12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég flyt brtt. á þskj. 410, XCL, um bílferju yfir Hvalfjörð, ásamt nokkrum öðrum. Ég hafði ekki haldið, að mikið þyrfti að tala fyrir þessari till., þar sem flutt var á sumarþinginu till., sem gekk í sömu átt. Þó hafa tveir hv. þm. mælt á móti till., þeir hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. Hv. þm. Mýr. taldi djarft að veita fé til þessara framkvæmda að órannsökuðu máli og að féð mundi ekki nægja. Um fyrra atriðið er það að segja, að gert er ráð fyrir undangenginni rannsókn. Hitt er rétt, að féð er of lítið. Þá er það og rétt, að gera þarf bryggjur báðum megin fjarðarins, en a.m.k. að sunnanverðu er gott bryggjustæði. Ég skil vel afstöðu hv. þm. Hagsmunir kjördæma þeirra rekast á við þjóðarheill, en þar sem svo er ástatt, að hagsmunir og heill þjóðarinnar eru annars vegar, má ekki binda sig eingöngu við kjördæmasjónarmið.

Þá flyt ég, ásamt tveimur öðrum, á þskj. 420 brtt. við brtt. á þskj. 410, LIII. Mér fannst að vísu upphæðin of lág, en þó er það aðeins orðabreyting, sem farið er fram á. Upphæðin hefði þurft að vera hærri, fyrst veitt var fé á annað borð til þessarar frændþjóðar okkar. En leiðinlegt er að setja skilyrði fyrir notkun fjárins.

Þá er till. um fjárveitingu til nýrra vita. N. hefur hækkað till. frá 2. umr. Get ég vísað til þess, sem ég hef áður sagt um þetta efni. Nú er tækifæri fyrir hv. Alþ. að bæta fyrir vanrækslu í þessum efnum, og vona ég, að hv. þm. sjái sóma sinn og bregðist vel við þessu máli.

Svo flyt ég loks á sama þskj. (nr. 410), undir tölul. LXXV, með hv. 2. þm. Reykv. (EOl) till. um framlag til þess að koma upp fávitahæli, að upphæð kr. 750000. Þetta er aðeins hægt að skoða sem byrjunarframlag, ef samþ. verður. Árið 1935 voru samþ. l. um fávitahæli, sem eru l. frá 1. febr. 1936, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp 1. gr. þeirra, sem er svo:

“Ríkisstjórnin sér um, jafnóðum og fé er veitt til þess á fjárlögum, að stofnuð séu:

a. Skólaheimili, eitt eða fleiri, fyrir unga vanvita og hálfvita eða börn og unglinga, sem kenna má ofurlítið til munns eða handa.

b. Hjúkrunarhæli fyrir örvita eða þá fávita, unga og gamla, sem ekkert geta lært og ekkert unnið til gagns.

c. Vinnuhæli, eitt eða fleiri, fyrir fullorðna fávita, senu vinnufærir eru að einhverju leyti, en verða þó að teljast ófærir til að vinna alveg fyrir sér eða stunda vinnu á almennum heimilum.“

Þetta frv. flutti Guðrún heitin Lárusdóttir, sem hafði góðan skilning á þörfinni fyrir slík hæli. Þetta var góð kona og kunnug þessari þörf gegn um starf sitt. Hún mun síðar hafa flutt till. til fjvn. um þetta efni, en þær hafa ekki haft byr. Árið 1935 var þörfin fyrir slík hæli mjög brýn. Frú Guðrún Lárusdóttir taldi, að um 200 fávitar væru þá hér á landi, en eitt hæli væri til, sem tæki 25 af þeim, sem þó væri ekki fullt, vegna féleysis aðstandenda fávitanna. Nú er þörfin á slíkum hælum sízt minni. Eftir upplýsingum, sem ég hef aflað mér, eru nú hátt á annað hundrað fávitar hér á landi. utan Rvíkur, og hátt í það eins margir í Rvík. En um hæli handa þessum aumingjum er það sama að segja nú og fyrr, að fyrir þá er til aðeins eitt hæli austur í Grímsnesi, sem hefur mjög misjafnt orð á sér og tekur 25 fávita. Svo að þörfin er sízt minni nú en fyrr.

Ég þarf ekki að lýsa hörmungum aðstandenda slíkra aumingja, né heldur þeim leiðindum, sem af því stafar, að þessir aumingjar flakka á götum úti innan um almenning, það þarf heldur ekki að taka það fram, að það er augljós vansi öllum, sem með þau mál hafa að gera, að ekki skuli vera til hæli, þar sem hægt er að koma þessum aumingjum fyrir, og við viljum þó heita menningarþjóð.

Nú, eftir þessi miklu tekjuár, eins og síðasta ár var, þegar tekjurnar fóru upp í 90 millj. kr., þá verður að átelja það, að ekkert skuli hafa verið hugsað til þessara l., sem samþ. voru 1935 um fávitahæli. Hv. fjvn. hefur ekki hugsað neitt; til þessara aumingja, og er það þó ekki af því, að hún hafi ekki verið minnt á þetta. Því að fyrir n. lá það, sem skrifað hafði verið til þingsins af stjórnarvöldum okkar, um að reisa slíkt hæli.

Það hefur komið í ljós, bæði í umr. hér á Alþ. og eins í sérstöku máli í brtt. við fjárl., talsverður áhugi fyrir að koma upp hrossaræktarbúum, refaræktarbúum og sauðfjárræktarbúum. Mér er spurn: Væri ekki nauðsynlegra að hugsa um þessa aumingja, fávitana, sem ekkert hæli eiga, en þyrfti að geta liðið sæmilega? Ég vona, að hv. þm. skilji, að hér er nauðsynjamál á ferð, og greiði þessari till. atkv. sitt.

Ég er svo flm. að nokkrum öðrum brtt., en ætla ekki að tefja umr. um brtt. frekar.