11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja tímann með því að ræða fjárl. almennt, enda þótt til þess væri nokkur ástæða, þar sem svo langt virðist nú gengið í ýmsum till. til fjárveitinga, sem raun er þegar á orðin. En ég skal snúa mér að örfáum brtt., sem ég er við riðinn og hef af sérstökum ástæðum flutt.

Er þá fyrst brtt. sú XI. í röðinni á þskj. 410, um það, að til Skagastrandarvegar verði varið í stað 40 þús. kr. 50 þús. kr. Þetta er flutt að mestu leyti í samræmis skyni, vegna þess að ég sé, að hv. fjvn. gengur svo langt almennt í því að veita til vega úti um land; og enda þótt ég hefði sætt mig við, að ekki hefðu verið veittar nema 40 þús. kr. til þessa vegar, ef það væri í samræmi við það, sem gert er í öðrum héruðum, þá er nauðsynin þarna mjög mikil fyrir hendi, og af þeim sökum hef ég leyft mér að flytja þessar hækkunartill., og vænti, að hv. þm. sjái, að full sanngirni mælir með því, að þessi hækkun verði samþ., borið saman við það, sem lagt er til fyrir önnur héruð.

Þá er önnur brtt., sem ég er 1. flm. að, nr. LVI á sama þskj., og sem þeir eru meðflm. mínir að hv. 2. þm. Rang. (IngJ), hv. 1. þm. Árn. (JörB) og hv. þm. V.- Húnv. (SkG). Og þessi brtt. er um það að færa inn á 16. gr. fjárl. 500 þús. kr. upp hæð til raforkusjóðs. Þetta er í raun og veru ekkert annað en leiðrétting, vegna þess að þetta er lögboðið framlag samkv. 1. frá þinginu í sumar. Að við flytjum þetta, stafar náttúrlega öðrum þræði af því, að við höfum áhuga fyrir þessu máli, og að hinu leytinu af því, að við erum saman í mþn. í raforkumálum og viljum ekki láta sjást, að fjárl. séu svo afgr. að þessi upphæð standi þar ekki. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að mæla fyrir þessari brtt., þar sem þetta er leiðréttingarupphæð.

Þá er 3. brtt., sem ég flyt hér á sama þskj., LIX liður, er snertir það að hækka liðinn um kostnað vegna 1. um lax- og silungsveiði úr 15 þús. kr. í 18 þús. kr. Ég hafði talað við hv. fjvn. og skrifað henni og sent henni frá stjórn Veiðifélags Vatnsdalsár áætlun yfir kostnað við það að tryggja laxagöngur í þá á og fór í því skyni fram á 8 þús. kr. fjárveitingu. Hv. fjvn. hefur ekki orðið við þessari beiðni, en látið í ljós, að við mundum geta fengið nokkra upphæð Af þessum 15 þús. kr. Nú stendur það svo, að mjög mikið er að grynnast mynni árinnar, þar sem hún rennur út í svo kallað Flóð, og vill oft til á sumrin um fjöru, þegar laxinn er að ganga upp í ána, að hann strandar á eyrunum. Til þess að koma í veg fyrir, að laxagangan í ána teppist, er talið nauðsynlegt að hlaða fyrir 2 eða 3 kvíslar árinnar og dýpka farveginn á einum stað. Um þetta liggur fyrir áætlun gerð af vatnsveituverkfræðingnum Ásgeiri L. Jónssyni.

Nú er farið fram á það í brtt., að liðurinn verði 18 þús. kr. og að af því fari 6 þús. kr. til þessa mannvirkis. Ég vænti, að hv. þm. liti með sanngirni á þessa till., því að ef fært verður á þessu ári að hlaða þarna fyrir og tryggja laxagönguna í ána, mundi það verða mjög kostnaðarsamt verk, og þessar 6 þús. kr. eru ekki nema lítill hluti af þeim kostnaði, sem við það mundi vera í framkvæmdinni. Og það er mikils vert, að þetta verk strandaði ekki á því, að opinher hjálp fengist ekki til þess.

Fleiri brtt. eru það svo ekki, sem ég er við riðinn og fram eru komnar. En ég hef ásamt hv. þm. Mýr. flutt brtt., sem enn er ekki búið að útbýta, sem ég verð að láta bíða að mæla fyrir, þangað til hún kemur fyrir augu hv. þm.