10.02.1943
Efri deild: 52. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

116. mál, húsaleiga

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson) Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum, þó að þess sé naumast þörf, því að málið er komið fram á Alþ. fyrir alllöngu og búið að ganga gegnum hv. Nd., sem ræddi það allýtarlega og gerði á því nokkrar breyt. Frv. má skoða sem samræmda löggjöf um húsaleigu. Það hefur verið steypt upp úr ýmsum lagaákvæðum, sem áður voru í gildi, og inn í hefur svo verið hætt ýmsum nýmælum, sumpart til þess að liðka til, en sumpart til að herða á. Meðal þeirra ákvæða, sem herða á hnútunum, ber einkum að nefna heimildina um skömmtun á húsnæði, sem um getur í 5. gr. frv. Ég sé annars ekki ástæðu til að ræða margt um einstakar gr. frv., en vil í þessu sambandi benda á breytingu, sem gerð var í hv. Nd. og ég tel varhugaverða. Sú breyting felst í niðurlagsorðum 4. gr., eins og hún er nú, en þar stendur:

„ enda sé húseiganda áður veittur þriggja daga frestur til þess að leigja húsnæðið innanhéraðsfólki til íbúðar.“ Þetta ákvæði er viðvíkjandi því, ef íbúðarhúsnæði er tekið til annarrar notkunar en íbúðar. Þá á að beita húseiganda dagsektum og skylda hann til að taka upp fyrri notkun húsnæðisins, en húsaleigun. hefur rétt til að ráðstafa húsnæðinu. Þessi heimild um þriggja daga frest er óheppileg, því að í henni felst engin trygging fyrir því, að húsnæðinu sé ráðstafað á heppilegan hátt eða það fengið húsnæðislausu fólki til afnota, því að það er einungis tekið fram, að húsnæðið skuli leigt innanhéraðsfólki. Og jafnvel þó að tekið væri fram, að húsnæðislaust innanhéraðsfólk skyldi fá húsnæðið til íbúðar, er ekki vafi á því, að æskilegra væri, að ráðstöfunarrétturinn væri í höndum húsaleigun., sem þekkir bezt þörfina og hefur bezt skilyrði til að meta allar aðstæður. Ég vildi benda á, að þetta ákvæði er óheppilegt að þessu leyti, auk þess sem óviðkunnanlegt er að vera með sérstaka undanlátssemi við menn, sem brotið hafa l. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um frv. fleiri orðum.