15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Út af ummælum hv. þm. Barð. skal ég svara því, að í n. hefur ekki verið rætt um heildarendurskoðun á þessum l. um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna frá 1941. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er aðeins um framlengingu tímaákvörðunar, að því er snertir eina gr. í þessum l.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Barð. um það, að með 5. gr., eins og hún væri framkvæmd nú, þá giltu í raun og veru tvenns konar l. í landinu, önnur fyrir þá, sem veiða fisk og selja sjálfir til útlanda, og hin fyrir þá, sem kaupa fisk hér og selja hann svo til útlanda. Ég get nú ekki fallizt á, að þetta sé rétt, að ekki gildi sömu l. fyrir alla þessa menn.

Ég vil minna á það, að enda þótt það standi Ekki berum orðum í þessari 5. gr. l., þá var að sjálfsögðu gengið út frá því af öllum, sem um málið fjölluðu, og af hæstv. ríkisstj. líka, að útflutningsgjaldið yrði því aðeins lagt á vörurnar, að hagnaður yrði af sölu þeirra úti. Það var að sjálfsögðu sú hugsun, sem var að baki þessara ákvæða.

Nú skal ég ekki fara að finna neitt að því, hvernig framkvæmdin hefur orðið hjá fyrrv. hæstv. ríkisstj. í þessu efni, en álit þó, að sú framkvæmd hafi verið nokkuð seinheppin. Fyrst var þessi heimild alls ekki notuð fyrr en á síðasta sumri og að ég ætla, ekki fyrr en búið var að hækka um 10 aura hvert kg. af fiski og þar með var gerbreytt aðstaða þeirra línuveiðara og annarra fiskiskipa, sem keyptu fisk hér heima, til þess að borga útflutningsgjaldið. Þar að auki setti ríkisstj. sömu ákvæði um útflutningsgjaldið, bæði á togara og mærri skip, sem keyptu fisk til að selja erlendis. Það sýndi sig þá, að a.m.k. smærri skip, sem þurftu að fara á margar hafnir og bíða lengi eftir fiskinum, þau höfðu ekki hagnað af þessum flutningum, nema 10% útflutningsgjaldinu væri af þeim létt. Því var það, að eftir að fyrrv. hæstv. atvmrh. hafði kynnt sér máið, þá var útflutningsgjaldið fellt niður hjá þessum skipum. En allt öðru máli er að gegna með þau skip, sem fljót eru að fá fisk í sig, taka hann allan á einni eða tveimar höfnum og eiga ekki á hættu, að fiskurinn skemmist eins og hin, sem lengur eru að taka í sig fiskinn. Ég álít rétt að athuga, hvort það er ástæða til að fella niður þetta útflutningsgjald hjá þessum stærri fiskiskipum. Það hefur ekki verið gert, en síðan útflutningsgjaldið var fellt niður af smærri skipum, hefur það aðeins verið tekið af togurunum. Og mikinn hluta þess tíma sigldu togarar alls ekki með fisk, eða mjög fá skip a.m.k. Nú eru siglingar hafnar á ný, og þá á austurströndina, sem fróðir menn telja, að bæði taki lengri tíma, sem veldur því, að skipin geta farið með minni farma heldur en áður, þar sem þau þá þurfa meira rúm í skipinu fyrir kol og geta því ekki tekið eins mikið af fiski, og að nokkru hættara sé við skemmdum á fiskinum á lengri leið, sem þá tekur lengri tíma. Í byrjun þessara siglinga var a.m.k. mjög óséð um það, hvernig útkoma mundi verða af þessum siglingum á austurströndina. Samanborið við þær sölur, sem togarar höfðu haft undanfarið ár, var fyllsta ástæða til að ætla, að þeim væri mjög auðvelt að greiða þetta 10% útflutningsgjald, jafnvel þó að fobverðið væri ákveðið með þeim hætti, sem ríkisstj. ætlaðist til, þannig að það væri miðað við söluverð að frádregnum hæfilegum kostnaði við að flytja fiskinn út, sem við hv. þm. Barð. höfum rætt um og ég sé ekki ástæðu til, að við förum að ræða hér að nýju.

En ég segi sem mína skoðun, að ef það sýnir sig til frambúðar, að halli verði á útgerð togaranna með þeim sölum, sem þeir fá, og þeim kostnaði, sem þeir hafa við flutning og sölu fiskjarins, þá eigi að afnema þetta útflutningsgjald. Það hefur aldrei verið tilætlunin að innheimta það, nema sæmilegur hagnaður yrði á sölu fiskjarins út. En fyrr en séð er, að halli verði á þeim ferðum, sé ég ekki ástæðu til að breyta þeim ákvæðum, sem um þetta efni gilda — einmitt með tilliti til þess, að þetta er ekki bundið, heldur heimild fyrir ríkisstj. Að sjálfsögðu ber hæstv. ríkisstj. að kynna sér það á hverjum tíma, hvort ástand þessa atvinnuvegar er með þeim hætti eða ekki, að unnt sé að taka þetta útflutningsgjald.

Ég vil endurtaka það, að mér dettur ekki í hug, ef þessi atvinnurekstur verður til frambúðar rekinn með tapi, að nokkur meining sé að taka þetta útflutningsgjald. En ég tek greinilega fram, að ég tel ekki ástæðu til að breyta til þannig að hætta að innheimta þetta, þó að eitt og eitt skip sé við þessa fiskflutninga og sölur, — stundum með halla. Það þarf lengri tíma og betri yfirsýn til að meta þetta.