12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki tefja mjög þessar umr., en ætla að minnast á örfáar brtt. á þskj. 410.

Á 12. gr. fjárl. tölul. 3 eru læknisvitjanastyrkirnir, og er til þeirra ætlað þar samtals kr. 13550. Ég sé, að hér eru bornar fram brtt, frá mörgum hv. þm. um hækkanir á þessum styrkjum. En í sambandi við þetta vil ég taka fram, að árið 1941 voru samþ. 1. um læknisvitjanasjóði, og þá varð að samkomulagi milli þm., að styrki til læknisvitjana skyldi ekki hækka frá því, sem þá var á fjárl., og hámark þessara styrkja mun hafa verið 950 kr. mest í hérað.

Þetta varð þá að samkomulagi. Enda er það svo um læknisvitjanastyrkina, að þeir eru ákveðnir mjög af handahófi til hinna einstöku héraða og látnir til héraða, þar sem þeir kannske eru ekki nauðsynlegri heldur en í öðrum, sem engan slíkan styrk fá. En þegar l. um læknisvitjanasjóði voru sett, átti að tryggja það, að hvert hérað, sem vildi og hefði þess þörf, gæti orðið aðnjótandi þeirra hlunninda, sem þau l. veita, gegn framlagi á móti úr héraði. Ég legg því á móti því, að brtt. um læknisvitjanastyrki verði teknar til greina, þar sem farið er fram á hækkun á þeim.

V. brtt. á þskj. 410 frá háttv. þingmönnum Reykv. er um stofnun fæðingardeildar fyrir Rvík í sambandi við landsspítalann, og er farið fram á í því augnamiði, gegn jöfnu framlagi frá Reykjavíkurkaupstað, að samþ. verði á fjárl. 600 þús. kr. fjárveiting. Það er engum blöðum um það að fletta, að á því er mikil nauðsyn að koma upp fæðingarheimili hér í Rvík. Það hafa lengi verið óskir uppi um það að stækka fæðingardeild landsspítalans. Meðan við vorum í stjórnmálasambandi við Danmörku og reyndar lengur, var skylda allra lækna að sigla til Danmerkur til að læra fæðingarhjálp. Síðar var sú skylda numin úr gildi, og menn þurftu ekki að fara til Danmerkur til að læra slíkt, heldur gátu lært það á landsspítalanum. En fæðingardeildin þar er lítil og ófullkomin og samsvarar ekki kröfum, sem til slíkrar deildar verður að gera, hvorki fyrir lækna eða ljósmæður. Þess vegna er nauðsyn á, að þessi deild sé stækkuð. Fjvn. skildi þetta líka, og í hennar till. er mælt með 200 þús. kr. fjárveitingu til þess að stækka þessa fæðingardeild. En það er vitanlega ekki nóg fé til þess að ljúka slíkri stækkun, en mætti þá fremur skoðast sem fyrsta fjárveiting af t.d. tveimur til þremur. Til ýmissa slíkra hluta, þótt þarfir séu, er ekki hægt að veita fjárframlag á einu ári, svo að fullgera megi slíkar nauðsynjaframkvæmdir, heldur verður slíkt oft að taka mörg ár, með framlögum þá á móti annars staðar frá.

Auk þess mælir fjvn. með á heimildargr. (22. gr.) 100 þús. kr. framlagi til fæðingarheimilis fyrir Rvíkurbæ, sem nú er mikið áhugamál bæjarstjórnar Rvíkur og almennings hér í bæ. Og það er sett að skilyrði, sem ég hygg, að ekki þurfi að deila um, að sanngjarnt sé, að heilbrigðisstjórnin samþykki fyrirkomulag stofnunarinnar og stað fyrir hana. Og verður að vona, að um þessa stofnun fáist samkomulag milli bæjarstjórnar Rvíkur, landlæknis og spítalalækna landsspítalans. Landlæknir hefur sérstöðu í þessu máli. Hann vill, að Rvíkurbær eigi fæðingarheimili út af fyrir sig, sem ekki sé sjúkrahús, þar sem allar venjulegar og léttar fæðingar geti farið fram, en svo eigi landsspitalinn að eiga fullkomna fæðingardeild, þar sem hægt væri að veita fullkomna fæðingarhjálp, sem væri þá kennslustofnun fyrir lækna og ljósmæður. Um þetta er töluverður ágreiningur í bænum. T.d. er Guðmundur Thoroddsen prófessor á þeirri skoðun, að ekki þurfi að stofna neina slíka deild nema við landsspítalann, sem eigi að nægja fyrir Rvík og allt landið, með 35–40 rúmum. En landlæknir er, eins og ég tók fram, á annarri skoðun. Og það er von mín, að þessar mismunandi skoðanir nái að samræmast, þannig að náist samkomulag í þessum málum, hvort sem fæðingarheimilin verða eitt eða tvö, svo að úr byggingu verði. Því að þess er full þörf, og fjvn. hefur mælt með 300 þús. kr. framlagi samtals til slíkra bygginga. Þess vegna er það till. mín til hv. flm. þessara till., að þeir taki brtt. aftur, því að fjvn. hefur séð þessa þörf, eins og ég hef nú skýrt, svo að þessum málum er vel borgið.

Þá er hér brtt. (410, VII) um aukið framlag til sjúkrahúsa vegna sjúkrahúsanna á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Það var getið um það við 2. umr., að fjvn. mælti með auknum styrkjum til sjúkrahúsa, eins í hverjum landsfjórðungi, í Rvík, á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Henni þótti ekki nema sanngjarnt, að hver landsfjórðungur fengi sitt sjúkrahús, sem gæti tekið á móti utanhéraðssjúklingum sem öðrum, og að þau væru rekin á sem fullkomnastan hátt. Þess vegna mælti hún með því, að hver landsfjórðungur fengi sitt höfuð-sjúkrahús. Vestmannaeyjar og Siglufjörður voru ekki tekin þar með, því að landsspítalinn var talinn höfuð-sjúkrahús fyrir Suðurland og sjúkrahús Akureyrar fyrir Norðurland, svo að ég held, að það sé ekki ástæða til að fara eftir óskum frá Vestmannaeyjum og Siglufirði í þessari áminnztu brtt., því að ég hygg, að fleiri kröfur mundu þá koma á eftir um styrki, sem taldir væru hliðstæðir, til sjúkrahúsa.

Þá er ein brtt. enn, sem mig langar til að víkja nokkrum orðum að, undir rómv. 83 á þskj. 410, frá ríkisstj., tveir liðir, a og b. Þar er um að ræða sérstakar launauppbætur, sem hafa verið borgaðar, eins og hv. þm. er kunnugt, án þess að nein stoð væri fyrir þeim í raun og veru í l. Það er nú svo, að ég má til að fara nokkrum orðum um aðdragandann að því, að þessar launabætur urðu til, a.m.k. í sambandi við héraðslæknana, og ég álit, að þeir hafi allverulega sérstöðu, samanborið við aðrar stéttir, sem þeirra launabóta verða aðnjótandi. Og mér þykir leitt, að ríkisstj. skuli ekki hafa fundið ástæðu til að tala um þetta við stjórn okkar félags. Við héraðslæknar eigum okkar stéttarfélag eins og fleiri stéttir hér á landi, sem á að hlúa að málum okkar. En í þessu efni var eigi leitað umsagnar þess.

Þegar fram kom á árið 1941 og dýrtíð fór ört vaxandi hér á landi og allir, sem laun tóku, voru búnir að fá sínar launahækkanir gegnum aukna dýrtíðaruppbót, þá var það svo, eins og er enn, að læknarnir fá ekki nema litinn hluta af sínum launum, sem þeir hafa til að lifa af, greiddan úr ríkissjóði. Og laun þeirra eru ákaflega lág, samanborið við laun annarra starfsmanna ríkisins, vegna þess að þeim er ætlað að ná tekjum gegnum læknisstörf sín, og hafa þeir ákveðinn taxta um þau, sem heilbrigðisstjórnin semur, sem þeir eiga að fara eftir. Nú var það krafa okkar félags 1941, að við fengjum þennan taxta hækkaðan, samanborið við aðrar stéttir, sem höfðu fengið dýrtíðaruppbót á sín laun. En landlæknir vildi ekki, að sú leið væri farin, og bar það fyrir sig, sem að mörgu leyti er rétt, að ef við fengjum hækkaðan taxtann, þá yrði erfitt, þegar dýrtíðinni létti aftur, að fá hann lækkaðan, eins og ég líka býst við, að erfiðara verði að lækka grunnkaupið en að hækka það. Og þess vegna taldi hann þetta sem eins konar dýrtíðarráðstöfun, að læknar fengju aukna dýrtíðaruppbót, — að vísu á laun, sem eru ekki til staðar samkv. launal. Þessi leið var svo farin, sem var alveg óvenjuleg, enda voru margir læknar andvígir þessari aðferð. Læknafélagið féllst samt á þessa aðferð, en við hækkuðum ekki taxtann. En fyrir fjölda lækna var það tap, peningalega séð, því að þeir hefðu haft meiri tekjur af því, ef taxtinn hefði verið hækkaður í hlutfalli við dýrtíðina heldur en með því að fá þessa launauppbót; og voru þetta læknar í stórum héruðum. En þeir sýndu fullan þegnskap og skildu, hvað á seyði var, og þess vegna beygðu þeir sig undir þetta fyrirkomulag.

Mér finnst vegna þess, sem ég hef fram tekið, heldur óvarlegt að fara að svipta læknana þessari uppbót, ef ekkert á að koma í staðinn, því að þó að eigi að fara að greiða þeim 2 þús. kr. ofan á verðlagsuppbótina, þá er það svo hverfandi lítið, að við því er varla takandi. Ég býst nú ekki við því, að læknar mundu kannske ekki komast af vel flestir, þó að þeir fengju ekki neinar uppbætur. En þeir vilja ekki, að þeirra starf sé svo vanmetið, að þeir einir, þegar allir aðrir hafa fengið fullkomnar launa- og kjarabætur, séu settir hjá. Það er það, sem þeim svíður, en ekki hitt, að flestir þeirra mundu kannske ekki geta lifað, þó að þeir yrðu án þessara bóta. En enda þótt þeir hafi nokkra sérstöðu í þessum efnum, býst ég kannske ekki við, að hætt sé að taka þá eina út úr, úr því sem komið er. Þess vegna fer ég eindregið fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún segi til um, hvort hún álíti ekki rétt að hækka taxta læknanna. Mér virðist öll sanngirni mæla með því, að svo verði gert. Það er nú svo komið, að prestar fengu á síðasta vori hækkaðan taxta sinn um 50%. En við læknar höfum engar taxtahækkanir fengið enn.

Nú óska ég því eftir upplýsingum frá hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún fengist ekki til, þrátt fyrir þessa 2 þús. kr. launabót, að hækka taxta læknanna. Ég óska að fá um það svar, því að ef hæstv. ríkisstj. þóknast ekki að gera það, mun ég koma með brtt. þessu viðvíkjandi.