27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það hefði nú verið ákaflega viðkunnanlegt, ef einhver af hæstv. ráðh. hefði verið hér í d., þegar þetta frv. er rætt. Og í raun og veru virðist mér vafamál, hvort það ætti að hafa 1. umr. þessa máls hér, fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur gefizt kostur á að vera hér og segja álit sitt um það, sem kann að koma fram við þessa umr. hér.

Frv. þetta fer ekki fram á aðrar breyt. á 1. frá 1941 en að 3. grein, heimildin til að fella niður tollana af þeim vörum, sem þar eru tilteknar, gildi einnig fyrir árið 1943. En mér skilst, að það sé í raun og veru mjög athugandi, hvort 5. gr. þeirra l. ætti ekki algerlega að falla burt. Vil ég benda á þetta til athugunar fyrir hv. fjhn., sem mun hafa með þetta að gera, vegna þess að það er ekki að svo sjá sem fjhn. hafi neitt athugað þetta, enda eiga þar ekki sæti neinir fulltrúar sjávarútvegsins. Það er vitanlegt, að skömmu eftir að farið var að beita þessari heimild á síðasta sumri, varð að afnema útflutningsgjaldið af öllum þeim skipum, sem sigldu með afla til Englands, vegna þess að sá atvinnuvegur gat ekki þolað þá þungu byrði, sem lögð var á hann með 5. gr. þessara l. Það komu fram sterkar raddir, m. a. frá Austfirðingum, um þetta, sem atvmrn. og fjmrh. sáu sér ekki fært annað en að taka til athugunar. Og þess v egna hefur sá liður, sem snýr að þeim atvinnuvegi, verið fríaður við þessi gjöld. Nú er það svo, að þetta gjald er í raun og veru ekki eftir á neinu öðru heldur en annar s vegar á togaraflotanum og hins vegar á frystihúsunum. En eins og hæstv. Alþ. og ríkisstj. er kunnugt, mun ástandið hjá frystihúsunum vera þannig, að það sé ekki unnt að láta heimild 5. gr. ná til útflutnings á þeirra vöru. Aðstæður hafa breytzt gífurlega, síðan 1. þessi voru samþykkt. Þá var stórgróði í togurunum. Og það, að heimildin var ekki notuð fyrr en á síðasta sumri, mun hafa í raun og veru stafað af því, að hér var með uppfyllingu þessarar lagagr. verið að skattleggja ríkissjóðinn jafnvel fremur en nokkurn tíma þann atvinnuveg, sem átti að borga útflutningsgjaldið, sem kom þannig út, að þegar greitt var þetta útflutningsgjald, þá lækkaði skatturinn til ríkissjóðs hjá útgerðarfyrirtækjunum, þegar gróðinn minnkaði. Nú er svo komið, að það er vafamál, hvort hægt er að halda uppi þessum siglingum, þegar þetta gjald er tekið sérstaklega, þegar þess er gætt, að vinnulaun hafa stórkostlega hækkað síðan í júlí s.l., og þegar sigla þarf á austurströnd Englands, eftir kröfu Englendinga, sem er miklu dýrara fyrir skipin. Ég hef athugað um eitt skip, sem siglt hefur 15 ferðir á s.l. ári. Þetta skip hefur greitt 228204 kr. í þetta eina útflutningsgjald.

Ég hygg, að þeir menn, sem setja sig inn í þessi mál með nokkurri sanngirni, muni sjá, að annaðhvort þurfi að gera, að afnema greinina alveg úr l. og láta það fylgja þeirri lagabreyt., sem hér er á ferðinni, eða fá yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. eða vilyrði um það, að þessi heimild 5. gr. verði ekki notuð á þessu ári. Og liggi sú yfirlýsing fyrir, finnst mér réttara að stíga sporið fyllilega og afnema gr. algerlega.

Ég gerði það að gamni mínu að taka hér upp úr bókhaldi eins skips, sem ég veit, að hefur siglt héðan, og þar hefur t.d. ferðin frá 8. jan. til 12. febr. aðeins gefið þessu skipi 29469 kr. hagnað, og er þá ekki reiknaður neinn útflutningstollur, vegna þess að hann var þá ekki kominn á, heldur hið almenna útflutningsgjald, sem mun hafa verið 5 þús. kr., og er þó ekki reiknað í þessari upphæð (þ.e., ekki búið að draga það frá). Í annarri ferð, sem þetta skip fór (í ágúst), var hagnaðurinn aðeins 22737 kr. Í þriðju ferðinni hefur það haft ..... kr. hagnað og í 4. ferðinni kr. 51868,93. Og þegar ofan á þetta bætist, að þetta skip á að greiða um 150 þús. kr. í skatta í ríkissjóðinn frá s.l. ári og um 50 þús. kr. í útsvar, má gera ráð fyrir, að þessi útgerð standi svo að segja á núlli eftir árið. Og sér þá hver maður, að ef þetta yrði almennt hjá fiskiflotanum, þá er ekki um annað að gera en að athuga, hvort ekki er rétt að létta þessum gífurlega skatti af atvinnurekstrinum, ef hann á ekki að stöðvast.

Vil ég því alvarlega beina því til hv. fjhn. að athuga þetta, og mun ég ekki fylgja þessu frv. út úr d. með mínu atkv., nema annaðhvort liggi fyrir loforð ríkisstj. um það, að þessi heimild skuli ekki vera notuð, eða þá að l. verði breytt þannig, að þessi gr. verði felld niður.