11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Eysteinn Jónsson:

Á þskj. 419 eru þrjár litlar brtt. frá mér og 1. þm. S.–M., um hækkun á sjúkravitjanastyrkjum. Við hefðum sennilega ekki flutt þessar till., ef aðrir þm. hefðu ekki riðið á vaðið um að flytja slíkar hækkunartill., og þykir okkur þá rétt, að þessar till. komi til álita jafnframt. Þá eru till. frá okkur á sama þskj. um heimild til að greiða 8 þús. kr. til að bæta bændum í Firði í Mjóafirði tjón á búpeningi og veiðitækjum, er þeir hafa orðið fyrir af völdum snjóflóðs. Ég skal fullkomlega játa um þessa till., að ef aðrir þm. hefðu ekki riðið á vaðið og flutt till, um að bæta hliðstætt tjón, mundum við ekki hafa séð okkur fært að flytja slíkar till. En þetta virðist okkur eiga að koma til álita allt, þar sem hliðstæð mál hafa verið upp borin. En um þetta er það að öðru leyti að segja, að fyrir nokkru síðan féll snjóflóð á jörðinni Firði í Mjóafirði, og urðu fyrir fjárhús, og fórst þar fé, og eyðilögðust veiðitæki og þar á meðal síldveiðitæki, sem bændur áttu þar. Annars verða á sínum tíma, ef þessi heimild verður gefin, ríkisstj. gefnar nánari upplýsingar um þetta.

Þá á ég hér eina brtt. á sama þskj., XXXI, sem flutt er við aðra brtt., snertandi heimildargr. um það, að samþ. verði hér eins konar skipulagning af hálfu hæstv. Alþ. í því formi, sem þar greinir. Fjallar hún um, að verklegum framkvæmdum, sem ákveðnar eru með fjárl. þessum. verði hagað á þann hátt, sem hagkvæmast er fyrir framleiðslustarfsemi landsmanna, og jafnframt þannig, að atvinna í landinu yfirleitt verði sem jöfnust þann tíma af árinu, sem við verður komið vinnu við slíkar framkvæmdir. Er þá átt við, að ríkisstj. reyni að koma því svo fyrir, að sem mest sé unnið að þessum verklegu framkvæmdum, þegar framleiðslu atvinnuvegirnir þurfa minna á vinnuaflinu að halda, en aftur minna, þegar þeir þurfa fleiri menn í þjónustu sína.

Út af tveim till. annarra háttv. þm., sem hér liggja fyrir, viðvíkjandi flugmálum, vil ég láta þau ummæli falla, sem ég hef látið falla um annað mál, að mér finnst ekki heppilegt að afgreiða þessi mál á þá lund, sem fjvn. gerir ráð fyrir, þó að ég treysti mér ekki til þess að beita mér á móti því, eins og þetta ber að höndum. Ég álít, að það hefði átt að fara öðruvísi að, þannig að nú, þegar flugfélagið sækir um þennan stuðning til þingsins, hefði átt að gera upp á Alþ., hvernig rekstri þessara mála yrði fyrir komið í framtíðinni. Ríkið hefði ekki átt að byrja á að styðja slík einkafyrirtæki (í þessu formi), jafnvel þó vel hafi unnið, ef ríkið ætlaði verulega að hlutast til um flugmálin. En af því að þetta er hugsað á þessa lund og komið óvænt með svona stóra till. um styrk handa þessu félagi, þá er ekki hægt að gera þetta upp við sig á fáum klukkustundum. Mun ég ekki beita mér á móti þessari till., en vek athygli á því, að Alþ. verður nú alveg á næstunni að gera upp við sig, hvaða stefnu það ætlar að taka í þessum málum. Ég álít að ríkið ætti að hafa afskipti af flugmálunum og rekstri þeirra og tryggja þingi og stjórn veruleg yfirráð um þau mál, með beinni þátttöku sinni í rekstri þeirra. Mér virðist gæta flausturs í þessu máli, og sérstaklega á ég erfitt með að skilja þá afgreiðslu, að ríkisstj. skuli vera heimilað svona út í bláinn að taka að sér sérstakan gjaldalið í rekstri flugfélagsins, án þess að nokkur grg. sé, a.m.k. fyrir sjónum þingsins, um það, hver þörf sé á því, að af almannafé sé greitt, sem svarar þessum rekstrarlið.. En hér er þó aðeins að ræða um heimild til ríkisstj., og má gera ráð fyrir, að þess verði gætt, að ríkisstj. taki ekki þennan kostnaðarlið á ríkissjóð, nema þess sé full þörf vegna afkomu félagsins.