12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) hefur látið svo um mælt, að það hafi verið gálaus stefna af hálfu ríkisstj. að hafa ekki talað við félag héraðslækna, áður en stjórnin tók þann kost að leitast fyrir um, að þetta ákvæði yrði sett inn með brtt. við fjárlagafrv., sem hann hefur gert að umtalsefni. En ég játa hreinskilnislega, að það var svo langt áliðið tímans, þegar ég varð þess var, að svona væri ástatt um launabætur héraðslæknanna, að ég sé mér alls ekki fært að fara að bera þetta undir félag héraðslækna. Ég ræddi þetta mál við landlækni, og hann sagði mér, að annaðhvort mundu héraðslæknar ekki taka við minnu heldur en 650 kr. eða þá, að hækkaður væri taxtinn. Ég álít, að héraðslæknar ættu ekki að hafa neina sérstöðu gagnvart öðrum launamönnum, sem taldir eru hér upp, því að þeir hafa ekki orðið verr úti heldur en aðrir launamrnn að öðru leyti heldur en því, að einstakir af þeim, sem hafa mestar aukatekjur, þeir hafa við þessa aðferð, sem hér var höfð og fundin var upp sem miðlunarleið af landlækni, líkast til misst nokkuð af tekjum sínum.

En ríkisstj. sá sér ekki fært að fylgja þessu fram gagnvart þessari einu stétt. Sumum kom þessi leið að mjög góðu haldi, þeim sem höfðu minnstar aukatekjur, en aðrir sættu sig við hana, þó að þeir hefðu meiri aukatekjur en þessi upphæð var. Hins vegar þótti stj. rétt að svipta þessa menn ekki alveg því framlagi, sem þeim var veitt úr ríkissjóði, en fara þessa millileið, og þegar þessi leið var valin, vakti það fyrir stj., að nauðsynlegt yrði að hækka taxta héraðslækna og ljósmæðra að einhverju leyti.