08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

116. mál, húsaleiga

Gísli Sveinsson:

Það er reyndar að bera í bakkafullan lækinn að ræða einstök atriði þessa máls, enda er þetta 3. umr., og vil ég sízt verða til að tefja fyrir málinu. Hefði mátt vera fyrr frá því gengið. Má segja, að þessi ódýra lukt á Hornafirði sé þegar orðin nokkuð dýr hér í þingsölunum. Nú er komin fram brtt., sem er í nokkru sambandi við það mál, og verða atkv. að skera úr um hana. En ég vildi lítillega minnast á brtt. frá hæstv. félmrh. Þar sem í frv. stendur, að þegar alveg sérstaklega standi á, geti húsaleigun. veitt undanþágu frá upphafsákvæði 3. gr., vill hann kveða nánar á um þetta og bæta inn í orðunum: „svo sem þegar um er að ræða alþm. og nemendur í föstum skólum.“ Mér finnst hér of ákveðið til orða tekið. Þess ber að gæta, að fleiri menn en þm. og nemendur í föstum skólum þurfa að dveljast hér í höfuðstaðnum öðru hverju um tíma við störf, sem eru alveg eins rétthá og störf hinna. Má þar til nefna ýmsar n., sem starfa hér mánuðum saman, fulltrúa til Búnaðarþings o.s.frv. Auk þess eru hér ýmsir nemendur, sem eru að vísu ekki beinlínis í föstum skólum, en eru að búa sig undir slíka skólavist. Einhversstaðar verða þessir menn að vera. Þetta er líka of ákvarðað í brtt. hv. allshn. á 300. þskj. Ég vildi því óska þess, að hv. n. tæki aftur hreinlega a-liðinn í 3. brtt. á þessu þskj., því að sá háttur hefur, hvort sem er, verið tekinn upp, að húsaleigun. gæfi alþm. og nemendum í föstum skólum þessar undanþágur, og svo verður að vera, en ef þessi a-liður í brtt. hv. n. er látinn standa, þá er þetta of bundið. Ég segi t.d., fyrir mig, að ég kann ekki við að hafa þennan rétt um fram ýmsa þá, sem hafa hans að minnsta kosti eins mikla þörf og ég.