03.02.1943
Sameinað þing: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Fjárlög þau, sem hér liggja fyrir, voru lögð fram af fyrrv. ríkisstj., og hefur núv. ríkisstj. því sama og ekkert um þau fjallað að öðru leyti en því, að ríkisstj. sem heild hefur í eitt skipti átt tal við fjvn. og ég hef þar að auki í nokkur skipti rætt við n., aðallega um tekjuhlið fjárl. Ég geri því ráð fyrir að svo komnu máli, að núv. ríkisstj. beri hvorki lof né last í sambandi við þetta fjárlfrv.

Frv. eins og það liggur hér fyrir frá fjvn. sýnir greiðsluhalla á sjóðsyfirliti, er nemur rúmlega 4 millj. kr. Hefur þá ekki verið tekið með í útgjöldum uppbót til starfsmanna ríkisins fyrir síðari helming ársins, er nemur 1750 þús. kr., sem stjórnin hefur lagt til, að greitt verði og að heimild verði framlengd til 30. desember 1913, Þá er enn fremur óráðið um uppbætur til lækna, presta, sýslumanna og prófessora, sem hingað til hefur verið greitt án heimildar í fjárl. Mun ég gera till. um þennan lið fyrir 3. umr., enda má teljast óviðunandi, að svo stór liður sem þessi sé greiddur án heimildar í fjárl.

Auk þessa mun talið nauðsynlegt að hækka framlag vegna mæðiveikinnar um allt að 2 millj. kr. Eftir eru þá aukin tillög til verklegra framkvæmda, sem frv. gerir ekki ráð fyrir, en æskileg væru, og getur það numið miklu fé, svo að milljónum skiptir, ef í er

stórkostlegan greiðsluhalla fjárl., nema á móti komi tekjur umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir enn sem komið er.

Áætlun fyrrv. fjmrh. er samin af skynsamlegri varfærni, sem sízt verður lastað, eins og nú standa sakir, þegar allt er á hverfanda hveli og alger óvissa ríkir um afkomu landsmanna. Hins vegar má lengi um það deila, hvort áætla beri milljóninni meira eða minna tekjur ríkissjóðs af sköttum og tollum, sem eru stærstu tekjuliðirnir og fara eftir árferðinu í landinu.

Samkv. frv. eru tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur áætlaðir 15 millj. kr. á móti tekjum af þessum sköttum 1942, sem áætlað er að nemi um 21 millj. kr. Nú er ógerlegt enn sem komið er að segja um, hvort skattarnir 1943 verði svipaðir og árið áður. Að vísu hafa tekjur manna hækkað talsvert vegna síhækkandi vísitölu, en þar á móti kemur efasemd um það, að vinna hafi verið jafnmikil og hún var 1942. Mér þætti því skynsamlegt, að farinn væri hér millivegur við frv. og greiddra skatta fyrra ár og áætlað um 17 millj. kr.

Hinn aðalliðurinn er vörumagnstollur og verðtollur, áætlaður samtals 20 millj. kr. Þessir tollar hafa orðið samkv. bráðabirgðauppgjöri 44 millj. árið 1942. Hér er því um mikinn mismun að ræða milli þessara tveggja ára. En þess verður og að gæta, að útlit um vöruflutninga til landsins á þessu ári er allt annað en var 1942. Má fyrst og fremst búast við, að stórfelldur samdráttur verði í verzluninni og að ýmist verði bannaður eða stórkostlega skertur innflutningur á þeim vörum, sem hæstir tollar eru greiddir af í ríkissjóð.

S.l. ár nam innflutningurinn 247 millj. kr., og hefur hann aldrei fyrr komizt í námunda við það að krónutölu. 1941 var innflutningurinn 129 millj. Það er erfitt að áætta, hvað innflutningur næsta árs gefi af sér í tollum, en ég tel alveg fráleitt með því útliti, sem nú er um vörukaup og vöruflutninga, að áætla hærri tekjur en varð af innflutningnum árið 1941, en það var 231/2 millj. kr. Þetta væri hækkun um 31/2 milljón frá því, sem er í frv.

Ég hef þá að nokkru rætt um þá tekjuliði frv., sem þola mundu nokkra hækkun og ætla má að helst muni valda ágreiningi hversu áætla skuli.

Við þessa umr. mun ég ekki fara nánar út í tekjuhlið frv. né ræða þær breytingar á gjöldunum, sem fjvn. hefur þegar komið fram með.

Fjárlög má afgreiða á tvennan hátt: Með eða án greiðsluhalla. Þegar eins stendur á og nú, að þjóðin svo að segja berst fyrir tilveru sinni gegn flóði verðþenslu og dýrtíðar, þá er ljóst, að mikill greiðsluhalli á fjárl. ríkisins mundi verða þungt lóð á vogarskálinni með verðbólgunni og jafnframt verka truflandi — á þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru til þess að lækka dýrtíðina og verja atvinnuvegina áföllum.

Fjárl., sem afgreidd væru án greiðsluhalla með því að hækka áætlun teknanna óeðlilega og fjarri skynsamlegu viti, mundi hafa sömu verkanir og beinn greiðsluhalli, þó að útliti fjárl. væri með því borgið.

Það, sem jafnan er nauðsynlegt, er skynsamleg og varleg áætlun tekna og útgjöld í samræmi við þær. Er á þessu sízt minni nauðsyn nú, þegar óvissan um framtíðina er meiri en nokkru sinni.

Að því er snertir verklegar framkvæmdir, vegagerðir, brúarsmíði, hafnargerðir og þess háttar, eru allir sammála um það, að slíkt sé mjög æskilegt. Og erfitt væri nú að starfa og lifa í þessu landi, ef ekki hefði verið ráðizt í slíkt, þótt oft hafi af litlum efnum verið gert.

Hins vegar stendur nokkuð sérstaklega á um slíkar framkvæmdir á þessu ári. Verðlag í landinu er nú svo hátt, að telja má, að í algert óefni sé komið. Þess er þó að vænta, að verðbólgan hafi náð hámarki sínu og hjaðni niður smátt og smátt, ef þjóðin leggst nú á eitt með, að svo megi verða. Leiðin til baka í áttina til heilbrigðara verðlags getur þó orðið erfið og seinfarin. Það eru því öll líkindi til, að verklegar framkvæmdir muni verða talsvert ódýrari næsta ár en þær er u nú. Af því leiðir, að meiri og stærri framkvæmdir fengjust á næsta ári fyrir sama fé og nú.

Brúargerðir eru nú taldar 31/2 sinnum dýrari en þær voru fyrir stríð. Vegalagning er 4 sinnum dýrari. Vegar spotti, sem 1939 kostaði 10 þús. kr., kostar nú 39 þús. kr. M.ö.o., við fengjum einn fjórða hluta nú gerðan af vegalagningu 1938 fyrir það verð, sem þá var greitt.

Ég tel því ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt að fresta framkvæmdum um nýja vegi, brýr, hafnargerðir og aðrar byggingar, sem eru ekki alveg sérstaklega aðkallandi, meðan verðlag allt er eins og nú.

Að því er snertir þá atvinnuaukningu, sem slíkar framkvæmdir hefðu í för með sér, þá verð ég að telja, að allt útlit sé um það, að nægileg vinna verði í landinu á þessu ári, ef það lánast að draga úr verðbólgunni. Framkvæmdirnar eru því ekki nauðsynlegar vegna atvinnuskorts. Þær gætu haft öfug áhrif með því að draga til sín vinnukraft úr sveitum og þannig skapað samkeppni við landbúnaðinn um vinnukraft, sem hann ætti eðlilega að hafa.

Ég er ekki að mæla á móti, að fé sé lagt til verklegra framkvæmda, heldur á móti því, að í þessar framkvæmdir verði ráðizt á þessu ári. Ég teldi réttast, að ákveðin fúlga yrði lögð til hliðar af tekjum þessa árs í því skyni að ráðast í tilteknar framkvæmdir á næsta ári, eða strax og tiltækilegt þætti. Gæti þá svo farið, að slíkar framkvæmdir kæmu þjóðinni að tvöföldum notum síðar með því að bæta úr samgönguþörf og með því að skapa vinnu, þegar aftur fer að þrengjast um atvinnu meðal almennings.

Nú kann einhver að spyrja í þessu sambandi, hvort stjórnin ætli sér ekki að bera fram einhver þau dýrtíðarfrv., sem áhrif hafi á afgreiðslu fjárl., eða hvort ríkisstj. ætli ekki að bera fram sérstakar till. til nýrra tekna á fjárl.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er án vafa tekjuhæsta fjárlfrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fyrir Alþ. Íslendinga. Einstakir tekjuliðir þess eru hærri en nokkur maður innan þessara sala hefur fyrir einu ári látið sér til hugar koma að gera ráð fyrir. Ég lít því svo á, að það væri ekki ósvinna að halda fram, að jafnvel varlega áætlaðar tekjur ársins 1943 eigi að geta staðið undir öllum nauðsynlegum gjöldum ríkisins á því ári. Ég hef því ekki hugsað mér, að til þess þyrfti að koma að hugsa fyrir nýjum tekjulindum í þessu sambandi.

Ég skal viðurkenna, að áframhaldandi verðbólga gæti komið ríkissjóði á kaldan klaka eins og allri afkomu landsmanna. En fyrir slíku verður ekki séð á neinn hátt, svo að dugi, þótt nýir takmarkaðir tekjustofnar væru fundnir, enda mundi það ná skammt til halds og trausts í vaxandi flóðöldu dýrtíðarinnar.

Það, sem Alþ. og landsmenn verða nú að byggja von sína á, er það, að takast megi að stöðva verðbólguna og þrýsta henni niður. Vísitalan er nú 263, en þetta frv. til fjárl. er byggt á vísitölu 250. Er því sýnilegt, að ekki má mikið út af bera, og takist ekki að lækka vísitöluna frá því, sem nú er, þá eru útgjöldin, sem við áttu að bætast hjá ríkissjóði vegna þessara 13 stiga, í kringum 11/2 milljón kr.

Ríkisstj. hefur látið þess getið, að hún muni bera fram frv. um nýja skatta. Fyrir henni vakir, að þær tekjur, sem á þann hátt fengjust, verði eingöngu notaðar til að vinna bug á dýrtíðinni, eftir því sem með þarf. En það, sem afgangs kynni að verða, yrði notað til verklegra framkvæmda að stríðinu loknu.

Öllum kemur saman um það, að erfitt sé að ganga frá fjárl. fyrir árið, sem þegar er byrjað, vegna þeirrar óvissu, sem nú ríkir um afkomu þjóðarinnar. En eftir tæpar tvær vikur á lögum samkv. að leggja fyrir nýtt þing frv. til fjárl. fyrir árið 1944. Það mun öllum vera ljóst, að ekki er hægt, eins og sakir standa, að gera sér neinar hugmyndir um það, hvernig afkoma muni verða á næsta ári. Hún er að miklu leyti undir því komin, hvort það tekst að vinna bug á dýrtíðinni eða hvort hér heldur áfram óstöðvandi verðbólga, þangað til atvinnuvegir landsmanna stöðvast. Úr því fæst ekki skorið næstu tvær vikur. Fjárlfrv., sem lagt yrði fram um miðjan febrúar, mundi verða spémynd þeirrar sorglegu óvissu, sem nú spennir greipum allan hag þjóðarinnar. Það yrði áætlun, sem allir vissu, að hefði litla eða enga stoð í veruleikanum og því aðeins lagt fram til að fullnægja því formi, sem stjskr. mælir fyrir um í sambandi við setningu hvers reglulegs löggjafarþings.

Stjórnin hefur því farið þess á leit, að reglulegu Alþingi, sem á að koma saman 15. febrúar, verði frestað til hausts. Með því móti gæti þing það, sem nú starfar, haldið áfram og lokið öllum nauðsynlegum málum, sem fyrir því liggja og lögð kunna að verða fram. Eins og sakir standa, er þetta sú leiðin, sem stj. telur heppilegasta, því að það gæti varla kallazt hagkvæm vinnubrögð að slíta nú þingi eftir nokkra daga og láta öll mál niður falla, sem komin eru áleiðis, sum að því komin að verða að lögum. Hinn 15. febr. yrði svo nýtt þing sett, þar yrði lögð fram spémynd af fjárl., sem enga afgreiðslu fengju fyrr en á haustþingi. Síðan yrðu lögð fram á nýjan leik öll frv., sem döguðu uppi á fyrra þinginu. Allt prentað að nýju, allt rætt á nýjan leik. Væntanlega mun ekki til þess koma. En hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að ríkisstj. getur ekki borið fram dýrtíðarfrv. sin fyrr en ákveðið er, hvort þingi verður frestað eða ekki.

Um það hefur mikið verið rætt innan þings og utan, hvort ríkissjóður fái staðið undir þeim böggum, sem þegar hafa verið lagðir á hann með lögum og þingsályktunum. Mér finnst það ekki úr vegi við þessa umr. að gera nokkra grein fyrir, hversu við horfir í þessu efni.

Þau ár, sem styrjöldin hefur staðið, hefur ríkissjóður haft samtals í tekjuafgang 49 millj. kr., og er þá áætlaður tekjuafgangur ársins 1942. Tekjuafgangurinn hefur verið hvert árið eins og hér segir:

1939

552

þús.

kr.

1940

5497

1941

18128

1942

(áætlað)

25000

Samtals

49177

þús.

kr.

Þetta er mikið fé og gæti náð langt til að gera ríki skuldlaust, ef því hefði verið varið til þess. En á miðju árinu, sem leið, var öllum þessum tekjuafgangi ráðstafað og þótt meira hefði verið.

a) Hinn 21. maí 1942 voru samþykkt á Alþ. lög um framkvæmdasjóð ríkisins. Til sjóðsins eiga að renna 8 millj. kr. af tekjuafgang í ríkisins 1941. Enn fremur 3~s hlutar þess tekjuafgangs, sem verða kann á ríkisreikningi árið 1942. Fé sjóðsins skal geymt í Landsbankanum.

b ) Hinn 23. maí 1942 var samþykkt þál. um að greiða uppbót á framleiðslu ársins 1941 af ull, gærum og görnum. Sú fjárhæð hefur verið áætluð samtals 41/2 millj. kr. Af því er þegar greitt 21/2 millj. kr.

c) Hinn 31. ágúst 1942 var samþykkt þál. um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Landbrn. hefur nú látið reikna út, hversu mikið fé hér sé um að ræða, og hefur það verið áætlað um 21 millj. kr.

d ) Hinn 4. sept. voru samþykkt lög um raforkusjóð, og skal ríkissjóður greiða til hans 10 millj. kr. af tekjuafgangi áranna 1941 og 1942 og Síðan 500 þús. kr. á ári eftir 1942. Skal þessi sjóður ganga fyrir framkvæmdasjóði um tillag, ef tekjuafgangur ríkisins nægir ekki báðum sjóðum. Sjóðinn skal geyma og ávaxta í banka.

Þannig hafði Alþ. þegar á s.l. ári ráðstafað varntanlegum tekjuafgangi ríkisins. Hinum áður greindu 49 millj. hefur því, nánar tiltekið, verið ráðstafað svo sem hér segir:

1.

Til lækkunar á lánum ríkisins

11152

þús.

kr.

2.

verðuppb. á landbúnaðarv.

23000

3.

Raforkusjóðs

10000

4.

Framkvæmdasjóðs

5000

Samtals

49152

þús.

kr.

Verðuppbæturnar á landbúnaðarvörum eru hér taldar 23 millj. kr., sökum þess að 21/2 millj. var greidd á fyrra ári og koma því í gjöld þessa árs.

Hér er um að ræða 38 millj. kr., sem ríkissjóður á að standa skil á til lögfestra sjóða og verðuppbóta. Sjóðseign ríkisins í dag. áður en farið er að inna þessa greiðslu af hendi, er nálægt 26 millj. kr. Þar við bætist skyndilán (sem kallast gæti rekstrarfé) til ýmissa ríkisstofnana, 6 millj. kr. Ef það væri innheimt, — sem að líkindum væri gerlegt, en mundi valda talsverðum óþægindum —, hefði ríkissjóður handbært 32 millj. kr. Skorti þá enn 6 millj. kr. á, að hægt væri að inna greiðslurnar af hendi. Að sjálfsögðu á ríkissjóður reikningslega að geta greitt þetta, og ber þess að gæta, að bæði er mikið af tekjum ekki enn innborgað og talsverðar greiðslur óleystar af hendi. Auk þess þarf ríkissjóður jafnan að annast miklar greiðslur fyrri hluta árs, áður en skattar greiðast, og þarf því nauðsynlega á miklu rekstrarfé að halda, sem æskilegt væri, að ekki þyrfti jafnan að taka til láns.

Allar líkur eru fyrir því, að hér eftir verði ekki hægt að búast við miklum tekjuafgangi. Tímabili stríðsgróðans er lokið, einnig hjá ríkinu. Til þess að standa straum af ráðstöfunum, sem gera þarf í sambandi við dýrtíðina, eru engir sjóðir handbærir, nema ef telja skyldi heimild í l. nr. 98 1941, um að verja 5 millj. kr. af tekjum ársins 1941 vegna dýrtíðarráðstafana. Hefur þegar verið notað í þessu skyni 11/2 millj. kr. og mundi þá 31/2 millj. kr., sem enn má nota, verða að takast af fé því, sem ættað er framkvæmdasjóði. Væri þá ekki eftir í honum nema 11/2 millj. kr.

Sparsemin er oft nytsöm dyggð, ekki síður hjá ríki en einstaklingum. En nú er sparsemi nauðsyn. Sú lausung í fjármálum, sem verið hefur undanfarin tvö ár hjá ríkinu og öllum almenningi, á höfuðsök á verðbólgunni og því ófremdarástandi, sem hún hefur skapað. Fæstir hafa kunnað að gæta fengins fjár. Menn hafa fengið það auðveldlega upp í hendurnar og lítilsvirðingin á gildi peninganna hefur vaxið að sama skapi og tekjurnar hafa aukizt. Fénu hefur verið kastað út án nokkurrar áhyggju fyrir morgundeginum. Þessi lausung hefur náð tökum á mörgum vegna þess að þeir trúðu því, að gengi krónunnar mundi að litlu eða engu verða.

Þjóðin er nú að hverfa frá þessari villu, enda er henni lífsnauðsyn að breyta um skoðun og haga sér eftir því. Nú er kominn tími til fyrir landsmenn að spara og gæta fengins fjár. Krónurnar þeirra geta vaxið í verði á nokkrum mánuðum. Eftir nokkurn tíma geta þær e.t.v. keypt miklu meira verðmæti en þær geta í dag. Menn verða að fara að hugsa fyrir morgundeginum, því að hann kemur, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Landsmenn verða nú þegar að venja sig við þau óþægindi að horfa í aurana. Þeir verða að spara það, sem óþarft er og einskis nýtt, og forðast það, sem gleypir krónurnar þeirra, þegar aftur tekur að fjara út. Þetta er rétta leiðin fyrir þjóðina að fara til að komast út úr feni verðbólgunnar og vinna bug á dýrtíðinni. Auk þess mundu þá færri hafa um sárt að binda. í sambandi við verðfall að stríðinu loknu.

Á því er enginn vafi, að þjóðinni er yfirleitt að verða ljós sú hætta, sem yfir henni vofir vegna hinnar taumlausu verðbólgu, sem hér hefur átt sér stað undanfarandi missiri. Verðstöðvunarlögin, sem Alþ. samþykkti 19. des., hafa þegar haft geysilega víðtæk áhrif á viðhorf alls almennings í landinu til dýrtíðarmálanna. Fólkið finnur og viðurkennir, að það er brjálæði að halda lengur áfram á þeirri braut. sem við höfum verið á undanfarið. Nú verður að spyrna við fótum og snúa til baka. Stöðvunin er komin. Sums staðar er verðlagið farið að renna til baka, þótt hægt fari. Það er undir þingi og þjóð komið, hvort hægt verður að halda áfram í rétta átt.

Ég álít, að verðstöðvunarlögin hafi þegar gert meira gagn, beint og óbeint, en flestir þorðu að gera sér vonir um, þegar þau voru sett. Í stað þess, að verðlag fór síhækkandi og margir kepptust við að setja verð í samræmi við dýrtið og eftirspurn, hefur nú stöðvun komizt á, og margir hafa lækkað vöruverð af sjálfsdáðum til þess að fylgjast með þeim straumhvörfum, sem allir búast við, að nú hljóti að verða.

Mér finnst það því fjarri allri sanngirni að veitzt sé að ríkisstj. með dylgjum út af setningu verðstöðvunarlaganna og framkvæmd þeirra. Það var full ástæða til í byrjun að gera ráð fyrir því í sambandi við þessar víðtæku ráðstafanir, að ýmsir árekstrar mundu verða og framkvæmdin því að mörgu leyti erfiðleikum bundin. Nú hafa lögin staðið í einn og hálfan mánuð, og árekstrar hafa ekki enn orðið, hvað sem síðar kann að verða. Tel ég þetta miklu betur farið en vonir gátu staðið til í byrjun.

Þeir, sem alltaf eru að leita að snöggum blettum á ríkisstj., hafa reynt að gera nokkurt veður út af verðlagi á sykri og nokkrum tegundum kornvöru og halda því fram, að stjórnin hafi brotið sín eigin lög, þau lög, sem hún hafi byggt tilveru sína á. Því er til að svara, að stjórnin setur engin lög. Það gerir Alþ. Hún hefur byggt tilveru sina og mun byggja hana á heilbrigðri dóangreind þjóðarinnar og Alþ.

En að því er snertir verðlagið á umræddunt skömmtunarvörum, kornvöru og sykri, þá var verð það, er nú gildir, sett á af dómnefnd í verðlagsmálum 2. desember, eða þrem vikum áður en lögin voru samþykkt, og gilti þetta verð um land allt 2. desember, en þeir, sem framsýnir höfðu reynzt og áttu þá enn birgðir með lægra verði, voru skyldaðir til að selja þær með gamla verðinu, meðan þær entust. Þessar birgðir entust hjá sumum, sérstaklega úti um land, allt til áramóta. Ríkisstj. var kunnugt um þetta, enda gera lögin ráð fyrir, að hægt sé að ákveða um það, hvaða verð skuli gildandi, ef ágreiningur verður. Hið auglýsta verð dómnefndar tekur af allan vafa í þessu efni.

Þetta mál er eitt af þeim, sem nota má til að vekja grunsemdir og tortryggni, ef fullur vilji er til að nota það í því skyni. En þetta er líka eitt af þeim atriðum, sem komið geta upp við framkvæmd svo víðtækra laga sem hér um ræðir, enda var ráð fyrir þessu gert í byrjun. Ríkisstj. hefur ekki ástæðu til að biðja neinnar afsökunar í þessu efni. Verðfestingarlögin hafa til þessa gert meira gagn en stjórnin þorði að gera sér vonir um í byrjun, og það rýrir ekkert gildi þeirra, þó að þeir, sem eru í leit að árásarefnum á ríkisstj., geri veður út úr framkvæmdaratriði eins og því, sem ég hef rætt um.

Ég skal að endingu endurtaka það, að það er ekki ástæða fyrir fjvn. að fresta nokkuð ákvörðun um fjárl. vegna væntanlegra till. ríkisstj. um tekjuöflun. Engar slíkar till. eru væntanlegar í sambandi við fjárl. Hins vegar verða þær till. um aukna skatta, sem ríkisstj. mun leggja fram, eingöngu miðaðar við það, að tekjurnar verði notaðar til að vinna bug á dýrtíðinni og ef eitthvað verður afgangs, til að verja til verklegra framkvæmda að stríðinu loknu.