11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. (Finnur Jónsson):

Eins og hv. þm. er kunnugt, var því frestað til þessarar umr. að gera brtt. við tekjuáætlunina og ýmsa útgjaldaliði, sem fjvn. vissi, að ekki varð komizt hjá að breyta.

Brtt. n. eru á þskj. 383. Viðvíkjandi tekjuhliðinni er það að segja, að eftir till. n. er hún hækkuð úr 47 millj. upp í 65 millj. kr., eða um rúmar 17 millj. kr. Aðalhækkunin er á tekju- og stríðsgróðaskattinum, úr 15 upp í 23 millj., og er um þann lið að segja, að af honum mun renna mest allt í ríkissjóð. Undanskilinn er þá sá hluti stríðsgróðans, sem rennur til kaupstaða og bæja. Við athuganir sínar gerði n. ráð fyrir, að hreinn tekjuskattur mundi hækka frá fyrra ári, af því að tekjur væru meiri. Hins vegar gerði hún ráð fyrir minni stríðsgróðaskatti, svo að ekki þótti gerlegt að áætla þennan lið hærra en 23 millj. kr. samtals, þótt sumir álitu, að áætla mætti hann einni millj. hærra.

Aðra verulega breyt. hefur n. gert á vörumagnstolli, hækkað hann úr 5 millj. upp í 6 millj. Hann reyndist 9,4 millj. á síðasta ári, svo enda þótt gera megi ráð fyrir minnkandi innflutningi á þessu ári, þá er skipakostur okkar hinn sami til þeirra flutninga, svo að ekki virðist ástæða til að færu áætlun vörumagnstollsins meira niður.

Þriðja aðalbreyt. á tekjuáætluninni er á verðtollinum. Hann er áætlaður 15 millj., en n. leggur til, að hann verði áætlaður 21,5 millj. Hann reyndist rúmar 38 millj. á s.l. ári. Jafnvel þótt einhver breyt. verði á um innflutning, þá virðist þetta ekki óviturlega áætlað. M.a.s. er það álit sumra, að þessi liður sé áætlaður af n. 2–5 millj. lægri en hann muni reynast. N. virðist því hafa ratað meðalhófið eins og raunar í áætlun allra ríkisteknanna, sem reyndust 80–90 millj. síðasta ár, en eru nú áætlaðar af nefndinni 65 millj. króna.

Þá er það breyt. á áætluðum rekstrarhagnaði ríkisstofnana. Hagnaður á áfengisverzluninni er í frv. áætlaður 2 millj., en n. hefur hækkað hann upp í 3,5 millj. Hagnaður síðasta ár reyndist 5 millj.

Áætlaðan hagnað á tóbakseinkasölunni hefur n. hækkað úr 1,5 millj. upp í 2,5 millj. S.l. ár reyndist hagnaðurinn 2,8 millj.

Ég kem þá að till. n. um breyt. á útgjöldum. Fyrsti liðurinn er sá, að tekið verði upp 200 þúsund kr. framlag til viðbótarbyggingar við Landspítalann. Það lágu fyrir tilmæli frá landlækni um allt að einnar millj. kr. framlag í þessu skyni, þar eð hann telur, að ekki verði hjá þessu komizt nú. N. treystist ekki til að fara svo hátt, en vildi gera, hvað hún gat. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að á 20. gr. hefur n. lagt til, að lagt verði fram úr ríkissjóði 1/3 stofnkostnaðar fæðingarheimilis í Reykjavík, ef samningar takast um þetta við borgarstjóra og heilbrigðisstjórnina, og gæti þetta framlag núna þá gengið til þess, ef það væri af ráðið. Annars má segja í þessu sambandi, að ekki er siður að leggja slík framlög á einu ári, heldur er venja að skipta þeim niður á 3 ár.

Næsti liður, sem ég vildi tala um, er byggingarstyrkur, 1/3 kostnaðar, allt að 70 þúsund kr. til viðbyggingar sjúkrahússins á Akureyri. Sjúkrahúsið á Akureyri er gamalt. Ætlunin er að reisa þar nýtízku sjúkrahús, og hefur verið reistur litill hluti þess. Virðist mega bæta talsvert úr þörfinni með því að byggja ofan á þennan nýja hluta. Ekki er víst, að þetta fé nægi, en þá eru vonir um viðbótarfjárveitingu síðar.

Þá hefur n. gert till. um, að vegafé hækki um kr. 2232000 frá því, sem er í frv. Bæði hafa komið fram óskir í n. sjálfri og einnig borizt til hennar utan að um bætt vegasamband við ýmsa staði. Ég mun nú koma að hinum ýmsu liðum, en þó stikla ég aðeins á þeim stærstu.

Þá er fyrst 200 þúsund kr. hækkun til Hafnarfjallsvegar. Hann er á norðurleið, en getur verið vondur farartálmi á þeirri fjölförnu leið. Þessi fjárveiting á því fullan rétt á sér. Þessi vegur er allur áætlaður um 900 þúsund, og verður þá veittur 1/3 hluti til hans á þessu ári.

Þá hefur n. lagt til, að liður til Súgandafjarðarvegar falli niður, þar eð sá vegur er nú fullgerður. Hins vegar verði lögð fram 50 þúsund til Rafnseyrarheiðarvegar.

Þá hefur n. lagt til, að framlög til vegalagninga á Vestfjörðum verði samtals hækkuð um 450 þús. kr. Þar af eru 350 þús. kr., sem n. leggur til, að verði veittar til Þorskafjarðarheiðarvegar, en þar er um 25 km, sem þarf að leggja veg yfir. Mun þessi upphæð nú langt til þess að fullgera helming vegarins og þyrfti þá álíka upphæð á næstu fjárlögum til þess að Vestfirðir kæmust í samband við aðalvegakerfi landsins. Það er einhvern veginn svo, að Vestfirðir hafa gleymzt á undanförnum árum, þegar fé hefur verið veitt til vegalagningar, en till. n. eiga nú að bæta úr þessu. Samgöngur á sjó eru þarna mjög erfiðar og hættulegar, vegna þess að nú fylgir sérstök hætta af tundurduflum, sem eru þarna víða á reki. Það sýnist því ekki til of mikils ætlazt, þótt verulegt fé verði lagt fram til þess að koma Vestfjörðum í akvegasamband við aðra landshluta nú á næstunni og bæta þannig úr því misrétti, sem hefur átt sér stað.

Þá hefur n. lagt til, að framlög til vega í Strandasýslu séu sundurliðuð, sem segir í brtt. n., auk þess sem lagt er til, að framlagið verði hækkað nokkuð. Þá er næst till. um framlög til Vatnsskarðsvegar, sem n. leggur til, að verði hækkað um 40 þús. kr., og nema þá framlög til hans samtals 300 þús. kr., en vegamálastjóri hefur áætlað, að alls þurfi um 1100 þús. kr. til þess að fullgera hann með núverandi verðlagi.

Þá er lagt til að framlag til Hofsósvegar verði hækkað úr 35 þús. kr. í 100 þús. kr., en á þeim vegi er mjög slæmur krókur, sem þarf að nema burtu. Þá er það Siglufjarðarskarð. Siglufjörður er, sem kunnugt er, fjölmennur bær, einkum á sumrin, en hann er þó ekki í sambandi við vegakerfi landsins. N. leggur því til, að framlag til vegar yfir skarðið verði hækkað um 250 þús. kr., og er þá ætlazt til þess, að skarðið verði lækkað með því að sprengja það niður og ryðja það, en sú fjárveiting, sem fjárlfrv. gerir ráð fyrir til þessa vegar, ætlast n. til, að verði notuð til þess að fullgera veginn frá Brúnastöðum að Hrauni í Fljótum.

Þá er lagt til, að framlag til Öxnadalsheiðarvegar verði hækkað úr 80 þús. kr. í 120 þús. kr.. en það er áætlað, að þessi vegur muni alls kosta um 3 millj. kr.

Þá eru lagðar til nokkrar hækkanir til vega í Suður-Þingeyjarsýslu í samræmi við aðrar hækkanir og einkum með tilliti til þess, að fjárpestin er nú mjög farin að herja fjárstofn bænda þar, svo að þeir munu sums staðar þurfa að breyta um búnaðarhætti og taka upp meiri kúarækt en þeir hafa nú. Er þeim því nauðsynlegt að geta komið frá sér mjólkinni á markað.

Þá er lagt til, að hækkað verði framlag til Brekknaheiðarvegar úr 15 þús. kr. í 100 þús. kr. Þessi vegur á að liggja milli Norður-Múlasýslu og þess hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sem liggur næst Langanesi. Þegar þessi vegur er fullgerður, mun sá landshluti komast í akvegasamband við Vopnafjörð, en það er gert ráð fyrir, að þessi spotti verði fullgerður á tveimur árum.

Þá leggur n. til, að framlag til Fáskrúðsfjarðarvegar hækki úr 20 þús. kr. í 100 þús. kr. Þarna er 2–3 km langur spotti ófullgerður, og mundi hann verða fullgerður með þessari fjárveitingu.

Stærsti kaupstaður Austfjarða, Norðfjörður, er ekki í sambandi við vegakerfi landsins. Það var tekin upp sú leið að leggja akveg til Viðfjarðar og fara þaðan sjóleið alllangan veg til Norðfjarðar. Þessi leið er mjög óhentug og er tvímælalaust heppilegra að koma Norðfirði í beint akvegasamband, og leggur n. því til, að veittar verði 200 þús. kr. til vega yfir Oddaskarð. Þá er það Berunes- og Breiðdalsvegur. Hann mundi sennilega verða nær fullgerður með þeirri fjárveitingu, sem n. leggur til, að veitt verði til hans. Þá er lagt til, að veittar verði til Suðurlandsbrautar 250 þús. kr. Nú síðustu daga hefur legið við, að samgöngur tepptust milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins, en það er hætt við, að mundi verða ærið mjólkurlítið í bænum, ef slíkt kæmi fyrir. Það er því áríðandi að koma lagningu Suðurlandsbrautarinnar sem fyrst áleiðis, en það, sem fyrst liggur fyrir, er að koma brautinni til Krýsuvíkur, svo að Hafnfirðingar fái góðan aðgang að hinu ágæta ræktunarlandi þar í sveit.

N. hefur tekið upp þá nýbreytni að sundurliða framlög til brúargerða. Það er þó ekki fullkomið samkomulag í n. um þetta. Sumir vildu hafa þetta áfram í höndum vegamálastjóra, en aðrir vildu sundurliða það og varð það ofan á. Þótt hér sé um að ræða 996 þús. kr. hækkun, eru ekki áætluð framlög til neinna brúa yfir stórvötn, heldur aðeins hinar allra nauðsynlegustu brúargerðir yfir smærri ár. Í þskj. er prentvilla, því að Reykjadalsá hjá Laugum er tvítalin, þ.e., hún er talin bæði í 9. lið og 23. lið a. í brtt. nr. 16. Í liðnum um brýr á sýsluvegum á Laxá hjá Arnarvatni að koma í stað Reykjadalsár og mun n. leggja fram brtt. til leiðréttingar á þessu. Fyrir n. lágu upplýsingar frá vegamálastjóra um ýmsar nauðsynlegar brúargerðir. Meðal annars taldi hann nauðsynlegt að endurbyggja Ölfusárbrú, en það mun nú kosta um 1 millj. kr. N. treysti sér þó alls ekki til þess að mæla með stórframlögum til brúargerða á þessu ári og bar því enga till. fram um þetta.

Þá hef ég í stórum dráttum gert grein fyrir hækkunum n. á framlögum til vega- og brúargerða og mun þá næst víkja að vitamálunum. Þar hefur n. lagt til, að tekinn verði upp nýr liður, þ.e. 500 þús. kr. fjárveiting til kaupa á dýpkunarskipi, sem ætlazt er til, að ríkið eigi og reki. Hér eru nú til 3 dýpkunarskip, eitt á Rvíkurborg, annað á Vestmannaeyjakaupstaður, og hið þriðja er í eigu einstaks manns. Nú á næstu árum liggur fyrir mikil vinna fyrir dýpkunarskip við samtals 16 hafnir hér á landi, en ekkert þeirra dýpkunarskipa, sem hér eru til, er hæft til þess að vinna að alhliða dýpkun. Vitamálastjóri hefur nú undanfarið aflað sér upplýsinga um, hvað bezt mundi henta, og liggja fyrir ýtarlegar till. um það. N. hefur þó ekki talið fært að leggja í það að kaupa dýpkunarskip í þessari dýrtíð, en samkv. tilmælum vitamálastjóra og sjútvn. Nd. hefur hún fallizt á að mæla með þessari fjárveitingu. Ætlunin er, að féð verði lagt til hliðar og notað síðar, þegar tímarnir breytast og fært þykir að ráðast í þessar framkvæmdir. Þá hefur n. lagt til, að framlög til hafnargerða og lendingarbóta verði hækkuð um samtals 1382 þús. kr., en samkv. áætlun fjárl.- frv. var gert ráð fyrir að veita 261 þús. kr. til þessara mála.

Þar er í fyrsta lagi till. um að hækka framlag til hafnargerðar á Húsavík úr 18 þús. kr. í 100 þús. kr. Þar liggur nú fyrir að búa til hafnargarð, og þótti því rétt að mæla með þessari fjárveitingu, enda þótt hún sé ekki fullnægjandi og aðeins byrjunarfjárveiting. Á Skagaströnd og Dalvík er nú unnið að hafnargerðum í samræmi við loforð fyrrverandi ríkisstj. Það mun alls ekki ofætlað að veita 100 þús. kr. í hvorn staðinn fyrir sig, og gerir það ekki meira en að fullnægja gefnum loforðum. Í Hornafirði er nú verið að byggja öldubrjót, og er þegar búið að vinna fyrir meiru en lagt hefur verið fram, og þar sem hér er ekki áætlað nema hluti af því sem lög gera ráð fyrir og ríkissjóði ber að greiða, þá verður að álíta þá hækkun, sem n. hefur lagt til, sjálfsagða. Þá er einnig unnið að hafnarbótum á Ísafirði, Akranesi, Neskaupstað og Stykkishólmi, og hefur n. lagt til, að nú yrði lagður fram viss hluti kostnaðarins við það.

Hafnargarðurinn í Vestmannaeyjum hefur bilað, og hluti ríkissjóðs í viðgerðarkostnaðinum mun aldrei nema minna en 58 þús. kr. Auk þess er nú unnið að því að dýpka höfnina, og mun verða svo á þessu ári, þannig að það framlag, sem n. hefur lagt til, að veitt yrði, mun varla hrökkva til að greiða hluta ríkissjóðs í kostnaðinum.

Þá hefur n. lagt til, að veittar verði 75 þús. kr. til öldubrjótsins á Siglufirði og er það lokagreiðsla.

Í Keflavík hefur verið unnið að því eftir ráðstöfunum fyrverandi ríkisstj. að framlengja bryggjuna um 40 metra. Til þess er þegar búið að veita 300 þús. kr., en eftirstöðvarnar eru 130 þús. kr., og leggur n. til, að helmingur þessarar fjárveitingar verði tekinn upp á þessa árs fjárl.

Á Höfn í Hornafirði stendur til að gera verulegar hafnarbætur. Það er ekki víst, að verkið verði hafið á þessu ári, en n. taldi þó rétt að leggja fram 15 þús. kr. nú.

Ég sé svo ekki ástæðu til að gera fleiri einstaka liði á fjárveitingum til hafnargerða að umtalsefni, nema sérstakt tilefni gefist til þess síðar. Þetta eru allt till., sem miða að því að bæta aðstöðu manna til sjósóknar, og þótt það sé há upphæð í heild, þá er það ekki mikið í hvern stað, en sumir staðir hafa nú fé til þess að leggja fram á móti til þessara hluta, sem ekki hafa getað það áður.

Þá vil ég minnast á flugmálin. Hér á landi eru nú til tvær farþegaflugvélar. Þær hafa nú orðið fyrir talsverðum slysum á síðasta ári, og hefur orðið halli á rekstrinum. Framlög einstaklinga og stofnana til Flugfélags Íslands munu nú komin hátt á fjórða hundrað þús. kr. án nokkurs verulegs framlags frá ríkinu. Það er enginn vafi á því, að á næstu árum munu samgöngur breytast þannig, að þær munu fara að miklu fram í lofti. Félagið hefur því unnið hér mikið og merkilegt starf til undirbúnings fyrir framtíðina. Þetta brautryðjendastarf má ekki leggjast niður, heldur verður að halda því áfram á þessu ári.

N. hefur lagt til, að framlag til flugmála verði hækkað úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. og að það fé verði fengið ríkisstj. til ráðstöfunar, eftir því sem hún álítur réttast til þess að undirbúa lendingarstaði fyrir flugvélar á nokkrum stöðum á landinu, svo og dráttarbrautir fyrir sjóflugvélar og athugun og umbætur á nauðlendingar stöðum fyrir landflugvélar. Auk þess leggur nefndin svo til, að Flugfélagi Íslands verði veittur 50 þúsund króna styrkur. Það þarf nú að greiða um 12 þús. kr. á mánuði í vátryggingar. Þessar vátryggingar hafa verið nokkuð óhentugar, og þær hafa eiginlega hvorki verið fugl né fiskur. Farþegavátryggingar hafa ekki fengizt, þótt flestir hafi staðið í þeirri meiningu, að farþegar hafi verið vátryggðir. Enn fremur eru tryggingar á sjálfum vélunum óhentugar, og þær renna ekki út fyrr en í apríl n.k. og það verður að halda þeim áfram þangað til. Það þyrfti því að styrkja félagið, svo að starfsemi þess leggist ekki niður þennan tíma. Auk þess hefur n. lagt til, að í 22. gr. fjárl. yrði tekin upp heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka að sér tryggingu á vélum félagsins, eftir því sem um semst, og mundi hún þá athuga möguleika á að fá hagkvæmari tryggingar annaðhvort í Englandi eða Ameríku. Flugfélagið sjálft hefur ekki verið þess umkomið hingað til að fá nægilega hagkvæmar tryggingar, og liggur beint við að taka þetta mál upp nú, þar sem núgildandi tryggingarsamningar renna út í apríl n.k. N. ætlast til, að þetta mál verði athugað af félaginu í samráði við atvmrh.

Þá er lagt til að teknar verði upp fjárveitingar til þriggja kirkna, alls 5 þús. kr., og skal ég ekki ræða þá till., því að ég býst við, að hver geri grein fyrir sinni kirkju.

Á fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nýjum lið, 53 þús. kr. fjárveitingu til þess að stofna til kennslu í náttúrufræðum við háskólann. N. hefur lagt til, að þessi liður verði felldur niður að þessu sinni. Það mun vera heimild til í lögum til þess að setja á stofn deild til undirbúningskennslu í náttúrufræðum við háskólann. En þetta mun vera því skilyrði bundið, að samkomulag hafi náðst við aðra háskóla um, að þessi undirbúningsmenntun skuli tekin gild við erlenda háskóla. Þetta samkomulag mun ekki enn vera fengið, og á meðan svo er ekki, sér n. ekki ástæðu til þess að taka upp fjárveitingu í þessu skyni.

Þá hefur n. lagt til, að hækkuð verði framlög til barnaskóla utan kaupstaða úr 190 þús. kr. í 250 þús. kr. Það mun nú mikill hugur á því í sveitum landsins að bæta skólahúsin, enda liggja fyrir óskir ýmissa sveitarfélaga um það, og þar sem hér á að bæta úr brýnni þörf, mun þetta sízt of hátt áætlað. Á undanförnum þingum hefur verið stefnt mjög að því að bæta húsmæðrafræðsluna í landinu. Ríkið hefur tekið að sér að greiða 34 hluta stofnkostnaðar við húsmæðraskóla og enn fremur nokkurn hluta rekstrarkostnaðar þeirra. Húsmæðrafræðslan hefur mjög verið vanrækt þar til á allra síðustu árum. Nú lágu fyrir n. ýmsar beiðnir um byggingu húsmæðraskóla, en hún sá sér þó ekki fært að taka þær til greina nema að litlu leyti, þannig að hún hefur lagt til, að veittar verði 150 þús. kr. til byggingar húsmæðraskóla í sveitum og jafn mikið til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum.

Á 28. brtt, eru þrír nýir liðir:

a. Til byggingar húsmæðraskóla í sveitum

b. Til byggingar húsmæðraskóla í kaupstöðum.

c. Til húsmæðrakennaraskóla ríkisins, sem nú þegar er tekinn til starfa.

Á 22. gr. fjárlagafrv. var heimild til þess að greiða 12 þús. kr. til rekstrar húsmæðrakennaradeildar í sambandi við húsmæðraskóla í Rvík. En fjvn. taldi rétt, úr því að búið var að setja þennan skóla á stofn, að hafa þetta ekki lengur á heimildar grein, heldur taka tillag til þessa skóla upp á fjárl. sem fastan styrk. Af þeim, sem sækja um fjárframlög til byggingar húsmæðraskóla í sveitum, munu húsmæðraskólinn við Veggjahver í Borgarfirði og húsmæðraskólinn á Laugarvatni lengst komnir í undirbúningi. Og mundi þá ekki vera ósanngjarnt, að slíkir skólar, sem búnir ern að safna mestu fé og lengst eru komnir að öðru leyti um undirbúning, sitji fyrir styrk til þess að koma skólunum upp. En af kaupstaðaskólunum mun vera búið að safna mestu fé til Akureyrar-skólans, og mundi þá gilda sama um styrk til hans.

Þá hefur n. lagt til, að tekinn yrði upp styrkur til Nýja stúdentagarðsins, byggingarstyrkur kr. 150 þús. Þessi bygging mun hafa kostað nálega 1 millj. kr. Hún hefur fengið styrk úr ríkissjóði áður, 150 þús. kr., og ef þessi till. fjvn. verður samþ., yrði framlagið alls 300 þús. kr. frá ríkissjóði. Til þessarar byggingar hefur safnazt mjög mikið fé frá einstökum mönnum, þannig að skuldir, sem nú hvíla á byggingunni, munu ekki vera nema 200–300 þús. kr. Þessi nýi stúdentagarður ætti vel að geta staðið undir sér. Ef ríkið legði fram um 1/3 hluta kostnaðar við byggingu þessa sem styrk, þá mundi þessum stúdentagarði verða gert líkt undir höfði og a.m.k. ekki hærra en öðrum skólastofnunum, sem byggðar eru í landinu.

Samkv. l., sem afgreidd voru á síðasta Alþ., hefur verið settur upp ríkisíþróttaskóli á Laugarvatni. Þessi skóli á við mjög þröngan húsakost að búa og mun reyndar verða svo nokkuð enn, að hann fái vist í húsakynnum skólans þar. En þó hefur fjvn. talið rétt að leggja til, að að þessu sinni yrðu teknar 150 þús. kr. styrkur á fjárlög til byggingar íþróttaskóla á Laugarvatni. Er þá gert ráð fyrir, að samstarf verði milli héraðsskólans og íþróttaskólans, þannig að íþróttaskólinn njóti húsnæðis fyrir nemendur og eins til kennslu hjá héraðsskólanum þar, en hins vegar fái héraðsskólinn afnot af leikfimihúsi íþróttaskólans. Með þessu yrði á þessum stað miðstöð íþróttakennarakennslunnar í landinu. Og þar sem búið er að afgreiða 1. um sérstakan íþróttakennaraskóla, þá mun ekki fært, að hann hafi ekki a.m.k. aðstöðu til þess að kenna leikfimi, þó að annað yrði látið bíða betri tíma.

Aðrar brtt. fjvn., sem eru smábrtt., sé ég ekki ástæðu til að taka nú til sérstakrar meðferðar. Ég vil aðeins minnast á það, að lagt er til með 38. brtt. við 15. gr., að tekinn verði upp nýr liður “Til blaðanna Lögbergs og Heimskringlu, 10000 kr. til hvors, gegn því að fræðslumálastjórinn fái blöð til útbýtingar hér á landi“. Og er ætlazt til þess, að íslenzka ríkið sýni þessum íslenzka stofni, — í Ameríku, — er heldur uppi þessum blöðum og gjarnan vill halda við sambandi við heimalandið, viðleitni til nokkurs skilnings með því að taka upp þessa fjárveitingu.

Viðvíkjandi öðrum liðum á 15. gr. vildi ég minnast á 53. liðinn (39 brtt.). Þar hefur verið gert ráð fyrir því, að tekinn verði upp nýr háttur um úthlutun styrkja til skálda og listamanna, þannig að Menntamálaráð úthlutaði fjárhæðinni milli einstakra deilda Bandalags íslenzkra listamanna, en að hver deild kysi síðan úr hópi sinna félagsmanna nefnd, sem úthlutaði styrknum milli félagsmanna og annarra. Ég skal geta þess, að fjvn. leiddi sem allra mest hjá sér, — þó að meiri hluti hennar mæli með að samþ. þetta —, að deila um þennan lið. Og tel ég, að einstakir nm. hafi óbundnar hendur um það, hvernig þeir greiði um hann atkv., bæði um fjárhæðina og fyrirkomulagið.

Viðvíkjandi brtt. við 16. gr. vil ég taka fram, að þar eru þrjár stærstar, og nefni ég þar fyrst framlag til framleiðslubóta og atvinnuaukningar, þar er lagt til, að sá liður verði hækkaður úr 200 þús. kr. í 500 þús. kr. Þessi fjárveiting hefur jafnan á undanförnum árum verið 500 þús. kr. Að vísu mun hún ekki hafa verið notuð að fullu, árið, sem leið. En hæstv. félagsmrh. óskaði eftir, að hún yrði höfð a.m.k. ekki lægri nú heldur en þarna er tilgreint, og taldi n. rétt að verða við þeirri ósk og flytja brtt. þessa (brtt. nr. 42).

Þá hafði hæstv. atvmrh. skrifað fjvn. og óskað eftir, að tekinn yrði upp nýr stafl. undir þessari gr.: „Til bygginga á jörðum ríkisins“ 100 þús. kr. Lágu fyrir upplýsingar um það, að landsetar á jörðum ríkisins ættu erfitt með að koma byggingum á þeim jörðum þannig fyrir, að viðunandi mætti telja. Þótti n. rétt að verða við þessum tilmælum hæstv. atvmrh. um að taka upp þessa fjárveitingu.

Þá er enn brtt. við þessa gr., 47. brtt. n. um 100 þús. kr. framlag til áhaldakaupa handa rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Það lá fyrir fjvn. sundurliðuð áætlun um þau áhöld, sem þyrfti að kaupa, og er hér um að ræða endurnýjun á mörgum áhöldum, sem hafa gengið úr sér, og enn fremur tilmæli um að kaupa nokkur ný áhöld, sem hinar einstöku deildir rannsóknarstofnunarinnar telja óhjákvæmilegt, að keypt verði á þessu ári, þar á meðal nokkur áhöld til fjörefnarannsókna.

Þá hefur n. lagt til, að tekinn yrði þarna upp nýr liður til ræktunarvega í ýmsum eyjum, samtals 30 þús. kr. Þessar eyjar borga meiri og minni benzínskatt til ríkisins, en fá ekkert þjóðvegafé, og þótti eftir atvikum rétt að leggja til, að þessi liður yrði tekinn upp.

Ég sé ekki ástæðu til að þreyta hv. alþm. á því að gera ýmsar smábrtt. fjvn. við þessa gr. að umtalsefni, þar eð ég geri ráð fyrir að þær muni ekki valda neinum sérstökum ágreiningi. Það lágu fyrir nokkrar till. um að hækka framlög til einstakra kvennasambanda. N. taldi ekki fært að verða við þeim till., en gerði nokkrar till. til hækkunar á þessum styrkjum, sem allir eru heldur lágir og aðeins viðleitni til þess að sýna þessari starfsemi, sem oft virðist koma að talsverðu gagni, nokkra viðurkenningu.

Langstærsta brtt., sem fjvn. flytur að þessu sinni, er hækkun til mæðiveikivarnanna um 1815 þús. kr. Ég sé ekki ástæðu til þess og hef heldur Ekki kunnugleik á því að fara að gefa hér neinar upplýsingar um mæðiveikivarnirnar. Það virðist vera svo mikið vandræðamál, að enginn viti í raun og veru, hvað bezt hentar að gera í því efni. Fyrir fjvn. lá sundurliðuð áættun frá n. þeirri, sem hefur þessar mæðiveikivarnir með höndum, og hefur fjvn. tekið till. hennar upp að nokkru leyti, en þó dregið úr þeim. Mæðiveikin er nú búin að kosta ríkið allmargar millj. kr., og sýnist ekki, að við séum neinu nær um að ráða niðurlögum hennar eða hindra útbreiðslu hennar heldur en við vorum þegar mæðiveikivarnirnar hófust fyrst. Þó eru einstakir landshlutar, sem hafa verið afgirtir, þar sem mæðiveikin er enn ekki komin. Reynslan mun sýna, að varnirnar, varzla og girðingar, hafa ekki dugað til fullnustu það sem af er. Hækkun sú, sem fjvn. leggur til á þessum lið, er 1815 þús. kr., og verður varla komizt hjá henni, ef halda á mæðiveikivörnunum í sama horfi og á undanförnum árum.

Þó að fjvn. hafi nú yfirleitt lagt fram till. til hækkunar, en ekki lækkunar, þá er lagt til, að 83. og 84. liður á 16. gr., um dómnefnd í verðlagsmálum og skömmtunarskrifstofu ríkisins, falli niður, en það nemur samtals 396 þús. kr. Viðskiptaráð mun taka við störfum beggja þessara stofnana, og auk þess annarra stofnana. svo sem gjaldeyris- og innflutningsn. og útflutningsn. Viðskiptaráði er áætlað allmikið fé. Og þó ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um tekjur og gjöld viðskiptaráðs, taldi n. ekki ástæðu til að taka upp til þessa neina sérstaka fjárveitingu, m.a. vegna þess, að upplýst var, að gjaldeyrisog innflutningsnefnd ætti allmikið fé í sjóði, sem þá mætti nota til þessara hluta.

Ég mun svo ekki gera aðrar brtt. við þessa gr. og 17. gr. sérstaklega að umtalsefni. Það er gert ráð fyrir hækkun á framlagi til styrktarsjóða þriggja verkalýðsfélaga gegn þreföldu framlagi annars staðar frá. Það var upplýst fyrir n., að þarna væri ekki um starfsemi að ræða, sem kæmi undir sjúkrasamlög, heldur hefðu þessi félög sjóði, sem notaðir væru til þess að bæta mönnum ýmis áföll, sem ekki féllu undir hinar almennu tryggingar.

Af þeim brtt., sem tilheyra 18. gr., sé ég heldur ekki ástæðu til að gera margar að umtalsefni. Vildi ég þó minnast á 73. liðinn, þar sem gert er ráð fyrir, að Hallgrími Jónssyni skólastjóra verði greiddar 2250 kr. Til fjvn. bárust þær upplýsingar frá fræðslumálastjóra um þrjá skólastjóra, sem jafnframt væru kennslubókahöfundar, að þeir væru búnir að starfa við kennslu frá 40 til 44 ár, og þessir skólastjórar hefðu byrjað að starfa, áður en stofnað var til lífeyrirssjóðs barnakennara, og verða þess vegna mikið út undan um ellilaun móts við þá, sem þau fá nú, en hafa þó líkan starfsaldur að baki eins og þessir þrír merku skólamenn. Fræðslumálastjóri lagði til, að þeim yrðu tryggðir hlutar þeirra launa, sem þeir höfðu, þegar þeir létu af störfum, og hefur fjvn. tekið þessa tillögu upp. Hallgrímur Jónsson er nú hættur kennslu, og hefur fjvn. lagt til, að hann yrði tekinn inn á 18. gr., en hinir, Karl Finnbogason og Valdimar Snævarr, munu hætta á þessu ári, og hefur fjvn. lagt til, að þeir verði teknir á 22. gr., en væntanlega munu þeir færast inn á 18. gr. síðar, þegar þeir hætta störfum.

Við 19. gr. er tekin upp ein brtt. (nr. 87), um grunnlaunahækkun embættismanna um, að hún hækki úr 1750 kr. í 3500 kr. Er þetta eingöngu leiðrétting, þar sem komið hefur í ljós, að upphæð þessi er vanáætluð á frv. um þessa upphæð.

Við 20. gr. hefur fjvn. lagt til, að hækkað verði framlag til nýrra vita um 100 þús. kr. frá því, Sem það var eftir till. þeirri, sem n. hafði áður gert.

Heimildir, sem hér er lagt til, að teknar verði upp í 22. gr., ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um. Þar er m. a. gert ráð fyrir að heimila ríkisstj. að greiða læknisvitjanastyrki til þeirra læknishéraða, sem eru læknislaus 3 mánuði á árinu eða lengur, og nemi þeir allt að hálfum læknislaunum þann tíma, sem héraðið er læknislaust. Fjvn. taldi rétt að taka upp þessa heimild, vegna þess að nokkur héruð, sem lítt er sótt um af læknum að komast í, munu nú vera læknislaus, þannig að eitthvað virðist þurfa að gera til þess að bæta úr fyrir þeim mönnum, sem verða fyrir því að fá Ekki lækna í héruð sin. Hins vegar höfðu legið fyrir við 2. umr. brtt. frá nokkrum hv. þm. um að hækka vissa læknisvitjanastyrki. En í þessu sambandi vill fjvn. benda þeim hv. þm., sem flytja slíkar brtt., á það, að til er löggjöf um læknisvitjanasjóði, og mundi vera réttara fyrir þessi héruð að nota hér þær heimildir um nokkurt framlag til þess að geta fengið þau hlunnindi, sem þau geta náð eftir þeim l., heldur en að farið yrði að hækka einstaka læknisvitjanastyrki, en aðrir yrðu látnir óbreyttir. N. leggur þess vegna á móti því, að hækkaðir verði læknisvitjanastyrkir til einstakra héraða.

Þá er 92. brtt., við heimildargr. um að greiða 1/3 kostnaðar, allt að 100 þús. kr., til byggingar fæðingarheimilis, sem bæjarfélag Rvíkur ætlar að reisa. Ég hef gert þessa till. áður að umtalsefni og læt nú að þessu sinni nægja að vísa til þess, er ég hef áður sagt.

Þá eru hér tvær till. um heimildir til að reisa tilraunabú, önnur um framlag til stofnunar sauðfjárræktarbús á mæðiveikisvæðinu, 100 þús. kr., sem tekin var upp eftir till. sauðfjárræktarráðunautsins. Telur hann, að rétt muni vera að stofna slíkt bú á mæðiveikisvæðinu og gera tilraunir til að fá þar upp fjárstofn, sem þoli þessa veiki, sem hefur orðið mjög skæð fyrir sauðfé landsmanna. Hinn liðurinn er um að greiða allt að 150 þús. kr. til að stofnsetja hrossaræktarbú á Bessastöðum í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Ég tel mig ekki færan um að túlka þessa till. fyrir hv. þm. á þann hátt, sem tillögumaður eflaust mundi óska, og fyndist mér réttara, að hann gerði sjálfur grein fyrir henni.

Þá er till. um heimild handa ríkisstj. til að verja 150 þús. kr. til byggingar drykkjumannahælis, enda verði hælið reist við jarðhita í sveit. Stórstúkan stofnaði til drykkjumannahælis á s.l. ári í Kumbaravogi í Árnessýslu. Sá staður mun af mörgum vera álitinn ekki vel heppilegur til þessara nota. En hins vegar er bæði þörf fyrir drykkjumannahæli og stærra en hægt er að koma fyrir í Kumbaravogi. N. taldi því rétt að taka upp heimild um þetta handa ríkisstj., enda yrði þá valinn staðurinn í samráði við ríkisstj. og eftir till. heilbrigðisstjórnarinnar, og sennilega yrði hann þá einhver annar heldur en sá tilraunastaður, sem tekinn hefur verið til þess í Kumbaravogi.

Þá hefur n. lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 300 þús. kr., þó ekki yfir 1/4 byggingarkostnaðar, til byggingar nýrrar mjólkurstöðvar í Rvík samkvæmt l. Þessi mjólkurstöð á að kosta 3–4 millj. kr. upp komin, en upp í byggingarkostnað hennar mun koma andvirði gömlu mjólkurstöðvarinnar, ef hún verður seld. Ekki er líklegt, að mjólkurstöðin verði fullgerð á þessu ári. Og þó að þessi fjárveiting sé ekki nægileg, taldi n., að mjólkurstöðin yrði sennilega ekki komin lengra á árinu heldur en svo, að þessi upphæð mundi hrökkva.

Um aðrar heimildartill. vil ég taka fram: Nm. hafa gert nokkurn fyrirvara viðvíkjandi þeim, og sérstaklega tveim till., b- og d-lið 95. liðar brtt. og eins um 97. liðinn í brtt. fjvn. D-liður 95. liðar er um að verja allt að 2 millj. kr. til atvinnuaukningar, ef atvinnuleysi verður á árinu, og að einkum skuli þá vinna fyrir þetta fé að auknu landnámi með stofnun samvinnubyggða fyrir augum eða vegarlagningu í Krýsuvíkurvegi, Vestfjarðavegi, Siglufjarðarskarði og Oddsskarði. Samkv. l. um landnám ríkisins ber ríkissjóði að leggja fram nokkurt fé í því skyni. N. hafði nú ekki tekið fjárveitingu til þessa upp í fjárl. sérstaklega, en taldi, að rétt mundi vera að taka upp á heimildargr. till. um þetta efni til ábendingar, ef fært þætti að ráðast í eitthvað af þessu tæi. Það mun vera nokkur ágreiningur um þessa till. í n., og munu menn sjálfir gera grein fyrir afstöðu sinni til hennar.

97. liðurinn er brtt. við svo nefnda niðurskurðarheimild, sem hefur staðið á fjárl. nokkur undanfarin ár. En liðurinn, sem þessi brtt. (97. liður) er við, er um það, að ríkisstj. sé heimilt að lækka útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru bundin í öðrum 1. en fjárl., eftir jöfnu hlutfalli um allt að 35%, ef ríkisstj. telur sýnilegt, að áhrif styrjaldarinnar verði þess valdandi, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi ekki fyrir gjöldunum. Meiri hl. n. leggur til, að liðurinn orðist svo: „Að leggja til hliðar og geyma það fé á sérstökum reikningi, sem ætlað er til verklegra framkvæmda í lögum þessum, ef skortur á efnivörum eða vinnukrafti gerir ókleift að vinna þær, og er óheimilt að verja því til annarra hluta“ Þessar till. fara nokkuð í bága hvor við aðra, þó að segja mætti, að þær gætu e.t.v. að einhverju leyti samrýmzt. Ég mun ekki að þessu sinni gera þær hér að umræðuefni, en ítreka það, að nokkrir hv. nm. hafa gert um þetta fyrirvara, sem þeir efalaust gera grein fyrir.

Ég vildi svo minnast á smástyrki, sem eru veittir á fjárl. og n. hefur gert till. um að yrðu hækkaðir. Þá er fyrst að nefna till. um að þrefalda bókasafnastyrkinn. N. taldi ekki ástæðu til að fallast á þá till., en hins vegar var hún á þeirri skoðun, að nokkur nauðsyn væri á hækkun. Í því sambandi vill n. benda á það, að á s.l. ári hefur verið greidd dýrtíðaruppbót á nokkra bókasafnastyrki, og taldi hún því rétt að dýrtíðaruppbót væri greidd á alla styrkina í stað þess að auka styrkina. Sú fjárveiting mundi ekki nema neinni verulegri upphæð, en mundi hins vegar verða til talsverðs stuðnings fyrir bókasöfnin.

Útgjöld þau, sem n. gerir ráð fyrir í þeim till., er hún nú leggur fyrir, umfram lækkanir nema samtals 10 millj. og 400 þús. kr. Samkv. fyrri till. n. voru hækkanir umfram lækkanir 6 millj. og 800 þús. kr., þannig að samtals eru hækkunartill. n. umfram lækkanir að meðtöldum hækkunum til vita um 17 millj. og 400 þús. kr.

Alls hefur n. nú hækkað tekjubálkinn um 17 millj. og 695 þús. kr. Greiðslujöfnuður samkv. sjóðsyfirliti er svipaður og var í fjárlagafrv., þegar stj. lagði það fyrir þingið; hann var samkv. frv. 6 millj. og 240 þús., en er eftir till. n. um 7 millj. kr.

Þó að fjárlagafrv. taki ofurlitlum breyt., ef till. n. verða samþ., þá hafa niðurstöðutölurnar ekki breytzt í verulegum atriðum.

Tekjur ríkissjóðs á árinu, sem leið, virtust vera þannig að ríkissjóður hefði getað staðið við ýmis lögboðin útgjöld, sem fyrrverandi ríkisstj. hafði gert ráð fyrir. — Nú er það svo, að núverandi ríkisstj. hefur ekki haft verulegt samstarf við n. um afgreiðslu þessara fjárl., enda hefði hún komið að þessum störfum nokkuð ókunnug. Hins vegar hefur hæstv. stj. haft öðrum störfum að sinna. Ég hef heyrt, að menn séu farnir að nefna þessi fjárl., sem hér liggja fyrir, „risafjárlög“ og að mönnum þætti fjvn. drjúg í því að leggja fram hækkunartill. Ég minntist á það, að hækkunartill. n. næmu samtals nokkuð á 17. millj. kr., en af þessum hækkunartill. eiga 8 millj. og 400 þús. kr. að fara til aukinna verklegra framkvæmda, og er það um helmingur hækkunartill. Hinn helmingurinn er leiðrétting á fjárlfrv. og till. um útgjöld, sem ríkisstj. bar að inna af höndum lögum samkv. eða hin nýja stj. hefur lagt til, að teknar yrðu upp. Útgjöld samkv. till. hinnar nýju stj. nema samtals rúmlega 2 millj. kr. Menn telja, að ríkisstj. ætti á þessum tímum að sýna nokkurn lit í því að veita fé til verklegra framkvæmda og þá sér staklega til vegagerða. Í þessu hefur n. ekki farið langt, miðað við heildarútgjöld ríkissjóðs, en hins vegar þótti n. rétt að koma á móti mönnum, svo sem henni þótti fært, með vegagerðir og þá einkum vegna þess, að til þeirra þarf ekki neitt verulegt af erlendu efni. Hins vegar þarf til bygginga mikið erlent efni, sem erfitt er að fá á þessum tímum og er mjög dýrt, og hefur n. þess vegna ekki farið langt í þeim till. Það má vel vera að mörgum ógni það, að lagt er til að hækka útgjöld fjárlagafrv. um 17 millj. kr. En þegar þess er gætt, að helmingurinn af þeim hækkunartill. er bein leiðrétting á fjárlagafrv. eða útgjöld, sem Alþ. getur ekki komizt hjá að greiða lögum samkv., þá líta þessar hækkanir ekki eins ofboðslega út. Annars lítur út fyrir, þó að mörgum finnist þessar hækkanir miklar, að hv. þm. þyki hér of skammt farið ef dæma má af brtt. þeim til hækkunar er þeir leggja fram. Fjvn. hefur vegna þessarar umr. lagt fram 97 brtt. með hækkun samtals um 10 millj. kr., þar af er þó allmikið af hækkunum, sem ekki verður komizt hjá að greiða. En hv. þm. þykir þetta of skammt farið. Þeir hafa lagt fram álíka marga liði um breyt. á fjárl. eins og fjvn., og þessar hækkunartill. nema samtals 9 millj. og 660 þús. kr., eða álíka upphæð eins og fjvn. kemur með við þessa umr. Ég finn ástæðu til að benda á þetta þegar í þessari framsöguræðu. Ég get ekki gert þessar brtt. einstakra þm. að umtalsefni nú, vegna þess að þær eru allar nýlega komnar í hendur mínar. Ég tel líka rétt, að fjvn. fái þær til nokkurrar athugunar, ef hlé verður á þessari umr. En ég vildi vekja athygli á því nú þegar, að það er ástæða til þess fyrir hv. þm. að athuga nokkuð, hvort hægt er að fara lengra í því að hækka till. um fjárveitingar heldur en fjvn. hefur lagt til, og enn fremur, hvort ekki þyrfti að finna tekjur á móti, eða þá í öðru lagi að skera niður eitthvað af þeim hækkunum, sem fjvn. hefur lagt til, sjái hv. þm. önnur útgjöld nauðsynlegri en þau, sem fjvn. hefur komið auga á. Það vill svo sérstaklega til við afgreiðslu þessara fjárl., að við sitjum hér með stj., sem ekki styðst við neinn sérstakan flokk í þinginu, og að samvinna á milli stj. og fjvn. hefur orðið mjög lítil. Það kemur þess vegna alveg sérstaklega til kasta Alþ. sjálfs að þessu sinni að afgreiða fjárl., sem þm. treysta sér til að bera ábyrgð á. Þessu hefur ekki verið svo varið við fjárlagaafgreiðslu hér áður. Það hefur verið einhver flokkur eða flokkar, sem hafa borið ábyrgð á afgreiðslu fjárl. og tekið í sínar hendur að sjá um, að fjárl. voru þannig, að þau teldust framkvæmanleg. Að þessu sinni er hér ekki neinu slíku til að dreifa, og þess vegna verður það að vera skylda hvers einasta þm. sérstaklega og sameiginleg skylda allra þm, að afgreiða fjárl. þannig, að Alþ. geti verið þekkt fyrir afgreiðslu þeirra.