12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Fjvn. hefur leyst á viðunandi hátt úr till. ýmsum. sem ég hef borið fram við 2. umr. ásamt öðrum þm. T.d. má nefna, að ein af aðaltill. þá var um þjóðleikhúsið. Hún var leyst af hálfu fjvn. með því, að n. vill gefa heimild til að veita fé til að fullgera húsið, og er það vel farið, ef verða mætti til þess, að það yrði loks fullbúið. Í sambandi við það verður og að leggja áherzlu á þáltill., sem fyrir þ. liggur, um að skora á ríkisstj. að fá þjóðleikhúsið rýmt.

Önnur till. var um styrk til bókakaupa fyrir Landsbókasafnið. Hún var um það, að 250 þús. kr. yrðu veittar úr ríkissjóði og það tækifæri notað, sem nú gefst, til að ná ódýrum kaupum á bókum frá Englandi. Fjvn. vildi lækka þetta í 100 þús., og er skylt að una við það.

Þá eru ýmsir aðrir liðir, sem ég skal ekki nefna, en svo er ýmislegt, sem n. hefur ekki skilið nógu vel við, og hef ég þó ekki flutt fleiri brtt. en mér þótti alveg nauðsynlegar. Meðal þeirra er ein, sem ég legg mikla áherzlu á, um framlag til hafnargerðar á Húsavík. Ég flutti við 2. umr. till. um 250 þús. kr. til þessa hafnargarðs. Fjvn. hefur lækkað það niður í 100 þús. kr. Ég held, að allir þm. séu orðnir sammála um hina miklu nauðsyn þessa mannvirkis. Það liggja fyrir og hafa hlotið afgreiðslu í hv. Ed. bæði þáltill. og frv. um breyt. á hafnarl. Húsavíkur, þar sem gert er ráð fyrir svo háum upphæðum, að fyrir þær sé hægt að ljúka byggingu þessa hafnargarðs, sem sé 2–3 millj. kr., en framlag ríkissjóðs mun eftir því verða allt að 1 millj. En þá er það mjög lítið, þegar á að hefja byggingu þessa, að ekki séu á þessu ári veittar nema 100 þús. kr. Ég átti í byrjun þ. tal við vitamálastjóra, og hann var mér sammála um nauðsyn verksins, en lýsti því fyrir mér, að það væri nauðsynlegt að hefjast handa í allstórum stíl, og var það í. samræmi við hans till., að ég fór fram á 250 þús. kr. í þessum fjárl.

Ég hef lýst því áður, um hve mikið nauðsynjamál er að ræða, ekki aðeins fyrir Húsavíkurbæ, heldur er þetta hagsmunamál fyrir alla þjóðina, í sambandi við það, að síldarverksmiðja yrði reist þarna. Það liggur þá líka fyrir áskorun til Alþ, frá Farmanna- og fiskimanna sambandi Íslands. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp úr bréfi þessu:

„... Hafnargerð á Húsavík hefur um langt skeið verið aðkallandi nauðsyn, ekki hvað sízt vegna þess, að á bak við hana liggur eitt af blómlegustu landbúnaðarhéruðum landsins, sem nauðsynlegt er að tryggja góð hafnarskilyrði. Þess ber og að gæta, að góð höfn á Húsavík mundi stórum auka afkomumöguleika síldarútvegsmanna og sjómanna, þar sem telja má víst, að þar verði reist afkastamikil síldarverksmiðja, ef hafnarskilyrði væru fyrir hendi. Enda Húsavík vel til þeirrar starfrækslu fallin, þar sem hún mun í flestum árum vera mjög nærri miðbiki síldveiðisvæðisins.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands leyfir sér því að mæla eindregið með því við hið háa Alþingi, að það veiti í fjárlögum fyrir 1943 nægjanlegt fé til hafnargerðar á Húsavík, sem, eins og að framan er sagt og hér skal endurtekið, er að vorum dómi brýn nauðsyn, sem undir engum kringumstæðum má dragast, að komist til framkvæmda.“

Hv. þm. heyra, hve ákveðið þetta bréf er. Málið er brennandi áhugamál Húsvíkinga, og þeir mundu vilja allt af mörkum leggja sem í þeirra valdi stæði, til að hafizt yrði handa. Vinnukraftur er talsverður á Húsavík; menn leita þar burt, svo að tugum skiptir, að sumrinu í vinnu. Ég vildi mjög mælast til þess, að upphæðin yrði hækkuð úr 100 þús. í 200 þús. kr., og vænti, að hv. þm. taki því vel.

Það eru örfáar brtt, aðrar, sem ég meðal marra er flm. að, á þskj. 410. Skal ég nefna hækkun framlags til Hins íslenzka fornritafélags. Það hefur í fjárl. 4000 kr. Þarf ekki að lýsa fyrir hv. þm., hve stórmerkileg fornritaútgáfan er og Íslendingum til sérstakrar frægðar. Hún er eina myndarlega útgáfan hér á landi af fornritum okkar, og er undir stj. manna, sem leggja mikla áherzlu á að vanda hana sem bezt. Það eina, sem hægt er að finna að henni, er það, hvað hún hefur gengið seint, m.a. af því, hve lítils styrks hún hefur notið.

Mér finnst það sjálfsagt mál, að það sé fornritafélagið, sem gefur út Íslendingasögurnar, og sé styrk til útgáfu þeirra varið til þess félags. Væri óheppilegt, ef t.d. annað ríkisforlag ætlaði að fara að keppa við það. Ég vænti, að hv. þm. taki þessari brtt. vel.

Þá flyt ég brtt. á sama þskj. um styrk til Lárusar Pálssonar leikara. Í fjárl. standa styrkir til þriggja leikara, 1200 kr. til hvers. Fjvn. hækkaði styrkinn til Lárusar upp í 2400, en með tilliti til þess hversu góðar undirtektir till. okkar hv. þm. Snæf. fékk við 2. umr., þar sem hún var felld með aðeins eins atkv. mun, — og einn þm. lýsti yfir því, að hann greiddi atkv. á móti til 3. umr., — virðist það vera vilji alþm., að þessi styrkur verði enn hærri. Ég lýsti því þá, enda er það hv. alþm. kunnugt, að Lárus Pálsson er einn efnilegasti leikari okkar, og skóli hans yrði framtíðarskóli fyrir leikara hér.

Meiri hl. fjvn. hefur gert þá breyt. um styrk til skálda og vísindamanna, að styrknum, sem áður var úthlutað af menntamálaráði, — og þó ekki nema að nokkru leyti, — á að skipta á milli hinna fjögurra deilda Bandalags íslenzkra listamanna, en hver deild fyrir sig úthlutar styrknum til félagsmanna og annarra. Um þessa breyt. er bæði gott og illt að segja. Listamennirnir hafa aldrei farið fram á að hafa þessa ráðstöfun með höndum og ekki óskað eftir því, heldur hafa þeir viljað, að breytt væri skipun menntamálaráðs og styrkur, sem áður stóð á 18. gr., komi þar inn aftur. Úr því sem komið er, munu listamennirnir samt fagna því, að úthlutunin er komin úr höndum ráðsins, eins og það hefur verið skipað undanfarið. Nú er samt ýmislegt óeðlilegt við þessa breyt. Styrkinn, 100 þús. kr., á líka að greiða til vísindamanna. Það er fullkomlega óeðlilegt, að deild úr Bandalagi íslenzkra listamanna deili út styrk til vísindamanna, og alveg óhæft. Við höfum því lagt til, nokkrir þm., að þetta verði greint að, þannig að í fyrirsögn gr. falli orðið „vísindamanna“ burt, en í 15. gr. komi nýr liður: “Styrkur til vísindamanna og fræðimanna samkv. ákvörðun menntamálaráðs 20 þús. kr.“

Fleira er athugavert við breyt. fjvn., m.a. þetta: Listamönnunum er gert að skyldu ekki aðeins að úthluta sínum félagsmönnum, heldur og öðrum. Þó er einn gleðivottur í öllu þessu. Það mátti heyra á ræðu hv. þm. S.-Þ., að till. er ekki borin fram í góðum tilgangi, heldur til þess að reyna að koma af stað ófriði innan Bandalags íslenzkra listamanna. Ég hygg, að honum verði nú ekki að ósk sinni, en þarna kemur þó fram viðurkenning frá þessum hv. þm., sem manna mest hefur barizt á móti listamönnum landsins, um, að hann gefst upp og treystir hér ekki til að halda baráttunni áfram.

Hins vegar skulu menn ekki halda, að málið sé leyst með þessu. Úthlutunin er ekkert aðalatriði í þessu máli. Það, sem listamennirnir vilja leggja mesta áherzlu á, er, að þeim sé hvorki úthlutað af menntamálaráði né þeim sjálfum, heldur af Alþ., á 18. gr. Sú barátta hlýtur að halda áfram. Þetta er ekki aðeins metnaðarmál listamanna og skáldanna, heldur heiður fyrir Alþ. sjálft að veita styrkinn beint. Ég álít, að þetta ætti ekki að vera deilumál, heldur ætti atkvgr. um það að vera ein mesta virðingarathöfn þingsins. Það er ekki nóg að halda því sífellt fram, að við metum listir og listamenn, ef við sýnum það ekki í verkinu. Ég hefði búizt við, að Alþ. mundi hafa breytt um skoðun frá undanförnum þingum á þessum málum og eitthvað hafa lært af þeirri deilu, sem staðið hefur undanfarið. Mér kom nokkuð á óvart afstaða hv. þm., er atkvgr. fór fram um það við 2. umr., hvort setja ætti nokkra viðurkennda listamenn inn á 18. gr. fjárl. — Sérstaklega kom mér á óvart afstaða hv. þm. Framsfl. Ég hélt, að sá flokkur hefði beðið nógu mikla óvirðing af afskiptum sínum við þessi mál, svo að hann hefði nú látið sér segjast og gripið fegins hendi þá lausn, er með þessu hefði skapazt. En þó er nú eins og þeim finnist langlokur hv. formanns þeirra ganga úr hófi fram, og var ég því hissa á því, að þeir skyldu ekki nota tækifærið til þess að friðþægja fyrir afbrot hv. þm. og samþ. brtt. um að fá þessa menn, sem ranglega væru út af 18. gr. teknir, inn á þá gr. aftur.

Sósfl. hefur lagt ríka áherzlu á, að þetta ástand í málum skálda, rithöfunda og listamanna sem form. Framsfl. hefur formennsku í, verði leiðrétt, og hann gerir það að skilyrði fyrir samstarfi við aðra flokka, að þessu verði kippt í lag.

Eins og hv. þm. er kunnugt, standa yfir samningaumleitanir milli vinstri flokka um vinstri stj., og vaknar eðlilega sú spurning upp í huganum, hvort Framsfl. ber í gæfu til að snúa við blaði gagnvart listamönnum þjóðarinnar og taka upp vinsamlega afstöðu til þeirra og á þann hátt hjálpa til þess, að úr myndun vinstri stjórnar geti orðið.

Ég skal viðurkenna það, að ég er einn af þeim mönnum, er heitast óska eftir því, að úr þessu samstarfi geti orðið, að bændur og verkamenn leggi sameiginlega fram krafta sina í þágu alþjóðar og standi sameinaðir að þeirri stj., er mynduð væri af fulltrúum þessara tveggja stétta. En einn nauðsynlegur tengiliður, verður að vera til staðar, til þess að úr þessu samstarfi geti orðið, en það eru menntamennirnir í landinu. Það er þriðja stéttin, sem verður að taka með í reikninginn, því að annars verður ekki hægt að koma þessu samstarfi á. Og ef Framsfl. heldur áfram að fjandskapast við listamenn þjóðarinnar, þá verður hann einn að taka afleiðingunum af því, því að með þeim fjandskap er hann að grafa sjálfum sér gröf.

Framsfl. má vita það, að svo eðlilegt og sjálfsagt er, að þessi samvinna bænda og verkamanna komist á um myndun stj., að samband og samvinna þessara stétta mun skapast eigi að síður, þó að Framsfl. með athæfi sínu streitist á móti því. Og flokkurinn mun þá velta út úr sem óþarfur og gagnslaus flokkur og velt í þá gröf, sem hann hefur sjálfur grafið sér.

En ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að Framsfl. breyti ekki um afstöðu til þessa máls, og það getur sá flokkur reitt sig á, að friður verður ekki milli þess flokks og menntamanna þjóðarinnar, fyrr en hann hefur skipað sér í baráttuna fyrir leiðréttingu á málum þeirra, varðandi 18. gr. fjárl.

Þá ætla ég ekki að lengja meira umr. um þetta mál heldur en ég hef þegar gert. É, man ekki eftir öðrum till., sem ég er 1. flm. að, og ég veit, að þeir hv. þm., sem eru flm. að þeim till., er ég stend einnig að, munu mæla svo vel fyrir þeim till., að ég hefði ekki neinu þar við að bæta.

En mig langar þó að lokum til að minnast örlítið á þá till., er hv. 4. þm. Reykv. er 1. flm. að, en það er till. um að hækka styrkinn til skálda og listamanna upp í 150 þús. kr. Mér yrði það alveg óskiljanlegt, ef nokkur hv. þm. gæti haft á móti þeirri till., því að allir þm. hljóta að sjá, að skammt hrökkva þær 100 þús. kr. til allra þeirra listamanna, er styrks þurfa að njóta í þeirri dýrtíð, sem nú er. Það er svo ástatt hér á Íslandi, að ritlaun eru lág og markaður lítill, borið saman við aðrar þjóðir. Þess vegna er það svo að segja gefið, að hver sá maður, sem gefur sig allan að einhvers konar listastarfsemi, hann er svo að segja dæmdur til ævilangrar fátæktar þaðan í frá, nema honum berist styrkur sér til lífsframfæris. Það er því hrein og bein skylda hv. Alþ. að sjá um, að þessi stétt manna sé ekki hart leikin vegna þess, hve aðstæður eru hér á landi erfiðari en í öðrum löndum hvað snertir þessa stétt.

Það var hægt að heyra það á hv. þm. S.–Þ., að hann var að fárast yfir því, að lagt hefði verið til, að 4000 kr. skyldu á fjárl. ganga til eins listamanns, en hvað er sú upphæð samanborið við þær tekjur, sem aðrir þegnar þjóðfélagsins fá yfirleitt? — Þetta verða hv. þm. að gera sér ljóst, er dæmt er um það, hvað listamönnum beri að fá, að þeir þurfa að lifa eins og aðrir menn.

Ég vona svo, að hv. Alþ. leiðrétti það misrétti, sem listamenn þjóðarinnar hafa átt við að búa undanfarið.