11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. samvn. samgm. (Gísli Sveinsson):

Nál. samvinnun. samgöngumála er að finna á þskj. 355. Eins og þar kemur greinilega fram, hefur samvinnun. átt örðugt með að ákveða svo þau málefni, sem þar lágu fyrir, að hún gæti fundið til þess, að öllu væri borgið. Eins og kunnugt er, þá má nú heita ógerlegt að sjá nokkuð fram í tímann, og þá sérstaklega um allt það, er viðkemur því að áætla fjárframlög. Nú er svo sérstaklega ástatt um þetta málefni, — bátaferðirnar kringum landið, — að upp á síðkastið hefur komið í ljós, að mjög erfitt er að fullnægja þeirri þörf, sem fyrir hendi er í þeim efnum, jafnvel þó að nægilegt fjármagn væri til, og stafar það af því, að skipakostur er af skornum skammti til þessara ferða. Eins og tekið er fram í nál., hefur samvinnun. notið aðstoðar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem eðlilega er þessum hnútum kunnugastur, og hefur hann verið eins konar umboðsmaður Alþ. til þess að fara með þessi mál og gera till. um, hversu haga skuli þessum styrkveitingum. Það hefur verið föst regla árum saman, að samvinnun., sem vinna fyrir báðar d., hafa verið einráðar um þessar fjárveitingar, og fjvn. hefur ekki árum saman gert tilraun til þess að raska því, sem samvinnun. hefur ákvarðað, og hefur fjvn. síðan tekið þessar till. upp í fjárlfrv., og þannig er þetta enn. Eins og kemur fram í nál., hefur orðið að stórhækka fjárframlög til þessara samgangna.

Þá er fyrsti liðurinn, Djúpbáturinn. Hækkunin á þeim lið hefur orðið úr 72 þús. kr. upp í 170 þús. kr. Nú er náttúrlega ekki þess að dyljast. eins og líka ber að taka fram, að full von er til þess, þegar þessar samgöngur eru komnar í fullt lag, að þá rýrni þessi mikli kostnaður, sem nú er yfirleitt á þessum flutningum, og þá minnkar auðvitað það tillag, sem hið opinbera verður að leggja fram í þessu skyni.

Næsti liður er Skagafjarðar- og Fljóta-bátur til Siglufjarðar. Kostnaður við þessar ferðir hefur orðið 42 þús. kr. á s.l. ári, en nú er áætlunin hækkuð upp í 50 þús. kr., og þykir hér ekki of hátt farið, og má ætta, að þessi hækkun sé eðlileg, ef miðað er við þá dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur á þeirri útgerð.

Þá er næst Norðurlands-bátur til Austfjarða, (Seyðisfjarðar). Hann fékk 42 þús. kr. á s.l. ári. Á þessum lið verður að vera stórkostleg hækkun, ef þessar ferðir eiga ekki að leggjast niður, enda er styrkurinn hækkaður upp í 75 þús. kr. þetta er lengsta og erfiðasta svæðið, og það er mjög áríðandi, að ferðir milli þessara landshluta falli ekki niður, enda er hér um mikla hækkun að ræða.

Þá er næst lítill bátur, Flateyjarbátur (á Skjálfanda). Hann hefur tekið vissa upphæð fyrir hverja ferð, og er lagt til, að sá styrkur verði hækkaður um helming.

Hornafjarðar-Austfjarðabátur hækkar úr 20 þús. í 30 þús. kr. Það er líku máli að gegna með þennan bát eins og aðra samgöngubáta við Norður- og Austurland, að það hefur verið mjög undir hælinn lagt, hvort hægt hefur verið að fá nokkurn bát til þessara ferða. Það var svo á s.l. ári, að alls enginn viss bátur annaðist þessar ferðir, en Skipaútgerð ríkisins sá um þetta og hafði að vísu til þess bát, og mun svo enn verða fram eftir þessu ári. Þá hefur n. ekki séð sér annað fært en að annast fyrirkomulag bátaferða um sunnanverða Austfirði. Það voru að vísu til í till. tveir bátar, annar var Reyðarfjarðarbátur, — en ferðir hans lögðust alveg niður á s.l. ári, hins vegar var svo Loðmundarfjarðarbátur. Nú er lagt til, að þessir fjarðabátar verði fimm, svo að haldið verði uppi þessum samgöngum í samræmi við landsamgöngurnar um þessar slóðir. En þær eru nú að komast á það stig, að ætla má, að þessara bátaferða verði af þeim sökum full þörf.

Í sambandi við þessar till. má nefna Akranesssamgöngurnar, sem ég tel, að fullnægjandi grein sé fyrir gerð í nál. Að öðru leyti má bæta því við, að þess má vænta, að úr þessu muni rætast á þessu ári, og hafa hlutaðeigendur látið það í ljós, að þeir hafi hug á að leysa þetta spursmál sjálfir, eins og gert hefur verið í Borgarnesi.

Bátaferðir innan Austur-Skaftafellssýslu hafa hækkað allmikið í rekstri, enda er svæðið mikið, sem farið er yfir. En hækkunin er eðlileg, eftir því sem nú horfir um allan tilkostnað, og er, eins og hv. þm. sjá, enn þá áætlað sérstakt framlag til Öræfanna.

Þá er enn komið að því, sem hefur verið mjög örðugt að fást við upp á síðkastið, sem eru samgöngur milli lands og Eyja, sem heitir nú milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja, því að samgöngur þær, sem eðlilegastar voru og mest fullnægjandi og þær einu, sem í framtíðinni ættu að geta komið til mála, samgöngur villi Vestmannaeyja og Rvíkur, hafa svo að segja lagzt niður. Hins vegar hafa samgöngurnar milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja orðið talsverða þýðingu fyrir samgöngurnar milli lands og Eyja. En það hefur nú verið erfitt að fá til þeirra samgangna báta, sem væru fullnægjandi. Og hefur því verið rík nauðsyn á að hækka þann styrk, sem til þessa er ætlaður. Á síðasta ári var veitt til þessara samgangna 30–40 þús. kr. En það er nauðsyn á að hækka þennan styrk upp í 45 þús. kr.

Um Mýrabátinn og Rangársandsbátinn hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að gera ekki upp á milli þessara báta, heldur láta hækkunina vera jafna á báðum, sem sé, að 2 þús. kr. verði veittar til þessara samgangna og héruðin annist farkost til þessara flutninga.

Þá eru Breiðafjarðarsamgöngurnar. Til þeirra er hækkað framlag, sem talin er nauðsyn á samkv. umsókn og skýrslum þar um, úr 30 þús. kr. á síðasta ári og upp í 46350 kr. Hér er um að ræða þá upphæð til þessara samgangna, sem fjvn. hefur komizt að niðurstöðu um, að væri kleif og nauðsyn ræki til. Þessum Breiðafjarðarsamgangnastyrk hefur svo verið skipt hér af n. eftir till. kunnugra manna og með ráði Skipaútgerðar ríkisins, þannig að hér er greint, hvað hver samgangnaþáttur á Breiðafirði eigi að fá í sinn hlut af þessu fyrir sig. Hvort þessari áætlun verður breytt eitthvað til eða frá og önnur hlutföll látin gilda um skiptingu á þessum heildarstyrk, verður látið afskiptalaust af fjvn.

Þá er eitt atriði, sem enn er ódrepið á, er snertir samgöngur hér á Suðurlandi. Það er svo kallað Suðurlandsskip, sem ávallt hefur verið veittur til nokkur þús. kr. styrkur. Og síðan stríðið hófst, færðist þessi styrkur, sem ætlaður var til sjóflutninga, yfir til landflutnings. Og það var í fullu samráði við ríkisstj., sem veitti þennan styrk, 3, 4, 5 eða 6 þús. kr. á ári og á síðasta ári 8 þús. kr., að þessum styrk, sem veittur var til Suðurlandsskips áður, væri ráðstafað af sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýlu í samráði við viðskiptastöðvar héraðanna, verzlanir þar, til lækkunar á flutningsgjöldum á landi, og er svo enn. Nú hefur þessi styrkur í höndum hv. fjvn. verið tvöfaldaður og er kominn upp í 16 þús. kr. En samt sem áður sé ég að einn hv. nm. kemur með brtt. um stórkostlega hækkun á þeim styrk, og skal ég ekkert um það segja á þessu stigi. Ég mun telja það algert skilyrði, að þessi styrkur, hvernig sem hann er samþ., notist eingöngu í Vestur-Skaftafellssýslu, því að annars er rofið það samkomulag, sem gert var við ríkisstj., að hann skyldi veittur til þeirra samgangna, ef hann yrði veittur til landsamgangna. En þó að sá hv. fjvnm. hafi komið með þessa brtt. án þess að gera grein fyrir henni, mun hann að sjálfsögðu síðar við umr. gera grein fyrir þessari brtt.

Ég skal geta þess í viðbót við það, sem greint er í nál., að fjvn. hefur öll orðið sammála um það — eins og hún er sammála um allt, sem er í brtt. n. — að telja það skilyrði fyrir útborgun styrkjanna, sem mætti skoða í sambandi við það, sem ég hef tekið fram um ýmsa staði á landinu, sem nú njóta mikils styrks vegna samgangna og vegna erfiðleika í sambandi við þær, að ef árar það vel á þessu ári, að hlutaðeigandi aðilar gefa þær skýrslur, eftir því sem krafizt er, sem að dómi forstjóra Skipaútgerðar ríkisins í samráði við Alþ. eða ríkisstj. þykja gefa til kynna, að draga megi úr áætluðum styrkjum til þessara samgangna, þá verði það gert. Því að það er alls ekki gert ráð fyrir því hér að veita fjárfúlgur til þessara hluta fra;m yfir það, sem nauðsyn krefur, enda mun svo vera til ætlazt af sjálfum hlutaðeigendum.