03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Ólafur Thors:

Það mun vera Framsfl., sem óskað hefur þess, að þessar útvarpsumræður færu fram. Sjálfstfl. lagði til, að þeim yrði frestað, þar til hægt yrði að opna þjóðinni innsýn í framtíðina, eftir að hin nýja ríkisstj. hefur kunngert, hvað hún hyggst fyrir og með hverjum hætti hún ætlar að freista þess að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar, en þeirri ósk fékkst ekki framgengt.

Það er réttur hvers þingflokks, samkv. þingsköpum, að kref jast slíkra útvarpsumræðna, og vildi þá Sjálfstfl. ekki skorast undan að taka þátt í þeim, enda þótt við teljum að þjóðin sé nú eftir tvennar Alþingiskosningar á síðasta ári orðin þreytt á þrasi og þrætu um, hvort þessi valdi eða hinn, að margt hefur farið miður en skyldi, og hugsi nú meir um það, sem framundan er, en liðna tímann. En eðli málsins samkv. hljóta þessar umræður að fjalla mest um fortíðina, þar eð allir flokkar Alþ. virðast hafa gert um það þegjandi samkomulag að leggja engar till. fram á Alþ. um lausn dýrtíðarmálanna, meðan ríkisstj. vinnur að undirbúningi þeirra mála. Má og segja, að með þeim hætti sé bezt búið að ríkisstj. or meiri líkur fyrir því, að till. hennar fái þingfylgi.

Af þessum ástæðum er þess lítill eða enginn kostur að gera framtíðinni skil, og mun ég því að þessu sinni aðallega gefa skýrslu um það, er skeð hefur að undanförnu. Mun ég leitast við að gera það í fáum höfuðdráttum með sérstakri hliðsjón af dýrtíðarmálunum og afstöðu Sjálfstfl. til þeirra og með viðkomu á einstöku öðrum sjónarhól á vettvangi stjórnmálanna. Ég mun leitast við að láta staðreyndirnar tala, að segja óvilhallt frá atburðunum, eins og þeir hafa verið, og með því hrekja rökvillur, rangfærslur og ádeilur, er nú og áður hafa verið í frammi hafðar af andstæðingum Sjálfstfl. og ekki sízt ræðu háttv. síðasta ræðumanns, Eysteins Jónssonar.

Sjálfstfl. mun svo skýra framtíðarfyrirætlanir sínar, eftir því sem tilefni gefst til, þegar stjórnarfrumvörp þau, sem væntanleg eru, verða rædd á Alþ.

Þegar íslenzk króna var verðfeld snemma árs 1939, þótti sýnt, að af því mundi leiða hækkandi verðlag í landinu. Í því skyni að hafa hemil á verðlaginu voru þá með lögum settar miklar skorður við hækkun á innlendu afurðaverði og kaupgjaldi. Segja má, að þau lög næðu tilgangi sínum, og urðu með þeim hætti af krónulækkuninni litlar verðhækkanir. Árið eftir var þess krafizt af umboðsmönnum bænda á þingi, að lögbindingin yrði leyst af innlenda afurðaverðinu, og náði það fram að ganga. Eftir það má telja, að þessi nytsömu lög misstu marks og yrðu óvirk, enda voru þau skömmu síðar, eða í árslok 1940, úr gildi felld, hvað snerti kaupgjaldið.

En afleiðingin lét ekki á sér standa. Þá hófst hið illræmda kapphlaup milli afurðaverðsins og kaupgjaldsins. Hver hækkunin elti aðra, og hin fyrsta og örlagaríkasta dýrtíðaralda flæddi yfir landið og náði hámarki í árslok 1941, þegar vísitala framfærslukostnaðar komst upp í 183 stig.

Þegar hér var komið sögu, þótti mörgum, sem eigi mætti við svo búið standa. Náðist þó eigi samkomulag um úrræðin. Á haustþinginu 1941 lagði Sjálfstfl. til, að reynd yrði hin svo kallaða frjálsa leið, þ.e., að launþegar hétu því að krefjast engra grunnkaupshækkana gegn því, að nefndir þær, er ráða verðlagi innlendra afurða, tryggðu, að það héldist óbreytt. Var þessu og vel tekið af stærstu verkalýðsfélögunum og einmitt þeim félögum, er innan sinna vébanda telja þær stéttir, er minnst bera frá borði. Var að því ráði horfið. En er leið að árslokum 1941, varð hljóðbært, að þeir launamenn, er við betri kjör búa, mundu krefjast allverulegra hækkana, og reyndist það satt að vera. Var nú sýnt, að eigi yrði lengur treyst á frjálsu leiðina, og tók þá Sjálfstfl. hinum einu rökréttu afleiðingum af því og bauðst til að lögfesta hvort tveggja, grunnkaupið og afurðaverðið, enda hafði flokkurinn þegar í öndverðu lýst yfir því, að enda þótt hann stefnu sinni samkv, vildi í lengstu lög byggja á frjálsu leiðinni, mundi hann eigi hika við að grípa til lögbindingar, ef annað reyndist óvirkt.

Það varð svo að samkomulagi í janúar 1942 milli Sjálfstfl. og Framsfl. að setja gerðardómslögin, en Alþfl. skarst úr leik, dró ráðherra sinn úr ríkisstjórninni og hóf jafnframt, ásamt sósíalistum, megnan áróður gegn lögunum. Dró það að sönnu mjög úr líkum fyrir nytsömum og nauðsynlegum árangri laganna, en þó komu þau þegar í stað að liði og stöðvuðu vöxt dýrtíðarinnar um nokkurra mánaða skeið. Stóð svo, þar til sundur dró milli Sjálfstfl. og Framsfl., en eftir að samstarf þessara flokka rofnaði út af kjördæmamálinu, snérist Framsfl. gegn lögunum, og var þá sýnt um örlög þeirra. Hófst þá hinn svonefndi smáskæruhernaður, er meðal annars stöðvaði afgreiðslu kaupskipaflotans, er svo aftur leiddi til þess, að Bandaríkin hótuðu að svipta Íslendinga þeim skipakosti, er með engu móti varð komizt af án. Stóð þá valið milli þess að hækka kaup umfram heimild gerðardómslaganna eða setja þjóðina í svelti.

Frá þeirri stundu urðu gerðardómsl. ekkert annað en dauður bókstafur, og því um ekkert að ræða annað en nema þau úr gildi til þess með því að forðast, að ofan á þá ógæfu, að þau yrðu þannig með öllu óvirk, bættist sú smán að viðhalda í orði löggjöf, sem brotin var og að vettugi virt að staðaldri.

Það var ekki ólán, heldur ill nauðsyn, að nema lögin úr gildi. Hitt var ógæfa, að þau skyldu brotin á bak aftur, en á því bera aðrir ábyrgð en Sjálfstfl., sem átti sinn þátt í að setja lögin og einn allra flokka sýndi þeim alla tíð hollustu.

Og nú sem fyrr kom hin óumflýjanlega afleiðing tafarlaust í ljós, eins og sjálfstæðismenn alla tíð sögðu fyrir. Ný dýrtíðaralda reis, flæddi yfir landið og náði hámarki í desember s.l., er vísitalan komst í 272 stig.

Þetta er í fæstum orðum saga dýrtíðarinnar. Líklegt er, að hún sé að talsverðu leyti sjálfskaparvíti, en hitt verður að viður kenna, að enn er órannsakað mál, hvort eða að hve miklu leyti hægt var að búast við, að við Íslendingar gætum glímt við þau alveg einstöku fyrirbrigði á sviði athafna- og fjármálalífsins, sem á vegi okkar höfðu orðið, er saman fór margfalt verð útfluttra afurða, áður óþekkt eftirspurn íslenzkrar vinnuorku og aðrar stórtekjur þjóðfélagsþegnanna vegna fjáreyðslu hinna erlendu setuliða, allt með þeim árangri, að hagur landsmanna út á við hefur batnað um 300–400 milljón kr. á 2–3 árum. Verður að telja vafasamt, að nokkur þjóð, jafnvel þótt meiri hafi reynslu í fjármálum en Íslendingar, hafi náð tökum á þeim óvæntu og lítt útreiknanlegu sveiflum.

Það er ekki margt, sem íslenzkir stjórnmálamenn eru sagðir sammála um á þessum síðustu og verstu dögum, enda sæta þeir fyrir slíkum ámælum, að hver aulabárður af öðrum þykist bær um að kasta hnútum að Alþ., og vita þó að sönnu fæstir, um hvað þeir eru að fjasa. Eitt virðist þó ríkja um full eining innan Alþ., en það er, að öll verðbólgan og dýrtíðin sé eitthvert hið ægilegasta þjóðarböl, er yfir Íslendinga hefir verið fært, og keppist því hver við að kenna öðrum um.

En hvað er þá þessi dýrtið, þetta hræðilega böl, sem helzt virðist jafnað til Svarta dauða eða Stóru bólu eða, svo að mildara sé að kveðið, hallæris og hungurs?

Hagstofan segir, að 4/5 hlutar dýrtíðarinnar stafi frá kaupgjaldi og verðlagi innlendra afurða. Eftir því eru það þeir, sem barizt hafa fyrir grunnkaupshækkunum og hækkun á verði framleiðsluvara bænda, sem ógæfunni valda. Og samkv. þessari umsögn Hagstofunnar, þá ætti mikil vinna og hátt kaup annars vegar, en sæmilegar tekjur bænda vegna hagstæðs afurðaverðs hins vegar að vera alveg einhliða þjóðarógæfa að dómi almennings. Nei, ætli hér fari ekki sem fyrr, að tvær hliðar eru á hverju máli. Sæmileg klæði og skæði og þolandi lífsviðurværi þeirra, sem minnst hafa frá borði borið, og linun á skuldaviðjum bænda eru út af fyrir sig ekki ógæfa og ekki hryggðarefni, heldur gæfa og gleðiefni. Vöxtur dýrtíðarinnar hefur reynzt ráð til auðdreifingar, miðlað milli þeirra, er stundað hafa arðsömustu framleiðslu verðhárrar útflutningsvöru, og margra annarra þjóðfélagsþegna. Og frá því sjónarmiði er a.m.k. viss vinningur við dýrtíðina.

Það er þá líka sannmæli, að a.m.k. framan af stefndu margir þm. og ýmsir valdamenn utan þings markvisst að því að hækka dýrtíðina, og sumir hafa unnið að því, beint og óbeint, fram á þennan dag. Hefur fyrir mönnum vakað ýmist að losa bændur úr skuldum eða að draga fram hlut launþega. Og hitt mun einnig sannast, að takist að lækka vísitöluna og þar með afurðaverð og kaupgjald, jafnvel þótt án grunnkaupslækkana yrði, en með milljónatugum úr ríkissjóði, þá mun koma annað hljóð í strokkinn úr ýmsum áttum. Þá mun lofið alls ekki verða einróma. Það skal sannast.

En þetta er aðeins önnur hlið málsins. Hin er, að í fyrsta lagi var auðvelt að jafna milli þegnanna með því að beita gildandi skattalagaákvæðum, og á þann hátt að safna meginhluta gróðans í opinbera sjóði. Þetta var vafalaust hið eina rétta, þegar dýrtíðin hafði náð vissu marki. En auk þess bar að halda dýrtíðinni í skefjum vegna þess, hversu mjög hátt verðlag á innlendum markaði eykur örðugleikana, sem bíða þjóðarinnar, þegar útflutningsafurðir okkar falla í verði. Og loks, — og það er að því leyti aðalatriðið, að fram hjá því verður með engu móti komizt, — að þegar svo er komið sem nú er í okkar þjóðfélagi, að ýmist er framleiðsla útflutningsvarna þegar stöðvuð eða komið á fremsta hlunn með, að svo verði, beinlínis vegna þess, að verðlag afurðanna, sem ekki er sjáanlegt, að verði hækkað, rís engan veginn undir kaupgjaldinu og öðrum tilkostnaði í landinu, — þá er það alveg óumflýjanleg nauðsyn að stöðva dýrtíðina.

Af þessum ástæðum, þótt einar væru, verður að hefta vöxt dýrtíðarinnar og hef ja öfluga baráttu til að lækka hana, en mar;;t annað mælir auk þess með, að slík barátta verði hafin, og má þar t.d. nefna þær búsifjar, sem lækkandi verðgildi gerir þeim, er afkomu sína hafa byggt á föstum lífeyri eða vöxtum þess fjár, sem þeir hafa dregið saman með sparsemi og ráðdeild á langri lífsleið.

Það sem ég sagði um fríðindi þau, sem mörgum hafa í skaut fallið vegna verðfalls peninga og vaxandi dýrtíðar, má enginn skilja sem andmæli gegn glímunni við dýrtíðina. Þær athugasemdir eru fremur fram settar í því skyni að varpa ljósi á báðar hliðar þessa máls, en einkum þó til þess að minna menn á, að enda þótt víst megi telja, að hækkandi verðgildi peninga og lækkandi dýrtíð þyki ekki einhliða gæði þegar — og ef — þjóðin öðlast það hnoss, sem hún að óreyndu svo mjög þráir, þá eru staðreyndir þó þær, að svo sem komið er högum Íslendinga, er það bein lífsnauðsyn, að verðhækkun sé stöðvuð og byrjað að klifa niður stigann, meðan enn er tími til þess. Það er holt, að menn geri sér nú þegar ljóst, að líkt er um dýrtíðina eins og skóna, sem konan ætlaði forðum að kaupa. Hún bað um skó, sem væru nægilega rúmir, til þess að þægilegt væri að vera í þeim, en þó svo smáir, að hím sýndist sérlega fótnett. Menn vilja fá hátt kaup og mikla peninga fyrir vinnu sína, en framleiðandinn vill samt kaupa ódýra vinnu og launamaðurinn fá ódýra vöru.

Um það, hversu ráða beri niðurlögum dýrtíðarinnar, er óþarft að fjölyrða, vegna þess að allir þekkja þær leiðir. Vandinn er aðeins sá að ná nauðsynlegri einingu í þeim efnum. Haldbezta úrræðið og það, sem líklegt þykir, að ríkisstj. reyni að beita eftir því, sem vitað er um álit ráðherranna í þeim efnum, er lækkun grunnkaups og afurðaverðs. Hitt er svo annað mál, hvort stjórninni tekst að sameina þjóðina til átaka á því sviði. Ella vilja sumir reyna að lækka vísitöluna með því að halda niðri vöruverði á kostnað ríkissjóðs. Má vera, að það geti lánazt, en þó auðvitað að því tilskildu, að ríkissjóður hafi til þess handbært fé og að talið verði rétt að verja sjóðseign ríkisins í þessu skyni, þótt af því kunni að leiða, að ríkið reynist þá ekki þess megnugt að inna af hendi aðrar skyldur, þegar kreppan kemur, eftir að verðhrun útflutningsvörunnar skellur á. En um þetta þykir ekki tímabært að ræða, fyrr en hæstv. ríkisstj. leggur fram sínar tillögur í þeim efnum, enda verður lengst af matsatriði, hvað fært þykir, og viðhorfið breytist frá degi til dags.

Ég gat þess áðan, að í allri sundurþykkjunni yrðu menn æ meir sammála um að fordæma dýrtíðina. Ég bæti því við, að því meir sem sú eining hefur vaxið, því ríkari áherzlu hafa andstæðingar Sjálfstfl., einkum þó Framsóknarflokksmenn, lagt á að koma sökinni á Sjálfstfl. með þeim rökum, að hann hafi farið með stjórn landsins, þegar síðari dýrtíðaraldan reið yfir. Ég tel sem dæmi það sem Eysteinn Jónsson áðan sagði, að ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð í 183 stigum, þá hefðu uppbæturnar til bændanna aðeins numið litlum hluta þess, sem þær nú verði, og um þetta hefur hann einnig nýverið ritað grein í Tímann, þar sem hann ræðst að Sjálfstfl. og sakar hann um vöxt dýrtíðarinnar síðustu mánuðina. Kallar E.J. það „helstefnu“ Sjálfstfl. og sannar víti hennar aðallega með því, að vegna hækkandi vísitölu verði ríkissjóður nú að greiða bændum margfalt hærri uppbætur á kjöt, ull og gærur en ella hefði þurft. Um þetta segir Eysteinn Jónsson orðrétt:

„Það er enn eitt dæmi til glöggvunar á óheillastefnu þeirri, sem ráðið hefur í dýrtíðarmálunum, að ekki mundi hafa þurft nema lítinn hluta af þeirri upphæð, sem nú þarf til að verðbæta landbúnaðarafurðirnar, ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð.“

Ég bið menn að festa í minni orð þessa fyrrverandi ráðherra. Lítinn hluta hefði þurft til að verðbæta ullina og gærurnar af því, sem nú þarf, ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð í 183 stigum, en það var hún, þegar Alþ. samþykkti þessar uppbætur, segir Eysteinn Jónsson.

Ég minni aðeins fyrst á, að þegar flokkur Eysteins Jónssonar talar við bændur, mun hann krefjast að eiga a.m.k. engum öðrum flokki minni þátt í þeim ákvörðunum Alþingis að verðbæta þannig afurðir bænda eftir vísitölunni, enda var það flokksbróðir Eysteins, sem var fyrsti flutningsmaður þeirrar till. á Alþ. Mun bændum finnast fátt um harmagrát Eysteins yfir því, að þeir fái nú margfalt hærri bætur úr ríkissjóði á ullina og gærurnar en verið hefði, ef dýrtíðin hefði haldizt óbreytt á síðasta ári. En auk þess er þetta allt tómur misskilningur hjá Eysteini Jónssyni, ónóg athugun á málinu eða of lítil sannleiksást, en ágætt sýnishorn þeirrar gagnrýni, sem beitt er gegn fyrrv. stjórn, því hér er ekki eitt rangt, heldur allt.

Í fyrsta lagi er ekki um vöxt dýrtíðarinnar að sakast við Sjálfstfl. öðrum fremur, nema síður sé, eins og ég þegar hef sannað.

Í öðru lagi getur Framsfl. og Eysteinn Jónsson allra sízt ráðizt á Sjálfstfl. fyrir, að bæturnar fari fram úr vísitölu, úr því að þeir sjálfir fluttu þá till. á Alþ.

Og í þriðja lagi er það ekkert nema helber vitleysa, að ekki hafi „þurft nema lítinn hluta af þeirri upphæð, sem nú þarf, til þess að verðbæta landbúnaðarafurðir, ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð.“

Sannleikurinn er sá, að nú er ætlað, að verðbæta þurfi gærurnar með 8 millj. kr., en ullina með 5.3 millj. kr. Ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð í 183 stigum, eins og hún var, þegar Alþ. ákvað þessar verðbætur, hefðu þær orðið fyrir gærurnar um 1.3 millj. kr. minni, en fyrir ullina 584 þús. kr. minni. Eða m.ö.o., ef dýrtíðin hefði verið stöðvuð, þá hefðu bæturnar orðið nær 87% af því, sem þær nú verða. Það eru þessi 87%, sem E.J. kallar „aðeins lítinn hluta af þeirri upphæð, sem nú þarf til þess að verðbæta landbúnaðarafurðirnar“, og það er á svona vinsamlegri athugun málanna, að Eysteinn Jónsson reisir ákæru á hendur Sjálfstfl. fyrir „helstefnu“ S fjármála- og atvinnulífi þjóðarinnar.

Ég þarf engin orð að velja slíkri málfærslu. Hún lýsir sér sjálf. Hún dæmir og fordæmir sig sjálf.

En sleppum því og spyrjum um hitt: Hvernig stendur sá flokkur að vígi um að lýsa sök á hendur Sjálfstfl. fyrir vaxandi dýrtíð og með þeim rökum, að hækkanir hafi skeð í stjórnartíð Sjálfstfl., sem sjálfur átti veigamesta þáttinn í, að dýrtíðinni var hleypt af stokkunum með því að taka lögbindingu afurðaverðsins úr festingarlögunum árið 1940, en fór svo auk þess með stjórnarforustu, allt þar til að dýrtíðin komst í 183 stig, en ýtti loks undir síðari dýrtíðarölduna með því að bregðast gerðardómslögunum, þegar verst gegndi? Allt þetta gerði flokkur Eysteins Jónssonar. Er of mælt, að hér kasti sá grjóti, sem sjálfur býr í glerhúsi?

Slíkar ádeilur eru ósanngjarnar og engum til framdráttar, og sízt þeim, sem allir skilja, að kunna svo vel skil á gangi þessara mála, að þeir vita betur.

Sannleikurinn er sá, er ég áður lýsti, að Sjálfstfl. hefur frá öndverðu skilið böl skefjalausrar dýrtíðar og því reynt að sporna gegn henni. En vegna þess að stjórn Sjálfstfl. naut aðeins stuðnings minni hl. Alþ., þá studdist hún við eina og aðeins eina stoð í baráttunni við dýrtíðina, sem sé gerðardómslögin. Sú stoð brást, þegar Framsfl. bættist í hóp árásarmanna þeirra laga. Eftir það gat stjórn Sjálfstfl. við ekkert ráðið í þeim efnum, en neyddist til að taka því, sem að höndum bar þá fáu mánuði, meðan verið var að ljúka því hlutverki, er hún hafði tekið að sér að leysa. Þetta vita allir þm. mæta vel. Árásir á fyrrv. stjórn út af þessu eru því alveg út í hött og ekki drengilegar. Og það er beinlínis hlægilegt, þegar menn, sem þóttust bera sjálfstæðis- og kjördæmamálið fyrir brjósti, en samt settu ríkisstj. þau beinu skilyrði fyrir að firra hana vantrausti, meðan nefndum málum var siglt heilum í höfn, að hún vekti ekki ágreining, og þá allra sízt í þeim efnum, er viðkvæmust höfðu reynzt, dýrtíðarmálunum, hafa brigzlað henni um úrræða- og athafnaleysi, og það einmitt í dýrtíðarmálunum.

Hið sanna í málinu er einmitt það, sem einn vitrasti andstæðingur Sjálfstfl. á Alþ. og sá, sem hvað mestrar virðingar nýtur allra þingmanna, sagði, að ef stjórn Sjálfstfl. hefði leyft sér að verja milljónum eða milljónatugum úr ríkissjóði til þess að greiða niður dýrtíðina, þá hefði hún beinlínis svikið þau fyrirheit, er hún gaf í ræðu forsrh., er stjórnin tók við völdum, og verið stór vítaverð fyrir.

Hitt er svo annað mál, að auðvitað var það með öllu óviðunandi fyrir fyrrv. stjórn að þurfa að horfa á það auðum höndum, að dýrtíðin færi stöðugt hækkandi. En stjórnin gerði þá líka það eina, sem hún gat og henni bar að gera í þeim efnum. Hún kallaði saman fund í flokksráði Sjálfstfl., svo fljótt sem auðið var að loknum haustkosningunum, lagði þar fram og fékk samþykkta tillögu um, að stjórnin skyldi beiðast lausnar þegar í stað, er þing kæmi saman, en tilkynnti síðan tafarlaust hæstv. ríkisstjóra þennan ásetning og lagði jafnframt til, að skipuð yrði nefnd manna úr öllum flokkum í því skyni að freista þess að koma á þjóðlegri einingu til sameiginlegrar andstöðu gegn aðsteðjandi örðugleikum og virks viðnáms gegn vaxandi dýrtíð, og var n. sú skipuð nær hálfum mánuði fyrir þingsetningu.

Það er því mælt af engum drengskap og gegn betri vitund, þegar hæðiyrðum er stefnt gegn fyrrv. ríkisstj. fyrir úrræða- og athafnaleysi í glímunni við dýrtíðina, jafnt sem hitt, að stjórnin hafi hrökklazt frá völdum við lítinn orðstír. Stjórnin hafði lofað að sigla kjördæmamálinu heilu í höfn. Það gerði hún. Hún lofaði að koma sjálfstæðismálinu svo langt áleiðis sem auðið yrði. Það gerði hún. Hún lofaði að taka ekki upp ágreiningsmál, þ. á m. og allra sízt allra mesta deilumálið, dýrtíðarmálin. Það efndi hún líka, að vísu nauðug og af því að hún hafði ekki bolmagn til annars. Og loks baðst svo stjórnin tafarlaust lausnar, þegar hún hafði efnt heit sín, og gerði um það skynsamlega og góðviljaða tillögu, hvað við skyldi taka.

Að öðru leyti verða þeir, er dæma vilja sanngjarnlega um fyrrv. ríkisstj., að hafa hugfast, að hún sat að völdum aðeins 7 mánuði. Á þeim tíma voru tvennar Alþingiskosningar og Alþ. háð þrisvar sinnum,. Stjórnin þurfti þá sem ella að sinna mörgum vandasömum daglegum framkvæmdastörfum. Þykir mér ekki viðfelldið að rekja þau, en minni þó t.d. á það tvennt, að ríkisstj. átti a.m.k. veigamesta þáttinn í því að hækka verð á öllum útfluttum nýjum fiski um 5 aura kílóið. Það munaði landið milljónum króna á ári. Hitt skipti þó margfalt meiru, að fyrir frumkvæði og atbeina ríkisstj. fengust opnuð fiskimið, er um langt bil höfðu verið lokuð, en þó látið kyrrt liggja, að farið væri inn á þau þar til snemma á síðasta ári, að fiskiskipin fengu um það ströng fyrirmæli, sem fylgt var á eftir, að hafa sig þaðan í brott tafarlaust. Stóð svo um hríð, að til mikilla vandræða horfði, bæði fyrir vélbátana og togaraflotann, þar til stjórninni tókst að fá lagfæringu málanna, og er ekki of mælt, þótt sagt sé, að þjóðarbúið hafi hagnazt um marga milljónatugi á þeirri lagfæringu. Í þeim samningum stóð ríkisstj. sjálf og ein gagnstætt því, sem venja er um sölu afurða og allt, sem í sambandi við þau viðhorf stendur, eins og t.d. nú síðast um fríðindi til handa frystihúsunum, en þau störf annast viðskiptanefndin ýmist að mestu eða öllu leyti.

Hirði ég ekki að rekja dagleg afskipti fyrrverandi stjórnar af innanríkis- og utanríkismálum, en þori, þegar alls er gætt, þar á meðal þess, að ráðherrar voru þá aðeins þrír, að vona, að sanngjarnir dómar muni telja, að stjórnin hafi unnið störf sín af góðum vilja og farizt þau eftir atviltum farsællega úr hendi.

Út af ummælum, sem höfð eru eftir formanni fjvn., að fyrrverandi ríkisstj. hafi sett met í umframgreiðslum, þykir mér rétt að gera þessar athugasemdir.

Tekjuafgangur ríkissjóðs hefur fram að þessu aldrei orðið jafn hár sem 1942. Árið 1941 var tekjuafgangur um 18 millj. kr., en 1942 varð tekjuafgangur á rekstursreikningi milli 30 og 40 millj. kr. Þar af hafa um 11 millj. gengið til skuldagreiðslna; um 26 milljónir eru í sjóði, en afgangur ýmist innistæður hjá ríkisstofnunum eða greitt fyrir eignir, sem ríkissjóður hefir keypt. Á þessum 50–60 millj. kr. gróða hvíla að vísu loforðin um bætur til landbúnaðarins. Þær bætur hefur Alþ. ákveðið, en ekki stjórn Sjálfstfl., og ber hún því á þeim enga ábyrgð fram yfir ýmsa aðra, og sízt Framsfl., svo sem ég þegar hef sannað.

En þá þingmenn sósíalista og Alþfl., sem mest fárast yfir þessum uppbótum til bændanna, vil ég aðeins minna á það, að þær eru alveg bein afleiðing af þeim kauphækkunum verkalýðnum við sjávarsíðuna til handa, sem þessir þm. hafa barizt fyrir, og fela í sér tilsvarandi kauphækkanir til bændanna.

Þá hefur fyrrverandi stjórn verið hart dæmd fyrir að hafa greitt launabætur til einstakra stétta og staðhæft, að hún beri þá ábyrgð ein. En einnig þetta er mikil fjarstæða. Það var gamla þjóðstjórnin, sem bætti laun prófessora, sýslumanna, lækna og kennara. Í farveginn flutu svo eðlilega og óhjákvæmilega prestarnir, og er það sú eina launahækkun, er varð í tíð stjórnar sjálfstæðismanna.

Hitt er svo ekki um að sakast við fyrrverandi stjórn, að sívaxandi dýrtíð eykur af sjálfsögðu bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs.