fyrir öll uppgripin að undanförnu og hvernig allur gróðinn hefur runnið til nokkurra milljónamæringa, en ekki til eflingar atvinnuveganna. Auk þessa má svo bæta við, að ríkissjóði er skilað tómum eftir mestu tekju-öflunarár, sem við nokkru sinni höfum þekkt. Af tekjum ársins 1942 verður ekki hægt að verja neinu í raforkumálasjóð né framkvæmdasjóð, sem áttu þó að raflýsa allt landið og vera til stórfelldra framkvæmda að stríðinu loknu.

Ég ætlaði ekki að dvelja lengur við syndir þjóðstjórnarinnar en nauður rak til, en ég ætla, að þær staðreyndir, sem ég nú hef dregið fram, sé nauðsynlegt að hafa í huga, þegar gengið er á sjónarhól og svipast um, hvað nú sé framundan. Á s.l. ári fóru fram tvennar Alþ. kosningar, sem leiddu m.a. til þess, að Sósfl., sem einn allra flokka markaði sér stöðu gegn þjóðstjórnarpólitíkinni, jók fylgi sitt til mikilla muna. Þau úrslit sýndu, að þjóðin var yfirleitt óánægð með stefnu þjóðstjórnarinnar og vildi alls ekki að hún héldi áfram. Flokkarnir hafa líka skilið þetta svo. Nú hefur þingið setið í 3 mánuði, og gömlu samstarfsflokkarnir hafa enn ekki lagt í að taka upp gamla þráðinn, þar sem hann slitnaði. Að vísu hefur enn þá ekki orðið samkomulag um nýja stefnu, og því situr nú við það óvenjulega stjórnarástand í okkar landi, sem allir vita. En hvað er þá framundan? Verður lagt út á þjóðstjórnarbrautina aftur? Eða verður upptekin ný stefna? Allmikil óvissa er um þá stjórn, er nú situr. Enginn veit með víssu, hvert hún ætlar, en ýmis sólarmerki benda þó til þess, að lítið muni hún gera stórar breytingar frá því, sem verið hefur.

Þær umræður, sem nú fara hér fram, eru í raun réttri um fjárlagafrv. ársins 1943. Það er þó venja við eldhúsumræður að ræða stjórnmálaviðhorfið almennt, og þá einkum stjórnarframkvæmdir liðins árs. Nú stendur svo á, að fjárlagafrv. það, sem hér liggur fyrir, er fyrir það ár, sem þegar er byrjað. Fjárl. þau, sem nú verða samþykkt, segja því mjög mikið til um, hvað gera skal — hvert stefna á.

Nú þegar hafa orðið á Alþ. allsnarpar umræður um frv. þetta, og glöggt hefur komið í ljós við það, að allsterk öfl leitast enn við, að svipuð stefna verði mörkuð með þessum fjárlögum og hér hefur að undanförnu ríkt. Meiri hl. fjvn. hefur fram að þessu neitað að leggja nokkrar till. fyrir Alþ. um fjárlög til verklegra framkvæmda, menningarmála og ýmissa annarra félagslegra mála. Þær till. eiga nú ekki að leggjast fram fyrr en við 3. umr., þó að alltaf hafi verið venja að leggja þær fram við 2. umræðu. Það er augljóst, að ástæðan til þess er sú, að í ráði Ar að verja smánarupphæðum til þessara mála og bera enn sem fyrr við féleysi.

Tekjur ríkissjóðs námu s.l. ár um 86 millj. kr., en helzt er að skilja á afturhaldsseggjum þeim, sem einkum standa fyrir þessu og illu heilli enn þá ráða mestu í stærstu flokkum þingsins, að þeir telji ómögulegt eða óvarlegt, eins og þeir orða það, að áætla tekjurnar í ár meira en 50-55 millj. eða um 30 millj. lægra en þær reyndust s.l. ár. Og ef slíkt yrði gert, er bein afleiðing þess sú, enda auðvitað að því stefnt, að framlög til verklegra framkvæmda, menningarmála og annarra félagslegra mála mundu beinlínis stórlækka frá því, sem þau voru t.d. s.l. ár. Nú vita hins vegar allir, að alþýðan í landinu hefur fastlega vænzt þess, að einmitt nú á þessum miklu peningatímum yrðu framkvæmdir með mesta móti. Allt í kringum landið hafa t.d. bæjar- og hreppsfélög búið sig undir að hefja hafnarbætur, og mörg eru byrjuð á framkvæmdum. Ríkið á að leggja ákveðið framlag á móti, en það virðist helzt vera ætlun gamla þjóðstjórnarandans að hefta þessar framkvæmdir með því að bera við getuleysi ríkissjóðs. Hvað segja þeir, sem búa í vegalausum byggðarlögum úti um land og gert hafa sér miklar vonir um rífleg framlög til bættra samgangna einmitt nú, þegar tekjur ríkisins eru margfaldar á við það, sem þær nokkru sinni áður hafa orðið, ef nú á að bera við féleysi og leggja jafnvel minna til vegamála en áður hefur verið gert? Og hvað segja þeir, sem undanfarin ár hafa treyst því að þegar fjárhagslega úr raknaði fyrir ríkissjóði, mundi hann afmá þá hneysu að láta víðs vegar um landið kennslu barna fara fram í óhæfum húsakynnum, ef nú, þegar tollarnir á alþýðu manna hafa verið hækkaðir um tugi milljóna, á engan lit að sýna til umbóta á þessu sviði? Hvað segja sjómenn landsins, sem mest og bezt hafa staðið að aukningu tekna ríkissjóðs, og reyndar allra í landinu, ef enn á að gleyma vitabyggingum og ef nota á fyrirslátt um féleysi ríkissjóðs til þess að neita að efla nýbyggingu veiðiflotans, sem óðum gengur úr sér? Já, og hvað ætli þær þúsundir verkamanna segi, sem undanfarið hafa unnið hjá setuliðinu, eftir að ríkissjóður hefur búið við slík fjáraflaár og kunnugt er, ef fyrstu beiðni þeirra um vinnu við ísl. framkvæmdir yrði neitað vegna féleysis ríkissjóðs?

Enginn þarf að efast um, að allir þessir aðilar mundu fyllast réttlátri reiði, ef nú yrðu samþykkt niðurskurðarfjárlög og enn yrði haldið á þjóðstjórnarbrautina. Þeir menn, sem slíka stefnu undirbúa, hafa einnig aðra leið til þess að spara en þá að leggja lítið til verklegra framkvæmda; þeir vilja líka lækka laun þess fólks, sem verkin á að vinna.

Úr gamla þjóðstjórnarskjánum heyrast nú raddir, sem tala um, að nauðsynlegt sé að hætta að greiða fulla verðlagsuppbót á laun. Morgunblaðið talar t.d. um það sem sjálfsagða leið, þ. 23. jan. s.l., að greiða aðeins 80% verðlagsuppbót í stað 100%, sem nú er. Verkafólk getur gengið að því sem gefnu, að árásir verða gerðar á launakjör þess, a.m.k., ef samtök þeirra láta finna á sér nokkurn bilbug. En hvernig hafa þeir herrar, sem fremstir standa í fylkingu þeirri, sem berst fyrir launalækkun verkafólks, hvernig hafa þeir skammtað sjálfum sér laun? Eru þeir ekki flestir í 4–5 háttlaunuðum nefndum og bitlingum auk síns vel launaða starfs? Hafa þeir ekki 6–12 þús. kr. í laun frá hverri n., jafnvel þó að þeir mæti aldrei á fundum eða þurfi á annan hátt neitt fyrir n. að gera? Og ekki hefur þessum herrum dottið til hugar að spara, þegar þeir greiddu sjálfum sér og ýmsum háttsettum embættismönnum á milli 8–900 þús. kr. úr ríkissjóði í laun s.l. ár., án allra lagaheimilda og alveg umfram þær grunnkaups- og dýrtíðar-upplætur, sem menn almennt fengu. Þeim afturhaldssálum, sem helzt heimta lækkun launa verkafólks, kom ekki í hug sparnaður, þegar þær kepptust við að ausa út fé ríkissjóðs til þess að kaupa sér fylgi við síðustu kosningar. Hin gjörspillta pólitík þessara manna afhjúpar sig greinilega, þegar þeim innbyrðis slær saman í kapphlaupinu um völdin.

Mál eins og úthlutun bifreiða verður stórpólitískt hjá þessum mönnum, að maður nú ekki tali um mál eins og það, hvor flokkanna, Framsóknar- eða Sjálfstfl., skuli hafa réttinn til þess að gefa bændum síldarmjöl rétt fyrir kosningar. Síldarmjöls- og bílapólitík með tilheyrandi bitlinga- og nefndafargani er einkenni á pólitík þeirra manna, sem mestu hafa ráðið og nú undirbúa árás á kjör alþýðu.

Vegna kosningaúrslitanna síðustu hafa afturhaldsöflin enn ekki þorað að opinbera sinn fulla fjandskap og ekki haft mátt til að koma saman stjórn um hugðarefni sín. Vinstri öflin hafa staðið gegn því. Ef alþýðan í landinu sýnir alls staðar þar, sem hún má því við koma, einbeitta andstöðu gegn afturhaldinu og jafn einbeittan vilja til róttækra stefnuskipta, þá mun takast að mynda hér stjórn, sem vinnur fyrir alþýðuna en ekki auðmannastéttina. Spurningin er, hvort alþýðan ber gæfu til að ráða stefnunni með samstillingu sinni um það, sem hún vill, og knýja þá menn til undanhalds, sem enn standa í vegi þess, að slík stjórn geti myndazt.