11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jónas Jónsson:

Ég vil fara fáeinum orðum um vissa hluti í frv. og þá fyrst, þar sem hæstv. fjmrh. hefur nú talað, beina til hans einni spurningu. Eins og mun hafa borizt þm. til eyrna, var fjvn. tvíróma um eitt atriði, sem sé, hvort haldast skyldi sú varúðargrein, að ef illa gengi um atvinnulíf og tekjur ríkissjóðs rýrnuðu, mætti fella niður þær framkvæmdir, sem ekki eru lögbundnar. Meiri hl. fjvn. áleit, að þetta ætti ekki að standa, og bar fram brtt. um að fella þetta burt. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma, hvort þetta er rétt eða ekki, heldur vil ég beina því til hæstv. fjmrh., hvernig hann muni snúast við þessu. Ef nú kemur harðæri, sem vel getur komið fyrir, t.d. ef kafbátahernaðurinn vex, þá sýnist svo sem fjmrh. geti ekki gert nema eitt af tvennu. Annaðhvort að biðja Alþ. um heimild til að taka 12 millj. kr. innanlandslán til að mæta þessu áfalli eða þá að leggja á nýja skatta. Það er óhjákvæmilegt að vita, hvernig ríkisstj. álitur réttast að snúast við þessu. Ég vil óska, að hæstv. ráðh. láti í ljós skoðun sína um þetta.

Þá vil ég minnast á till. viðvíkjandi menntamálaráði, sem samþ. var af meiri hl., en ekki af allri fjvn., og er afleiðing af því, sem áður hafði gert. Það hefur verið haldið uppi miklum ófriði á hendur menntamálaráði af nokkrum skrifandi mönnum og á hendur Alþ., þar sem þessir óánægðu menn hafa haldið því fram, að víssir rithöfundar, sem hafa rekið pólitískan áróður í bókum sínum, ættu að fá hæstan styrkinn. Menntamálaráð hefur ekki viljað samþ. það. Í skjölum, sem hinir óánægðu menn hafa sent þ., hafa þeir sagt: „Það er óhæfa, ekki aðeins að menntamálaráð, heldur nokkur n. hafi slíka úthlutun með höndum, því að enginn hefur vit á að meta list nema listamennirnir sjálfir.“ Þessi skoðun hefur verið véfengd af mér og fleiri mönnum. En af því að rétt þótti að athuga betur tilefnið til óánægjunnar, varð það að samkomulagi milli mín og fleiri nm. að lofa þessum mönnum að reyna sig í eitt ár, og um það höfum við flutt till., sem liggur hér fyrir á þskj. 387,39, og er afleiðing af því, að Alþ. felldi það að setja listamennina inn á 18. gr. Nú er það mín skoðun, að það sé aukaatriði, hvaða n. úthlutar peningunum. Aðalatriðið fyrir Alþ. er, að hér þurfi ekki að vera að flækjast mikill fjöldi af mönnum á hverju þ. með leiðinlegan áróður, og sá áróður er svo gamall, að einn þm., sem var þingskrifari 1917, sagði mér, að hann hefði ekki haft frið fyrir áróðursmönnum, sem vildu fá hann til að róa í þm. Flestum þm. finnst þetta hvumleitt. Ég hef því viljað gera tilraun bæði í gamni og alvöru, en mest í alvöru, og segja við þessa menn: „Þið hafið alltaf verið óánægðir. Þið segið, að enginn hafi vit á málefnum ykkar. og í Ed. hefur sá uppbótarþm., sem bauð sig fram í kjördæmi mínu, sagt, að það væri bezt, að þið fengjuð sjálfir að ráða. Nú stendur þetta til boða.“ En þá bregður svo undarlega við, að í fjvn. rísa upp fulltrúar kommúnista og segja, að þetta sé mesta goðgá. Þeir virðast alveg hafa farið í kringum sjálfa sig. Þetta sýnir, eins og vitanlegt var, að það þarf sérstök úrræði til að lynda við þetta fólk.

Ég fékk reikningsglöggan mann í landsins þjónustu til að reikna út, hvað það kostaði fyrir landið að samþ. hinn fræga h-lið, sem var felldur við 2, umr. Það var um 32 menn að ræða. Frumsumman var 87 þús. kr. og með öllum uppbótum tæp 300 þús. kr., svo að auðséð er, að þegar búið væri að bæta við a.m.k. öðrum 30, gæti þetta orðið upp undir 600 þús. kr. Ég held, að það sé fullkomin ofrausn, sem þarna kemur fram. Fyrrv. ríkisstj. greiddi venjulega dýrtíðaruppbót, svo að það hefur verið mjög sómasamlega frá þessu gengið.

Mér finnst nú ekki eðlilegt annað en unna vinum bandalagsins að fá sinn vilja og lofa þeim að sýna sig, en mín spá er sú, að margir verði óánægðir með skiptin, svo að hlýða þyki að taka þetta mál aftur til meðferðar, og það verði því annaðhvort vísað til menntamálaráðs eða kosin sérstök þn.

Mér finnst rétt við þessa umr. að benda á, að einn af þeim mönnum, sem fastast var sótt um við 2. umr., Halldór Kiljan Laxness, var ætlazt til að fengi um 16 þús. kr. með uppbótum, en þessi sami maður hefur nýlega í flokkstímariti kommúnista haldið því fram, að öll bændastétt landsins væri ölmusulýður. Mér finnst ósamræmi í því, að sá, sem vill hafa 16 þús. kr. án annarrar skyldu en að vera rithöfundur og agitera fyrir kommúnisma, hefur þessa skoðun á því fólki, sem við erfiðar aðstæður er að byggja upp landið. Hann stimplar þetta dugmikla fólk sem ölmusulýð. Þessi maður er þó einna bezt gefinn af þeim á órólegu deildinni, og þegar svona er um hin grænu tré, geta menn gizkað á hugarfar þessara manna almennt.

Ég skal verða við tilmælum hv. formanns fjvn., sem eru í samræmi við þá skoðun, sem flokksblað hans hefur látið í ljós, og útskýra till. um hrossarækt á Bessastöðum. Það er upphaf málsins, að seint á þ. í fyrra vetur kom ósk fra þáv. landbrh. um, að n. mælti með því, að varið yrði 150 þús. kr. til að byggja upp fjós og hlöðu á Bessastöðum. Þessum tilmælum fylgdi sá rökstuðningur, að fjósið, sem þar stæði, væri mjög úr sér gengið. Um sama leyti var ríkisstjóri búinn að láta laga jörðina og húsin með miklum tilkostnaði, og þá kom upp sú spurning, hvort þarna ætti að vera ríkisbú eða hvort ætti að leigja jörðina einstökum manni. Þáv. landbrh. lagði þetta fyrir fjvn., sem ekki var sammála. Einn maður, hv. þm. Borgf., sem ekki hefir mikla trú á ríkisrekstri, vildi, að jörðin væri leigð. En mikill meiri hl. n. taldi ekki líklegt, að ríkisstjóri sætti sig við annað en ráða yfir jörðinni allri, og meiri hl. mælti því með því, að þarna skyldi vera ríkisbú, til þess að staðurinn nyti sín hið bezta. Næsta stigið er, að landbrh. lætur n. vita, að það þurfi að leggja 150 þús. kr. í að byggja fjós og hlöðu. En um sama leyti mun það hafa hvarflað að ríkisstjóra, að leitt væri að hafa mikinn tekjuhalla á búinu, og sérfróður maður, sem hann mun hafa leitað til, skólastjórinn við Garðyrkjuskólann á Reykjum, hélt því fram, að það væri ólán að hafa þar kúabú með 20 kúm, því að fólkshald væri í dýrasta lagi. Skólastjórinn stakk svo upp á því, fyrst við ríkisstjóra og síðan við ýmsa þm., að þar sem í ráði vær í að koma upp kynbótabúi fyrir hesta, væri til athugunar að nota Bessastaðaland til þess. Úr því að á annað borð var talið nauðsynlegt, að sérstakt ræktunanbú þyrfti fyrir hesta í landinu, jafnvel tvö, og annað búið yrði á Suðurlandi, þá hefur búnaðarfélagið mælzt til þess, að úr þessu yrði. Það tók þetta mál til meðferðar, og eftir nána yfirvegun mælti stj. félagsins öll með því, að dráttarhestabú yrði sett á stofn á Bessastöðum, en reiðhestabú á Hólum í Hjaltadal.

Nú er það vitað, að ef kúabú yrði sett á Bessastöðum í stærri stíl, mundi af því hljótast öruggur rekstrarhalli, er allt öðru máli að gegna með hrossaræktarbú, því að við slíkt bú þarf miklu minni vinnukraft en við kúabúin. Auk þess stendur svo sérstaklega á með beitina í Bessastaðalandi, að hún er talin vera ein bezta hestabeit hér á landi.

En úr því að ég er farinn að mæla fyrir þessari brtt. fjvn., er bezt að ég segi frá því, að Gunnar Bjarnason ráðunautur er þessu máli fast fylgjandi. Hann fullyrðir, að hægt sé að stórbæta dráttarhestakynið frá því, sem nú er, með því að koma upp slíku hrossaræktarbúi þannig að velja úr beztu folana, ala þá og sjá svo um, að öll afkvæmi dráttarhesta verði undan þessum úrvalsgripum.

Allir, sem nokkuð vit hafa á þessum málum, sjá nauðsyn þessa fyrir hrossaræktina í landinu. Því að alltaf verður hestaaflið mikið notað sökum gæða þess á ýmsan hátt þrátt fyrir aðflutt afl og olíu.

Nú vill svo til, að þessi ráðunautur hrossaræktarinnar, Gunnar Bjarnason, vildi gjarnan búa á Bessastöðum, og er það til mikils sóma fyrir hann að vilja vera í sveitinni. Hann getur með hægu móti verið ráðsmaður á Bessastöðum um leið.

Ég er viss um það, að hv. Alþ. á eftir að iðrast þess síðar, ef það vill nú ekki fara að þessum ráðum, en í þess stað setja á stofn tekjuhalla búskap á Bessastöðum. En ég vona samt, að hv. þm. verði svo réttsýnir í þessu máli, að þeir geri það, sem þeir menn, er vit hafa á þessum málum, með rökum sérþekkingar leggja til, að gert verði.

Þá þykir mér rétt að geta þess, að Alþýðublaðið er með ofhrós um mig varðandi þetta mál. Það er nú ekki ég, sem á hugmyndina un n þetta, eins og blaðið vill vera láta, heldur er þetta komið frá Búnaðarfélagi Íslands. Ég hefi aðeins stutt að framgangi málsins í hv. fjvn., þar sem ég lit svo á, að það eigi að komast í framkvæmd.

Þá hef ég flutt eina till. við heimildargr., sem ég vonast til, að ekki sýnist ósanngjörn. Hún er um það, að Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg, er prentar allar kennslubækur barnaskólanna, sé og falið að gefa út nauðsynlagar kennslubækur gagnfræða- og héraðsskóla í samráði við fræðslumálastjóra og aðra trúnaðarmenn skólanna þar til kvadda. Í skólum þessum eru hátt á annað þús. nemendur, og því ætti með þessu móti, að gagnkvæmir samningar færu fram, ekki að þurfa að vera halli á útgáfu þessara námsbóka, ef það verður tryggt, að nægilega margir verði kaupendur að þeim. Vænti ég því, að þessi till. verði samþ.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um drykkjumannahælið, sem í ráði er, að reist verði. Ég gat um það í sumar í sambandi við þál. um drykkjumannahæli, er þá var flutt á sumarþ., að ekki ætti að byggja þetta hæli eitt sér, heldur í sambandi við sjúkrahús einhvers konar, þannig að hér væri ekki einungis um drykkjumannahæli að ræða. — Það var rætt í n. að nefna þetta hæli eitthvað annað en drykkjumannahæli. Er það vissulega athugandi að hafa ekki þetta nafn á þessari væntanlegu byggingu, því að það hlýtur að koma til með að verka óþægilega á þá, sem fyrir á að liggja að dvelja þar, að fá kannske þetta nafn til að loða við sig um lengri tíma. eftir að sjúklingurinn er farinn af hælinu — að þessi og þessi hafi nú verið á drykkjumannahælinu —. Ég ætla ekki að fara að halda því fram, að ég hafi einhverja sérþekkingu á eðli ofdrykkjumannsins, en almenn skynsemi hlýtur bara að blása manni því í brjóst, að það sé bezt að sjúklingurinn, þ.e.a.s. ofdrykkjumaðurinn, viti sem minnst af því, að hann er á ofdrykkjumannahæli, eða a.m.k. þurfi ekki að eiga það yfir höfði sér, að nafn ofdrykkjumannsins loði við hann alla ævi, eftir að hann einu sinni hefur þurft að dvelja á hælinu.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta, en vil aðeins, jafnframt því, sem ég hef sagt um nafnið á slíku hæli, leiða athygli að því, að þetta hæli verði ekki eitt sér, heldur byggt, er þar til kemur, sem ein deild í stærri og meiri byggingu, sem væri ætluð sjúku fólki. Það vantar t.d. hæli fyrir gigtveikt fólk, fyrir þunglyndisveikt fólk. Þessi bygging þarf að verða reist við jarðhita, sem hefði jafnvel möguleika til að laða að sér fólk úr öðrum löndum. Sums staðar erlendis eru hressingarhæli, sem fólk sækir jafnvel til úr fjarlægum löndum. Eitt slíkt hressingarhæli ætti að geta risið hér á Íslandi, því að flest skilyrðin eru hér áreiðanlega fyrir hendi til þess. Gæti þá einmitt þetta hæli fyrir drykkjumenn verið tengt slíku hressingarhæli og verið í sömu byggingu. Ég vildi biðja hæstv. stj. að hafa þetta til athugunar, ef til framkvæmda kemur á næstunni. Þess verður um fram allt að gæta í þessu efni, að því fólki, sem hefur orðið ofdrykkjunni að bráð, sé hjálpað eins andlega og líkamlega, því að það ríður ekki síður á því.