11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Eiríkur Einarsson:

Hv. 1. þm. Árn. gerði ráð fyrir, að ég mundi mæla fyrir XVll. brtt. á þskj. 410, sem við flytjum, og vil ég gera það. Hún er um brúargerð, að nýir liðir bætist við brtt. fjvn. 16. 20 á þskj. 387, svohljóðandi:

a. Litla-Laxá í Hrunamannahreppi .. 60000 kr.

b. Þverá á Þjórsárdalsheiði ........ 60000

c. Hvítá hjá Iðu í Árnessýslu ...... 600000 –

Snemma á þessu þingi bar ég fram þá till. í Sþ. um brúargerð á Hvítá hjá Iðu og heimild til að veita fé í því skyni. Þar óskaði ég þess, að undinn yrði sem bráðastur bugur að þessum framkvæmdum. Nú vill svo til, þótt þessari tilt. væri vísað til hv. fjvn., að ekkert hefur enn borizt frá n. um málið, og hún hefur ekki fellt inn í till. sínar neina heimild um beint framlag til brúargerðarinnar, eins og sumir hv. þm. bjuggust þó við. Hv. samþm. minn tók svo í strenginn, að honum þætti eðlilegast, að fé til þessa verks væri veitt á fjárl. sjálfum, og taldi því æskilegast, ef hægt væri að gera þetta að beinu fjárveitingaratriði. En þetta hefur, sem sagt, ekki verið gert. Svo einkennilega vill til, að hv. fjvn. hefur tekið upp þá nýbreytni uni þennan lið fjárl. að gera sjálf till. um brýr þær, er gera skal á ári hverju, og það eru ekki færri en 23 brýr, sem hún leggur til, að smíðaðar verði. Þetta er nýmæli. N. hefur áður gert till. um heildarupphæð til brúargerðar, sem stj. hefur síðan hagnýtt í samráði við vegamálastjóra. Nú hefur mér skilizt, að þessar brýr hv. n. séu yfirleitt með smærra móti. Brú hjá Iðu í Biskupstungum yrði hins vegar stór brú yfir mikið vatnsfall, og hún hlyti að verða nokkuð dýr. En þó að hv. n. hafi aðallega haldið sér við smáar brýr til þess að hafa siglinguna sem varlegasta, mun hún hafa komizt að minnsta kosti upp í eina millj. kr. Nú er undir hælinn lagt, hvort nokkuð er hægt að aðhafast á þessu ári að því er snertir smíði stórra brúa, slíkir örðugleikar sem nú eru á flutningum öllum til landsins, og verður því að játa, að þessi urmull af brúm, sem hv. fjvn. leggur til, að gerðar verði, hljóti að skipa öndvegi, þegar hægt verður að hefjast handa um slíkar framkvæmdir, en þar kemur þó mjög til greina, hvaða brýr hljóti að teljast eiga mestan rétt á sér og á hverjum þeirra muni liggja mest. Eftir því sem ég veit bezt, er brúin á Iðu eina brúin á landinu, sem áætluð hefur verið og skorað hefur verið á hv. Alþ. með sérstöku ávarpi að láta reisa. Nú liggur fyrir þinginu áskorun um þetta frá öllum ábúendum í þrem sveitarfélögum, og eru málavextir slíkir, að á þessari brú er sú nauðsyn, að líf manna getur legið við. Læknirinn situr á vesturbakkanum, en þrjár víðlendar sveitir fyrir austan. Oft er það svo að vetri, að ekki verður komizt yfir Hvítá, hvað sem við liggur. Héraðslæknirinn á Laugarási er maður heilsulitill og þolir illa löng ferðalög nema í bifreiðum. Brú þessi er á brúarl., og vegur sá, sem að henni mundi liggja, er þjóðvegur. Ég sting því hér með að hv. þm. hvort ekki sé rétt, er um slíka brúargerð er að ræða, að fara nokkuð eftir því, hver nauðsyn er fyrir hendi. Ég tel ekki vafa á því, að þær brýr munu af flestum verða taldar mikilvægar, sem varðað geta líf manna og heilsu. Þar næst mundu svo koma þær brýr, sem eiga mikinn rétt á sér vegna aðflutninga.

Hinar brýrnar, sem brtt. fjallar um, eru smábrýr yfir Litlu-Laxá í Hrunamannahreppi og Þverá á Þjórsárdalsleið, en á þeim er tvímælalaust mikil nauðsyn, því að flutningar eru mjög erfiðir yfir þessi vatnsföll að vetri, og vil ég því mæla hið bezta með því, að þessar brýr verði samþ. Að því er snertir brúna yfir Litlu-Laxá, er það svo, að þar eiga margir hagsmuna að gæta, því að þar er fjölmenn bændabyggð fyrir ofan. Fyrir ofan Þverá eru að vísu fáir bæir, en hún getur hins vegar orðið alveg sérstaklega ill yfirferðar á vetrum, og á því sízt minni rétt sér.

Ég lýk svo máli mínu með því að benda á það, að þótt fjárhæðin, sem farið er fram á til brúargerðar á Iðu, kunni að vaxa mörgum í augum, þá má hún ekki ráða úrskurði um það, hvort gera skuli brúna eða ekki. Hv. fjvn. hefur þegar tekið upp þá aðferð að ákveða brýr, er henni þykir skapfellilegt, að komið sé upp og teknar eru út úr kerfinu, og vona ég þess vegna, að hún geti samþ. að fella inn í brtt. sínar till. um þessa brú á Iðu.

Með þessum formála get ég látið máli mínu lokið. Ég vil þó að síðustu taka fram, að ég vænti, að hv. þm. geti því fremur fallizt á þessi rök, sem hér hafa verið fram færð, þar sem fjvn. hefur ekki heldur skilað áliti um þáltill. mína, sem laut að hinu sama, svo að málið er af hennar hálfu því miður allt mjög á huldu. Og veit ég, að sanngjarnir menn í hópi fjvn. munu njóta þess trausts fjölda búenda, sem sér og veit þessa aðkallandi þörf og ekki mun trúa því fyrr en þeir taka á, að mál þeirra og þarfir verði að öllu leyti hundsaðar og ekki teknar af einhverjum skilningi. Ég vænti því, að þessar brtt. okkar hv. 1. þm. Árn. verði samþ. hér við atkvgr.

Um aðrar brtt., sem ég er meðflm. að, skal ég sama sem ekkert ræða. Það var minnzt á þær allar, ef ég man rétt, af hv. 1. þm. Árn. á góðan og réttlátan hátt, og get ég að öllu leyti vísað til þess. Þar er till. um nokkra viðbót á ferjustyrk ferjumannsins yfir Hvítá hjá Iðu. Það er mikil og argsöm ferja. Og þó að brúargerð væri samþ. á Hvítá hjá Iðu, býst ég við, að enn séu nokkrar ferjuferðir þar eftir.

Sama er að segja um brtt., sem ég er meðflm. að, um byrjunarframlag til Bændaskóla Suðurlands. Ég býst við, að hv. 1. flm. tali aðallega fyrir þeirri brtt. Vænti ég, að því mikla nauðsynjamáli sunnlenzkra bænda verði vel tekið hér á hæstv. Alþ.

Það var rætt ýtarlega og maklega um beiðni um hækkun á framlagi til Árnýjar Filippusdóttur, forstöðukonu kvennaskólans í Hveragerði, af hv. 1. þm. Árn., og var það maklega mælt um hana, sem hv. þm. sagði, því að hún er forkur mikill að dugnaði og kennari ágætur, en á í vök að verjast með fjárhag til framgangs skólahaldi sinn.

Líkt vil ég segja um beiðni Guðmundar Einarssonar á Mosfelli. Hann er hins bezta maklegur, og get ég vísað til þess, sem tekið var fram af 1. flm. hér, sem var réttilega mælt, enda býst ég við, að till. vegna þessa manns verði tekið hið bezta.