12.02.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jón Pálmason:

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs aftur, er sú, að ég á brtt. á 419. þskj. ásamt hv. þm. Mýr. Hún er hin XXXVI. í röðinni á því þskj. Till. þessi var ekki prentuð, þegar ég talaði hér síðast. En í till. er gert ráð fyrir, að bætt sé við 22. gr. fjárl. nýjum lið, þar sem farið er fram á, að varið sé allt að 100 þús. kr. til verðlagsuppbótar á endurbyggingarstyrki til sveita, framlagið í 16. gr. 9. b. hrekkur ekki til. Samkv. l. á að verja árlega 250 þús. kr. ti1 þessara hluta. Heimilt er að veita allt að 1500 kr. til hvers húss, en það svarar til þess, að hægt sé að veita styrk til 165 húsa á öllu landinu, eða rúmlega 8 húsa í hverri sýslu. Þetta var miðað við það verðlag, sem var fyrir stríð. En nú hefur verið heimilað að hækka þennan styrk í samræmi við vísitöluna, sem hefur hækkað mikið, að því er húsagerð snertir. Má segja, að vísitalan sé nú komin nokkuð á fjórða hundrað miðað við það, sem var, en raunar er ekki búið að ákveða hana að fullu fyrir þetta ár. Þó geri ég ráð fyrir, að þessar 250 þús. kr. mundu ekki duga til að styrkja nema 50 hús með núverandi verðlagi, ef styrkurinn ætti að vera hlutfallslega eins hár og verið hefur. Það er vitað, að fjöldi efnalítilla bænda þarf nauðsynlega að reisa hús á jörðum sínum á næstunni. Þó að það væri notuð öll heimildin, sem við förum fram á, — en sú heimild er 350 þús. kr., — ætti það að duga til 70 húsa, eða sem svaraði til þriggja húsa í sýslu. — Hér er því ekki farið að með neinni frekju.

Sannleikurinn er sá, að þó að mjög lítið væri byggt, þá er svo mikið af húsum í byggingum, að litlar líkur eru til, að 250 þús. kr. hrökkvi þar til. — Ég ætla ekki fleiri orðum um þetta að fara, en vil aðeins geta þess, að hv. fjvnm. hafa athugað málið, og finnst þeim þetta vera sanngjarnt. Heildarupphæðin er bundin í 1., en verðlagsuppbót er ekki sett á styrkinn, en það verður þó að borga slíka uppbót á styrkinn samkv. auknum byggingarkostnaði.

Um aðrar till. ætla ég ekki að fjölyrða, þó að ástæða væri til að tala um III. till. á þskj. 425. Ég verð að játa, að ég er undrandi yfir sumum hækkunartill., sem fram hafa komið, en ástæðulaust er að vera að ræða það, þegar svo fáir eru á fundi, og verð ég því að láta nægja að sýna afstöðu mína til þeirra, er til atkvgr. kemur.