11.02.1943
Sameinað þing: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég vil fara nokkrum orðum um nokkrar smábrtt., sem ég hef flutt, sumpart einn og sumpart með öðrum hv. þm. Vil ég fyrst drepa á brtt. á þskj. 410 um nýjan lið á 3. gr. fjárl., um framlag til starfrækslu talstöðva á afskekktum stöðum, 1000 kr. Til þessa hafa ekki verið veittir styrkir áður í fjárl. Nú munu vera hér á landi 11 talstöðvar á slíkum stöðum, sem hér er um að ræða, flestar í eyjum og á öðrum stöðum, sem ekki hafa komizt í símasamband og hafa litla möguleika með núverandi aðstöðu til þess að komast í símasamband. Þessir bæir og aðrir, sem hafa þessar stöðvar, verða að bera töluverð útgjöld vegna starfrækslu þeirra, þ.e. vegna hleðslu rafgeyma og rafhlöðukaupa. Og benda má á, að einstakir menn, sem starfrækja slíkar stöðvar, verða að standa straum af þessum kostnaði við þessar talstöðvar. Þessar stöðvar hafa töluverða almenna þýðingu, þó að þær hins vegar gefi þeim, sem hafa þær, sára litlar tekjur. Ég hygg, að þar sem hér er svo hægt og varlega í sakirnar farið, að aðeins er beðið um 1000 kr. styrk til starfrækslu þessara stöðva, þá geti hv. Alþ. fallizt á slíka smástyrkveitingu.

Önnur brtt., sem ég flyt ásamt hv. 5. landsk. og hv. 1. landsk., er þriðja brtt. á þskj. 410, um hækkun á læknisvitjanastyrkjum í tveimur læknishéruðum í Norður-Ísafjarðarsýslu, Ögurhéraði og Hesteyrarhéraði. Í báðum þessum héruðum mun fólkið eiga erfiðara með læknissókn heldur en viðast annars staðar. Læknisvitjanastyrkir hafa verið mjög lágir til þessara héraða. Hins vegar hefur kostnaður manna við læknisvitjanir þar í héruðunum farið svo hríðvaxandi, að það er svo fjarri því, að þessir styrkir fullnægi þörfinni, sem fyrir hendi er. Ég fer nú fram á það ásamt hv. meðflm. mínum að brtt., að þessir atyrkir verði hækkaðir. Um það, sem form., hv. þm. Ísaf., sagði um þessa styrki, og um það, að slíkar hækkanir, sem hér er farið fram á, væri í raun og veru óþarft að gera brtt. um, vegna þess að sett hefðu verið l. um læknisvitjanasjóði, þá vil ég benda á það hér, að varla nokkurt læknishérað á landinu mun hafa hagnýtt sér þessi l., sem er fyrst og fremst af því, að þessi l. eru svo ný, að til þessa hefur naumast gefizt tóm til að komast undir ákvæði þeirra l. Og enda þótt þessi löggjöf liggi nú fyrir, sý nist mér ástæða til þess, að heildarfjárveiting til allra þessara héraða, sem notið hafa þessara styrkja, verði hækkuð. Og það er samræmi í því, að hv. þm. Snæf. flytur á þskj. 419 brtt., sem gengur í þá átt, að allir styrkir til læknisvitjana, sem taldir eru í þeim lið, sem þar greinir, verði tvöfaldaðir. Ég hygg, að úr því að farið er að hreyfa því að hækka þessa styrki, þá sé mest samræmi í því að hækka allar þessar styrkveitingar. Hins vegar skapaði það ríkissjóði tiltölulega mjög lítið útgjöld, þar sem gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv., að til þessara mála verði varið 13 þús. kr., og tvöföldun á því framlagi mundi því ekki baka ríkissjóði veruleg útgjöld.

Þriðja brtt., sem ég flyt ásamt hv. 7. þm. Reykv., er á þskj. 410, XXVII, og fjallar um bryggjugerð í Súðavík. Það er ekki farið fram á styrkupphæð, heldur er þar einungis lögð til orðalagsbreyt. á því skilyrði, sem gert hefur verið fyrir styrkveitingu til þess mannvirkis, þannig að í stað orðanna: „sé bryggjan eign hreppsins“ komi: eigi hreppurinn kost á að eignast bryggjuna. Einn maður hefur kostað að mestu þessar framkvæmdir, sem hér er um að ræða, sem notið hafa lítils styrks. Hann hefur gefið Súðavíkurhreppi kost á að eignast þetta hafnarmannvirki, og ég hygg, að það boð standi enn. Hins vegar sýnist mér fjarri lagi, að með þessu orðalagi hv. fjvn. á þessu, sem ég legg hér til, að verði breytt, sé það fyrirbyggt, a,ð annar eigandi að þessari bryggju en hreppurinn geti notið þessa styrks. En mér skilst, að ef hreppurinn vill ekki kaupa þetta hafnarmannvirki af þeim einstakling, sem á þetta, mundi styrkurinn ekki verða veittur til þessara framkvæmda eftir till. fjvn. um orðalagið á skilyrðinu. Ég hef því ásamt hv. 7. þm. Reykv. lagt til, að orðalaginu verði breytt eins og ég hef tekið fram, og vona, að til árekstra þurfi ekki að koma út af því atriði, heldur verði þetta samþ.

Fjórða brtt. mín, sem ég flyt á þskj. 410, er undir 62. lið á þeirri brtt., og er um, að tekinn verði upp nýr liður á 16. gr. um 20 þús. kr. fjárveitingu til Gilsnámuvegar í Bolungavík. Eins og hv. fjvn. er kunnugt, hafa legið fyrir henni erindi frá þremur aðilum um að taka upp þessa fjárveitingu, frá Framfærslumálanefnd ríkisins, frá h.f. Brúnkol á Ísafirði og hin þriðja frá hreppsnefnd Hólshrepps. Vegagerð á þessum slóðum miðar að því að tengja þorpið Bolungavík við brúnkolanámu, sem er framarlega í dalnum við þorpið. Í þessar í námur hafa verið unnin brúnkol, og mun það hafa verið í síðustu heimsstyrjöld, sem það var gert. Kostnaður við það var allmikill þá. Nú hefur verið stofnað hlutafélag á Ísafirði, sem hefur að markmiði að vinna brúnkol úr þessari námu, og hefur talið sér fjárhagslega kleift, ef markaðsmöguleikar væru fyrir hendi, að vinna brúnkol úr þessari námu með góðum árangri, ef vegur kæmist milli námunnar og Bolungavíkur. En félagið telur sér ekki kleift, og Hólshreppur ekki heldur, að standa að þessari vegargerð að öllu leyti. Ég hef því farið fram á það, að ríkissjóður taki að sér þessa vegargerð. Á síðasta vori var kostnaður áætlaður við þessa vegargerð 20 þús. kr. Nú má reikna með því, að þessi vegur komi til með að kosta töluvert meira fé en þetta. En það hefur ekki verið flutt brtt. um hærra framlag í þessu skyni, af því að við höfum von um, að e.t.v. megi takast að fá atvinnubótafé til þessarar framkvæmdar, þannig að takast megi með þessari fjárveitingu, sem brtt. er um, ásamt því fé, að koma á þessum vegabótum á næsta sumri, en þessi vegalengd er 21/2 km, sem þarna þarf að leggja veg um. Ég tel mikils virði, að þessi brtt. nái fram að ganga, þar sem annars vegar er um að ræða aukinn möguleika til námuvinnslunnar til þess að skapa aukna möguleika til eldsneytisöflunar, sem er mikils virði á þessum tímum, en hins vegar það, að Bolvíkingar fengju með þessum vegarspotta bætt samband við það land., sem að þorpinu liggur, því að vegurinn mundi liggja um endilangan dalinn, þar sem allmörg blómleg býli eru.

Þá er loks brtt. frá mér, hv. 5. landsk. og hv. 11. landsk. á þskj. 410, XCIl, við 22. gr., um að verja úr ríkissjóði allt að 15 þús. kr., að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands, til þess að bæta bændum við norðanvert Ísafjarðardjúp fjártjón, er þeir biðu í ofviðri 7. október 1942. Ég get sparað mér mörg orð um þessa brtt., þar sem um hana hafa verið umr. í hv. Nd., þegar um þetta efni var flutt þáltill. snemma á þinginu, og um hana urðu þá hér nokkrar umr. Ég vil aðeins benda á, að þeir menn, sem farið er hér fram á, að verði bætt þetta tjón, sem þar var um að ræða, urðu fyrir ákaflega tilfinnanlegu tjóni, seni naumast verður séð fram á, að efnahagur þeirra, sumra hverra a. m. k., þoli. Það munu vera um 8 bændur, sem þetta tjón biðu þarna. Og fjárhirðin, sem farið er fram a, að ríkisstj. heimilist að greiða þeim úr ríkissjóði, miðast við það, að hægt verði að greiða þeim aðeins nokkurn hluta þessa mjög tilfinnanlega tjóns, sem þeir urðu fyrir. Ég tel það mjög vel frambærilegt að fara fram á þetta hér við Alþ., og það ekki sízt vegna þess, að hættan á því, að mest þessu skapist fordæmi, sem gæti e.t.v. orðið örðugt fyrir hæstv. Alþ. síðar meir, er sennilega minni nú á þessu efni en nokkru sinni fyrr, þar sem hér á Alþ. liggur nú fyrir frv. til l. um búfjártryggingar, sem ætla má, að nái fram að ganga eftir þeim undirtektum, sem það hefur fengið í báðum d. þingsins. Og ég tel einnig af þeim undirtektum, sem þingsályktunartill. sú, sem flutt var hér snemma á þinginu, fékk, m.a. hjá háttv. þm. Mýr., formanni Búnaðarfélags Íslands, þá megi ætla, að hv. þm. hafi fullan skilning og vilja til þess að bæta þessum mönnum það mjög tilfinnanlega tjón, sem hér er um að ræða.

Ég vil í þessu sambandi um leið benda á, að ýmsir aðrir hv. þm. munu ýmist hafa flutt till. eða hafa boðað flutning tillagna, sem ganga í svipaða átt. Mér finnst mikil sanngirni mæla með því, að þessum till. þeirra verði tekið með svipuðum skilningi. En ég vil benda á, að nokkru öðru máli gegnir þar, a.m.k. eru þeir skaðar, sem þar er um að ræða, orðnir fyrir allmörgum árum; og allmargir þeirra manna; sem urðu fyrir þeim, hafa e.t.v. hlotið það bættan efnahag síðan, að þeir standi ekki fjárhagslega á eins völtum fæti eins og þeir menn, sem biðu þetta voveiflega tjón, sem ég hef lýst.

Ég hef ekki, varðandi mitt hérað, flutt fleiri brtt. hér við þessa umr.

Ég vil svo aðeins drepa hér á eitt atriði, sem mjög miklu máli skiptir fyris Norður-Ísfirðinga, en það hefur að nokkru leyti verið rætt af hv. formanni samvn. samgmn. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi rekið augun í það, að allveruleg hækkun hefur orðið á styrk til flóabáts Vestfirðinga, Norður-Ísfirðinga fyrst og fremst, Djúpbátsins,. Till. samvn. er, að bessi bátur fái 170 þús. kr. rekstrarstyrk. Eins og hv. þm. er kunnugt, hlutu Norður-Ísfirðingar á síðasta ári allverulegan styrk til þess að kanpa nýtt skip. Þetta var svo gert, það var keypt þangað stórt skip til þessara ferða, sem nú hefur tekið að sér að annast ferðir á þessum slóðum. Síðasta ár mun Djúpbáturinn hafa fengið rekstrarstyrk samt. 2500 kr., en þó mun aðeins 65 þús. hafa fengið til rekstrar bátsins á árinu 1942. Hitt fór upp í halla frá árinu 1941.

Þetta er náttúrlega mjög veruleg hækkun, sem stafar af þeim óvenjulegu tímum, sem við lifum á, og varðandi dýrtíð. En ég vil benda á það, að þessi fjárveiting getur naumast verið varlegri. Ég hygg, að þegar tímarnir breytast á ný til þess að verða eðlilegir, þá muni úr þessu greiðast, og ég vil enn fremur benda á það, að þegar Vestfirðir hafa fengið þá vegabót, sem ráð er fyrir gert, hlýtur hún að skapa þessu fyrirtæki, Djúpbátnum, stórkostlega möguleika með aukinni umferð fólks og auknum flutningum, sem skipið annast. Ég þarf ekki að orðlengja um þetta atriði frekar, því að bæði er það, að form. fjvn. hefur fylgt þessu úr hlaði, og ég held, að það sé ljóst fyrir hv. þm., hver nauðsyn er á því, að þessi hækkan fáist á styrknum. Ég vil geta þess, að félagið, sem rekur þetta skip, óskaði eftir að fá 200 þús. kr. til þessara ferða, en forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur lagt til, að þetta tillag verði lækkað niður í 170 þús. kr., og má vera, að það nægi upp í tapreksturinn.

Ég hefði kosið að segja nokkur orð um þær till., sem ég er meðflm. að, en þar sem svo áliðið er, hygg ég, að ég verði að geyma mér það til morgundagsins, og mun ég þá kveðja mér hljóðs til þess, ef ég sé ástæðu til, til þess að skýra afstöðu mína til þeirra.

Það er svo einungis ein till. fjvn., sem ég vildi gera að umræðuefni. Það er í till. fjvn. á þskj. 387 lagt til í 6.). tölul., að styrkur til Baldurs Johnsen héraðslæknis til manneldisrannsókna falli niður. Ég tel það miður farið, að fjvn. skuli telja sig knúða til að fella þennan styrk niður. Þessi maður hefur, frá því hann tók við læknisstarfi í einu erfiðasta héraði landsins, — þótt hann hafi nú fengið betra hérað, — unnið ósleitilega að þessum rannsóknum og hvorki sparað til þess fé eða erfiði, og ég veit, að hann hefur hug á að halda þessum rannsóknum áfram, og ég álít, að þingið eigi að halda áfram að sýna honum þann lítilfjörlega skilning á því starfi, sem hann vinnur, að veita honum þessar 2000 krónur til rannsókna í þessu efni. Ég vil því leggja til, að þessi till. fjvn. verði felld og að hinn ungi læknir fái þennan styrk, til þess að hann geti haldið áfram þessum rannsóknum sínum, sem ég hygg, að engan veginn þurfi að vera vegnar og léttvægar fundnar.