11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sveinbjörn Högnason:

Ég á nokkrar brtt, við fjárlagafrv. fyrir árið 1943, sem ég ætla að fara nokkrum orðum um til skýringar, svo að hv. þm. geti gert sér grein fyrir því, sem þær fara fram á.

Ég held, að það sé rétt, að ég byrji þá að tala um XXIII. brtt., er ég á á þskj. 410 um hækkun á styrk til Suðurlandsskips um 49 þús. kr., enda verði honum úthlutað á sama hátt og undanfarin ár.

Það kann að virðast nokkuð einkennilegt, að ég hef skrifað undir nál. samvn. samgm. án fyrirvara, en flyt síðan þessa brtt., og mér skildist jafnvel á ræðu hv. frsm. samgmn., að ég hafi skrifað undir nál. ágreiningslaust. En skýringin á því, að ég flyt þessa brtt. mína, er sú, að á sumarþ. flutti ég ásamt hv. 1. þm. Rang. þál. um, að 200 þús. kr. styrkur yrði veittur vegna landflutninga þungavöru til hafnleysishéraða landsins. Þessi till. var ekki afgr. úr fjvn., og mér var af nm. gefið í skyn, að ef till. þessi yrði samþ., mundu fleiri slíkar till. fylgja á eftir, því að þá væri fordæmið skapað.

Hins vegar var mér bent á það af nm. fjvn., að flutningar á sjó til Vestur-Skaftafellssýslu hafi fallið niður, en styrkur sá, er veittur hafi verið til Suðurlandsskips, 8 þús. kr., sé notaður til styrktar landflutningum og honum úthlutað þar milli aðila. Varð það að samkomulagi, að ég athugaði, hvernig þessum styrk og úthlutun hans væri hagað eystra og hvort tiltækilegt væri að styrkja landflutningana með því að hækka þennan styrk, og yrði þá þetta á ný tekið til athugunar í nefndinni.

Eftir að ég nú hafði aflað mér þeirra upplýsinga, varðandi þennan styrk til Suðurlandsskips og úthlutun hans til styrktar landflutningum, og komizt að raun um, að ánægja ríkti gagnvart þessu fyrirkomulagi, átti ég von á því, að fjvn. féllist á till. mína um hækkun til þessarar styrktarstarfsemi, en er þetta kom til atkv. í n., var till. mín felld með jöfnum atkv.

Þegar þetta réttlætis og sanngirnis mál hafði fengið slíka afgreiðslu hjá fjvn., taldi ég mér skylt að leggja það undir úrskurð hv. Alþ. í von um, að það næði fram að ganga, þó að fjvn. hefði ekki viljað veita því sinn stuðning. Þetta hef ég svo gert með því að flytja brtt. við brtt. samvn. samgm. á þskj. 388 um að hækka heildarupphæðina, sem samvn. samgm. leggur til, að verði um 49 þús. kr., og að sú hækkun gangi til þess að styrkja vöruflutninga á landi til Vestur-Skaftafellssýslu.

Um þörfina á þessari styrkveitingu ætla ég ekki að fara að ræða nú. Ég hef áður í sambandi við þetta mál hér á þ. bent á, hversu brýn nauðsyn er á því, að þessi styrkur verði veittur, og ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi þegar áttað sig á því, að hér er um aðkallandi réttlætismál að ræða.

Þetta hérað, sem hér um ræðir, er eitt allra héraða á landinu, sem eingöngu verður að byggja alla sína flutninga, smáa sem stóra, á landleiðinni. Af þessu leiðir, að langkostnaðarsamast verður fyrir þá, sem þarna búa, að flytja vörur sínar, og þá sérstaklega þungavöruna, því að flutningar á landi eru margfalt dýrari en flutningar á sjó. Eftir upplýsingum, sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur tjáð mér, kostar 40–50 kr. að flytja smálestina á sjó, en 200 kr. á landi til sömu staða, 580 eða samsvarandi.

Þegar bornir eru saman styrkir þeir, sem veittir eru til flóabáta hér og hvar á landinu, við það framlag, sem ætlazt er til, að greitt verði til vöruflutninga landleiðis til Vestur-Skaftafellssýslu, þá sést, að hér er farið mjög vægt í sakirnar. Hvað er t.d. þetta litla framlag mikið saman borið við þær 170 þús., sem greiða á til Djúpbátsins? Í raun og veru á Vestur-Skaftafellssýsla heimtingu á því, að sjóferðum sé haldið uppi til sýslunnar, en þar sem samgöngur eru svo góðar á landi, hafa flutningar verið látnir fara fram þar eingöngu landleiðina vegna hafnleysisins, en nú eru þessir flutningar á landi orðnir svo kostnaðarsamir, að bændum er ekki kleift að halda þeim lengur uppi, og því er það beinlínis skylda Alþ. að koma hér til hjálpar og styrkja bændur til þess að geta haldið þessum flutningum áfram, sem eru orðnir fjórfalt dýrari en flutningar sjóleiðis.

Ég vænti þess fastlega, að hv. Alþ. sjái nauðsyn þessa máls og réttsýni og sanngirni fái að ráða við afgreiðslu þess, og því fremur þar sem svo vægt er í sakirnar farið, að í raun og veru er farið fram á 1/4 af upphæð þeirri, sem sambærilegt er, að þetta hérað fái, borið saman við önnur héruð á landinu.

Þá á ég og IV. brtt. á þskj. 410 um læknisvitjanastyrk, að hann hækki um helming frá því, sem gert er ráð fyrir, að hann verði í fjárl. 1943, þ.e.a.s. í tveimur héruðum, Síðuhéraði og Mýrdalshéraði, og nemur hækkunin um 1000 kr. Fjvn. hefur ekki lagt neitt til um hækkun á þessum styrkjum, en nokkrir þm. flytja brtt., er ganga í sömu átt og brtt. mín, og verður það aði teljast eðlilegt. Hér er um að ræða aðeins smáupphæðir, sem á engan hátt verða tilfinnanlegar fyrir ríkissjóð, en verða þó að miklum notum fyrir þá, sem þessa læknisvitjanastyrki hljóta. Eins og þessir styrkir eru núna, hrökkva þeir skammt til þess að koma að nokkrum notum fyrir það fátæka fólk, sem þessara styrkja á að njóta. Öllum er það kunnugt, hve bílaferðir eru rándýrar, eins og á stendur, svo að jafnvel 2–300 kr. geta farið í þann kostnað fyrir eina læknisvitjun. Er óþarft að vera að eyða mörgum orðum um þetta atriði, þar sem það liggur svo augljóst fyrir, að hér er um að ræða sanngirnismál, sem leggur litla sem enga fjárhagslega byrði á ríkið.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. við framlög til vega og brúargerða, XV. brtt. nr. 1 og 2 á þskj. 410.

Eins og ég minntist á, verður Vestur-Skaftafellssýsla eingöngu að treysta á samgöngur á landi. Því er það höfuðskilyrði, að vegir þar séu í góðu lagi. En svo háttar til þar eystra, að sums staðar eru vegir illfærir, og ein sveit er t.d. alveg vegasambandslaus, þó að hægt sé að komast þangað með því að fara á ferju og eftir óupphleyptum vegi.

Ég legg til, að hækkað verði framlag til Meðallandsvegarins úr 12 þús. kr. í 25 þús., en það mundi verða til þess, að hægt yrði að koma tveimur sveitum í sambandi við bílvegakerfið. Þetta yrði gert með því að leggja upphleyptan veg niður Landbrotið að fyrirhugaðri brú á Eldvatni, sem þar á að reisa samkv. till. fjvn.

Eftir hækkun annarra framlaga til vegagerða, þá sýnist mér fullkomlega réttmætt, að gerð verði þessi hækkun til Meðallandsvegarins, mætti jafnvel segja, að hér væri nokkuð vægt í farið.

Þá er í þessari sömu brtt. tekinn upp nýr liður, Mýrdalssandsvegur, og lagt til að hann verði settur inn á fjárl. Það er enginn vafi á, að þótt hér sé ekki farið fram á neitt stórt framlag, þá er hægt að laga mikið austanverðan sandinn fyrir ofan Álftaver. Það er engum vafa bundið, að réttmætt er að byrja á þessu sem fyrst með því að leggja til þessa verks smáfjárveitingu, og þó að einhver hv. fjvnm. hefði þau orð um munn, að ekki væri hægt að hreyfa neinu verki nema fyrir milljónir, þá hagar þessu svo til þarna eystra, að frá náttúrunnar' hendi eru bærileg skilyrði til þessa verks og því ekki nauðsyn á eins miklu fjármagni og ella hefði þurft.

Ég vona, að hv. Alþ. sjái nauðsyn þess, að vegir séu í sem beztu lagi og vegakerfið sé sem bezt einmitt í þessum hafnleysishéruðum, og þetta verði því til þess að leggja þessa smáupphæð fram úr ríkissjóði til Mýrdalssandsvegar.

Þá er enn fremur í XV. brtt. nýr liður, sem er, að brú verði reist á Djúpá í Fljótshverfi.

Árið 1939 var áætlað, að til þessarar smíði þyrfti 36 þús. kr., og er ekki með nákvæmni hægt að segja um, hvað þetta framlag þyrfti að vera hátt nú. En ég hef lagt til, að það yrði hækkað um helming, og ætti það að vera nokkuð nærri sanni.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þessarar brúargerðar, og læt ég nægja að vitna til þess, sem hv. fjvn. Lét bóka um þetta atriði, er málið var rætt í n. Þá var málið komið það langt, að mér var falið að kaupa efni til þessarar brúargerðar, og keypti ég svo rekavið fyrir austan í þessu skyni. Á þessi er á þjóðvegi austur og er mikill farartálmi, að hausti til stundum ófær með öllu. Með brúnni yrði fært alla leið að Núpstað eða að Skeiðarársandi.

Þetta eru þær till. til verklegra framkvæmda í þessu héraði, er ég legg mesta áherzlu á, og þó að þetta væri allt þegar veitt, þá er þetta hérað samt í tölu þeirra héraða, er hafa minnst fjárframlög fengið frá hinu opinbera.

Þá hef ég flutt enn fremur með öðrum hv. þm, till. um fjárveitingu til leikfimihúss við Menntaskóla Akureyrar. En það virðist augljóst mál, að úr þessari þörf M.A. verður að bæta, svo að nemendur þurfi ekki úr skólanum út í bæ í leikfimitíma. Um stóra heimavistarskóla er það svo, að æskilegt eða jafnvel nauðsynlegt er, að öll skólastarfsemin geti farið fram á skólaheimilinu. Það veldur stórkostlegum óþægindum, þegar nemendur þurfa að vera á þönum hingað og þangað út um bæinn við námsiðkanir. Hér er líka um svo litla fjárhæð að ræða, að það virðist sjálfsagt, að hún sé veitt.

Þá hef ég ásamt hv. 2. þm. Rang. o.fl. flutt till. nr. XXXII um framlag til bændaskóla !i Suðurlandi. Það er vitað, að byrjað verður að byggja skólann, þegar valinn hefur verið hentugur staður fyrir hann, og starfar nú nefnd manna að því. Það virðist þess vegna rétt, að nokkurt fé sé ætlað til skólans á þessum fjárl.

Þá flyt ég ásamt 3. þm. Reykv. till. um viðbót við 18. gr. þess efnis, að Böðvari Bjarnasyni., fyrrum presti á Rafnseyri, séu veittar 1200 kr. í stað 600. Ég held það sé viðurkennt af öllum sem til þekkja, að margir þeir á 18. gr. fjárl. fá hærri upphæðir að minni verðleikum en þessi prestur, sem í mörg ár hefur af ósérplægni lagt mikið starf í það að kenna ungum mönnum heima hjá sér starf, sem hefur orðið að miklu gagni. Væri viðeigandi, að tekið væri tillit til þess og það viðurkennt.

Þá vil ég loks geta þess, að ég fór fram á það við hv. fjvn., að hún tæki upp heimildarframlag til nýrrar mjólkurverkunarstöðvar í Rvík, sem byrjað er að reisa. Í l. stendur, að ríkissjóður skuli greiða allt að 1/4 byggingarkostnaðar slíkra stöðva. Hins vegar hefur það verið svo, að flestar stöðvar hafa fengið greiddan helming stofnkostnaðar. Nú er vitað, að þessi nýja mjólkurverkunarstöð muni aldrei kosta minna en 3 millj. kr., eftir því sem áætlað var s.l. sumar. Nú sé ég, að hv. fjvn. hefur lagt til, að greiddar verði 300 þús. kr. í þessum tilgangi, „þó ekki yfir 1/4 byggingarkostnaðar.“

Ég vil benda á, að að öllum líkindum verður þessi stöð komin upp fyrir næsta vetur, ef ekkert óvænt kemur fyrir. Því þarf ekki að blekkja með að áætla lægri upphæð en ríkinu er skylt að greiða, en það verður aldrei undir 800 þús. kr., miðað við það, sem lögin ákveða.

Þegar maður er neyddur til að byggja á dýrasta tíma einmitt fyrir ráðstafanir þess opinbera, því að við óskuðum að byggja fyrir stríð, en var synjað um innflutningsleyfi, þá er sjálfsagt að styrkja þetta fyrirtæki ekki síður en önnur hliðstæð fyrirtæki. Og þegar vinna er jafndýr og raun ber vitni, en afurðir fara hins vegar að hrynja í verði, þá er sjálfsagt að ríkið kannist við þá erfiðleika og hækki heldur fremur en lækki framlag sitt. Ég mun því flytja brtt. um, að varið sé til þess arna allt að helmingi stofnkostnaðar stöðvarinnar.

Það er að vísu svo, að ég er meðflm. að fleiri till., en ég hygg, að meðflm. mínir muni skýra frá þeim, og kæri mig ekki um að hafa mál mitt lengra að þessu sinni.