03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Finnur Jónsson:

Síðan eldhúsumræðurnar voru síðast hafðar um hönd, hafa tvisvar sinnum orðið stjórnarskipti, en hin nýja stjórn, sem nú hefir tekið við, hefur setið svo stuttan tíma að völdum, að ekki er ástæða til að gera starf hennar mjög að umtalsefni. Uppgjör við hina sameiginlegu stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur farið fram að nokkru leyti í kosningunum í sumar og haust, og um stjórn Sjálfstfl., sem var í raun og veru ekki annað en eðlilegt áframhald af því, sem skeði þann 8. janúar, þegar gerðardómslögin voru sett, er ekki ástæða til að fjölyrða. Þó verður ekki komizt hjá því að minnast hennar nokkuð.

Reynsla okkar á árinu, sem leið, hefði átt að sannfæra okkur um það, ef við hefðum ekki vitað það áður, að það er engu síður vandi að stjórna í góðæri, þegar allt flóir í peningum, heldur en í harðæri, þegar þröngt er í búi. A.m.k. er vafasamt, hvort heildarútkoman af árinu, sem leið, hefur orðið nokkuð betri heldur en á mörgum kreppuárum, sem yfir landið hafa dunið. Enginn mundi óska eftir kreppuárum. En hins vegar gefur reynsla okkar af stjórnarfarinu á árinu, sem leið, fullt tilefni til að athuga þær veilur, sem vissulega hafa verið í stjórnarfari okkar. Veilur, sem hafa orðið þess valdandi, að það góðæri og það mesta peningaflóð, sem yfir landið hefur komið, hefur eigi verið notað betur en svo, að atvinnuvegirnir eru litlu betur farnir en þó að hér hefði verið hálfgert hallæri. Aldrei í sögu landsins hafa tekjur ríkisins orðið neitt líkt því, sem þær urðu á árinu 1942. Tekjurnar höfðu verið áætlaðar í fjárlögum fyrir árið 1942 22 milljónir króna, en munu hafa orðið 86–88 milljónir, eða ferfalt við það, sem áætlað var. Aldrei í manna minnum hefur ríkið haft aðrar eins tekjur.

Hvað er þá orðið af þessum tekjum? Liggja þær í gullkistum hjá ríkisféhirði? Nei, hv. þm. G.-K. var að tala um mikinn tekjuafgang og lagði mikla áherzlu á það, en hann skilar hinni nýju ríkisstjórn svo miklum skuldum, að tekjuafgangur finnst ekki.

Tekjunum hefir verið eytt í löglegar og ólöglegar greiðslur, og virðist tilviljun ein hafa ráðið, hvort heldur var. T.d. hefur víssum embættismönnum verið borguð dýrtíðaruppbót af launum, sem þeir ekki höfðu, svo að hundruðum þúsunda króna skiptir, allt án nokkurrar heimildar eða samþykkis frá Alþingi. En þrátt fyrir það mesta bruðl, sem þekkzt hefur í sögu landsins, varð samt sem áður 2 millj. kr. tekjuafgangur, en aðeins á pappírnum, því að það er búið að ráðstafa honum til þess að greiða bændum uppbætur á ull, gærur og kjöt, og nemur sú upphæð samtals um 25 millj, króna, og eru þá ekki meðtaldar greiðslur fyrir síldarmjöl til bænda, tilbúinn áburð á uppbót á kjötverð innan lands, en öll þessi upphæð mun samtals nema um 30 millj. króna.

Af þessari laglegu summu voru ógreiddar um áramót um 22 millj. króna, þannig, að hinn raunverulegi tekjuafgangur, sem Sjálfstfl. skilar í ríkissjóð af 88 millj. króna árstekjum árið 1942, er í hæsta lagi 1–2 millj. kr., ef hann þá er nokkur.

Af þessu mega þeir nokkuð læra, sem hafa trúað á þá kórvillu, að Sjálfstfl. væri aðgætinn í fjármálum. Reynslan er sú, að enginn flokkur hefur verið eins útausandi á ríkisfé eins og Sjálfstfl., því að samfara mestu tekjum, sem ríkissjóður hefur fengið á einu ári í sögu sinni, hefur Sjálfstfl. sóað ríkisfé langt umfram það, sem nokkurn tíma hefur þekkzt á þessu landi. Losarabragurinn, sem kominn er á allt líf manna, eins og venja er til á ófriðartímum, hefur í ríkum mæli haft áhrif á stjórnarfarið og það jafnvel framar öllu öðru.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um fjárhagsafkomuna hjá ríkissjóði. Hún liggur fyrir deginum ljósari, svo að hvert barn, sem getur lagt saman tvo og tvo, getur áttað sig á henni. Fjársóun Sjálfstfl. verður með engu móti leynt fyrir þjóðinni.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að fjárlagafrumvarpinu, sem stjórn Sjálfstfl. lagði fyrir Alþ. Þrátt fyrir það að vitað var, þegar frv. var lagt fyrir aukaþingið í haust, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1942 yrðu því nær fjórfaldar við það, sem áætlað hafði verið, voru þær eigi í frv. fyrir 1943 áætlaðar hærri en hér um bil 48 millj. kr. Í samræmi við þessa tekjuáætlun hafði stjórn Sjálfstfl. slumpað á útgjöldin einna líkast því og gert hefði verið ráð fyrir, að ríkisbókhaldið og fjárlagaáætlunin væri eins konar vasabókarreikningshald eingöngu til málamynda, en ekki þannig, að nein alvarleg tilraun væri gerð til þess að fá hugmynd um raunverulegar tekjur og útgjöld ríkissjóðs.

Fjvn. hefur nú setið að störfum flesta vinnudaga frá því í þingbyrjun og gert á þessu frv. leiðréttingar, sem nema um 5 millj. kr., en það er sama sem að gleymt hefði verið að áætla níundu hverja krónu til útgjalda, og eru þar eigi með talin ýmis útgjöld, sem fyrirsjáanleg voru, þegar frv. var samið, svo sem 2 millj. kr. til mæðiveikinnar. Alls verða beinar leiðréttingar á frv. um 10 millj. kr. Dæmi voru þess, að áætlanir væru rangar, svo að millj. kr. skipti, t.d. voru verðlagsuppbæturnar vanreiknaðar um 1300 þús. kr. og grunnlaunauppbótin fyrir hálft árið og verðlagsuppbót af henni vanreiknuð um 550 þús. kr. Þegar spurzt var fyrir um sundurliðaða áætlun á þessum upphæðum, þá var hún ekki til í fjármálaráðuneytinu, og þegar hún loksins fékkst, — en það var ekki fyrr en eftir nýjár, — kom þessi skekkja í ljós. Hafði þó verið upplýst, að þessir tveir liðir mundu vera nægilega áætlaðir í fjárlagafrumvarpinu.

Ég hef gert hvort tveggja þetta að umtalsefni, Ekki í því skyni að álasa fyrrverandi ríkisstj. né heldur Sjáfstfl. fyrir þessa dæmalausu meðferð á fjárhagnum og fjárlögunum, þótt full ástæða væri til þess, heldur til að sýna, að hér er um sérstaka stefnu að ræða. Tekjurnar hafa viljandi verið áætlaðar miklu lægra en líkur bentu til, að þær mundu nema, til þess að ríkisstj. hefði rúmar hendur um ýmiss konar greiðslur. Á þennan hátt er fjárveitingavaldið dregið úr höndum Alþ. og afhent ríkisstj., sem fer svo með það eftir sínum geðþótta.

Sparsemdarmenn hefðu safnað gróða góðu áranna til þess að geta unnið að verklegum framkvæmdum og bætt úr atvinnuleysi og vandræðum hörðu áranna, en ekkert slíkt hefur ráðið aðgerðum Sjálfstfl. eða Framsfl., meðan hann var í stjórn með Sjálfstfl. Gróði góðærisins hefur horfið í sjálfu góðærinu. Faraó dreymdi magrar kýr, sem komu og átu upp feitu kýrnar, en af því hefur jafnan síðan verið dregin sú ályktun, að rétt væri að geyma gróða góðærisins til hinna mögru ára. Mögru árin eru ekki komin yfir okkur enn þá, en þó hefur gróðinn horfið. Sjálfstfl. hefur tekizt að láta feitu kýrnar éta sjálfar sig, þannig, að þær eru nú allar horfnar.

Viðskilnaður Sjálfstfl. í fjármálum ríkissjóðs er hinn versti, sem orðið hefur hjá nokkurri ríkisstj., síðan við fengum sjáfstæði okkar aftur.

Ég tel, að þessi hörmulegi árangur af fjármálastjórn Sjálfstfl. stafi af því, að Sjálfstfl. vanti holla lífsskoðun og víðsýni. Flokkur, sem hefði haft hvort tveggja til að bera, hefði aldrei getað hagað sér á þennan hátt í fjármálum þjóðarinnar sem Sjálfstfl. hefur gert. Fjarri fer því, að ég sé að halda því fram að engir víðsýnir menn séu í Sjálfstfl., en þótt svo væri, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að þetta grundvallaratriði fyrirfinnst ekki í stefnu hans eða framkvæmdum. Hefði svo verið, gæti ekki hjá því farið, að stjórnarfarið í landinu hefði orðið á allt annan hátt en verið hefur. Víðsýnn stjórnmálaflokkur, byggður á grundvallaðri lífsskoðun, hefði ekki getað komizt hjá að horfa svolítið fram í tímann og stjórna landinu af meiri viðsýni og framsýni með hag almennings og hinnar uppvaxandi kynslóðar í landinu fyrir augum en Sjáfstfl. hefur gert.

Sem dæmi um skort á framsýni Sjálfstfl. má nefna, að í fjárlagafrv., sem ríkisstj. þessa flokks skilaði í hendur Alþ. og hefur nú til meðferðar, er fylgt þeirri stefnu, sem ég áður nefndi, að áætla tekjurnar ótrúlega lágt og kasta höndunum til áætlunarinnar, láta handahóf ráða um ýmsar áætlanir og áætla ekki svo að neinu nemi til verklegra framkvæmda. Sjálfstfl. lauk stjórnarferli sínum með því að afhenda niðurskurðarfjárlög álíka og fjárlögin, sem afgr. voru fyrir árið 1939. Sá samanburður er þó fjárlagafrumv. Sjáfstfl. fyrir árið 1943 of mjög í vil. T.d. má geta þess, að í fjárl. fyrir árið 1939 var áætlað til verklegra framkvæmda í 16. gr. um 24% af útgjöldunum. En á fjárlagafrv. Sjálfstfl. fyrir árið 1943 er áætlað til verklegra framkvæmda á 16. gr. aðeins 15,8% af útgjöldunum, eftir að búið er að breyta því samkv. leiðréttingum fjárveitinganefndar. Hefur þó nefndin hækkað þessa liði á 16. gr. um 1 millj. kr.

Nú, þegar farið er að bera á atvinnuleysi í landinu, er vægast sagt ógætilegt að leggja slík fjárlög fyrir Alþ., því af sjálfsögðu verður ríkið að gera ráðstafanir til þess að leggja fram fé í verklegar framkvæmdir, jafnskjótt og atvinnurekstur annarra fer að dragast saman og atvinnuleysi myndast af þeim sökum.

Þetta fyrirhyggjuleysi Sjálfstfl. í fjármálum er því miður ekkert einsdæmi. Hið sama fyrirhyggjuleysi hefur komið fram á öðrum sviðum og þá ekki sízt í dýrtíðarmálunum. Stjórnarfar, sem ekki byggist á jafnrétti þegnanna, er dauðadæmt, en Sjáfstfl. og Framsfl. brutu jafnrétti þegnanna með gerðardómslögunum. Með þeirri löggjöf var þetta grundvallaratriði stjórnarfarsins brotið, þegnunum var mismunað á hinn herfilegasta hátt og hver vandræðaráðstöfunin rak aðra. Gullstraumurinn blindaði menn. Dýrtíðin var látin leika lausum hala. Verðlagseftirlitið var kák eitt. Heildsalarnir gengu í búðirnar og keyptu upp vörurnar í smásölu og seldu aftur í heildsölu. Álagning á vörur var að vísu lögboðin, en enginn fór eftir þeirri löggjöf nema ef til vill örfá heiðar leg verzlunarfyrirtæki. Verðið á afurðum bænda var hækkað óðfluga, og jafnhliða voru bændum ákveðnar stórkostlegar greiðslur úr ríkissjóði í ofanálag á hið háa afurðaverð.

Bændastéttin, sem sagt hefur verið um, að bóndi sé bústólpi og bú landstólpi, var með einni eða tveimur þingsályktunartillögum gerð að stærstu styrkþegum landsins.

Fyrrverandi forsrh. Ólafur Thors vill nú eigna Framsfl. einum þessar ráðstafanir, en sjáfur tók hann þeim svo fegins hendi fyrir kosningarnar í sumar að hann mæltist til þess, að till. fengi ekki formlega afgreiðslu í nefnd og að hann mundi hiklaust greiða þær milljónir, er till. ákvað, af hendi.

Í niðurskurðarfjárlögunum frá 1939 var i 16. gr., svo sem áður er sagt, áætlað til verklegra framkvæmda fjórðungur af ríkistekjunum, en í því stórkostlegasta góðæri, sem komið hefur yfir ríkissjóð, á árinu 1942, fá bændur 25–30 millj. kr. úr ríkissjóði, eða nær 1/3 allra ríkisteknanna.

Árangurinn verður sá, að ríkissjóður stendur uppi slyppur og snauður eftir góðærið. Það er talið, að þessi stórkostlega upphæð sé greidd úr ríkissjóði vegna erfiðleika um útflutning á vörum bænda, og er vissulega ekkert nema gott við því að segja, að hér væri um fullt réttlæti að ræða.

En í þessu sambandi má benda á, að ýmis annar atvinnurekstur hefur orðið fyrir vandræðum vegna ófriðarins og ekki fengið neinar uppbætur úr ríkissjóði. Má þar t. d. nefna síldarsöltun, sem hefur nær því alveg lagzt niður, saltfiskútflutningurinn sömuleiðis. Ef þeir, sem þennan atvinnuveg stunduðu, hefðu átt að njóta hlutfallslega styrks úr ríkissjóði á við bændur, hefðu hinar risavöxnu ríkistekjur ársins 1942 ekki hrokkið til að greiða þær uppbætur.

Þegar ekki er greidd nein uppbót til annarra atvinnuvega en landbúnaðarins, sem sannanlega hafa alveg lagzt niður, hlýtur sú spurning að vakna hjá mönnum, hvort þegnunum sé sýnt fullt jafnrétti. Bændur eru að sjálfsögðu alls góðs maklegir, og það er ánægjulegt að vita, að hægt er að styðja atvinnuveg þeirra. Enginn óskar eftir því, að þeir safnist fleiri en orðið er á mölina. En hvað getur þessi styrkjapólitík haldið lengi áfram? Hvernig getur ríkissjóður enzt til þess að greiða einum atvinnuvegi tugi millj. kr. á ári? Og er hagur þessa atvinnuvegar þannig, að það sé nauðsynlegt? Er bændunum sjálfum gerður með þessu nokkur greiði? Var verð á afurðum bænda á þessu og undanfarandi ári svo lágt, að þessar uppbætur væru nauðsynlegar? Engar sannanir hafa verið færðar á það.

Allar þessar spurningar hljóta að vakna í hugum manna í sambandi við þessar styrkgreiðslur. Bændur voru lengi vel taldir sjálfstæðasta og bezt menntaða vinnustéttin í landinu. Halda þeir virðingu sinni áfram gagnvart öðrum stéttum, ef haldið verður áfram á þessari braut? Verða þessar miklu greiðslur úr ríkissjóði til þess að auka sjálfstæðiskennd þeirra og manndóm? Og bregður þeim ekki við, þegar ríkissjóður er orðinn svo þurrausinn, að ógerningur er að halda þessu áfram?

Ég spyr þessa af fullri vinsemd og af umhyggju fyrir bændastéttinni. Ég bendi á, að atvinnuvegi þeirra og hugsunarhætti getur verið hætta búin, ef haldið er áfram á þessari braut. Og þetta er leið, sem tekur brátt enda. Og hvað verður þá gert? Ég hefði haldið, að nauðsyn bændastéttarinnar væri sú að styðja verulega að ræktun sveitanna, svo sem verið er að gera nú með því að taka upp á fjárlög fjárveitingu til þess að kaupa mikilvirkar skurðgröfur til landsins, auka þekkingu á jarðvegi og kunnáttu á jarðrækt, gera framleiðslu bænda fjölþættari en hún er nú og koma við bættum vinnuvísindum, vélavinnu og öðrum vísindum í búskap, þannig að lífvænlegra yrði í sveitum en áður. Ekkert af þessu vinnst með styrkjaleiðinni, og styrkjaleiðin er, eins og ég sagði áðan, svo skammgóður vermir, að engar líkur eru til, að unnt verði að halda henni áfram lengur.

Þetta er í rauninni almennt orðið viðurkennt, og nú eru menn í vandræðum með, hvað gera skal.

Sameiginleg vanræksla Framsfl. og Sjálfstfl., meðan þeir voru saman i ríkisstj., um það að ráða bót á dýrtíðarmálunum varð þess valdandi, að allur atvinnurekstur landsmanna er í mikilli hættu. Dýrtíðin gerir það að verkum, að krónurnar, sem þarf að borga fyrir hverja klukkustund, eru orðnar ótrúlega margar í samanburði við það, sem fæst fyrir útflutningsvöruna.

Ýmsir halda því fram, að þetta sé af því, að kaupgjald sé orðið of hátt. En menn gleyma því venjulega, þegar verið er að tala um kaupgjaldið, að mikill meiri hluti hins svonefnda kaupgjalds er dýrtíðaruppbót og því alls ekki raunverulegt kaupgjald, það eru greiðslur, sem hafa orðið til meira og minna fyrir vanrækslusyndir þess opinbera. Þegar verið er að tala um kaupgjald, verða menn að gera greinarmun á vinnulaunum og dýrtíðaruppbót, eða hver mundi ekki vilja skipta á því að láta niður falla dýrtíðarupphót sína, ef dýrtíðin væri afnumin? Það er ekkert annað en falsanir að telja dýrtíðaruppbótina kauphækkun. Atvinnuvegina munar að sjálfsögðu um hverja kr., sem þeir verða að borga, en það er ekki kaupgjaldið, sem er að sliga atvinnuvegina, heldur dýrtíðin, sem er að gera það.

Dýrtíðarmálin eru eins og sakir standa mestu vandamálin, og þau krefjast bráðastrar úrlausnar, en dýrtíðarvísitalan hefur hækkað á einu ári ýmist fyrir aðgerðaleysi eða beinar aðgerðir Framsfl. og Sjálfstfl. úr 183 stigum í 272 stig. Slík hækkun hefir orðið fyrir forsjárleysi þessara flokka og skort þeirra á framsýni og umhyggju fyrir almenningshag,. Þessir flokkar hlupu hvor í kapp við annan um að hækka afurðaverðið, og það er innlenda afurðaverðið, sem er langstærsti þátturinn í hækkun dýrtíðarinnar. Það er þýðingarlaust að loka augunum fyrir þessu. Kapphlaup sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um kjörfylgi bænda hefur orðið til þess að hleypa dýrtíðinni upp úr öllu valdi.

Eins og ég sagði áðan, neitar enginn því, að full nauðsyn er á að búa vel að bændastétt landsins og láta hana njóta fulls jafnréttis við aðrar vinnandi stéttir. En jafnhliða því er full nauðsyn að koma í veg fyrir hækkandi dýrtíð, og þótt þær ríkisstj., sem hér hafa setið að völdum, hafi eigi borið gæfu til að gera það þrátt fyrir tilraunir Alþfl. til að koma fyrir þær vitinu, hafa ríkisstj. annarra landa fundið leiðir til þess að halda niðri dýrtíðinni án þess á nokkur n hátt að ganga á hlut bænda. Krónutalan, sem bændur greiða í kaup, hefur skrúfazt upp vegna hækkunar á afurðaverðinu og veldur bændum þungum búsifjum, og útgerðin hefur orðið fyrir hinu sama.

Fisksölusamningurinn, sem öll smáútgerð byggist á og öll hraðfrystihús einnig, er gerður til eins árs í senn. Þegar samningurinn var gerður 1. júlí s.l., var vísitalan 183 stig. Verðið hækkaði þá ári eftir á vegna vaxandi dýrtíðar, en í samningnum var ekki gert ráð fyrir nýrri stórkostlegri hækkun á dýrtíðinni. Ríkisstj. gerði samninginn, en gætti þess ekki að hafa nokkurt minnsta taumhald á dýrtíðinni, og nú hefur fisksölusamningurinn af þessum ástæðum, að ríkisstj. lét dýrtíðina lausa, orðið svo óhagstæður, að mikið vafamál er, hvort hægt er að gera út á vertíð, svo að nokkurt vit sé í. A.m.k. mun reynslan verða sú hjá flestum, sem hafa gert út í haust, og það sem af er vetrinum á fiskveiðarnar hér við land, að stórt tap er á útgerðinni. Fiskimenn gætu vissulega komið til ríkissjóðs og krafizt uppbóta með sama rétti og bændur.

En til leiðbeiningar fyrir þá, sem halda því fram, að hraðfrystihúsin geti ekki starfað vegna kaupgjaldsins, skal þess getið, að atvinnurekendur hafa nú fyrir þrem dögum síðan gert samninga við verkalýðsfélagið i Sandgerði um kr. 2.10 á tímann fyrir karla og kr. 1.40 fyrir konur, 8 stunda vinnudag, 25% hækkun fyrir eftirvinnu og 50% hækkun í næturvinnu. Þessi samningur er um kaupgjald í 3 hraðfrystihúsum.

Hin vaxandi dýrtíð hefur komið útgerðarmönnunum í koll ekki síður en bændum. Og hvernig fer dýrtíðin svo með verkamenn? Eins og sakir standa, er talið, að þeir fái fulla dýrtíðaruppbót, og meðan þeir hafa vinnu, er dýrtíðin þeim ef til vill ekki tilfinnanleg, þ.e.a.s., ef vísitalan er rétt reiknuð út. En í sama bili og vinnan stöðvast, þó að ekki sé nema dag og dag i senn, þá kostar svo margar krónur að framfleyta lífinu hvern dag, að þeim, er stunda daglaunavinnu, er voði vís vegna dýrtíðarinnar.

Enginn má skilja orð mín svo, að ég kenni eingöngu verðinu á innlendu afurðunum um dýrtíðina. Þar liggja margar ástæður til og ein sú, sem ekki er veigaminnst, slælegt verðlagseftirlit í landinu. Sjálfstfl. hafði verið trúað fyrir verðlagseftirlitinu. Og hvernig hefur honum farizt það úr hendi? Segja má, að síðustu mánuði þjóðstjórnarinnar og í rauninni alla tíð síðan hafi í rauninni ekkert verðlagseftirlit verið.

Ýmsir helztu máttarstólpar Sjálfstfl. hafa tekjur af verzlun, og það hefði verið meira en mannlegt, a.m.k. miklu meira en hægt er að gera kröfu um til Sjálfstfl. eins og hann er skipaður, ef hann hefði tekið föstum tökum á verðlagseftirlitinu í landinu. Reynslan hefur líka sýnt, að um verðlagseftirlit hefur ekki verið að tala. Við höfum haft dómnefnd í verðlagsmálum, sem hefur kostað mikið fé, en þar með er líka upp talið. Verkamenn og launastéttirnar yfirleitt hafa grunnlaun og dýrtíðaruppbót. Þetta grunnkaup hækkaði nokkuð að vísu á árinu, sem leið, en hefur annars verið óhreyfanlegt og aðeins hækkað um það, sem dýrtíðinni nam. Sama máli er að gegna um verzlunarmenn, en þeir, sem verzlunina eiga, hafa ekki verið háðir þessu sama lögmáli, heldur hefur verzlunarálagning verið leyfð sem hundraðshlutaálagning á vörurnar, og sá gróði hefur ekki staðið í neinu hlutfalli við dýrtíðaruppbót annarra stétta. Á þennan hátt hafa aðrar stéttir verið beittar misrétti. Eðlilegast hefði verið, að teknar hefðu verið upp till. í Alþfl. um ákveðna álagningu á vörueiningu, reikna síðan út vísitölu fyrir verzlunina og leyfa eigi aðra hækkun á álagninguna en í hlutfalli við vaxandi dýrtíð eftir vísitölunni. Jafnframt þyrfti að taka upp samvinnu við neytendurna, t.d. verkalýðssamtökin, á hverjum stað um verðlagseftirlitið. Eins og verðlagseftirlitinu hefur verið háttað, græðir sá, sem á verzlun, því meira sem verðið á vörunni er hærra í innkaupi. Hinar gildandi reglur um verðlagsákvæði freista manna þannig beinlinis á þennan hátt til að sæta óhagkvæmum og dýrum innkaupum.

Hundraðshluta álagning ,sú, sem verðlagseftirlitið hefur leyft, hefur undanfarið verið svo há, að ýmis kaupfélög úti á landi hafa að jafnaði selt vörur undir hámarksverði og staðizt þá freistingu, sem verðlagseftirlitið leiddi þau í um að hækka verðið, en þetta eru undantekningarnar.

Það er nauðsynlegt að koma á réttlæti milli allra stétta, freista þess að gera rétt þegnanna jafnan, hvort sem menn eru bændur, verkamenn, sjómenn, kaupmenn eða embættismenn. Þar með er ekki sagt, að allir eigi að hafa jafnt kaup. En þar sem mikill þorri landsmanna býr, svo sem ég hef áður sagt, við grunnkaup og vísitölu, verður ekki hjá því komizt, ef þegnarnir eiga að njóta jafnréttis, að reikna út grunnkaup og vísitölu fyrir sem allra flestar stéttir í landinu. Ég á ekki við með því, að ríkið fari að ákveða mönnum kaupgjald, heldur að koma á þennan hátt í veg fyrir, að einstakar stéttir geti hagnazt á dýrtíðinni eða beinlinis haft hagsmuni af því, að dýrtíðin sé sem mest í landinu, svo sem verið hefur um heildsala- og kaupmannastéttina undanfarið. Í þessu felst engin ásökun eða deila á kaupmannastéttina. En kaupmannastéttin er vissulega menn eins og aðrir menn, og með allri virðingu fyrir þeirri stétt verður það að segjast, að með óheppilegum verðlagsákvæðum hafa ver ið að undanförnu lagðar meiri freistingar fyrir þessa stétt en flestir hefðu staðizt.

Stjórnarstefna Sjálfstfl. í dýrtíðarmálum og fjármálum hefur leitt flokkinn og þjóðina út á ógæfubraut, en eins og ég sagði áðan, þá er þetta ekki dómur um einstaka menn innan Sjálfstfl., heldur sönnun þess, að sú stefna, sem Sjálfstfl. hefur fylgt, á engan rétt á sér, og tel ég það stafa af því, að flokkinn hefur skort lífsskoðun, sem heilbrigð gæti talizt. Stjórnmálastefna, sem ekki byggist fyrst og fremst á því að jafna réttinn milli stéttanna, jafna kjör þegnanna, hlýtur að hverfa í umróti núverandi styrjaldar.

Alþfl. varaði hvað eftir annað við því að láta dýrtíðina vaxa eins og gert var. Hann varaði við því að láta stríðsgróðann fljóta, svo að milljónum skipti, í vasa einstakra manna. Hann varaði við því stjórnleysi, sem ríkti í verzlunarmálunum og flutti till. á Alþ. um að skipa öllu í réttara horf og til betri vegar, en þær tillögur fengu engan byr, og því fór sem fór. Máttarstólpar Sjálfstfl. voru ánægðir, meðan þeir gátu hirt stríðsgróðann. Heildsalar og kaupmenn rökuðu saman verzlunargróða, og bændum var i bili blinduð sýn með því að veita þeim stórar upphæðir úr ríkissjóði, svo stórar, að slíkt getur aldrei framar endurtekið sig.

Alþ. kom saman að loknum kosningum, og þá kom í ljós, að það var eigi þess um komið að mynda ríkisstj. Gekk í þófi um þetta um mánaðartíma. Að lokum skipaði hæstv. ríkisstjóri ríkisstj., án þess að hún hefði stuðning nokkurs stjórnmálaflokks að baki. Þessi ríkisstj. hefur gefið út stefnuskrá, sem virðist í aðalatriðum vera þannig, að í hana séu upp tekin ýmis þau mál, sem þjóðmálaflokkarnir hafa lýst sig samþykka. Þessi ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið nokkur lagafrv., sem í rauninni eru ekki annað en formsbreytingar á þeirri löggjöf, sem áður gilti um sama efni. Enn hafa ekki komið fram nein mál frá ríkisstj. til Alþ., sem marka stefnubreytingu í dýrtíðarmálum eða verðlagsmálum. Þessi nýja ríkisstj. er eins og rithöfundur, sem segist ætla að semja nýja bók, hefur byrjað á formálanum og er enn ekki kominn lengra.

Ég vil engu spá, hvernig ríkisstj. tekst að leysa þau mál, sem hún hefur lýst yfir, að hún vilji leysa. En hvernig henni tekst þetta, fer eftir því, hversu hyggilegar till. hún gerir um það að jafna rétt hinna einstöku þegna í þjóðfélaginu og hinna einstöku stétta og hvernig hún framkvæmir þær tillögur. Geri hún tillögur, sem horfa til bóta á þann hátt að taka stríðsgróðann í almenningsþarfir og efla atvinnuvegina í landinu, svo að eigi þurfi að koma til atvinnuleysis, en jafnframt þessu séu varðveittar kjarabætur, sem vinnandi stéttir hafa náð, mun henni vel farnast. En þetta er meira vandaverk en svo, að um það verði nokkru spáð fyrirfram, hversu takast megi.

Segja má, að menn hafi orðið fegnir því, að þessi ríkisstj. tók við völdum. Menn vona, að eitthvað rætist fram úr öngþveitinu, en enn hafa menn ekkert nema góðar vonir í sambandi við yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. til þess að byggja á.

Hin nýja ríkisstj. byrjaði starf sitt á því að á Alþ. til að samþykkja verðfestingarlög, þar sem heimild var veitt til að banna að selja nokkra vöru hærra verði nokkurs staðar á landinu en hún var seld lægst á þeim sama stað hinn 18. des. s.l. Þessi lög eiga að gilda til 28. þ.m., og urðu menn alls hugar fegnir, er þau gengu í gildi. Þetta var fyrsta skref ríkisstj. á þeirri braut að stöðva dýrtíðina. Og til þess að mönnum skildist, hve henni var mikil alvara, tók hún upp þann nýja sið að láta hæstv. ríkisstjóra sjálfan undirrita tilskipun um, að eigi mætti selja neina vöru hærra verði en hún var seld lægstu verði hinn 18. des. s. l. á hverjum stað. Þessari ráðstöfun stjórnarinnar tóku menn með fögnuði og hafa trúað því, að henni væri þetta alvara, allt þangað til nú fyrir skemmstu, að hæstv. viðskiptamálaráðh. gaf út skýringu á tilskipun hæstv. ríkisstjóra, sem er á þá lund, að tvenns konar hámarksverð hafi gilt víða um land á skömmtunarvörum. Tilskipun hæstv. ríkisstjóra um, að lægsta vöruverð skuli gilda, megi eigi talast bókstaflega, heldur hafi menn fullt leyfi ríkisstj. til þess að selja vörur með hinu hærra hámarksverði, sem væntanlega er þá hæsta verð, sem gilt hefur á hverjum stað, en ekki það lægsta.

Þessi vægast sagt óheppilega skýring á jafnvirðulegri tilskipun hefur óneitanlega orðið til þess að draga nokkuð úr trausti ríkisstj. meðal almennings, og eftir að hún var gefin, munu ýmsir hafa veikzt í trúnni og ekki lifa í jafnbjartri von í sambandi við yfirlýsingar hæstv. ríkisstj.

Reynslan hefur því miður orðið sú hér á landi í verðlagsmálum, að illa hefur gefizt að fela umboðsmönnum heildsala eftirlit og umsjón verðlagsráðstafananna, en í þessari nýju ríkisstj. er það einmitt einn höfuðsmaður heildsalanna, sem á að hafa þetta mikilsverða starf með höndum.

Um vilja hans eða getu til að leysa starfið vel af hendi skal ég í engu efast. Á öllum tímum hafa fundizt mikilmenni, sem hafa sett sig ofar eiginhagsmunum og stéttarsjónarmiðum, en yfirlýsing hæstv. viðskiptamálaráðh., sú er ég áður nefndi, sem í rauninni hefur haft endaskipti a tilskipun hæstv. ríkisstjóra, hefur óneitanlega orðið til þess að vekja nokkurn efa um, að hæstv. viðskiptamálaráðherra sé prýddur þeim kostum, sem slík stórmenni þurfa að vera gædd. Og ekki er örgrannt um í þessu sambandi, að ýmsir óttist, að niðurstaðan af því að setja einn af höfuðsmönnum heildsalanna á Íslandi yfir verðlagsmálin, gæti orðið sú sama og í dæmisögunni, þegar úlfurinn var settur til að gæta lambahjarðarinnar. Enn þá er þó aðeins litil reynsla fengin, en framhaldsins munu menn bíða með nokkurri eftirvæntingu.

Margir munu líta svo á, að skipun þessarar nýju stjórnar sé eins konar gjaldþrot fyrir lýðræði og þingræði í landinu. En þó að svo hafi til tekizt, að Alþ. hafi eigi komið sér saman um þingræðisstjórn, þá er það vitað um þessa nýju stj., að hún situr aðeins meðan eigi liggur neitt fyrir um myndun þingræðisstjórnar. Hún situr meðan hún eigi gerir neitt það, sem meiri hl. Alþ. er óánægður með. Beri hún gæfu til að koma fram með löggjöf í því formi, að hún geti fengið vilja meiri hl. Alþ. fyrir því, og framkvæmi hún þá löggjöf þannig, að meiri hl. Alþ. geri sig ánægðan með hana, leysi hún dýrtíðarmálin og geti komið á jafnvægi og réttlæti í hinum ýmsu þjóðfélagsvandamálum, er ekki að efa, að hún hefur til þess fylgi Alþ. Meðan svo er, getur stj. talizt þingræðisstj., og þarf þá ekki af þeim ástæðum að örvænta um, að þingræði og lýðræði er hið rétta fyrirkomulag og það, sem bezt hentar okkur Íslendingum. Þó verður eigi annað sagt en þetta fyrirkomulag um val ríkisstj. sé ekki æskilegt til frambúðar, því að enginn veit, hvert það kynni að leiða, ef einræðissinnaðir menn veldust til þessara starfa.

Það hefur verið mikið talað um skipbrot Alþ. í sambandi við þessa stjórnarskipun, og ýmsir menn, sem annars hafa ekkert unnið sér til ágætis í opinberum málum, svo að kunnugt sé, hafa látið sér sæma að dæma Alþ. mjög hart í sambandi við hana. En kjósendurnir verða vel að gá að því, að þingið er ekkert annað en spegilmynd af vilja þeirra sjálfra, og ef þeir hafa valið Alþ. þannig, að það getur ekki komið sér saman um myndun þingræðisstjórnar, þá mega þeir sjálfum sér um kenna.

Frá því fyrsta að við eignuðumst Alþ., hefur það notið þeirra forréttinda að verða gagnrýnt af almenningi meira en nokkur önnur stofnun í þjóðfélaginu. Má þar til sannindamerkis nefna, að í Brandsstaðaannál segir svo um Alþ. árið 1847: „Þá alþt. komu í ljós, kepptist hver við annan um að sjá þau sem fyrst. Þóttust menn finna þar framför manna í mælsku með hnífilyrðum óþörfum, en ekki tiltakanlegri framkvæmd við afgreiðslu mála.“ Þessi gagnrýni hefur eflaust oft verið réttmæt, en jafnframt því, að hún er gagnrýni á þingið, þá er hún gagnrýni á þjóðina sjálfa.

Í þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til stjórnarmyndunar, hefur hver stjórnmálaflokkurinn kennt öðrum um, að stjórnarmyndunin mistókst. En þó verður því eigi neitað, að tilraun sú, sem Haraldur Guðmundsson gerði til stjórnarmyndunar og að síðasta tilraunin sem gerð var af hálfu þingflokkanna til þess að mynda ríkisstj. eftir uppástungu Alþfl., strandaði á þingmönnum Sósfl. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þá sögu nánar, hún er öllum landsmönnum kunn, en ég tel ástæðu til að segja í þessu sambandi, að ég álít, að eina vonin til þess, að hér verði mynduð öflug þingræðisstjórn, sem þjóðin getur unað við, er sú, að vinstri flokkarnir geti komið sér saman um stjórnarmyndun.

Á því verða þó miklir örðugleikar. Framsfl. er, eins og menn vita, bæði frjálslyndur og íhaldssamur flokkur. Flestir kjósendur hans eru mjög frjálslyndir, a.m.k. í orði. Í þeim flokki er vissulega mikill vilji til vinstra samstarfs. En flokkurinn hefur menn innan sinna vébanda, sem eru mótfallnir vinstri samvinnu og hafa í hyggju samvinnu við Sjálfstfl. Þessir menn hafa sina lífsskoðun, sem er á þá leið, að hinni núverandi þjóðfélagsskipun megi í engu breyta. Þeir eru komnir á það stig að telja, að kaupfélögin eins og þeim er nú stjórnað og flokkaskipunin eins og hún er í landinu nú sé fullkomnasta þjóðskipulag, sem verið geti hér á landi. Þessir menn börðust á sínum tíma góðri baráttu fyrir því að koma skipulagi á verzlun landsmanna, en þeir hafa stöðvazt við þróunina eins og hún var fyrir tugum ára síðan og vilja enga vinstri samvinnu.

En það er langur vegur frá, að vandræðin við að koma á vinstri samvinnu stafi eingöngu frá Framsfl. Þau koma ekki síður frá kommúnistunum, sem nú eru hluti Sósfl. Þessi flokkur hefur vaxið mjög ört nú hin síðustu ár. Hann hefur breytt um nafn, kallar sig ekki lengur Kommúnistaflokk, og hefur einnig breytt um stefnuskrá og aflað sér á þann hátt aukins fylgis. Þó er vitað, að sterkustu mennirnir í miðstjórn flokksins eru hinir svo kölluðu Moskvukommúnistar og fyrir þá eru stjórnmálin miklu fremur trúaratriði en stjórnmál, og skoðun þeirra mótast af þessu. Þeir eru eins og ofsatrúarmenn, sem aldrei sjá annað en það, sem þeir vilja sjá, og eru af þeim ástæðum hættulegir hinu lýðræðissinnaða stjórnarfari. Hins vegar eru einnig í þessum flokki margir nýtilegir menn, sem hafa svipaða skoðun í þjóðmálum og Alþfl. yfirleitt og vilja vinna að heilbrigðri þróun í þjóðfélaginu, hvað sem hinum rétttrúuðu kommúnistum líður. Þessir menn gætu vel átt samleið með Alþýðuflokksmönnum og hinum frjálslyndari framsóknarmönnum í ýmsum umbótamálum, ef þeim héldist það uppi að halda skoðunum sínum og stefnu sinni fyrir yfirgangi ofsatrúarkommúnistanna, en á þessu vill verða mikill brestur, og ekki er annað að sjá en ofsatrúarmennirnir í Kommúnistaflokknum geri allt, sem þeir geta, til að spilla fyrir því, að vinstri samvinna megi takast, á sama hátt og íhaldsöflin gera í Framsfl., og að því leyti eiga þessir öfgamenn í Framsókn og öfgamenn Sósfl. samleið. Ofsi og starblinda þessara manna hefur valdið því, að í Alþfl. eru margir, sem hafa vantrú á því, að vinstri samvinna geti tekizt, hó að það væri í alla staði æskilegast og í samræmi við lífsskoðun þá og grundvallarstefnu, sem Alþfl. alla jafnan hefur starfað eftir.

Mikill vandi er að brúa þetta bil, fyrst og fremst milli skoðananna innan hvers þessara flokka og síðan á milli flokkanna sjálfra. Bændur og verkamenn hafa í raun réttri sameiginlegra hagsmuna að gæta, en það vill sífellt gleymast í hinni raunalegu deilu um afurðaverð og kaupgjald. Músarholu- og matarsjónarmið ráða meiru um úrslit mála, þegar á á að herða, heldur en heildarhagsmunir og sameiginlegir hagsmunir þessara stétta. Þeir, sem safna stríðsgróða, lifa á ónýtu verðlagseftirliti, þeir, sem byggja upp Sjálfstfl., lifa á sundurlyndi þessara stétta, sem þó vissulega eiga fulla samleið. Tækist að sameina hin frjálslyndari sjónarmið og víðsýnni öfl í þessum flokkum til heilbrigðrar samvinnu, tel ég, að grundvöllur væri fenginn fyrir varanlegri vinstri stjórn, og þar með lausn þeirra vandamála, sem alþýðunni á Íslandi er bráðust nauðsyn að fram úr verði ráðið.

Árásir verða gerðar á næstunni á þau fríðindi, sem hinar vinnandi stéttir til sjávar og sveita hafa innunnið sér, og þær árásir verða enn þá sterkari, ef innbyrðis deilur eru milli þessara stétta.

Það verður því að leita allra ráða til að jafna þessar deilur, því að meðan þeim er haldið við, er eigi von um, að alþýða Íslands sameinist um að koma á réttlátu þjóðskipulagi. Hinn blóðugi hildarleikur, sem nú er háður í heiminum, mun leiða til tortímingar á allri menningu, ef alþýðan í öllum löndum til sjávar og sveita ekki sameinast um að taka stjórnina í sínar hendur. En stjórn alþýðunnar einnar saman mundi eigi koma að gagni, ef eigi vektu fyrir henni göfug sjónarmið. Alþýðan þarf að eiga sínar hugsjónir og þarf að hafa víðsýni og frjálslyndi til þess að framkvæma þær. Þjáningar þær, sem menn nú eiga við að búa af völdum stríðsins í öllum löndum, eru afleiðingar þess þjóðskipulags, sem ráðið hefur umheiminum, auðvaldsskipulagsins, þess þjóðskipulags, sem nú er að hrynja í rústir um allan heim.

Blóðugar byltingar og ofbeldi leiða jafnan til annars ofbeldis og nýrra blóðsúthellinga. Það er háttur siðmenntaðra manna að jafna mál sín á friðsamlegan hátt. Sama regla þarf að gilda í þjóðfélagsmálum. Jöfnuði og réttlæti þarf að koma á, enginn má líða skort, atvinnuleysi verður að hverfa. Enginn má auðgast á annars kostnað. Mannúð og réttlæti verður að sigra.

Fyrir ófriðinn höfðu máttug samtök bræðraþjóða okkar á Norðurlöndum vísað okkur veginn. Þar var verið að undirita jarðveg undir framkvæmd jafnaðarstefnunnar. Enginn veit, hvað við tekur að ófriðnum loknum, en við Íslendingar getum ekki komizt hjá því að verða fyrir áhrifum utanlands frá. Við erum næsta þýðingarlitlir eða þýðingarlausir í þeim hildarleik, sem háður er, en þó ber okkur skylda til að vinza úr þeim stefnum, sem hingað berast, allt það bezta, sem verða má til þess að byggja upp hér á landi réttlátt þjóðfélag, og það þjóðfélag mun verða á grundvelli jafnaðarstefnunnar.