08.02.1943
Neðri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

116. mál, húsaleiga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég hef skrifað undir nál. allshn. um þetta mál með fyrirvara uni brtt. hennar við 5. gr. frv., og skal ég nú gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar brtt. og málsins í heild.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, að húsaleigulögin hafa tvímælalaust verið sterkasta ráðstöfun hins opinbera til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. En þau hafa haft í för með sér tvenns konar skerðingu á rétti húseigenda til umráða yfir húsum sínum.

Í fyrsta lagi hafa þau sagt fyrir um það, hverjum megi leigja húsnæði og í öðru lagi, hve há leigan megi vera. Auk þess er húseigendum bannað að segja upp leigjendum sínum, nema þeir þurfi húsnæðið nauðsynlega sjálfir. Nú er farið fram á að mega gera nýja ráðstöfun, sem sé að taka upp skömmtun á húsnæði. Þótt með þessu sé ærið langt gengið á rétt húseigenda, sé ég mér ekki fært að mæla gegn þessu eins og nú stendur. aleð takmörkun þeirri, sem gerð hefur verið a hæð húsaleigunnar, er sýnilega gengið á rétt húseigenda. Það hefur þó ef til vill ekki komið mjög að sök með þá húseigendur, sem hafa framfærslu sína að miklu leyti af einhverju öðru. En nú eru hér um 300 húseigendur, sem verða að framfæra sig að hálfu leyti eða meira á leigunni af húsum sínum. Gagnvart þessum eigendum er þetta sérstaklega ósanngjarnt, einkum þar sem flest af þessu er eldra fólk, sem sumt hefur ekki aðrar eignir til þess að lifa af. Það mun því frá þeirra sjónarmiði vera réttmæt ráðstöfun að hækka húsaleiguna. En ég veit, að það getur ekki komið til greina, þar sem nú er verið að hefja baráttu gegn dýrtíðinni í öllum greinum. Hin leiðin mundi þá öllu heppilegri að veita húseigendum einhverja uppbót eftir efnum og ástæðum.

Að því er snertir hækkun á húsaleigu, þá má hækka hana eftir því sem viðhaldskostnaðarvísitalan segir til og einnig vegna hækkunar á eldsneyti og ljósakostnaði og vegna vaxtahækkunar af fasteignum, og það er bersýnilega sanngjarnt. Mér kemur það því einkennilega fyrir sjónir, að ekki skuli líka leyft að hækka húsaleiguna vegna skattahækkunar af fasteignum, en nú gengur bráðum í gildi hið nýja hækkaða fasteignamat. Það er ekki hægt að mæla því bót, að ríkisstj. skuli hafa gert undantekningu með þetta, því að það er jafnvel meiri ástæða til þess að leyfa húsaleiguhækkun vegna þess heldur en vegna vaxtahækkunarinnar. Við hv. 2. þm. Eyf. höfum borið fram till. um að leyfa hækkun á húsaleigu vegna skattahækkunar, með því að við teljum ósanngjarnt, að hún sé látin bitna á húseigendum.

Hæstv. félmrh. mælti gegn þessu, en mér virtust rök hans ekki þyngri en svo, að þeirra vegna mætti leyfa þessa hækkun. Meðal annars taldi hann, að þetta skipti svo litlu máli vegna þess að skattahækkunin mundi ekki nema meiru en um 100 kr. á hverja fasteign. Nú er það svo, að skattahækkunin getur verið mjög mismunandi, og hún gæti numið mörgum hundruðum kr. á sumum fasteignum. Þetta er því alls ekki svo lítilfjörlegt. Hitt atriðið, sem hann bar fram, var það, að það væri svo erfitt að framkvæma þetta, en það viðurkenni ég alls ekki. Gjöld af fasteignum eru reiknuð út í hundraðshlutum, og mundi því mun auðveldara að reikna út hækkunina á þeim heldur en vaxtahækkunina. Eg hef því alls ekki getað fallizt á þau rök, sem hæstv. félagsmálaráðh. hefur borið fram í þessu máli. Hann upplýsti einnig að þessi hækkun mundi hafa sáralítil áhrif á vísitöluna. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara um brtt. við 5. gr. frv., og skal ég nú skýra, í hverju það er fólgið. Frv. gerir ráð fyrir, ef skömmtun á húsnæði yrði tekin upp, þá skuli húsaleigun. meta það, hve mikið og hvaða húsnæði skuli taka af afnotahafa. Í allshn. varð það hins vegar ofan á að umturna þessu ákvæði, þannig að bæjar- og sveitarstjórnir skyldu einar fá ákvörðunarrétt um þessi mál. Enn fremur, að hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstj. skuli leggja fullnaðarúrskurð á deilumál, sem kynnu að rísa vegna leigunáms á húsnæði. Þetta tel ég óréttmætt, vegna þess að húsnæðismálin eru ekki einkamál viðkomandi bæjar- eða sveitarfélaga, heldur eru þau sameiginleg mál þeirra og ríkisins. Það væri jafnvel réttast að æðsta vald í þessum málum væri einungis skipað af hæstarétti og ríkisstj. og a.m.k. ættu bæjar- og sveitarfélög að hafa samráð við ríkisvaldið um þessi mál.

Þetta er önnur hlið málsins, en ég vil biðja hv. þm. að veita hinni hliðinni einnig athygli. Hún er sú, að í framkvæmdinni hlýtur það að verða mjög óhentugt og ógeðfellt að pólitískar bæjarstjórnir skuli eiga að rífast um svona mál á opinberum fundum. Ég álít, að svo viðkvæm mál sem þessi eigi að vera í höndum húsaleigun., en ekki að láta pólitískar bæjarstjórnir blanda sér í þau.

Segjum, að ætti að taka 1–2 herbergi af manni og hann kvartaði til bæjarstj. Þá yrði farið að ræða allar heimilisástæður hans og hagi, já, jafnvel fjölskyldulíf hans, á opinberum fundi, og það mundi verða mjög ógeðfellt. Ég held, að hv. þm. ættu að geta sett sig í þessi spor, og þeir ættu að hugsa sig vel um, áður en þeir leggja þessi mál í hendur bæjar- og sveitarstjórna með þeim ógeðfelldu afleiðingum, sem það hlýtur að hafa. Segjum líka, að svona deilumáli yrði áfrýjað til Alþ. og það rætt hér í viðbót. Ekki mundi það bæta úr skák.

Af þessum ástæðum er ég á móti brtt. allshn. við 5. gr. frv. og vil leggja til, að 5. gr. verði samþ. óbreytt eins og hún er í frv.

Brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf. við 4. gr. frv, mun skipta litlu máli. Félmrh. hefur lýst yfir því, að hann hefði hugsað sér að setja ákvæði um þetta í reglugerð, og þá mun vera óþarft að setja það í lögin. Að öðru leyti er ég fylgjandi brtt. allshn. og frv. í heild, en þó hefði ég kunnað betur við, þegar um skömmtun er að ræða, þá ábyrgist viðkomandi bæjarsjóður og ríkissjóður, báðir fyrir annan og annar fyrir báða, fulla greiðslu leigunnar fyrir þær íbúðir, sem teknar væru leigunámi, því að ef einhver slíkur leigjandi getur ekki staðið í skilum, þá er eðlilegra, að ríkissjóður ásamt viðkomandi bæjar- og sveitarsjóði ábyrgist greiðsluna. Ég tel því ótvírætt, að spor sé stigið afturábak með brtt. allshn. við 5. gr. frv.