12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Hér hafa margir talað, síðan ég flutti framsöguræðu mína, og sé ég mér ekki fært að fara út í þær ræður lið fyrir lið, nema þar sem sérstakt tilefni er til.

Hv. þm. Barð. veik máli sínu til fjvn., og var mér það að vísu ljóst, áður en hann flutti ræðu sína, að það var mikið ábyrgðarstarf að vera form. fjvn. Hins vegar er mér það ekki ljóst, að þótt ég hafi með hlutkesti valizt til þessa starfa, þá bæri ég ábyrgð á því, að Patreksfirðingar svelti vegna mjólkurleysis. Hv. þm. Barð. deildi á fjvn. fyrir að hafa ekki veitt honum viðtal, að mér skildist. En af því að fjvn. hefur haft mjög stuttan tíma til umráða, hefur hún skorazt undan því að eiga mikil viðtöl við þm., en fyrir henni hafa legið skriflegar skýrslur frá ýmsum þm., og þar í meðal þessum hv. þm., um óskir þeirra, en að því leyti, sem þessi erindi hafa ekki nægt, hafa allir þm. átt aðgang að flokksmönnum sínum í fjvn., og þeir hafa getað falið þeim að koma óskum sínum áleiðis í n. Flokkur þessa hv. þm. á þrjá fulltrúa í fjvn., og ég tel það óréttmæta árás á þessa ágætu menn, ef hann telur, að réttur hans hafi verið fyrir borð borinn í fjvn.

Ég vil gjarna styðja vegabætur á Vestfjörðum. og ég held, að þessi hv. þm. þurfi ekki að kvarta yfir því, að ég hafi beitt mér á móti framlögum til vega þar. En þegar hann er að tala um, að dregið hafi verið úr eða fellt niður af till. vegamálastjóra um framlög til vegagerða á Vestfjörðum, þá ætti hann helzt að snúa sér til flokksbróður síns, fyrrv. fjmrh., en ekki til fjvn., því að hún hefur þó bætt nokkuð fyrir það, sem fyrrv. fjmrh. dró úr till. vegamálastjóra, þar á meðal hækkað tillag til nokkurra vega eftir till. vegamálastjóra, sem mér skilst, að fjmrh. hafi ekki treyst sér til að taka upp.

Hv. þm. Barð. sneri sér sérstaklega að mér, —en ég er einn minna flokksmanna í fjvn., - og spurðist fyrir um það, hv ort sá mismunur, sem gerður væri á framlögum til vega í Vestur-Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu, stafaði af því, að þm. V.-Ísf. væri úr sama flokki og ég. Og mér skildist, að í því sambandi væri hann að bera mér á brýn einhverja hlutdrægni í sinn garð. Nú er vegaféð til Vestur-Ísafjarðarsýslu eftir till fjvn. 60 þús. kr., en vegafé til Barðastrandarsýslu 92 þús. kr., þannig að ef einhver hlutdrægni hefði átt sér stað, væri hún í þá átt, að það hefði verið dreginn mjög laklega taumur míns ágæta flokksbróður ( ÁÁ), en ekki eins og hv. þm. Barð. vill vera láta, að ég hafi haldið honum of mjög fram. Ég segi þetta til dæmis um röksemdafærslu hv. þm. Barð., en ekki til þess að draga að neinu leyti úr áhrifum hans ágætu ræðu, sem sjálfsagt hefur sannfært margan mann. Ég þykist vita, að þessi hv. þm. hefði með sinni alkunnu lipurð og röksemdafærslu e.t.v. getað haldið betur á hlut sínum heldur en þeir ágætu flokksmenn hans, sem sitja í fjárveitinganefnd. En þó veit ég ekki, hvort það hefði verið réttlátt gagnvart öðrum kjördæmum.

Ég held ég þurfi ekki að svara frekar hv. þm. Barð. Hann var að tala um, að það mundi vera hægt að koma á sambandi milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar, að mér skildist um Kleifaheiði. Sá vegur mun vera um 50 km á lengd, ef hann er lagður alla leið, en yfir heiðina sjálfa nokkru styttri. Og eftir þeim upplýsingum, sem vegamálastjóri hefur gefið fjvn., mundi hann kosta til þess að koma opnu sambandi yfir heiðina 330 þús. kr., og vísitöluhækkun að auki, sem mun nema samtals rúmlega 1 milljón króna, og þótt veittar hefðu verið 20–30 þús. kr. meira til þessa vegar á þessu ári, þá held ég, að ekki hefði fengizt æskilegt vegasamband yfir þessa heiði.

Þessi hv. þm. var að kenna mér nokkuð í landafræði á Vestfjörðum. Ég hef ekki farið með neinum hafnsögumanni um Vestfirði eins og hv. þm. Barð., en ætla, að ég hafi rétt fyrir mér, þegar ég held fram, að vegur yfir Þorskafjarðarheiði mundi koma Vestfirðingum að gagni vestur í Bíldudal, þótt yfir fjörðinn sé að fara, þegar komið er samband yfir Rafnseyrarheiði.

Nú er það svo um fjárveitingar yfirleitt, að það eru sjálfsagt margir, sem finna sig mjög afskipta. En því miður er því nú svo farið um tekjur ríkissjóðs, að þótt þær væru tífaldar á við það, sem þær munu reynast, þá mun erfitt að taka tillit til allra óska, sem fram koma. Þm., sem setið hafa lengi á þingi, hafa vanizt að þurfa að læra það, að það verði að taka óskir þeirra nokkuð í áföngum, en ekki er hægt að uppfylla þær allar í einu stökki. En hlutdrægni veit ég ekki til, að hafi gætt í störfum fjvn., heldur rík tilhneiging til þess að reyna að taka tillit til óska manna, eftir því sem fært hefur þótt.

Ég vildi víkja örlítið að ræðu hv. þm. Vestm. Hann fann mjög að því, að fjvn. hefði gengið af fundi, þegar þingið væri að halda fund. Nú er þetta ekki rétt. Fjvn. var á fundi, áður en þingfundur hófst, en hafði því miður ekki lokið honum, þegar sá rétti tími var kominn til þingfundarhalds, og kom ekki fyrr en 1/2 klukkustund seinna á fundinn. En n. var að ræða ýmis mál, sem meðal annars varða kjördæmi þessa hv. þm. Og þó að það að vísu væri ekki á hans vitund, að það mál væri til umræðu, held ég óþarft fyrir hann að setja snuprur fjvn. fyrir fjarvistina, meðal annars af þessum ástæðum.

Viðvíkjandi framlagi til hafnargerðar í Vestmannaeyjum hefur fjvn. tekið upp till. um 100 þús. kr. framlag þangað. Þar af voru 58 þús. kr. ætlaðar til greiðslu á aðgerðakostnaði á hafnargarði Vestmannaeyja á liðnu ári. Nú hafði einnig komið fram ósk frá Vestmannaeyjakaupstað um, að upp yrði tekin fjárveiting til hafnarbóta í Vestmannaeyjum á þessu ári, 100 þús. kr. Fjvn. var þetta hvort tveggja mjög vel ljóst, og það því fremur sem einn af nm. í hafnarnefnd Vestmannaeyja hafði átt tal við formann fjvn. og skýrt þetta mál fyrir honum. En um framlögin til hafnargerða er svo yfirleitt, að það er ekki ætíð hægt að greiða á sama ári það framlag frá ríkissjóði, sem unnið er fyrir, og kemur því mjög oft fyrir, að ríkissjóður er nokkuð á eftir með þessar greiðslur. Það er ekki einstakt um Vestmannaeyjar. T.d. fær lítill staður eins og Hnífsdalur ekki nema helming af því, sem hann er búinn að vinna fyrir, aðrir staðir ekki nema þriðjung. Og Hafnarfjarðarkaupstaður er nú þegar búinn að vinna við sína hafnargerð fyrir svo mikla upphæð, að ríkið mundi þurfa að borga á þessu ári, ef vel væri, 300 þús. kr. til hans. En á fjárl. eru einungis teknar upp 150 þús. kr. til þessa verks. Ég segi fyrir mig, að ef möguleikar virtust á að taka að fullu tillit til óska Vestmannaeyinga í þessu efni, þá mundi ég sízt vera meinsmaður þess og vildi mjög gjarna athuga það, áður en þessari umr. er slitið. Mér þykir mjög fyrir því, að ekki hefur verið tækifæri til þess, að hv. þm. Vestm. fengi sérstakt viðtal við alla n. En það hefur því miður verið svo á þessu þingi, að fjvn. hefur haft svo nauman tíma til starfa, að til slíks hefur ekki verið unnt að fá tíma, þrátt fyrir það að æskilegt hefði verið.

Ég hef ekki hugsað mér að fara út í ræður einstakra þm. Það hafa verið fluttar ýmsar brtt. hér, sem eru sjálfsagt mjög áríðandi, um nýjar fjárveitingar, t.d. till. um að laga til árósa, svo að lasinn geti gengið upp eftir viðkomandi ám og þurfi ekki að stranda á söndum og leirum hjá bændum við ósana, heldur geti komizt alla leið til þeirra, sem eiga heima lengra uppi í landinu. En ýmsar þessar till. eru þess eðlis, að þar virðist gæta meira sérstakra sjónarmiða fyrir einstaka hluta af sveitum heldur en fyrir heil kjördæmi, hvað þá að hægt sé að segja, að sjónarmiðs alls landsins gæti í þeim.

Ég vil geta um eina brtt. sérstaklega, sem ég hefði átt að gera að umtalsefni í frumræðu minni, — á þskj. 387, tölulið 96, þar sem fjvn. leggur til, að tekið sé upp á heimildar gr. að veita allt að 100 þús. kr. í byggingarstyrk til nokkurra listamanna. Það lágu fyrir n. beiðnir frá nokkrum listamönnum um byggingastyrki eða ábyrgðir. Flestir þessir menn eiga nokkuð erfitt uppdráttar. Það eru ýmist málarar eða myndhöggvarar. Sumir eru byrjaðir á að koma sér upp einhverju skýli yfir höfuðið og vinnustofu, en aðrir hafa hug á að koma þessu upp. Fjvn. vildi verða við þessum beiðnum, eftir því sem fært þætti, og leggur mjög eindregið til, að þessi till.samþ.

Þá vildi ég minnast á brtt. frá fjvn. á þskj. 420, við 22. gr. fjárlaga, að ríkisstj. heimilist að verja úr ríkissjóði allt að 35 þús. kr. til kaupa á húsnæði fyrir síldarrannsóknir þær, er atvinnudeild Háskólans hefur með höndum. á Siglufirði, sem er mjög mikilsverður þáttur í rannsóknum þeim, sem atvinnudeild Háskólans hefur með höndum. Rannsóknir þessar hafa verið stundaðar á Siglufirði nokkur undanfarin ár, og rannsóknarstofan hefur haft húsnæði til þess hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. En sennilega verður það hús, sem notað hefur verið til þessa, rifið nú alveg á næstunni, og rannsóknarstofan stendur þá uppi alveg húsnæðislaus. En henni stendur til boða að kaupa hús á Siglufirði, sem álitið er mjög hentugt í þessu skyni. Þessar rannsóknir eru þáttur í rannsóknum, sem framkvæmdar eru af Bretum sumpart og sumpart af Norðmönnum og mega alls ekki falla niður. Vildi ég mæla með því fyrir hönd fjárveitinganefndar, að þessi till. verði samþykkt.

Hv. þm. Borgf. (PO) drap á 2 brtt. við 22. gr., sem hafa valdið nokkrum ágreiningi í fjvn. Sú fyrri er töluliður 95, d., um að verja allt að 2 millj. kr. til atvinnu aukningar, ef atvinnuleysi yrði á árinu, og vinna þá sérstaklega að tilteknum störfum, svo sem auknu landnámi og nokkrum vegagerðum. Ég hefði viljað eiga tal við háttv. þm. Borgf. — ekki um að fella þessa heimild niður, heldur um að hækka hana nokkuð. — Síðan fjvn. hélt fund, hef ég átt tal við vegamálastjóra, og hann hefur tjáð mér, að vera megi, .ð hugmynd, sem hann drap á í fjvn., geti e.t.v. komizt á nokkurn rekspöl. En sú hugmynd er á þá leið, að e.t.v. verði hægt að fá setuliðið til þess að taka þátt í vegabótum á norðurleiðinni, ef þær eru unnar á þessu ári. Vegabætur þær, sem vegamálastjóri hafði sérstaklega í huga, voru að gera góða vegi á Öxnadalsheiði og Vatnsskarði, á Hafnarfjallsvegi og fyrir Hvalf jörð. Þetta mál var ekki komið langt áleiðis, þegar vegamálastjóri átti um þetta tal við fjvn. í janúar-mánuði, en mun vera komið eitthvað lengra áleiðis nú. Og það virðist svo, að setuliðið hafi áhuga fyrir því, að gerður verði greiður bílvegur umhverfis Hvalfjörð, og enn fremur, að hinum nýja vegi á Vatnsskarði verði lokið, en þó því aðeins, að slíkt verði gert á þessu ári. Ég hef aðeins gefið upplýsingar um, hvað vegurinn kringum Hvalfjörð kostar eftir till. vegamálastjóra og enn fremur, hvað vegur á Vatnsskarði mundi kosta. En setuliðið hefur sérstakan áhuga á lagningu þessara vega, og frá því mundi sennilega fást fjárframlag til þeirra, sem næmi helmingi kostnaðar. Og þá færi að verða álitamál, hvort ekki ætti að nota tækifærið og ljúka þessum tveim vegum í sumar, ef vinnuafl fengist til þeirra. Og einmitt í því sambandi vil ég eiga tal við alla fjvn. og háttv. þm. Borgf. — ekki um að minnka þessa heimild á tölulið 96, d., heldur hækka hana nokkuð. breyta henni í þá átt, að ef atvinnuleysi eða aðrar ástæður gera það nauðsynlegt, þá væri einnig tekið upp á þenna lið heimild til að vinna að þessum vegum sem ég nefndi, nú á þessu sumri, og hækka framlag til þeirra, en ekki lækka.

Það ágreiningsatriði, sem hv. þm. Borgf. drap á, var niðurskurðarákvæðið á 22. gr. XIX. Meiri hl. fjvn. lagði til að þessum lið yrði breytt allmikið í annað horf heldur en hann hefur verið í undanfarið; sem sagt að fella niður niðurskurðarheimildina, en veita ríkisstj. í þess stað heimild til að leggja til hliðar fé, sem ætlað væri til verklegra framkvæmda á þessum fjárl., ef ekki fengist vinnuafl eða efni, svo að hægt væri að framkvæma þau verk, sem áætluð væru og varið væri fé til á fjárl. Háttv. þm. Borgf. var andstæður þessari till. og hefur nú lagt fram till., sem er sama efnis, en að vísu öðruvísi orðuð, þar sem beinlínis er lagt fyrir ríkisstj. að leggja þetta fé til hliðar, ef verkin eru ekki unnin. Hann gerir ráð fyrir því, að þessi till. verði sérstök till. á fjárl. og ekki á heimildargr., heldur bein fyrirmæli. Þetta mundi þýða það, að ríkisstj. væri skyldug til, jafnvel þótt fé væri ekki fyrir hendi, að leggja þetta fé í eins konar framkvæmdasjóð í þessu augnamiði. En þá mundi aftur á móti haldast hin svonefnda niðurskurðargr. á fjárl., sem mörgum háttv. þm. — og ekki að ósekju hefur verið nokkur þyrnir í augum. Ég get fyrir mitt leyti ekki fallizt á að gera þessa breyt. á till. meiri hl. fjvn. Ég vil skoða þessa brtt. háttv. þm. Borgf. sem tilraun til þess að koma í veg fyrir, að niðurskurðargr. verði breytt. Hann ætlast til, og með réttu, að till. sín komi til atkv. á undan till. meiri hl. fjvn., og væntanlega mundi ekki till. meiri hluta n. um þetta verða borin undir atkv., ef till. háttv. þm. Borgf, yrði samþ. Hins vegar mundi þessi till. meiri hl. n. koma undir atkv., ef till. háttv. þm. Borgf. yrði felld, þar sem annars vegar er að ræða um beina fyrirskipun, en hin till. er aðeins heimildar till. Ég hef þó til vonar og vara lagt fram varatill. við þessa brtt. fjvn. í því tilfelli, að till. háttv. þm. Borgf. yrði samþ., um, að niðurskurðurinn verði aðeins 5%. Þessa till. mun ég taka aftur, ef till. meiri hl. fjvn. verður samþ.

Háttv. þm. Borgf. gerði nokkru fyllri grein fyrir tekjuáætluninni en ég hafði gert í framsöguræðu minni, og ég held, að af þeirri grg. megi verða ljóst, að það er nokkur ágreiningur milli fjvn. og hæstv. fjmrh. Hæstv. fjmrh. hélt því fram meðal annars, að óverjandi væri að áætla tekjur frv. af verðtollunum og vörumagnstollunum hærri en þær reyndust 1941, 23.5 millj. kr., en fjvn. hefur áætlað þær 27,5 millj. kr., eða 4 millj. kr. hærri en fjmrh., en þó 20 millj. kr. lægri en þessir tveir liðir reyndust á árinu 1942. Nú mundum við sjálfsagt geta deilt um það lengst af á þessu ári og e.t.v. til ársloka, fjvn. og fjmrh., hvor aðilinn hefði réttara fyrir sér í þessu. En áætlanir hljóta alltaf að byggjast nokkuð á reynslu ársins á undan, og sýnist þá ekki óvarlegt að gera ráð fyrir því, að þessir liðir gætu veitt tekjur, sem væru 20 millj. kr. lægri heldur en þær reyndust á árinu, sem leið.

Ég veit ekki, hvort það hefur verið á þessum forsendum byggt, að hæstv. fjmrh. hélt fram, að eins og fjárlagafrv. lægi fyrir frá fjvn., þá væri það með 6 millj. kr. „grímuklæddum greiðsluhalla“, eins og hann komst að orði. En ég fyrir mitt leyti held fram, eftir þeim gögnum, sem hafa legið fyrir fjvn. og með þeim útgjöldum, sem þá leit út fyrir, að gera þyrfti ráð fyrir, að þá sé fjárlagaáætlunin eins og fjvn. skilaði henni ekkert sérlega óvarleg, svo að ég segi ekki meira. Annað mál er það, ef samþ. verður mikið af nýjum útgjöldum, sem fjvn. hafði ekki ástæðu til að gera ráð fyrir, að yrðu samþykkt. Það virðist geta breytt fjárlagafrv. ákaflega mikið. Og ég hef sérstaklega tekið það fram í því tilefni, að ekki hefur verið nein flokksstjórn til að bera ábyrgð á fjárl. og að núverandi ríkisstj. hefur ekki leitað samstarfs við fjvn. um afgreiðslu fjárl., að þinginu bæri sjálfu skylda til að sjá svo um, að fjárl. væru forsvaranlega afgr. Það liggur nú fyrir brtt. frá einstökum þm. um hækkanir á gjöldum um 11 millj. kr. Ég hef ekki kosið að gera þessar brtt. í einstökum atriðum að umtalsefni. Ég benti að vísu á um smábrtt. um læknisvitjanastyrki, í framsöguræðu minni, að þær væru að mínu viti algerlega ástæðulausar, þar sem læknishéruðin gætu, ef þau vildu, notað sér þau hlunnindi, sem l. um læknisvitjanastyrki veita. Ég vil einnig benda á eina stóra till., þ.e. um framlag til fæðingarheimils í Rvík. Fjvn. hefur tekið upp á heimildargrein 100 þús. kr. í þessu skyni, og hún hefur tekið upp sérstakt framlag til viðbótartyggingar við Landsspítalann 200 þús. kr., samtals 300 þús. kr. Það var svo til ætlazt af fjvn., að þessar upphæðir yrðu notaðar til þess að semja við Rvíkurbæ um að reisa fæðingarheimili við Landsspítalann. Ef þeir samningar tækjust, væri framlagið samkv. till. fjvn. nægilegt, miðað við varatill. þm. Rvíkurbæjar. Ég held því, að þessir hv. þm. gætu tekið till. sína um þetta efni aftur með góðri samvizku.

Ég man svo ekki eftir fleiri till., sem ég sé ástæðu til að gera að umtalsefni. Það hlýtur að verða samkomulag meðal þm. um það, annað hvort að skera niður þær till., sem fjvn. hefur gert, eða finna nýja tekjustofna og gera áætlanir fyrir þá, eða þá í þriðja lagi að skera niður brtt. frá einstökum þm., þannig að fjárl. verði afgr. án tekjuhalla. Að samþykkja allar till. þm., sem hér liggja fyrir, án þess að fundnar yrðu tekjur á móti eða skorið niður eitthvað af till. fjvn., það væri fullkomið ábyrgðarleysi, og ég vænti þess fastlega, að um þetta fáist samkomulag, hvaða ríkisstjórn sem tekur við þessum fjárl. Hæstv. fjmrh. sagði, að allar stórfelldar framkvæmdir á þessum tímum væru óframkvæmanlegar, ef þær væru ekki beinlínis bráðnauðsynlegar og ekki hægt að komast af án þeirra. Ég tel fyrir mitt leyti, að í því frv., sem fyrir liggur, sé ekki gert ráð fyrir neinum stórfelldum framkvæmdum eða neinum öðrum framkvæmdum en þeim, sem eru nauðsynlegar og ekki er hægt að komast af án. Við verðum, þó að á stríðstímum sé, að gæta þess, að þau samgöngutæki, þau hafnarmannvirki og þær bryggjur, sem við eigum í landinu, gangi ekki úr sér. Við verðum að halda í horfinu um framkvæmdir, þó að ófriðarástand ríki. Ég skal geta þess, t.d. með hafnarmannvirkin, að þau hafa viða á þessum 2–3 s.l. árum orðið fyrir alveg óvenjulegri notkun og eru mjög víða gengin úr sér, og á ýmsum stöðum verður að hefjast handa þegar í stað, ef þeir eiga ekki að vera bryggjulausir. Á ýmsum stöðum var af fyrrverandi stj. hafizt handa um hafnarmannvirki, svo sem í Keflavík, á Skagaströnd og víðar. Þessi hafnarmannvirki eru nú nokkuð á veg komin, og það væri mikill skaði, ef nú þyrfti að stöðva þau. Þau verða að vísu nokkuð dýr, en það er nauðsynlegt fyrir okkur að sjá um, að þau tæki, sem við þurfum að hafa til framleiðslunnar, þar á meðal hafnarmannvirkin, séu í því ástandi að ófriðnum loknum, að við getum rekið atvinnuvegina með fullum krafti. Hæstv. fjmrh. virtist taka það nærri sér, að gert er ráð fyrir því af meiri hl. fjvn., að niðurskurðarheimildin verði felld niður. Hann spurði, hvaða munur væri á þessari stj. og fyrrverandi stj. og hvers vegna þessi stj. mætti ekki fá þessa heimild, fyrst fyrrverandi stj. hefði verið veitt þessi heimild, og hvort till. um að fella heimildina niður ætti að skoða sem vantraust á núverandi stj. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég stend að flutningi þessarar till. án tillits til þess, hvaða stj. situr að völdum, og hún er frá minni hálfu hvorki traust né vantraust, heldur aðeins till. um það að fella niður ákvæði, sem ég álít óþarft og óviðeigandi í fjárl. Hæstv. fjmrh. hefur að vísu látið uppi skoðun, bæði í útvarpsumr. og einnig við þessa umr., sem virðist koma mjög í bága við skoðun meiri hl. fjvn., þar sem hann hefur látið það í ljós, að ekki ætti að ráðast í verklegar framkvæmdir á þessu ári, og jafnvel látið skína í það, að þær hóflegu till. fjvn., sem hér eru á ferðinni, um verklegar framkvæmdir gengju allt of langt. En þessi ummæli hæstv. fjmrh. hafa þó ekki valdið því, að þessi till. liggur hér fyrir, heldur hefur meiri hl. fjvn. viljað niðurskurðartill. burtu fellda án tillits til skoðana hæstv. fjmrh. um verklegar framkvæmdir. Það er af sjálfsögðu ekki ætlunin að ráðast hér í verklegar framkvæmdir í því skyni að stofna til kapphlaups um vinnuaflið, en annað mál er það, þó að á stríðstímum sé reynt að halda nokkuð í horfinu. Ef hins vegar yrði skortur á vinnuafli eða efni, höfum við meiri hl. n. borið fram sérstaka till., sem gerir stj. kleift að leggja það fé, sem ætlað er til þessara framkvæmda, til hliðar. Niðurskurðarheimildin var hins vegar þess eðlis, að gert var ráð fyrir því, ef fjárskortur yrði hjá ríkisstj., að þá yrði dregið mjög úr verklegum framkvæmdum. En ég hygg, að atvinnuleysi og fjárskortur hjá ríkissjóði mundi mjög fara saman, og ef sérstakt atvinnuleysi yrði, þá mundi ríkisstj. ekki eingöngu vera nauðsynlegt að nota allar þær heimildir, sem stj. hefur til verklegra framkvæmda, heldur mundi stj. þurfa að gera alveg sérstakar ráðstafanir umfram það, sem ráð er fyrir gert í fjárl., til þess að bæta úr atvinnuleysinu, og þá mundi stj. þurfa að kalla Alþ. saman til þess að reyna að ráða fram úr því óvenjulega ástandi, sem þá mundi skapast. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. er hér nærstaddur, en óneitanlega væri viðkunnanlegra, að hann gæfi nokkru nánari skýringu á ummælum þeim, sem hann hefur haft um tekjuáætlun fjvn., sem hún stendur öll að, og þar með allir þingflokkar, og enn fremur, að hann gæfi skýringar á þeim ummælum, sem hann hefur haft viðvíkjandi verklegum framkvæmdum. Það væri gott, að hann gæfi skýringu á því, hvort honum er svo mjög á móti skapi að framkvæma svo hóflegar till. um verklegar framkvæmdir, sem hér er gert ráð fyrir, að hann teldi þær óverjandi í framkvæmd. Ég vildi biðja hæstv. fjmrh. að athuga, hvort hann getur ekki sannfærzt um það, að till. um tekjuöflun séu eðlilegar og till. um verklegar framkvæmdir nauðsynlegar, — svo nauðsynlegar, að hvaða fjmrh. sem væri mundi telja sér ljúft og skylt að framkvæma þær.

Ég held svo, að ekki sé ástæða til að hafa þetta mál lengra að sinni. Ég vildi þó aðeins fara nokkrum orðum um till. hv. þm. Borgf. um, að ríkið leggi til lóð handa Íþróttafélagi Reykjavíkur. Þarna er um að ræða félag, sem starfar eingöngu fyrir Rvíkurbæ. Fjvn. hefur lagt til, að tekin yrði á heimildargr. heimild handa stj. til þess að láta leggja til leigulausa lóð handa Í.S.Í. fyrir íþróttaheimili í Rvík. Starfsemi Í.S.Í. nær yfir allt landið og er því annars eðlis heldur en starfsemi einstakra íþróttafélaga í Rvík. Með íþróttasjóðsl. er öllum bæjarfélögum gert að skyldu að láta ókeypis í té lóð fyrir íþróttastarfsemina. Það er þess vegna bein skylda Rvíkurbæjar að leggja Í.R. til ókeypis lóð. Hins vegar hlyti það að draga dilk á eftir sér, ef ríkið færi að veita einstökum íþróttafélögum í einstökum bæjum leigulausa lóð eða ókeypis. Ég ann íþróttastarfseminni í landinu alls hins bezta, og ég vil mjög gjarnan, að Alþ. hlynni að henni, en hins vegar ber ekki að loka augunum fyrir því, að þær lóðir, sem ríkið á hér innan takmarka Rvíkurbæjar, eru mjög litlar, og ríkið mun líka þurfa á þeim að halda undir opinberar byggingar innan stutts tíma. Það væri því ekki ráðlegt, að ríkið færi að leggja einstökum íþróttafélögum í Rvík til ókeypis lóðir, og ég held, að það væri rétt, að ríkið héldi Rvíkurbæ að sinni skyldu í þessum efnum, en færi ekki að losa hann undan þeim skyldum er hvíla á öllum öðrum bæjafélögum gagnvart íþróttastarfseminni, þannig að hver kaupstaður haldi uppi íþróttastarfseminni innan sinna takmarka samkv. l. Ég get þess vegna ekki frekar en í fjvn. fallizt á till. hv. þm. Borgf. í þessu efni.

Aðra till. vildi ég einnig minnast á, en það er till. hv. þm. Barð. um að hækka framlag til bygginga á ríkisjörðum úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. Fjvn. tók þessa till. upp eftir tilmælum hæstv. atvmrh., og fyrir lá erindi frá þeim manni, sem með þessi mál hefur að gera í stjórnarráðinu. Hann hefur einmitt gert ráð fyrir því, að þessi byggingarstyrkur yrði tekinn upp með 140 þús. kr., en ekki 200 þús. kr., eins og hv. þm. Barð. leggur til. Viðvíkjandi því, að ríkið selji nú jarðir sínar, þá kemur þar til álita nokkur stefnumunur, og þá sérstaklega sá, hvort ríkið eigi að kaupa jarðir af bændum í harðærum og selja þær svo aftur í góðærum, þegar jarðirnar hækka í verði, en það skilst mér helzt vera stefna hv. þm. Borgf. í þessu máli. Ríkisstj. hefur vissulega ekki sótzt eftir því að kaupa jarðirnar af bændum. Bændur hafa óskað eftir að selja ríkinu jarðirnar. Þess vegna kemur það undarlega fyrir, ef ríkið á að fara að selja bændunum jarðirnar aftur, þegar þær eru í hæstu verði, og þá vitanlega að kaupa þær í annað sinn, þegar fer að þrengjast um hjá bændum. Ég held, að vegna komandi kynslóða sé það heppileg stefna, að ríkið eigi jarðirnar, bæði á góðum árum og vondum, og reyni að haga ábúðarlöggjöfinni þann veg, að bændur geti vel við unað. Hver kynslóð getur þá greitt hæfilega leigu fyrir jarðirnar í stað þess að þurfa að svara út háu jarðarandvirði.

Ég læt svo útrætt um þetta að sinni. Sé svo, að hæstv. fjmrh. sé ekki viðstaddur, þætti mér mjög kært, ef sá hluti hæstv. stj., sem hér er mættur á fundinum, vildi svara þeim fyrirspurnum, sem ég hef hér borið fram.