12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

124. mál, taka ljósmynda og meðferð ljósmyndavéla

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Frv. þetta barst hv. Ed. frá hv. Nd. og mun vera flutt samkv. ósk setuliðsstj. hér á landi. En þegar málið var komið til allshn., bárust henni gögn um það, að frv. eins og það kom frá Nd. næði ekki að öllu þeim tilgangi, sem því var ætlað að ná. Óskaði n. þá frekari upplýsinga um málið, sem varð til þess, að afgr. þess tók nokkru lengri tíma en annars hefði verið. Síðan varð n. sammála um að mæla með því, að frv. næði fram að ganga með nokkrum breyt. við þrjár fyrstu gr. frv., en ætlazt er til, að 4. og 5. gr. standi óbreyttar. Breyt. þessar eru að sjálfsögðu ekki efnisbreyt. frá frv., heldur ganga í þá átt, að í stað upptalningar á einstökum atriðum og bönnum við ljósmyndatöku af tilteknum hlutum eru fyrirmæli um það, að á tilteknum svæðum sé bannað að fara með ljósmyndavélar, nema þá innsiglaðar. Þó er þetta sett í heimildarformi fyrir ríkisstj. og gert ráð fyrir, að hömlur þær, sem í frv. felast, gildi allt til stríðsloka. Með þessu er fullnægt þeim tilgangi, sem ætlað var að ná með frv., að hægt væri að setja reglur, sem gerðu það tryggt, að ljósmyndavélar yrðu ekki notaðar til þess að stefna öryggi hervarnanna hér í hættu og þar með öryggi landsmanna sjálfra.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Málið liggur skýrt fyrir, og ég vil mæla með því, að d. samþ. frv. með þeim breyt., sem n. hefur orðið sammála um að leggja til.