11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það hafa fallið orð um það við þessa umr., að einstakir alþm. hafi gerzt djarfmæltir í till. sínum fram yfir það, sem hv. fjvn. vildi taka til greina. Ég tel nú samt, að margar till. einstakra þm. eigi ekki síður rétt á sér en ýmsar till. fjvn., og get ég þar nefnt eitt dæmi, sem sé till. um hrossaræktarbú á Bessastöðum. Ég mæltist til þess, að hv. n. sýndi þm. þá kurteisi að vera viðstödd, þegar farið væri að ræða hinar ýmsu till. og liði fjárl., því að það er mjög óviðkunnanlegt, þegar hv. n. gengur af fundi og sést ekki tímunum saman.

Ég hef orðið fyrir því að vera neitað um áheyrn hjá hv. n. viðvíkjandi hafnarmálum Vestmannaeyja, enda þótt ég hafi sent n. ítrekaðar beiðnir um það. Það má vera, að þetta hafi stafað af misgáningi hjá hv. n., en hvað um það, þá hefur þetta orðið til þess, að framlag til Vestmannaeyjahafnar er of lágt í till. fjvn. Ég mun nú skýra frá hinum ýmsu till. mínum.

Ásamt hv. þm. Siglf. flyt ég brtt. á þskj. 4It1, VI. og VII. lið, að sjúkrahúsin í Vestmannaeyjum og á Siglufirði njóti sömu réttinda og önnur sjúkrahús. Það er hart gengið, þegar verið er að styrkja sjúkrahús, að ganga fram hjá þessum tveimur, þegar þessir tveir staðir eru báðir mjög mikilvægir, því að á víssum árstímum starfa þarna menn úr öllum landshlutum. Rvíkurbær á ekkert sjúkrahús, og Landsspítalinn er rekinn fyrir alþjóðarfé, en bæjarfélögin úti unt land þurfa að mestu leyti að kosta sin sjúkrahús, og sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum hefur aldrei notið neins styrks frá ríkinu, aldrei fengið einn eyri. — Það ætti því ekki að þurfa að torvelda það, að þessar brtt. okkar verði samþ. Þá hef ég flutt brtt. á sama þskj., að í staðinn fyrir 500 kr. styrk til sjómannalesstofu í Vestmannaeyjum komi 800 krónur. Þessi brtt. er flutt með tilliti til mjög aukins kostnaðar við bókakaup.

Þá flyt ég ásamt einum hv. þm. Sósfl. brtt. við 16. gr., 20, að þar komi nýr liður: “Vegna vatnsleitar í Vestmannaeyjum 19000 kr., til vara 16 þúsund“. — Ég sendi hv. fjvn. erindi um þetta mál og gat þess, að s.l. haust hefði verið hafizt handa í þessa átt, en kostnaður reynzt mjög mikill, og enn fremur stæði til að fá borunartæki. Hv. n. sá sér ekki fært að verða við þessum tilmælum mínum og gaf mér enga skýringu á því.

Ég vil leiða athygli hv. þm. að því, að þetta vatnsmál í Vestmannaeyjum er hið mesta nauðsynjamál og eigi er hægt fyrir kaupstaðinn að una lengi við það ástand, sem nú ríkir á þeim sviðum. Ég vænti því þess vegna fastlega, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þessa brtt. okkar. Enn fremur á sama þskj. er brtt. frá mér um styrk til kvenfélagsins Líknar í Vestmannaeyjum, að upphæð kr. 500. Eins og nafnið bendir til, þá hefur þetta félag líknarstarfsemi með höndum, og hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf undanfarin ár. Ég sé, að kvenfélög og kvennasambönd víða um landið fá styrk til starfsemi sinnar, og finnst mér óréttlátt að láta þetta félag verða útundan.

Ásamt nokkrum hv. þm. úr Frams.- Alþ.-og Sósfl. flyt ég brtt. á þskj. 410 um að hækka styrk til Bandalags skáta úr 400 kr. upp í 2000 kr. g fjárl. er gert ráð fyrir styrkjum til Farfuglafélagsins og Ungmannafélags Íslands, og ég viðurkenni, að þessi félög eigi rétt til að fá styrk, en Bandalag skáta á það eigi síður skilið, því að skátahreyfingin er viðurkennd einhver hollasta ungmennahreyfing í öllum lýðræðislöndum. Í þessari hreyfingu eru börn allra stétta þjóðfélagsins, og þar gilda aðeins skátareglur, sem veita hin hollustu uppeldisáhrif, sem völ er á. Sé sanngjarnt, að Farfuglafélagið fái 15 þús. kr., þá má ekki minna vera en að Bandalag skáta fái 2000 kr. Þá er brtt. frá mér um, að tillag til Ekknasjóðs Vestmannaeyja hækki úr 800 í 1000 kr. Þessi sjóður var stofnaður fyrir tugum ára og hefur haft það göfuga hlutverk að styrkja ekkjur, sem hafa misst menn sína í sjó eða við bjargsig. Af sjálfsögðu hefur þessi sjóður ekki getað veitt stórar upphæðir, en hann hefur þó lagt drjúgt af mörkum.

Enn fremur á ég brtt. með hv. þm. Siglf., að Guðlaugur Hansson fái 400 kr. í stað 300. Þessi maður er orðinn heilsutæpur og veitir ekki af þessari upphæð.

Ásamt hv. 11. landsk. flyt ég brtt. um 100 þús. kr. hækkun til vitabygginga, eða úr 350 þús. upp í 450 þús. kr. Það hefur setið á hakanum að veita fé til vitabygginga, en nauðsyn nýrra vita er mikil, eins og öllum hv. þm. er vel kunnugt um.

Aðra brtt. flyt ég og með hv. 11. landsk. þess efnis, að allt að helmingi af lóða- og jarðaleigum úr Vestmannaeyjum árið 1943 verði varið til varnar gegn landbroti og uppblæstri í eyjunum. Áður hefur verið samþ. till. líks eðlis, og þá hófust framkvæmdir í þessa átt, en síðan kippti hv. Alþ. að sér hendinni með þetta, og framkvæmdir hafa legið niðri síðan þá.

Það er vel þess vert fyrir ríkið að leggja fé í þetta, og við förum aðeins fram á 13 þús. kr. Þetta litla land gefur af sér um 1 millj. kr. árlega fyrir ríkissjóð. Þeir hv. þm., sem stóðu gegn því, að Vestmannaeyjakaupstaður fenbi keyptar lóðir þarna, ættu að athuga þessa brtt. okkar, og þá munu þeir komast að raun um, að þetta er sanngirnismál.

Þá vil ég að lokum minnast á till. mína um hafnarmál Vestmannaeyja, sem mér þótti mjög fyrir, að hv. fjvn. skyldi misskilja svo mjög, sem till. hennar bera með sér. Fyrir hv. n. lágu tvö erindi um þetta mál, annað dagsett 30. marz 1942 og hitt 17. desember s.l.

Þær 100 þús. kr., sem hv. fjvn. hefur lagt til, að veittar verði til hafnarinnar í Vestmannaeyjum á árinu 1943, eru ætlaðar til alveg ákveðinna framkvæmda á þessu yfirstandandi ári. Nú bar það við í fyrra, meðan Alþ. sat, að þá biluðu hafnargarðarnir í Vestmannaeyjum mjög tilfinnanlega, sérstaklega suðurgarðurinn, og varð ekki hjá því komizt að leggja í mikinn kostnað þar þegar í stað til þess að lagfæra þetta. Því að ég verð að geta þess hv. þdm. til athugunar og skilningsauka, að þegar hafnargarðarnir í Vestmannaeyjum bila að ráði, þá verður undir eins og veður lægir að ráðast í að gera við þá, ef ekki á að hljótast verra af. Svo var það og í þetta sinn, þó að ekki væri fyrir hendi nema 50 þús. kr. framlag áætlað fyrir hafnarframkvæmdir þar árið 1942. Það varð að ráðast í að gera við þennan hafnargarð. 50 þús. kr. framlag var áætlað til hafnarinnar á fjárl., það þýddi það, að við gátum unnið fyrir 150 þús. kr. Því að sú regla hefur verið höfð fyrir Vestmannaeyjar síðari árin, að til verklegra framkvæmda og endurbóta við höfnina hefur staðurinn fengið 1/3 hluta framlags úr ríkissjóði móti 2/3 hlutum úr hafnarsjóði. Þessi viðgerð, sem fram fór á hafnargörðunum og óhjákvæmileg var, kostaði ásamt öðrum framkvæmdum, sem fyrirhugaðar höfðu verið á því ári, 1942, 324 þús. kr. Það var því unnið fyrir 174 þús. kr. meira en ríkissjóðsstyrkheimildin var fyrir ásamt tvöföldu framlagi frá hafnarsjóði þar á móti. Hafnarn. leit svo á, að mér bæri að fara fram á 87 þús. kr. framlag úr ríkissjóði sem 1/3 hluta af þessum kostnaði. En við nánari athugun einstakra nm. í hv. fjvn. og mína kom í ljós, að krafan, sem hægt væri að gera fyrir Vestmannaeyjar í þessu skyni til ríkissjóðs, væri, að greiddar væru 58 þús. kr. af þessum kostnaði úr ríkissjóði. Ég get sagt það, að þetta kom fram í samtölum, sem ég hef átt við einstaka hv. nm. úr fjvn. hér frammi á göngunum, því að annars staðar fékk ég ekki að tala við þá hv. n. Ég skal ekki véfengja, að þeir hafi haft rétt fyrir sér þar. En ég hafði fulla ástæðu til þess að álíta eftir einkasamtölum, sem ég átti við einn eða tvo meðlimi hv. fjvn., að ég mætti ganga að því vísu, að þessar 53 þús. kr. yrðu þó a. m. k. lagðar fram fyrir viðgerðina á hafnargörðunum, sem fór fram árið 1942. Svo koma till. hv. fjvn., og þar er gerð till. um að leggja 100 þús. kr. fram til hafnarinnar í Vestmannaeyjum, þ.e.a.s. framlags á móti úr hafnarsjóði til fyrirfram ákveðinna framkvæmda á árinu 1943, en viðgerðinni á hafnargarðinum er algerlega sleppt, sem búið var að setja sig í skuld fyrir. Þetta kom mér svo mjög á óvart, að ég verð að líta svo á, að hv. fjvn. hafi gert þetta í mistökum, það séu mistök, sem til þess liggi, en ekki hitt, að hv. fjvn. hafi ekki endilega viljað hlunnfæra þennan kaupstað fyrir einar 58 þús. kr. Því að ég var búinn að beygja mig undir þann skilning, að þar ættu að veitast 58 þús. kr., en ekki endilega 87 þús. kr. Ég fæ ekki skilið með þeim austri, sem im. fjvn. hefur haft gagnvart ýmiss konar framkvæmdum upp til sveita og víðar, að það sé virkilega skoðun n., að þessa peninga beri að hafa af Vestmannaeyjakaupstað. Hingað til hefur það verið viðurkennt sem föst regla, að þegar um hafnarframkvæmdir hefur verið að ræða, þá hafa viðkomandi umdæmi fengið sums staðar 2/5 hluta úr ríkissjóði, sem til þeirra hefur þurft, og sums staðar 1/3 hluta þess, Við Vestmannaeyingar höfum orðið að sætta okkur við að fá aðeins 1/3 hluta greiddan úr ríkissjóði.

Nú hefur hv. form. fjvn. gefið mér þá skýringu á þessu, að þessar 58 þús. kr., sem ég hef farið fram á, eins og ég hef getið um, úr ríkissjóði, getum við tekið af þeim 100 þús. kr., sem fjvn. hafi ætlað til hafnarframkvæmda í Vestmannaeyjum á árinu 1943. Ég held, að þetta sé heldur létt tekið á þessu efni, og ég get ekki skilið, að það sé alvara hv. fjvn. að ætlast til þess, að fjárveiting, sem n. er búin að samþ. fyrir ákveðnar framkvæmdir, sem hafa verið lagðar skjallega fyrir hv. fjvn. og vitamálastjóri hefur staðfest og eiga að vinnast á árinu 1943, eigi að verða líka til þess að dekka skuldir fyrir viðgerðir á hafnargörðunum í Vestmannaeyjum, sem unnar voru 1942.

Ég vænti, svo mikið tekjupláss sem Vestmannaeyjar eru fyrir ríkissjóð og allt landið, að till. um þessa greiðslu sæti betri meðferð og afgreiðslu Alþ. heldur en ég verð, — þótt leiðinlegt sé, — að segja frá um meðferð hv. fjvn. á þessu máli. En ég vil, sem sagt, álíta, að þetta sé af misskilningi gert hjá háttv. n., misskilningi, sem ég verð að berjast fyrir, að ekki festi rætur hjá hæstv. Alþ. Því að það, að hafnarmannvirki í Vestmannaeyjum séu í lagi, er hyrningarsteinninn undir öllu atvinnulífi í eyjunum. Og hv. þm. mega trúa mér, þegar ég segi, að þó að margar framkvæmdir séu þarfar austur þar, þá eru hafnarmálin og hafnarframkvæmdirnar það nauðsynlegasta af því öllu, vegna þess að allar aðrar framkvæmdir í atvinnurekstrinum þar eru tengdar við höfnina. Og atvinnurekstur þar snertir ekki aðeins Vestmannaeyjar sjálfar, heldur mörg hundruð aðra landsmenn beinlínis.