15.03.1943
Efri deild: 73. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

110. mál, ráðstafanir og tekjuöflun vegna dýrtíða og erfiðleika atvinnuveganna

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég fæ ekki betur séð en sú regla, sem ákveðin var um þessi efni af fyrrv. ríkisstj., sé í raun og veru alveg rétt. Sá mikli munur er á bátafiski og togarafiski, að bátafiskurinn er seldur hér við skipshlið og þá þegar vitað um verð hans, en á afla togaranna er ekkert fast verð erlendis, heldur markaðsverðið í Englandi á hverjum tíma. Af þessum ástæðum var það, sem fyrrv. ríkisstj. tók upp reglu sína.

Ég er sammála hv. 8. landsk. (PM) um, að þess verði að bíða, að úrskurður dómstóla falli, fyrr væri óeðlilegt að breyta nokkru. Að öðru leyti get ég vísað til fyrri ummæla minna. Það kemur ekki til mála að dæma eftir einu skipi og útkomu þess eftir eina ferð eða fáar, heldur eftir því, hvort tap verður, þegar til lengdar lætur, svo að fella þurfi niður útflutningsgjaldið.